Naflar á förnum vegi

Skrifað um July 28, 2023 · in Flóra

Eftirtektarvert er, að mjög víða á stórum steinum og í klettum vaxa blaðkenndar fléttur, sem eru festar við undirlagið aðeins með einum sterkum miðstreng. Fléttur þessar nefnast því naflar (Umbilicaria), en nafli á latínu er umbilicus. Auðvelt er að losa þær frá steinum, en í þurrki eru þær mjög stökkar og brotgjarnar, en í vætu mjúkar viðkomu.

Það getur verið skemmtilegt á ferðalagi um landið að hafa eitthvert áhugamál, sem blasir við á mörgum stórum steinum eða klettum við veginn, ekki sízt, þegar farið er um fjallvegi. Flestar tegundir er fremur auðvelt að greina og alltaf má hafa hjálp af myndum. Þar er um tvennt að velja, annars vegar vefsíðu eftir Hörð Kristinsson: http://www.floraislands.is/flettur.html og hins vegar bókina Íslenskar fléttur eftir sama höfund; þar má einnig fræðast um gerð og lífshætti féttna.

Fléttur er fjölskrúðugur hópur, þar sem saman tvinnast sambýli svepps og þörungs eða blágerils. Ríflega 700 tegundir vaxa hérlendis af alls 14‘000 til 17‘000, sem lýst hefur verið. Ekki þarf mikla fræðilega þekkingu til að greina nafla til tegundar, því að í eftirfarandi lykli hefur verið sneitt hjá þeim. Rætlingar eru örstuttir þræðir, sem vaxa á neðra borði og hraufur eru útbrot í efra borði, þar sem þörungar brjótast út úr þalinu.

Algengustu tegundir – og auðþekktar – eru: Geitanafli, sem þekkist á gráu þali yfir nafla (sjá mynd), skeggnafli með randhárum (rætlingum) á jaðri þals og sáldnafli með mjög götótt þal, sem sést vel, ef það er borið upp að ljósi.

Einfaldur greiningarlykill:

1 Grófkornóttar hraufur meðfram jöðrum; mjög sjaldgæfur ……………………… U. hirsuta (músanafli)
1*. Engar hraufur meðfram jöðrum ……………………………… 2

2 Neðra borð þéttsetið rætlingum …………………………… 3
2* Án rætlinga á neðra borði eða þeir fáir ………………. 5

3 Jaðar með randhárum (rætlingum). Neðra borð bleikleitt einkum næst nafla, grátt eða grábrúnt utan til …….. U. cylindrica (skeggnafli)
3* Neðra borð sótsvart …………. 4

4 Þal tiltölulega þunnt, allt að 3 cm að þvermáli, engar smávörtur á milli rætlinga; aðeins hátt til fjalla …. U. aprina (tindanafli)
4* Þal þykkt og stíft, allt að 10 cm að þvermáli, smávörtur á milli rætlinga; mjög sjaldgæfur … U. vellea (hamranafli)

5 Efra borð brúnt, grábrúnt til brúnsvart ……………………… 6
5* Efra borð grátt til grásvart, oft einkennandi grátt í miðju ……………. 9

6 Það sett götum (bera upp að ljósi), hryggir á neðra borði ……….. U. torrefacta (sáldnafli)
6* Engin eða mjög á göt; án hryggja á neðra borði ……………………. 7

7 Þal margblaða. Neðra borð kolsvart, gljáir; efra borð dökk- eða svarbrúnt …….. U. polyphylla (bleðlanafli)
7* Þal oftast einblaða. Þal bylgjótt eða með fellingar …………. 8

8 Þal þykkt og stíft; fellingar grófar, hryggir nær miðju. Neðra borð svart við nafla; oft við fuglabjörg …. U. arctica (hrossanafli)
8* Þal þunnt, þétt vörtótt, frekar slétt, bylgjótt, einkum við jaðar. Neðra borð brúnsvart; aðallega hátt til fjalla ……. U. hyperborea (fjallanafli)

9 Neðra borð ljóst, bleikleitt, ljós- eða grábrúnt …………………………….. 10
9* Neðra borð svart ……………. U. decussata (hrímnafli)

10 Jaðar þals þéttsetinn randhárum (rætlingum) ………. cylindrica (skeggnafli)
10* Jaðar án randhára (rætlinga) ……………………. U. proboscida (geitanafli)

Tegundalisti:

  1. Umbilicaria aprina (tindanafli)
  2. Umbilicaria arctica (hrossanafli)
  3. Umbilicaria cylindrica (skeggnafli)
  4. Umbilicaria decussata (hrímnafli)
  5. Umbilicaria hirsuta (músanafli)
  6. Umbilicaria hyperborea (fjallanafli)
  7. Umbilicaria polyphylla (bleðlanafli)
  8. Umbilicaria proboscida (geitnafli)
  9. Umbilicaria torrefacta (sáldnafli)
  10. Umbilicaria vellea (hamranafli)

Einnig birt á vefsíðu: