Hóffífill – Tussilago farfara

Skrifað um April 4, 2013 · in Flóra

Blómstönglar hóffífils skjóta upp kolli í apríl eða snemma i maí. Ljósm. ÁHB.

Blómstönglar hóffífils skjóta upp kolli í apríl eða snemma i maí. Ljósm. ÁHB.

Hóffíflar – Tussilago L.

Ættkvíslin Tussilago L. er innan körfublómaættar (Asteraceae (Compositae); sjá síðar). Til kvíslarinnar heyrir aðeins ein tegund, hóffífill (Tussilago farfara L); lýsing á henni er því óþörf.

Nafnið Tussilago er komið af latnesku orðunum tussis, hósti, og agere, reka burt.

 

Hóffífill – Tussilago farfara L.

Hóffífill í blóma, blöðin ekki enn sprottin. Ljósm. ÁHB.

Hóffífill í blóma, blöðin ekki enn sprottin. Ljósm. ÁHB.

Fjölær jurt með skriðulan jarðstöngul. Blöð eru á löngum legg, stór og hóflaga, bugtennt eða grunnsepótt; ung blöð hvítlóhærð, en verða síðar hárlaus á efra borði. Blöð spretta ekki upp fyrr en að blómgun lokinni; í þeim myndast mikil næring, sem geymist vetrarlangt í jarðstöngli. Þetta gerir plöntunni kleift að þroska stöngul og blóm á undan flestum plöntum öðrum að vori. Blöð minna á lítil blöð á rababara. Blómknappar myndast reyndar að hausti og þurfa því ekki nema nokkra sólardaga og hlýju til þess að blómgast. Í raun má segja, að plantan nái ekki að ljúka vexti að hausti og verði því að bíða til vors.

Augljóslega sést, að blóm eru af tveimur gerðum, jaðarblóm og hvirfilblóm. Ljósm. ÁHB.

Augljóslega sést, að blóm eru af tveimur gerðum, jaðarblóm og hvirfilblóm. Ljósm. ÁHB.

Blómstöngullinn vex upp snemma að vori og ber eina, endastæða, skærgula blómkörfu, 2 eða 3 cm að þvermáli. Á lóhærðum stöngli eru rauðleit hreisturblöð og framleiða þau nær enga næringu. Jaðarblómin eru tungukrýnd en hvirfilblómin, sem eru mun færri, pípukrýnd með fimm-tennta krónu. Það eru hvirfilblómin sem gefa frá sér blómasykur (nektar) og frjóduft en þau mynda sjaldnast fræ. Það er einkum í jaðarblómunum, sem eru eingöngu kvenblóm, sem fræ þroskast. Reifar eru í einföldum kransi, himnukenndar, grænar á röndum en annars fjólubláar.

Teikningin sýnir tvær gerðir af blómum, annars vegar tungukrýnt blóm og hins vegar pípukrýnt. Teikn. ÁHB.

Teikningin sýnir tvær gerðir af blómum, annars vegar tungukrýnt jaðarblóm og hins vegar pípukrýnt hvirfilblóm. Teikn. ÁHB.


Til er að telja þessa tegund til annarra ættkvísla, eins og Homogyne, Petasites eða Adenostyles.

Vex við hús og bæi og meðfram vegum. Upphaflega slæðingur í kaupstöðum, einkum á Suð-Vesturlandi, en er þó í öllum landshlutum. Ef til vill hefur tegundin ekki borizt til landsins fyrr en á öndverðri nítjándu öld. Tegundin er fyrst skráð hér á landi 1827 og síðan í flestum plöntuskrám til 1881. Engu að síður tekur Stefán Stefánsson hana ekki með í fyrstu útgáfu af Flóru Íslands. Þá voru reyndar tvö eintök til þurrkuð í grasasafni í Kaupmannahöfn, annað merkt Móritz Halldórssyni Friðrikssyni en hitt einhverjum Thorarensen. Þar koma einkum tveir menn til álita, báðir synir Stefáns amtmanns Thorarensen. Það eru þeir Ólafur læknir (1794-1870) og Oddur lyfsali (1797-1880), sem voru báðir við nám í Kaupmannahöfn á árunum fyrir 1820. Sem kunnugt er lærðu lyfjafræðingar grasafræði á þessum árum og var jafnvel skylt að safna plöntum. Oddur er því sennilegri safnari en Ólafur. Oddur var apótekari á Akureyri 1819-1823, síðan í Nesi við Seltjörn 1823-1833 (-4), þá í Reykjavík til 1836 að hann flytur að nýju til Akureyrar. Þá má það og vera, að tegundin hafi horfið um tíma og borizt síðan aftur til landsins.

Blómgast í apríl eða maí. 5-15 cm á hæð.

Jarðstönglar eru kraftmiklir og í jarðvegi má sjá, að þeir mynda þétt nett í tveimur eða þremur hæðarlögum. Talið er, að á einum fermetra geti samanlögð lengd allra jarðstöngla náð rúmum 100 metrum. Það getur því verið þrautin þung að uppræta tegundina, þar sem hún er til óþurftar á ræktuðum svæðum. Á hinn bóginn er tegundin viðkvæm, þolir illa skugga og rótarangar drepast, ef blöð eru klipin af, um leið og 3-5 blöð hafa myndazt.

Viðurnafnið farfara er ekki auðskilið; ef til vill skylt barba, skegg eða far, mjöl, korn. Má og vera að það sé til komið vegna þess, að blöðin líkjast blöðum á einni aspartegund.

Seyði af blöðum (tvær teskeiðar í pela af vatni) var fyrrum notað við slæmum hósta (tussilago, reka burtu hósta) og öðrum óþægindum í brjóstholi, en líka við niðurgangi. Var lengi á lyfjaskrám undir nafninu Folia Tussilaginis, en er nú talin varasöm. Ekki skal drukkið meira en tveir bollar á dag, og það þarf að vera vel sætt. Ótvírætt er, að í plöntunni eru efni (alkaloíðar), sem geta valdið krabbameini og skemmdum í lifur. Bezt er því að sjóða blöðin í vatni áður en þau eru notuð. Í Evrópu hefur verið ræktaður stofn, sem er laus við þessi efni. Þá drekka sumir seyði af blómum; þykir hæfilegt að setja sex körfur í eina könnu af vatni.

Smyrsl af blöðum er mjög græðandi og í Noregi voru þau lögð við nárahaul. Sennilega hefur plantan lítið verið notuð hérlendis og kann að hafa verið flutt inn sem lækningajurt á átjándu eða nítjándu öld. Víða erlendis var hún mikið notuð, bæði í te og líka sem sallat. Þurrkuð blöð voru notuð sem þéttiefni eða tróð, í uppkveikju og voru líka reykt, sem jafnvel tíðkast enn á Englandi („poor-man’s-baccy“). Þá er það og talið stuðla að lækkun kólesteróls.

Blöðin eru áberandi þegar um mitt sumar en þá eru blómstönglar að mestu fallnir. Ljósm. ÁHB.

Blöðin eru áberandi þegar um mitt sumar en þá eru blómstönglar að mestu fallnir. Ljósm. ÁHB.

 

Nöfn á erlendum málum:
Enska: colt‘s-foot, ass’s foot, bull’s foot, butterbur, coughwort, farfara, foal’s foot, foalswort, horse foot og winter heliotrope.
Danska: Følfod, Føllehov
Norska: hestehov, lerfivel
Sænska: hästhov, hosthäva, hostört, hästört, lungbota, brösttobak, tandvärksbota, läkeblad, tjälablomma, tjälros, tjältuppa, majblomma, lerblad, hin ondes blomma, hin ondes rova, farfarsblad, farfarsblad, fålafötter, skråp, mjölblad, surblad, skarvagräs, hästhuvud, tussilon
Finnska: leskenlehti, warsankawko, tavallinen
Þýzka: Huflattich
Franska: tussilage, tussilage, pied d’âne, pas-d’âne

ÁHB / 4. apríl 2013 og 3. maí 2016

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply