Tvíblöðkur – Neottia (syn. Listera)

Skrifað um July 3, 2014 · in Flóra

Myndin til vinstri sýnir blóm á hjartatvíblöðku (Neottia cordata), til hægri blóm á eggtvíblöðku. Teikn. ÁHB.

Myndin til vinstri sýnir blóm á hjartatvíblöðku (Neottia cordata), til hægri blóm á eggtvíblöðku. Teikn. ÁHB.


Íslenzku tegundirnar tvær, sem tilheyra þessari ættkvísl, voru til skamms tíma taldar til Listera R. Br. Ættkvíslin sú hefur nú verið sameinuð Neottia Guett. og tegundirnar fengið því nýtt latneskt ættkvíslarheiti; viðurnöfn eru óbreytt. Reyndar töldust tegundirnar til sömu ættkvíslar áður fyrr en Listera R. Br. var klofin út 1813 og kennd við brezkan lækni og náttúrufræðing, Martin Lister (1638–1711). Ekki er talin ástæða til þess að breyta íslenzku nafni kvíslarinnar. Þar sem nafnið Neottia er eldra, frá 1750, hefur það forgang samkvæmt nafnareglum grasafræðinnar.

Ættkvíslin tvíblöðkur – Neottia Guettard – tilheyrir brönugrasaætt (Orchidaceae) og undirættinni Epidendroideae. Tegundir kvíslarinnar vaxa frá tempruðu beltum jarðar og norður undir heimskautsbaug í öllum heimsálfum. Þetta eru jafnan litlar til meðalstórar tegundir með stuttan jarðstöngul. Þær tegundir, sem áður heyrðu til Listera hafa í sér laufgrænu en aðrar hvorki laufgrænu né laufblöð.
Tegundirnar, sem áður töldust til Listera, einkennast af tveimur, nær gagnstæðum blöðum um eða neðan við miðju stönguls. Hér á landi vaxa tvær af um 25 tegundum. Til Neottia teljast um 64 tegundir.

Ættkvíslarnafnið Neottia er dregið af gríska orðinu ‘neottia’, hreiður; rætur margra tegunda eru eins og fléttaðar saman og minna á fuglshreiður.

Lykill að íslenzkum tegundum:

1. Lágvaxin jurt. Blóm brúnleit. Blöð hjartalaga, innan við 2,5 cm á lengd …….. hjartatvíblaðka (N. cordata)
1. Hávaxin jurt. Blóm (gul)græn. Blöð sporbaugótt, 6-12 cm á lengd …….. eggtvíblaðka (N. ovata)


Hjartatvíblaðka – Neottia cordata (L.) Rich.

Rótarkerfi tegundarinnar er lítt þroskað og því þarf hún oft að reiða sig á samlífi við sveppi. Plantan er öll móleit, fíngerð og með tveimur, um 2 cm löngum, þunnum, breiðhjartlaga, silklausum blöðum um eða neðan miðju stönguls.
Klasinn er gisblóma. Blómin eru lítil (5-8 mm á lengd), mógræn eða brúnrauð og með rauðmóleitri, tvíklofinni vör. Fræmyndunin gengur mjög fljótt og á stundum eru fræin þroskuð neðst í klasa en efstu blómin nýútsprungin. Fjölgar sér þó mest með rótaskotum.
Vex í kjarri, lyngmóum, hraunum og víðar. Er hér og hvar um land allt. Blómgast í júlí og fram eftir sumri. 5–17 cm á hæð.

Viðurnafnið cordata er komið úr latínu, ‘cordis’, hjarta.

Hjartatvíblaðka (þurrkað eintak). Ljósm. ÁHB.

Hjartatvíblaðka (þurrkað eintak). Ljósm. ÁHB.

 


Samnefni:

Bifolium cordatum (L.) Nieuwl., Cymbidium cordatum (L.) Londes, Diphryllum cordatum (L.) Kuntze, Distomaea cordata (L.) Spenn., Helleborine cordata (L.) F.W.Schmidt, Epipactis cordata (L.) All., Listera cordata (L.) R.Br., L. nephrophylla Rydb., Neottia nephrophylla (Rydb.) Szlach., Ophrys cordata L., O. nephrophylla (Rydb.) Rydb., Pollinirhiza cordata (L.) Dulac, Serapias cordata (L.) Steud.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: lesser twayblade
Danska: Hjertebladet Fliglæbe
Norska: småtveblad
Sænska: spindelblomster, hjärtyxne
Finnska: herttakaksikko
Þýzka: Herz-Zweiblatt
Franska: listère cordée

Eggtvíblaðka – Neottia ovata (L.) Bluff & Fingerh.

Plantan er allstór og grænleit með tveimur stórum (allt að 8 cm löngum), nær gagnstæðum, stilklausum, egglaga blöðum neðan við miðju kirtilhærðs stönguls.

Blómin eru gulgræn í löngum, gisnum klasa. Blómhlífarblöð eru tvö útstæð en þrjú vita upp og ljósmóleit vör er tvíklofin. Niður eftir vörinni streymir blómasykur (nektar).
Skordýr, sem sjúga og sleikja upp sykurinn, fikra sig smám saman ofar og ofar eftir vörinni. Lengst inni í blóminu snerta þau frænið, sem er ummyndað í litla trjónu (rostellum). Við snertinguna springur trjónan og þá losnar límefni, sem festir frjókekkina við höfuðið á flugunni. Við hvellinn hrekkur skordýrið á braut og sækir heim næsta blóm.

Vex í kjarri og graslendi. Sjaldgæf en hefur fundist á fáeinum stöðum í nær öllum landshlutum. Blómgast í júní–júlí. 15–40 cm á hæð. Friðlýst.

Viðurnafnið ovata er komið úr latínu, ‘ovum’, egg.

Eggtvíblaðka (þurrkað eintak). Ljósm. ÁHB.

Eggtvíblaðka (þurrkað eintak). Ljósm. ÁHB.

Samnefni:
Ophrys ovata L., O. bifolia Lam., Epipactis ovalifolia Stokes, E. ovata (L.) Crantz, Helleborine ovata (L.) F.W.Schmidt, Malaxis ovata (L.) Bernh., Listera ovata (L.) R.Br., Serapias ovata (L.) Steud., Distomaea ovata (L.) Spenn., Pollinirhiza ovata (L.) Dulac, Diphryllum ovatum (L.) Kuntze, Bifolium ovatum (L.) Nieuwl., Neottia latifolia Rich., Listera multinervia Peterm.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: european common twayblade
Danska: Ægbladet Fliglæbe
Norska: stortveblad
Sænska: tvåblad, tveblad, tväblada
Finnska: soikkokaksikko
Þýzka: Großes Zweiblatt
Franska: listère à feuilles ovales

 

Helztu heimildir:
S. Nilsson og B. Mossberg, 1977: Nordens orkideer. Gyldendals grönne håndböger.
Stefán Stefánsson, 1948: Flóra Íslands. 3. útg. Akureyri.
Áskell Löve, 1981: Áslenzk ferðaflóra. 2. útg. Almenna bókafélagið, Rvík.
Johannes Lid og Dagny Tande Lid, 2005: Norsk flora. 7. utgåva. Redaktör: Reidar Elven. – Det Norske Samlaget. Oslo.
Perschke, T. (2006): Status gefährdeter Orchideen des baltisch-fennoskandinavischen Raums. – J. Eur. Orch 38 (4): 717-798.
Reinhard, H. R. (1985): Skandinavische und alpine Dactylorhiza-Arten (Orchidaceae). – Mitt. Bl. Arbeitskr. Heim. Orch. Baden-Württ. 17 (3): 321-416.
Reinhard, H. R. (1990): Kritische Anmerkungen zu einigen Dactylorhiza-Arten (Orchidaceae) Europas. – Mitt. Bl. Arbeitskr. Heim. Orch. Baden-Württ. 22 (1): 1-72.
Reinhard, H. R., P. Gölz, R. Peter & H. Wildermuth (1991): Die Orchideen der Schweiz und angrenzender Gebiete. – Fotorotar; ISBN 3-905647-01-0.

Netheimildir ýmsar:
http://www.efloras.org/
http://linnaeus.nrm.se/flora/welcome.html
http://lup.lub.lu.se/luur/download?func=downloadFile&recordOId=548374&fileOId=1176457

P.s. Höfundur hlaut styrk frá Hagþenki 2014 til ritstarfa.

Leitarorð:


Leave a Reply