Hófsóley – Caltha palustris

Skrifað um June 1, 2013 · in Flóra · 6 Comments

Stór og fagurgul blóm einkenna hófsóley. Oftast eru blómhlífarblöð fimm en hér eru þau sex. Ljósm. ÁHB.

Stór og fagurgul blóm einkenna hófsóley. Oftast eru blómhlífarblöð fimm en hér eru þau sex. Ljósm. ÁHB.

Hófsóleyjar – Caltha
Ættkvíslin hófsóleyjar (Caltha L.) tilheyrir sóleyjaætt (Ranunculaceae). Til kvíslarinnar teljast á milli fimmtán og tuttugu tegundir, bæði á norður- og suðurhveli. Í Evrópu vex aðeins ein tegund, sem þó oft er skipt í nokkrar tegundir. Ein amerísk tegund er ræktuð hér í görðum, fjallahófsóley (C. leptocephala DC.).
Þetta eru fjölærar, hárlausar jurtir, sem vaxa upp af allt að 2 cm þykkum jarðstöngli. Stöngull er uppréttur eða uppsveigður; blöð heil, aflöng til kringlótt til nýr- eða hjartalaga, heilrend, tennt eða bogtennt; engin axlarblöð. Neðstu blöð eru stilklöng en hin efri stilklaus. Blóm endastæð eða axlarstæð, í kvíslskúfum. Blómhlíf einföld, stór og krónukennd, 5-12 blaða, hvít, bleik, gul eða rauðgul, slétt, egglaga til mjó-öfugegglaga, 4-23 cm á lengd. Blóm tvíkynja, regluleg. Fræflar margir (10-40); svo og frævur (5-55). Aldin belghýði.
Ættkvíslarnafnið Caltha er sennilega dregið af gríska orðinu kalathos, karfa.

Hófsóley – Caltha palustris L.

Fjölær, hárlaus planta með gilda, safaríka stöngla. Stofnstæð laufblöð á háum stilk, hóflaga og bogtennt, dökkgræn með gljáa, oft mjög stór (2-12 x 2-25 cm); stöngulblöð stilkstutt eða stilklaus, nýrlaga. Blöð ekki fullvaxin fyrr en að blómgun lokinni.
Blóm einstæð eða fá saman í kvíslskúf, blómleggir gáróttir; blóm stór, 15-35 mm að þvermáli. Blómhlíf er einföld; bikarblöð hafa tekið á sig mynd krónublaða, eru heiðgul (geta verið grænleit á neðra borði), 10-20 mm að lengd, oftast fimm að tölu (geta verið fleiri). Fræflar eru margir og frævur 5-15 að tölu. Aldin er belghýði með mörgum dökkbrúnum fræjum. – Í blóminu eru sykrukirtlar við frævurnar en hvorki við blómhlífarblöð né fræfla eins og er oftast. Blóm anga lítillega.

Tegundin er talsvert breytileg og í Evrópu hefur henni verið skipt í fimm tegundir. Annars staðar á Norðurlöndum er henni skipt í tvær undirtegundir (subspecies): ssp. palustris og ssp. radicans (T. F. Forst.) Syme; hin síðar nefnda myndar renglur frá blaðöxlum, sem skjóta rótum, og er með minni og ljósari blóm. Ekki er vitað til, að hún vaxi hér á landi. – Hófsóley þrífst vel í görðum og eru einkum tvö yrki ræktuð; ‘Flore pleno’ með ofkrýnd blóm og ‘Alba’ með hvít blóm.

Vex í margs konar votlendi, við læki og dý. Mjög algeng víðast hvar á landinu nema í miðhálendi og Suð-Austurlandi. Blómgast í lok maí. 10-50 cm á hæð.

 

Tegundin er mjög auðþekkt og ber mörg nöfn. Sum eru dregin af hóflögun blaða, eins og hófgresi og hófblaðka, önnur af vaxtarstað, dýjasóley og lækjasóley, og enn önnur af sóleyjum, sem hún líkist, til dæmis sóleyjarhófur, sóleyjarhvöt og veitusóley. Nafnið kúablóm kann að vera af því dregið, að óhætt er að hleypa kúm út, þegar plantan blómgast; svipuð nöfn eru til í fleiri málum. Mjög algengt er, að gul blóm á þýzku séu nefnd Dotter(-blum); Dotter merkir blómi í eggi (rauða, sem þó oftast er gul).
Hófsóley hefur lítillega verið notuð til lækninga. Ferskar jurtir eru eitraðar, en hafa verið notaðar til þess að hreinsa og græða sár. Eitrið, protoanemonin, brotnar niður við þurrkun og væga suðu. Plantan getur valdið sviða, svima og útbrotum. Blómknappar hafa þó verið hafðir til átu með smjöri og ediki eftir að hafa legið í salti og síðan soðnir. Þá gefa þeir og gulan lit séu þeir soðnir í vatni með álúni.
Gamlar heimildir um frekari lækningamátt hófsóleyjar munu vera til en ekki hefur tekizt að finna þær enn.

Hófsóley vex í votlendi; mjög oft við læki og dý. Hún er meðal fyrstu tegunda til að blómgast að vori. Ljósm. ÁHB.

Hófsóley vex í votlendi; mjög oft við læki og dý. Hún er meðal fyrstu tegunda til að blómgast að vori. Ljósm. ÁHB.

 

Samnefni: C. minor Mill., C. palustris L. ssp. minor (Mill.) Clapham, C. palustris L. var. procumbens Beck (ssp. palustris), C. palustris L. ssp. arctica (R. Br.) Hultén, C. palustris L. var. radicans (T. F. Forst.) Fr., C. radicans T. F. Forst. (ssp. radicans)
Caltha arctica R.Brown; C. asarifolia de Candolle; C. palustris subsp. arctica (R. Brown) Hultén; C. palustris subsp. asarifolia (de Candolle) Hultén; C. palustris var. arctica (R. Brown) Huth; C. palustris var. asarifolia (de Candolle) Huth; C. palustris var. flabellifolia (Pursh) Torrey & A. Gray

 

Nöfn á erlendum málum:
Enska: marsh-marigold, cowflock, kingcup, buttercup, cowslip, mayflower
Danska: (Eng-)Kabbeleje
Norska: soleihov, bekkeblom, kjørheimblom, bekkesoleie, smørblomst, mjælke¬blom, trimeltgull, vassblom, sikablom, hestehov, skolp, soløyskolm, kabbeleik
Sænska: kabbleka, kabbeleka, kabbelök, kalvleka; vanlig kabbleka (ssp. palustris), revkabbleka, liten kabbeleka (ssp. radicans), bäckblomma, bäckros, mjölkkros
Finnska: rentukka
Þýzka: Sumpfdotterblume, Dotterblume, Butterblume, Eierblume, Goldrose, Kuhblume, Wiesengold
Franska: populage des marais, soucis d’eau, caltha des marais

ÁHB / 30. maí 2013

Leitarorð:

6 Responses to “Hófsóley – Caltha palustris”

Leave a Reply