Ferð Eldeyjar-Hjalta til kóngsins Kaupinhafnar

Skrifað um February 25, 2014 · in Almennt · 2 Comments

Hjalti skipstjóri Jónsson eða Eldeyjar-Hjalti (1869-1949). Ljósm. Hákon Bjarnason.

Hjalti skipstjóri Jónsson eða Eldeyjar-Hjalti (1869-1949). Ljósm. Hákon Bjarnason.

Ferð Eldeyjar-Hjalta til kóngsins Kaupinhafnar

Hákon Bjarnason skráði

Það mun hafa verið í janúar eða febrúar 1947 (frekar en 1948), að Hjalti vinur minn Jónsson, skipstjóri, hringir til mín og spyr, hvort ég geti skotið sér niður að höfn í bíl. Þetta var um fjögur leytið og spurði ég einskis en kom til Hjalta innan stundar.

„Hvert ætlarðu,“ spurði ég, en Hjalti segir þá: „Ég ætla að bregða mér til kóngsins Kaupinhafnar. Þú ekur mér ofan að Drottningunni.“

Sem sagt svo gjört og ég hjálpa honum um borð og kem dóti hans fyrir. Svo settumst við stundarkorn í reyksal skipsins og ég spurði, hverra erinda hann væri að fara svona um hávetur. Hann sagði, að sig langaði alltaf á sjó um þessar mundir og þetta væri nú gert til þess að finna öldurnar vagga sér.

 

Svo kvöddumst við og hálfum mánuði síðar eða þremur vikum hringir Hjalti til mín og biður mig að heimsækja sig fljótlega, hvað ég gerði. Spyr ég þá, hvernig ferðin hafi gengið og lét Hjalti vel af því. Hann fékk sér inni á Hótel Kongen af Danmark rétt við Nýjatorg. Tóku hótelþjónarnir stirðbusalega á móti honum og þótti víst ekki mikið til hans koma, „enda var ég á filtskónum vegna lappanna,“ sagði hann. „Nú, en þegar ég var búinn að koma mér fyrir hringdi ég til Amalienborgar og spurði um prins Knud.“

„Þegar ég sagðist vera konsul Hjalti Jónsson fra Island, kom Knútur strax í símann. Og þegar hann heyrði í mér sagði hann bara: „Nej er det dig, Jalte, dit gamle svin.“ Og ég heilsaði og spurði, hvernig honum liði. „Jo, tak, det står meget vel til,“ og þá sagði ég: „Din bror Frederik er vel nede i Syden,“ og þegar Knud sagði „ja selfölgelig,“ þá segi ég: „Så er du vel konge i dag?“ „Ja, vist er jeg så,“ sagði Knud, „du må komme og hilse på mig, når kan du komme?“ „Jeg kan komme med det samme,“ sagði ég. „Så sender jeg en bil efter dig om 5 minutter.“

Nú, ég staulast niður stigana en þá standa allir helvítis þjónarnir úti við dyr og eru að glápa á bíl. Nú, ég kemst fram hjá þeim og fer upp í bílinn, merktan kórónu og nr. 1 í Köbenhavn. Þú hefðir átt að sjá það, sem ég sá, þegar ég leit um öxl. Glyrnurnar ætluðu út úr hausnum á skepnunum og kjaptarnir á þeim stóðu galopnir eins og þeir ætluðu úr kjálkaliðnum, og ég lét sem ég sæi þá ekki.

Nú, ég hitti Knud og við sátum og röbbuðum lengi um gamla daga og margt fleira. Hann var ósköp elskulegur, fylgdi mér til dyra og sendi mig heim í sama bílnum.

Þá, karl minn, stóð ekki á móttökunum á hótelinu og í ganginum, allir bukkandi og skrapandi, og eftir það var ég fínasti maðurinn á hótelinu.“

 

ÁHB / 25. febrúar 2014


2 Responses to “Ferð Eldeyjar-Hjalta til kóngsins Kaupinhafnar”
  1. olafur sigurðsson says:

    Besrtu þakkir. Góð saga. Ólsig

  2. olafur sigurðsson says:

    Bestu þakkir. Góð saga. Ólsig

Leave a Reply