Hypnum ─ Faxmosar

Skrifað um March 5, 2013 · in Mosar

Nafnið faxmosar er dregið vegna líkingar við makka. Ljósm. ÁHB.

Nafnið faxmosar er til komið vegna líkingar við makka. Ljósm. ÁHB.

MOSAPLÖNTUR innan ættkvíslarinnar Hypnum Hedw. eru smáar til stórar, 1-10 cm, jarðlægar til uppréttar, bæði reglulega og óreglulega fjaðurgreindar, á stundum nærri ógreindar. Örblöð þráðlaga eða lensulaga, tennt eða heilrend; axlarhár 3-5 frumur. Stöngull með eða án glærþekju, með eða án miðstrengs.
Blöð á stönglum og greinum nærri eins; þó eru greinablöð jafnan minni og mjórri, og hornafrumur ekki jafnvel þroskaðar; egg- til lensulaga; blaðrönd við grunn bugðótt eða bein, heilrend eða tennt framarlega; blöð útundin neðst en slétt fremst (sjá þó H. revolutum); ganga fram í breið- eða langyddan odd. Rif stutt og klofið eða ekkert. Frumur jafnan sléttar (sjá þó H. bambergeri), aflangar, lítið eitt bugðóttar; blaðhorn oftast vel afmörkuð, hornfrumur stórar eða litlar, jafnan styttri en aðrar frumur; oft er örlítið vik inn í blaðið rétt ofan við blaðhornin.
Allar íslenzkar tegundir eru einkynja (dioicous); Það merkir, að það eru sérstakar karl- og kvenplöntur; karlkynsplanta H. hamulosum er örlítil og lifir sem ásæta á mun stærri kvenkynsplöntum. Gróstilkur sléttur, gulur til rauður. Gróhirzla upprétt, álút eða hornrétt út frá stilk, sívöl til egglaga, oftast bogin. Lok keilulaga, oftast hátt, með totu. Opkrans tvöfaldur; ytri tennur allaga til langyddar, gular til brúnar; lárétt strikóttar neðan til á ytra borði, vörtóttar efst, með þverbjálka (trabeculae) á innra borði; innri tennur álíka háar og hinar ytri. Hetta skástæð.
Í eina tíð var Hypnum ættkvísl langstærst allra, en smám saman hefur saxazt á fjöldann og nýjar ættkvíslir stofnaðar. Nú eru um 50 tegundir í kvíslinni og 8 vaxa hér á landi. Talsverðar hreyfingar hafa verið á íslenzkum tegundum undanfarin ár. Tegund hefur verið felld niður og tvær verið fluttar í aðrar ættkvíslir. Í eftirfarandi lykli eru þær teknar með, Breidleria pratensis og Calliergonella lindbergii.

Tegundir ættkvíslarinnar eru sumar vandgreindar. Breytileiki innan tegunda er mikill og stafar oftast af mismunandi vaxtarstöðum. Nauðsynlegt er að skoða mörg blöð og ná þeim heilum af stönglum með fínni agntöng. Auðvelt er að gera þverskurði af blöðum og stöngli með rakvélablaði, en það krefst nokkurrar æfingar reyndar. Þegar orðið frumur er notað í lykli, er átt við venjulegar blaðfrumur; á sama hátt merkir blað stöngulblað, en sérstaklega er tekið fram, ef átt er við greinablöð. Á eftir lykli koma nokkrar skýringamyndir; vissulega mættu þær vera fleiri og betri.

Hypnum er dregið af gríska orðinu hypnos, svefn; því er haldið fram, að mosinn hafi verið notaður til þess að troða í kodda eða svæfla. Nafnið faxmosi er dregið af því, að einhliðasveigð blöð á stöngli og greinum vísa út frá stöngli til beggja hliða, þegar horft er ofan frá; ekki ósvipað því og að horfa ofan á makka.

Lykill að tegundum:
1 Stöngull klæddur glærþekju ……………………………………………… 2
1 Stöngull ekki klæddur glærþekju …………………………………………. 5

2 Hornfrumur fáar og ekki vel afmarkaðar; geta þó verið breiðari; blöð sveigjast lítið eitt inn við stöngulfestingu ……………………………………………………………………………. 3
2 Hornfrumur margar og mynda vel afmörkuð horn; blöð sveigjast all nokkuð inn við stöngulfestingu …………………………………………………………………………………… 4

3 Sproti er greinilega flatur; blöð lítillega sveigð, um 2 mm á lengd, breiðydd ………. ………………………………………………………………………………………. Breidleria pratensis
3 Sproti ekki greinilega flatur; blöð einhliðasveigð, hálfhringlaga, 0,7-1,4 mm á lengd, langydd …………………………………………………………………….. H. hamulosum

4 Blöð langydd, ganga fram í langan, mjóan, rennulaga odd; stöngull gulur til grænn; plöntur fíngerðar …………………………………………………………………… H. callichroum
4 Blöð breiðydd, ganga fram í frekar stuttan odd; eldri stönglar rauðleitir; plöntur frekar stórar ………………………………………………………………………. Calliergonella lindbergii

5 Frumur í blaði með mjög þykka, holótta veggi; horn afmörkuð, ekki stór, hornfrumur ferningslaga eða ferhyrndar, brúnar eða gulbrúnar, veggir þykkir og holóttir; stöngull gulbrúnn …………. …….. ……………………………………………………….. H. bambergeri
5 Frumur í blaði og hornum hvorki með holótta veggi né áberandi þykka ……….. 6

6 Blaðrönd útundin frá grunni næstum fram í blaðenda …………. H. revolutum
6 Blaðrönd flöt eða aðeins útundin við blaðgrunn……………………………….. 7

7 Hornfrumur mynda einsleita heild, margar og smáar (nema neðst); blöð áberandi kúpt; blaðfrumur ekki lengri en 45 μm; örblöð snubbótt …….. H. vaucheri
7 Hornfrumur misstórar; blaðfrumur jafnan lengri en 45 μm; örblöð ydd ………. 8

8 Plöntur ljósgrænar eða gulleitar; sprotar flatir, reglulega fjaðurgreindir. Neðri frumur í hornum áberandi tútnar, miklu stærri en frumur efst í hornum; horn mjög kúpt ……… …………………………………………………………………………………… H. jutlandicum
8 Plöntur dökkgrænar eða brúnleitar; sprotar ekki flatir; óreglulega fjaðurgreindir. Neðri frumur í hornum ekki áberandi tútnar, lítið eitt stærri en þær efstu; horn ekki mjög kúpt ……………………………………………………………………………… 9

9 Fíngerðar plöntur. Blöð bein, heilrend og vísa á ská upp á við bæði á stöngli og greinum ………………………………………………………………………… H. resupinatum
9 Stórgerðar, meðalstórar og fíngerðar plöntur, grænar, dökkgrænar, gulgrænar, gulbrúnar eða brúnleitar. Blöð jafnan bogin, tennt eða heilrend. Rætlingar ýmist áberandi eða ekki. Mjög breytileg tegund og um 60 afbrigðum hefur verið lýst …. …. ……………………………………………………………………………….. H. cupressiforme

 

Mynd 1: Stöngull með glærþekju og án miðstrengs; stöngull án glærþekju og með miðstreng. Mynd2: Blaðendi breiðyddur; blaðoddur langyddur. Mynd 3: Jafnstórar hornfrumur; misstórar hornfrumur. Mynd $: Blaðrönd flöt; blaðrönd útundin. Mynd 5: Sléttar blaðfrumur; holóttar blaðfrumur. Mynd 6: Tútnar hornfrumur; ekki tútnar hornfrumur. Teikn. ÁHB.
Mynd 1: a) Stöngull með glærþekju og án miðstrengs; b) stöngull án glærþekju og með miðstreng. Mynd 2: a) Blaðendi breiðyddur; b) blaðoddur langyddur. Mynd 3: a) Jafnstórar hornfrumur; b) misstórar hornfrumur. Mynd 4: a) Blaðrönd flöt; b) blaðrönd útundin. Mynd 5: a) Sléttar blaðfrumur; b) holóttar blaðfrumur. Mynd 6: a) Tútnar hornfrumur; b) ekki tútnar hornfrumur. Teikn. ÁHB.

Helztu heimildir:
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson, 1996: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðis. N:r 29.
E. Nyholm, 1965: Illustrated Moss Flora of Fennoscandia. II Musci. Lund 1965
http://www.efloras.org/florataxon.aspx?flora_id=50&taxon_id=116204

 

Aðvörun:
Á þessum stað: http://floraislands.is/mosar.html stendur skírum stöfum orðrétt:
»Eini íslendingurinn sem lagt hefur stund á mosaflóru Íslands af nokkurri alvöru, er Bergþór Jóhannsson.«

Menn eru því beðnir um að trúa því mátulega, sem greint er frá á vefslóð þessari.

Rétt er að geta þess, að nú hefur þessum texta verið breytt (20./3.).

ÁHB / 5.3. 2013

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply