Elftingar ─ Equisetum L.

Skrifað um September 8, 2012 · in Flóra · 12 Comments

 

Fergin.

Fergin.

Lat. Equus, hestur og seta, hár, tagl.
Þetta er eina núlifandi ættkvísl, Equisetum L., úr stórum hópi plantna, sem komu fram á devontímanum fyrir um 400 milljónum ára og átti sitt blómaskeið fram að lokum kolatímans fyrir um 280 milljón árum. Þar á meðal voru tré, sem náðu allt að 30 m hæð. Steinkol víða um heim eru steingerðar leifar þessara fornu plantna.

Núlifandi elftingar eru tíðastar á norðurhveli jarðar, en nokkrar þó vaxa í hitabeltinu. Þær lifa flestar í röku landi. Sumar virðast þó lifa í þurru landi, en þess ber að gæta, að rætur þeirra ná mjög langt niður í jarðveginn, þar sem raki er mun meiri en við yfirborð.

Elftingar eru fjölæringar. Jarðstöngull (sætutág) þeirra er víðskriðull, marggreindur og oft með næringarrík og dökk hnýði (sultarepli, surtarepli, Gvöndarber). Hann getur orðið á þriðja metra á lengd. Loftstönglar eru allir liðaðir (liðskiptir) og oft með kransstæðar greinar. Þeir eru holir en með skilrúm við hver liðamót. Lítið fer fyrir laufblöðum (slíðurtennur). Efst á hverjum lið eru stöngulblöðin, lítil og samvaxin á röndum og mynda tennt slíður, sem lykur um neðsta hluta á næsta lið fyrir ofan. Sumar tegundir hafa liðskiptar hliðargreinar.

Gróbæru stönglarnir eru annaðhvort eins og hinir grólausu eða frábrugðnir að minnsta kosti í byrjun. Hér á landi vaxa sjö tegundir elftinga, en ein þeirra, skógelfting, er mjög sjaldgæf.

Nokkuð er um það, að æxlun eigi sér stað á milli tegunda. Þekktir eru blendingar á milli klóelftingar og fergins og á milli eskis og beitieskis; hann kallast eskibróðir.

Flestar tegundir hafa verið nýttar að einhverju leyti. Allar eru tegundir þó varasamar í miklum mæli og ætti því alls ekki að neyta þeirra nema að lokinni suðu.

Bil á milli kransstæðra greina fer minnkandi eftir því sem ofar dregur á stöngli. Því hefur verið haldið fram, að það hafi orðið John Napier innblástur að uppgötvun lógariþma.

Lykill að tegundum:
1. Stöngull greinamargur …………………………………………………………..…………. 2
1. Stöngull greinalaus eða greinafár ………………………………………………………. 6
2. Greinar ógreindar …………………………………………………………………………… 3
2. Greinar greindar; mjög sjaldgæf tegund …………..………… skógelfting (E. sylvaticum)
3. Gróblöð í dökkri axlíkri skipan á venjulegum stönglum; greinar holar …………..…… 4
3. Gróblöð í ljós- eða dökkbrúnni, axlíkri skipan á sérlegum stönglum …………………. 5
4. Stöngull með víðu miðholi, greinafár; 10-20 slíðurtennur ………. fergin (E. fluviatile)
4. Stöngull með mjóu miðholi, greinamargur; 4-12 slíðurtennur … mýrelfting (E. palustre)
5. Gróbæru stönglarnir nær samtímis hinum grólausu, móleitir og greinalausir fyrst, en grænka eftir grófallið og greinast ofantil; á grólausum stönglum er neðsti greinaliður styttri en stöngulslíður … …………………………………………….… vallelfting( E. pratense)
5. Gróbæru stönglarnir alllöngu á undan hinum grólausi, ljósmóleitir, hálfgagnsæir; á grólausum stönglum er neðsti greinaliður lengri en stöngulslíður .. klóelfting (E. arvense)
6. Stöngull greinalaus, þurr og hrjúfur, sígrænn; hvassyddur í enda ………..……… 7
6. Stöngull greinalaus eða greinafár, snubbóttur í enda; í votlendi …. fergin (E. fluviatile)
7. 4-8 slíðurtennur, slíður grænt neðst, svart efst ……….…… beitieski (E. variegatum)
7. 12-20 slíðurtennur, sem falla fljótt af; slíður svart eða grátt …..…… eski (E. hyemale)

KlóelftingEquisetum arvense L.

Grólausir stönglar (sumarstönglar) uppréttir eða jarðlægir, grasgrænir, með margar hliðargreinar, þrí- til fjórgáróttir og sívalir; 10-12 svartar slíðurtennur við hvern lið. Kransstæðar greinar hvassstrendar, út- eða uppréttar; slíðurtennur greina grænar. Neðsti greinaliður nokkru lengri en stöngulslíður. Gróbærir stönglar (vorstönglar) vaxa alllöngu á undan hinum grólausu; gulbrúnir (án laufgrænu). Rauðbrúnar gróhirzlur í axlíkum skipunum, 0,5-2 cm á lengd. Stöngulslíður bjöllulaga; fleiri en 6 mósvartar tennur.

Klóelfting. Teikn. ÁHB.

Klóelfting. Teikn. ÁHB.

Undirtegundin ssp. borealis. Teikn. ÁHB

Undirtegundin ssp. boreale. Teikn. ÁHB

Tegundin er mjög breytileg; ríflega 60 ólíkum gerðum hefur verið lýst. Hér er greint á milli tveggja undirtegunda:
1. Greinar oftast fjór- eða fimm-strendar. Gróbærir stönglar (vorstönglar) um 5 mm að þvermáli, mynda ekki hliðargreinar ……………………………………………….. ssp. arvense
1. Greinar oftast þrístrendar. Gróbærir stönglar (vorstönglar) um 2-4 mm að þvermáli, grænar hliðargreinar vaxa oftast út frá vorstöngli; stönglar verða því margir, jarðlægir með uppsveigðar greinar ………………………………………………………………. ssp. boreale

Undirtegundin ssp. boreale (Bong.) Á. Löve er að líkindum algengust á hálendinu og á útkjálkum, en ssp. arvense algengari á láglendi.
Grólausir stönglar 10-40 cm á hæð eða lengd; gróstönglar 3-15 cm á hæð. Vex í margs konar gróðurlendi. Mjög algeng um land allt.

Tegundin hefur mörg nöfn, enda er hún mjög áberandi og algeng, einkum við hús og bæi. Gróbæri stöngullinn kallast góubitill (eða góubeitill), gómbitill, tröllafingur og skollafótur. Hann er vel ætur, annaðhvort steiktur í smjöri eða hafður í mjólkurgraut. Í Japan er algengt að neyta þeirra, og ganga stönglarnir þar undir nafninu tsukushi. Hnýðin á neðanjarðarrenglum (sætutágar) eru sæt á bragðið. Hnýðin (»berin«) eru nefnd ýmist surtar- eða sultarepli og einnig gvöndarber.
Jarðstöngull er mjög víðskriðull. Hann er holur að innan, og þess vegna getur hann tekið með sér loft djúpt niður í jarðveginn. Getur farið ríflega tvo metra niður og jafnvel enn lengra.

Klóelfting hefur verið notuð við ótal meinum, jafnt innvortis sem útvortis. Því hefur verið haldið fram, að í henni sé lítið eitt af nikótíni, sem geri hana meðal annars eftirsótta til hressingar. Seyði af urtinni þótti gott við þvagteppu, niðurgangi, blóðlátum og tregum hægðum. Plantan er rík af kísilsýru, sem er talin hafa góð áhrif á húð, og því gott að skola húð, hár og háls með seyði af henni. Sagt er, að hár verði sérlega fallegt og glansandi, sé það þvegið úr legi af plöntunni. Þá eru 100 g soðin í 0,5 l af vatni og látið standa í sólarhring. Plantan stöðvar blóðrennsli og sár gróa fljótt, sé hún lögð að þeim. Hnýðin eru sögð lostæti og minna á heslihnetur. Bezt að grafa þau upp snemma vors, en þau verða þurr og hörð undir sumar. Þau eru etin fersk eða þurrkuð og mulin í mortéli. Þá var plantan líka notuð til litunar.

Af nöfnum á grólausa stönglinum má nefna: Sauðagras, mánaðargras, kveisugras, draumagras og liðagras. Undirtegundin ssp. boreale hefur verið nefnd sultarelfting.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir: Draumagras, eða klóelfting, er sagt vaxa allra grasa fyrst og á það að vera fullsprottið 16. maí. Þann dag skulu menn taka það, setja inn í bíblíuna og geyma í guðspalli 16. sunnudags eftir trínitatis. Því næst skal láta það í hársrætur sér fyrir svefninn og dreymir mann þá það sem maður vill vita. Einnig er hægt að mylja draumagrasið saman við messuvín og taka inn á fastandi maga á hverjum morgni. Þessi blanda ver menn gegn holdsveiki. Vilji menn aftur á móti verjast innvortis kveisum skal taka draumagrasið snemma morguns, bíta það úr hnefa og snúa sér á móti austri.

Enska: Field Horsetail, Common Horsetail, Horsetail, Bottlebrush, Foxtail, Horse Pipes, Pipe Weed, Jointed Rush, Cat’s Tail, Mare’s Tail, Pinetop, Pine Grass, Snake Grass, Shave Grass, Paddy’s Pipe, Corn Horsetail, Toadpipe, giant horsetail
Danska: Ager-Padderokke
Sænska: Åkerfräken, Rävrumpa, Krypfräken
Norska: Åkersnelle
Finnska: Peltokorte
Þýzka: Acker-Schachtelhalm
Franska: Prêle des Champs, Petite Prêle, Queue de Cheval, Queue de Rat, Queue de Renard

FerginEquisetum fluviatile L.

Hvorir tveggju stönglarnir eins frá upphafi. Stönglar eru gildir með mjög víðu miðholi, svo að þeir fljóta á vatni. Þeir eu sléttir en við þurrkun verða þeir mjög gáróttir. Slíður eru græn eða móleit. Tennur langar og mjóar. Á stundum með fjór- til sjöstrendar hliðargreinar; neðsti greinaliður styttri en stöngulslíður. Líkist þá mýrelftingu en auðvelt að greina tegundir í sundur, bæði á víðu miðholi og jafnvíðum slíðrum fergins. Gróhirzlur í axlíkri skipan á stöngulenda, grænt eða dökkt, 1-2,5 cm á lengd.
20-130 cm á hæð. Vex í tjörnum, síkjum og flóum. Algengt um land allt.

Tjarnelfting. Teikn. ÁHB

Fergin eða tjarnelfting. Teikn. ÁHB

Tjarnelfting er annað nafn á tegundinni; í Kelduhverfi kallast það sef og klósef. Þykir gott kýrfóður og var víða slegið; má ekki gefa hestum. Meðal Grikkja og Rómverja var fergin notað til þess að stöðva blæðingar; þá eru til heimildir um, að það var notað við sjúkdómum í nýrum svo og við berklum og magakrabba.

Enska: Water Horsetail, Pipes, River Horsetail, Swamp Horsetail
Danska: Dynd-Padderok
Sænska: Sjöfräken, Dyfräken
Norska: Elvesnelle
Finnska: Järvikorte
Þýzka: Teich-Schachtelhalm
Franska: Prêle Fluviatile

VallelftingEquisetum pratense Ehrh.
Grólausir stönglar (sumarstönglar) uppréttir, grágrænir, með margar hliðargreinar, gáróttir, sívalir og hrjúfir; 10-16 slíðurtennur við hvern lið, dökkar í miðju með breiðan, hvítan himnufald. Kransstæðar greinar hvassþrístrendar (sjaldan ferstrendar), útréttar eða niðursveigðar; slíðurtennur greina stuttyddar. Neðsti greinaliður styttri en stöngulslíður.

Vallelfting. Teikn. ÁHB.

Vallelfting. Teikn. ÁHB.

Gróbærir stönglar (vorstönglar) vaxa samtímis hinum grólausu; móleitir í fyrstu, grænka síðan og á þeim vaxa greinar; slíður og slíðurtennur lengri en á grólausum stönglum. Stöngulslíður trektlaga; 12-20 tennur með dökka miðrák og breiðan himnufald. Brúnar eða gul-móleitar gróhirzlur í axlíkum skipunum, um 2 cm á lengd.

5-40 cm á hæð (grólausir stönglar); 10-20 cm á hæð (gróstönglar). Vex í valllendismóum og víðar. Mjög algeng um land allt.

Líklegt er, að tegundinni sé oft ruglað saman við klóelftingu, enda er verkun þeirra lík.
Enska: Meadow Horsetail, Shade Horsetail, Shady Horsetail.
Danska: Lund-Padderok.
Sænska: Ängsfräken.
Norska: Engsnelle.
Finnska: Lehtokorte.
Þýzka: Wiesen-Schachtelhalm.
Franska: Prêle des Prés.

SkógelftingEquisetum sylvaticum L.
Grólausir stönglar (sumarstönglar) uppréttir, grænir, með margar greinóttar hliðargreinar, gáróttir og sívalir; Stöngulslíður ljósgræn, 9-12 slíðurtennur rauðbrúnar og loða þrjár eða fjórar oft saman. Kransstæðar greinar hvassferstrendar, reglulega greinóttar með þrístrendar, kransstæðar smágreinar; oft niðursveigðar. Tennur á greinaslíðrum græn- eða móleitar og útréttar. Gróbærir stönglar (vorstönglar) rauðbrúnir með grunnar rákir; að lokinni gróþroskun vaxa á þá greinar og stönglar verða grænir; stöngulslíður stór og trektlaga með fáar rauðbrúnar, snubbóttar tennur. Brúnar gróhirzlur í axlíkum skipunum, um 2-3 cm á lengd.

Skógelfting. Teikn. ÁHB

Skógelfting. Teikn. ÁHB

15-40 cm á hæð (grólausir stönglar); 10-20 cm á hæð (gróstönglar). Vex í skóglendi og kjarri. Mjög sjaldgæf; vex á tveimur stöðum á NV og einum á A.

Enska: Wood Horsetail, Sylvan Horsetail, Woodland Horsetail
Danska: Skov-Padderok
Sænska: Skogsfräken
Norska: Skogsnelle
Finnska: Metsäkorte
Þýzka: Wald-Schachtelhalm
Franska: Prêle des Bois

MýrelftingEquisetum palustre L. –
Hvorir tveggju stönglarnir eins frá upphafi. Stönglar eru stórgáróttir, grasgrænir með græn slíður og þríhyrndar, mjóar, dökkleitar tennur, sem eru með breiðan, hvítan himnufald. Kransstæðar greinar jafnan fimm-strendar, og er neðsti greinaliður styttri en stöngulslíður. Tennur á greinaslíðrum þríhyrndar með brúnan skammæjan odd. Gróhirzlur á enda grænna greina í axlíkum skipunum, græn- eða brúnleitt, 1-3 cm á lengd.

10-40 cm á hæð. Vex í ýmiss konar votlendi. Algeng um land allt.

Mýrelfting. Teikn. ÁHB

Mýrelfting. Teikn. ÁHB

Tegundin er allbreytileg; gróhirzlur geta verið á endum greina og þá getur hún verið nær greinalaus og líkist þá fergini. Auðvelt er að greina þær sundur á víðu miðholi fergins.

Sé mýrelfting slegin snemma og vel verkuð, þykir hún sæmilegt fóður handa sauðfé. Varasamt er að fóðra hross og nautgripi á henni einvörðungu.

Enska: Marsh Horsetail
Danska: Kær-Padderok
Sænska: Kärrfräken
Norska: Myrsnelle
Finnska: Suokorte
Þýzka: Sumpf-Schachtelhalm
Franska: Prêle des Marais

EskiEquisetum hyemale L.
Hvorir tveggju stönglarnir eins frá upphafi; sígrænir. Stönglar eru grágrænir, bognir, harðir og ógreindir. Slíður eru jafnvíð, gráhvít með dökkan hring að ofan og neðan. Tennur 10-25, falla fljótt af. Gróhirzlur svartar í axleitri skipan á stöngulenda, 0,5-1,5 cm á lengd.

15-40 cm á hæð. Vex víða í sendinni og grýttri jörð, en einnig í skógum og mólendi.

Eski. Teikn. ÁHB.

Eski. Teikn. ÁHB.

Mikill kísill safnast í stöngul, svo að hann er harður og hrjúfur. Plantan var áður fyrr notuð til þess að fægja með potta og pönnur. Þar af nafnið fægingarelfting. Gott er að sjóða eski nokkra stund, þurrka og nota síðan sem fínasta sandpappír. Einnig má taka knippi af stönglum, þurrka þá, binda um og nota sem bursta; ekki skal þó hafa fleiri í knippi en spanna má með fingrum.

Enska: Rough Horsetail, Scouringrush Horsetail, Tall Scouring Rush, Common Scouring Rush, Rough Scouring Rush, Bottlebrush, Horsetail, Field Horsetail, Horsetail, Pewterwort, Dutch Rush
Danska: Skavgræs
Sænska: Skavfräken, Skavgräs, Skurfräken, Skäfte
Norska: Skavgras
Finnska: Kangaskorte
Þýzka: Winter-Schachtel-halm
Franska: Prêle d’hiver

BeitieskiEquisetum variegatum Schleich.
Hvorir tveggju stönglarnir eins frá upphafi; sígrænir. Stönglar eru mjóir, dökkgrænir, hrjúfir og harðir, ógreindir nema neðst. Slíður uppvíð, tennur 5-8, svartar með breiðan, hvítan himnufald. Gróhirzlur svartleitar í axleitri skipan á stöngulenda.

Beitieski. Teikn. ÁHB.

Beitieski. Teikn. ÁHB.

10-35 cm á hæð. Vex í margs konar þurrlendi. Mjög algengt um land allt.

Smáeski og móeski eru önnur nöfn á tegundinni. Eskibróðir nefnist kynblendingur á milli eskis og beitieskis (E. trachyodon A. Br.).

Enska: Variegated Horsetail, Variegated Scouring Rush
Danska: Liden Padderok
Sænska: Fjällfräken, Smalfräken
Norska: Fjellsnelle
Finnska: Kirjokorte
Þýzka: Bunter Schachtel-halm
Franska: Prêle Panachée

ÁHB / 9.9.12

Leitarorð:

12 Responses to “Elftingar ─ Equisetum L.”
 1. Ognrnz says:

  order prednisone 5mg online – order prednisone 40mg prednisone prescription cost

 2. Nkhdrr says:

  provigil generic – modafinil and alcohol provigil 200 mg

 3. Lxopsn says:

  accutane 60 mg – buy accutane no prescription buy isotretinoin online

 4. Zgjnpv says:

  amoxicillin 500mg capsules for sale – buy amoxicillin 500 mg online mexico cvs amoxicillin price no insurance

 5. Jpheav says:

  ivermectin brand name – ivermectin pills canada ivermectin tablets for sale walmart

 6. Jictdw says:

  ordering cialis online in australia – can you buy cialis in canada over the counter buy tadalafil online

 7. Loncox says:

  ivermectin – stromectol coronavirus generic ivermectin cream

 8. Gotckl says:

  canadian 24 hour pharmacy – tadalafil 5mg online best tadalafil tablets in india

 9. Zdqpmy says:

  stromectol tablets 3 mg – ivermectin over the counter uk ivermectin lotion for lice

 10. Vvrrhq says:

  prednisone 50 mg coupon – buy prednisone 40mg prednisone 20mg tab price

 11. Jozglr says:

  provigil cost – provigil generic generic modafinil

 12. Bnsfir says:

  azithromycin tablet – azithromycin 250mg online buy zithromax pills

Leave a Reply