„Sáð er forgengilegu, en upprís óforgengilegt“

Skrifað um May 15, 2023 · in Almennt

Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 27. júlí 1995. Einhverra hluta vegna kom greinin við kaunin á mektarmönnum, en henni var því miður aldrei svarað heldur var eg settur á „svartan lista” að því starfsmaður í landbúnaðarráðuneytinu sagði mér.

 

 

Grasræktarlandið!

Almennt áhugaleysi og jafnvel óbeit á skógrækt er nú á hröðu undanhaldi. Í mörg ár risu ýmsir forkólfar gegn skógrækt og sögðu, að Ísland væri “grasræktarland” og því bæri að leggja áherzlu á að dreifa tilbúnum áburði og sá grasfræi. Undanfarna þrjá áratugi hefur milljónum á milljónir ofan verið ausið í þetta og er árangur sáralítill, ef undan eru skildar sáningar á melgresi og túnaræktun. Eg hef bent á þetta áður og líkt þessu við að mála hús með vatnslitum eða henda milljónum út um glugga á flugvél. Draga má fram í dagsljósið fjölmargt sem styður þessar fullyrðingar, sem mörgum virðast fram settar af ábyrgðarleysi og fákunnáttu. Þetta byggi eg m.a. á eigin athugunum, en ekki síður á staðhæfingum Áslaugar Helgadóttur, sérfræðings á Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala), um að sáðgresið 1974-1981 sé allt dautt. ­ Reyndar er þetta löngu vitað og ábyrgðarhluti að halda dreifingu áfram eftir 1975. Meðal annars segir Björn Sigurbjörnsson í Mbl. 19. 8. 1978: “Það nær engri átt að græða upp örfoka land á Íslandi með dönskum túnvingli.”

Fáein dæmi

Skal hér fyrst vitnað til þess, er landgræðslustjóri boðaði fréttamenn á sinn fund árið 1978. Þó að langt sé um liðið, er þarft að vekja athygli á þessum fundi nú og líta á það, sem þar var haldið fram. Af því mega menn læra, hve óvarlegt er að trúa staðhæfingum, sem eru reistar á þrákelkinni óskhyggju og óraunhæfum markmiðum.

Kjarninn í boðskap landgræðslustjóra var þessi 1978: 1. Íslendingar eru í sókn í viðureigninni við eyðingar- og uppblástursöflin. 2. Nú eru græddir upp rösklega 5.000 hektarar lands á ári með erlendu grasfræi og gerir það mun meira en að halda í við það, sem upp fýkur. 3. Ofbeit er ekki lengur alvarlegt vandamál hér á landi. 4. Algróið land breytist tvímælalaust til batnaðar, ef á það er borinn áburður.

Nú er ljóst, að þessar fullyrðingar fá ekki staðizt, en þær voru settar fram, þó að engar athuganir lægju fyrir um árangur, og tilgangurinn aðeins sá að slá ryki í augu fólks, svo að skuggi félli ekki á “áburðarflugið”, sem var kostað af þjóðargjöfinni frá 1974.

Um tíma var áburði dreift á gróin lönd í þeim tilgangi “að styrkja innlendan gróður”, og var kallað “hagabætur”. Sennilegra er þó, að áburðardreifingin hafi fremur skaðað gróðurfélögin, valdið átroðningi og spillt högum til lengri tíma litið.

Vert er að geta um stíflu í Eystri- Rangá. Ætlunin var að veita hluta árinnar yfir Langvíuhraun og græða það upp í einni svipan til að sýna mönnum, að hægur vandi væri að “grasklæða” allt Ísland, “að minnsta kosti upp að jöklum,” eins og komizt var að orði. Árangurinn er nú ekki meiri en svo, að örlitlar gróðurteygingar eru meðfram sytrunni, sem hverfur fljótt í sand og hraun. Dýr uppgræðsla það.

Sem kunnugt er, var alaskalúpína flutt til landsins 1945. Sennilega er þetta sú planta sem bezt dugar skógræktarmönnum við að undibúa jökulurðir undir gróðursetningu trjáa. Þegar skógur vex upp hverfur hún að mestu. Um 40 ár liðu þangað til áhugi vaknaði hjá Landgræðslunni að nýta hana, en segja má að síðan hafi þeir farið offari. Vissulega er það spurning hvort aðeins eigi að planta alaskalúpínu þar sem rækta á skóg, því að annars staðar er hún býsna áleitin og hverfur seint. Um þetta má vafalaust deila.

En hitt eru hroðaleg vinnubrögð og óþolandi að menn frá Landgræðslunni skuli draga herfi yfir víðinýgræðing í örum vexti og rista í sundur á svæði, sem vart eða ekkert hreyfist, og dreifa þar lúpínufræi eins og gert var norður í Kelduhverfi í fyrrasumar. Hér var illa að verki staðið og framkvæmdir óþarfar, sem kórónuðu endileysuna, því að tveimur árum áður höfðu gróðurspjöll verið unnin á algrónu útengi þar hjá, þegar stórum bílum frá Landgræðslunni var ekið yfir þau. Og þar var fleira, sem athygli vakti. Frammi á sjávarkambi var melgresi sáð á nokkurra kílómetra belti vestan við Arnaneslón og var unnið við það í um hálfan mánuð. Nú hefur því öllu skolað í sjó fram og nokkrum tonnum þar kastað á glæ.

Áfram skal haldið þó

Nú mætti ætla, að ábendingar um að miljónum króna hafi verið sólundað í hreina og klára vitleysu, myndu hreyfa við ráðamönnum og þeir krefðust skýringa og rannsókna á starfseminni. Því er alls ekki að heilsa, heldur er þagað þunnu hljóði eða reynt að réttlæta mistökin, meðal annars með því að halda fram að hvorki var annarra kosta völ né betur vitað í þá tíð. En það sem kyndugast er að enn er haldið áfram á sömu braut undir forustu “fagráðs”, sem er launuð nefnd manna sem segjast hafa áhuga á landgræðslu, en hafa litla og flestir enga menntun á þessu sviði, en þar sitja alþingismaður, lögfræðingur, verkfræðingur, landslagsarkitekt, búfræðingur og tannlæknir.

Meðal annars gekk Halldór Blöndal fram fyrir skjöldu og reyndi að bera blak af Landgræðslunni. Eina, sem hann virtist þekkja til, voru melgresissáningar á Hólsfjöllum, en honum var ókunnugt um, að melgresi er aldrei sáð úr flugvél. Þá er oft vitnað í skýrslu Björns Sigurbjörnssonar (1990), sem er umsögn um framkvæmd og mat á árangri landgræðsluáætlana 1974-1990. Að baki skýrslunni eru engar sjálfstæðar athuganir, heldur er hún unnin upp úr gögnum frá viðkomandi stofnununum. Af henni er því engar ályktanir unnt að draga um gagnsemi “fluggræðslu” og lítið skjól að vitna í hana. Sem dæmi um “vísindaleg” vinnubrögð höfundar má nefna, að í umsögn um árangur uppgræðslu segir orðrétt: “Hópur þingmanna fór um mörg svæðin 1984-86 og fannst sum þeirra í góðri framför.” Það er ekki ónýtt að eiga góða að.

Þó að skýrslan sé þunn í roðinu hvað fræðilega umfjöllun varðar, má ýmislegt úr henni lesa, sem furðu vekur. Til dæmis var Sandvatn á Haukadalsheiði stækkað með fyrirhleðslu fyrir 1990. En eins og menn rekur minni til var ný stífla gerð þar sumarið 1994 við ærinn tilkostnað. Það er því eðlilegt að spyrja hvort hér sé um tvíverknað að ræða, hvað honum valdi og hver sé kostnaðurinn. Þá áætlar Björn, að 1974-78 hafi verið uppgræddir samtals 6-7 þúsund hektarar lands. Á sama tíma telur landgræðslustjóri, að græddir væru rösklega 30.000 ha. Hér er um slíkan mun að ræða, að krefjast verður skýringa. En allt er þetta nú dautt og til einskis var unnið.

Undanhald

Þegar það rann upp fyrir landgræðslumönnum að grasið var allt dautt, var eitt af haldreipum þeirra að halda því fram að í kjölfarið hafi upp sprottið víðir og birki, þökk sé túnvinglinum sem drapst. Um margt minnir þetta á það, sem segir í helgri bók: “Sáð er forgengilegu, en upprís óforgengilegt, sáð er í vansæmd en upprís í vegsemd.” Vera má að telja megi þingmönnum eða einstaka landbúnaðarráðherra trú um að birki vaxi upp af grasfræi, en varla verður landgræðslumönnum ætlað slíkt trúarþrek. Hér er því enn og aftur verið að villa um fyrir fólki.

Það er löngu vitað að land tekur miklum breytingum bara við friðun og mjög víða eru það einmitt birki og víðir sem fyrst nema land. Fullvíst er að dreifing áburðar og fræs hefur litlu breytt hér um, en kostað sitt. Einnig má benda á að stundum getur sáning grasfræs komið í veg fyrir eða tafið um nokkur ár landnám innlendra tegunda. Með öðrum orðum hafa rándýrar aðgerðir Landgræðslunnar seinkað eðlilegri framvindu gróðurs við friðun.

Lokaorð

Hér hefur verið sýnt fram á mistök og óhóflegan fjáraustur á opinberu fé. Að nokkru er þetta viðurkennt af hálfu Landgræðslunnar í verki, því að þar á bæ segjast þeir stöðugt vera að breyta um aðferðir, m.a. með því að fela bændum verk að vinna í stað þess að nota flugvél, og nú eru þeir farnir að stunda uppeldi plantna og rannsóknir. Allt er þetta þarft en þegar eru fyrir stofnanir sem sjá um sömu hluti. Þar er kunnátta til staðar, sem er ekki hjá Landgræðslunni. Um gróðureftirlitið er það að segja, að það byggir eingöngu á “sjónmati” en ekki mælingum og er einsdæmi í veröldinni. Nær væri að fela náttúrufræðistofum eða óháðum aðilum það hlutverk. Þá eru hvergi til skýrslur um árangur og hann aldrei metinn, þótt ótrúlegt sé, eins og Ríkisendurskoðun benti á fyrir fáum árum.

Mergurinn málsins er því sá, að endurskoða starfshætti Landgræðslu ríkisins og helzt sameina hana öðrum stofnunum. Þá sparast ófáar miljónir, sem nota mætti til raunhæfra verkefna við að græða upp landið.

Höfundur hefur lokið doktorsprófi í grasafræði.

FYRIR um 20 árum var gerð fyrirhleðsla í Eystri-Rangá og kvísl úr henni veitt þvert yfir Langvíuhraun til þess að græða upp allt hraunið. Árangurinn er ekki annar en lítilfjörlegir gróðurteygingar meðfram kvíslinni. EKIÐ var með herfi í eftirdragi yfir gróskumikla loðvíðirunna og lúpínufræi sáð í nýgræður. Stórlega sá á runnunum eftir þessa yfirferð.