Sýkigras ─ Tofieldia pusilla

Skrifað um February 28, 2013 · in Flóra

 

Blómskipun á sýkigrasi er kollóttur klasi. Ljósm. ÁHB.

Blómskipun á sýkigrasi er kollóttur klasi. Ljósm. ÁHB.

Sýkigrasaætt (Tofieldiaceae)

Í EINA TÍÐ var liljuættin (Liliaceae) gríðarstór. Sannast sagna var allmörgum plöntutegundum troðið inn í hana, sem menn vissu ekki gerla, hvar ættu að heima að öðrum kosti. Nú má segja, að verulega hafi verið hreinsað til þar og að minnsta kosti 14 ættir klofnar út úr henni. Engin hinna þriggja íslenzku tegunda, sem til hennar töldust heyra til hennar lengur. Meðal þeirra, sem ýtt var út, er sýkigras eða bjarnarbroddur (Tofieldia pusilla (Michx.) Pers.). Það er nú talið til sýkigrasaættar (Tofieldiaceae), sem telst til einkímblaða-flokksins Alismatales. Áður hafði það verið ýmist talið til Nartheciaceae, Liliaceae (liljuættar) eða Melanthiaceae (eiturliljuættar). Sýkisgrasaættinni er skipt í fimm ættkvíslir með samtals um 20 tegundum. Ekki er þó einhugur meðal fræðimanna og telja sumir ekki Triantha sem sérstaka ættkvísl. Þetta eru allt fremur lágvaxnar tegundir á norðurhveli jarðar; sumir teygja sig þó langt í suður, og ein ættkvísl er einlend í Suður-Ameríku.

Sýkigrös ─ Tofieldia

Sýkigrös (Tofieldia Hudson) eru fjölærar, hárlausar jurtir með skriðulan jarðstöngul. Stöngull er staflaga, uppréttur, á stundum með 1-3 gisstæð blöð nálægt grunni. Öll önnur blöð eru stofnstæð, tvíhliðstæð og veit hliðin að stöngli. Blóm eru í þéttum, kollóttum klasa. Háblöð (stoðblöð) þríflipótt; sitja þétt upp við blómskipun. Blómhlífarblöð sex, lausblaða, hvít eða gulhvít; þau sitja í tveimur krönsum. Fræflar sex að tölu; þrjú fræni. Aldin er hýði.

Til kvíslarinnar heyra sjö eða átta tegundir í Evrópu, Asíu og Norður-Ameríku; aðeins ein hér á landi. Nafn hennar er til heiðurs enskum verk- og grasafræðingi, Thomas Tofield (1730-1779).

Yfirlit yfir ættkvíslir sýkigrasaættar.

Yfirlit yfir ættkvíslir sýkigrasaættar.

Sýkigras ─ Tofieldia pusilla (Michx.) Pers.

Stöngull er uppréttur, grannur og ógreindur, með eitt blað neðarlega. Öll önnur laufblöð eru stofnstæð og tvíhliðstæð, sverðlaga og þrístrengjótt; þau virðast standa á röð hvert út frá öðru, allt að 6 cm á lengd (oftast 2-3), um 3 mm á breidd. Blöð eru vetrar-græn en lifa þó vart nema rúmt ár hvert. Hárlaus jurt.

Sýkigras er mjög algengt um land allt. Ljósm. ÁHB.

Sýkigras er mjög algengt um land allt. Ljósm. ÁHB.


Blóm sitja í kollóttum klasa efst á stöngli, 0,5-1,0 cm á lengd, 0,5 cm á breidd, hver blómleggur 1-3 mm (eða nær enginn og líkist blómskipunin þá axi); með eitt hvítleitt, örsmátt, þríflipótt stoðblað. Á hverjum blómskipunarlegg eru 4-12 blóm.

Þverskurður af frævu. Oft eru þær ekki jafn stórar.

Þverskurður af frævum. Oft eru þær ekki jafn stórar.

Blómhlífarblöð 6 í tveimur krönsum (3+3), gulhvít, oddbaugótt, 2-3 mm á lengd; hin innri örlítið lengri. Fræflar 6, einnig í tveimur krönsum; þrjár samvaxnar frævur (geta verið 2-6, oft misstórar), 3 stílar 0,3-0,4 mm á lengd. Aldin er egglaga hýði, 1–2 mm á hæð, 1–1,8 mm á breidd.

Blóm á sýkigrasi.

Blóm á sýkigrasi.


Vex í harðbalajörð, móum og holtum, oft móti vestri eða suðri. Mjög algengt um land allt. Blómgast í júní. 5-20 cm á hæð.

 

Nöfnin sýki- og sýkingargras eru komin af því, að álitið var, að plantan væri óholl búfénaði. Sauðfénaður og hross draga hana upp með rót en étur hana ekki, og því liggur hún oft laus í haga (rót föl-brún á lit). Blöðin lykta og eru vond á bragðið vegna efna, sem þau geyma og eru talin eitruð. Nöfnin bjarnarbroddur og íglagras eru dregin af útstæðum blöðum og eru þekkt annars staðar á Norðurlöndum.

 

Oft liggur sýkigras upprifið í haga. Ljósm. ÁHB.

Oft liggur sýkigras upprifið í haga. Ljósm. ÁHB.

Viðurnafnið pusilla er smækkunarmynd af latneska orðinu pusus, lítill drengur, og merkir mjög lítill.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: Scottish asphodel, small tofieldia, Scotch false asphodel
Danska: Fjeld-Bjørnebrod
Norska: bjønnbrodd
Sænska: björnbrodd
Finnska: karhunruoho
Þýzka: Kleine Simsenlilie
Franska: tofieldie naine

Samheiti: Tofieldia palustris Huds., Narthecium pusillum Michx.

Þurrkað eintak af sýkigrasi. Ljósm. ÁHB.

Þurrkað eintak af sýkigrasi. Ljósm. ÁHB.


Heimildir:
Hiroshi Azuma and Hiroshi Tobe. 2011. “Molecular phylogenetic analyses of Tofieldiaceae (Alismatales): family circumscription and intergeneric relationships”. Journal of Plant Research 124(3):349-357. doi:10.1007/s10265-010-0387-5
M. Remizowa, D. Sokoloff, and P. J. Rudall: Evolution of the monocot gynoecium: evidence from comparative morphology and development in Tofieldia, Japonolirion, Petrosavia and Narthecium. Pl. Syst. Evol. 258: 183-209 (2006) DOI 10.1007/s00606-005-0397-3

ÁHB / 28.2. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply