Hygroamblystegium – tjátlumosar

Skrifað um July 11, 2017 · in Mosar

Blöð á Hygroamblystegium varium, lækjatjátlu, eru mjög breytileg. - Teikn. ÁHB.

Blöð á Hygroamblystegium varium, lækjatjátlu, eru mjög breytileg. – Teikn. ÁHB.

 

Ættkvíslin Hygroamblystegium Loeske,. – tjátlumosar – heyrir til Amblystegiaceae (rytjumosaættar). Til þeirrar ættar teljast 20-25 kvíslir með samtals um 140 tegundir. Tegundir ættarinnar eru æði ólíkar, en flestar eru þó með sveigð blöð og einfalt rif. Þær vaxa jafnan í einhvers konar votlendi eða á rökum stöðum.

 

Til ættkvíslarinnar heyrir nú aðeins ein tegund, sem er æði breytileg. Hún var áður talin tvær tegundir (Amblystegium fluviatile og A. tenax), sem hafa verið sameinaðar.

Hygro– er komið úr grísku, hygros, væta, raki; sjá ennfremur Amblystegium.

 

Hygroamblystegium varium (Hedw.) Mönk. – lækjatjátla

Plöntur, fíngerðar til meðalstórar, mynda grænar eða gulgrænar til gulbrúnar, fjaðurgreindar eða óreglulega greinóttar breiður. Í straumvatni verður litur dekkri, brúnn til svartur, og stönglar stinnari. Blöð 0,6-1,4 mm á lengd, upprétt eða útstæð (sjaldan einhliðasveigð), egg- til egglensulaga, heilrend eða fíntennt, og mjókka smám saman eða snöggt fram í yddan eða snubbóttan blaðenda. Blöð stutt niðurhleypt með mjórri rönd. Rætlingar lítið greinóttir, sléttir og á stöngli. Rif er einfalt og breitt. Axlarhár oftast eitt við hvert blað, efstu frumur, 1 eða 2, um 6-8 µm á breidd.

Frumur aflangt tigullaga, aflangt ferhyrndar eða sexhyrndar með frekar þykka, holulausa veggi. Frumuveggir í blaðgrunni þykkir og oft gulir eða gulbrúnir. Í blaðhornum eru frumur ferhyrndar eða ferningslaga og mynda egglaga eða þríhyrndan hóp, sem teygir sig upp með blaðrönd.

Plöntur eru tvíkynja og eru oft með gróhirzlur.

Vex á steinum í og við ár og læki og í fjörum tjarna; einnig á sírökum brúarstólpum. Er fremur sjaldgæf um sunnan- og vestanvert land.

Viðurnafnið variens er af varius, breytilegur, marglitur; so. variare, skipta litum

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply