Söknuður í Vöku

Skrifað um July 31, 2016 · in Almennt

Inngangur

Skáldin og nafnarnir Jóhann Sigurjónsson (1880-1919) og Jóhann Jónsson (1896-1932) eru oft taldir brautryðjendur í íslenzkri nútímaljóðlist.

Kvæði þeirra, sem marka þessi þáttaskil, Sorg og Söknuður, birtust fyrst í Vöku – tímariti handa Íslendingum – sem gefið var út í Reykjavík á árunum 1927 til 1929. Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson birtist í 3. hefti I árgangs tímaritsins (bls. 209 og 210) 1927 en Söknuður eftir Jóhann Jónsson í 2. hefti II árgangs ári seinna (bls. 129-131).

Útgefendur Vöku voru: Ágúst H. Bjarnason, Árni Pálsson, Ásgeir Ásgeirsson, Guðmundur Finnbogason, Jón Sigurðsson, Kristján Albertson, Ólafur Lárusson, Páll Ísólfsson og Siguður Nordal. – Hér er það haft fyrir satt, að Ágúst hafi haft forgöngu um útgáfuna og haft umsjón með henni.

Aðalafgreiðslumaður var Helgi Árnason, húsvörður í Safnahúsinu í Reykjavík. Helgi mun hafa annazt bókhald og afgreiðslu rita fyrir allnokkur félög og stofnanir, auk ýmissa snúninga í sambandi við prentun.

Svo segir sagan, að Helgi hafi látið prenta innan á kápu fyrsta heftis:

VÖKU standa flestir beztu rithöfundar landsins.

Þegar Helgi kom með fyrstu eintök úr prentsmiðjunni, brást Ágúst við hinn versti og fyrirskipaði Helga að taka þessa klausu út og prenta kápuna að nýju. Aðeins örfá eintök munu vera til með þessari áletrun og er eitt á Landbókasafni og tvö í eigu höfundar þessa pistils.

ssoknuður_1

 

Söknuður

Ástæðan fyrir því, að þetta er rifjað upp hér, er sú, að fyrir skemmstu komu óvænt í ljós tveir pappakassar með handritum Ágústs H. Bjarnasonar (1875-1952), prófessors, sem legið höfðu í geymslu að minnsta kosti síðastliðin 50 ár, ef ekki lengur. Í kössunum kenndi ýmissa grasa, aðallega handrita að ritverkum Ágústs.

Meðal þess, sem vakti sérstaka athygli, var handrit Jóhanns Jónssonar skálds að kvæðinu Söknuði, sem mikið hefur verið fjallað um, bæði í ræðum og riti.

Söknuður er á tveimur blöðum, handskrifaður með 0,3 mm breiðum sjálfblekungi á drapplitan, fremur þunnan pappír, sem er lítið eitt minni en A4 eða 291×196 cm.

Svo er að sjá, að frá hendi höfundar, hafi heiti kvæðisins staðið efst, 5 cm frá efstu brún :

Kvæðið um engilbarnið, litla bróður.

Tveimur og hálfum sentímetra þar fyrir neðan stendur innan sviga:

(Brot)

Síðan hefur þessu verið breytt. Skrifað daufum stöfum með blýanti fyrir ofan titilinn:

Söknuður

Nafnið á kvæðinu er sett innan sviga og strikað yfir það, síðan er ritað þar fyrir neðan og strikað yfir brot:

Eftir

Jóhann Jónsson.

(Brot)

Þá hefur verið farið ofan í þessa stafi með grænum, 0,5 mm breiðum penna.

Efst í vinstra horn er skrifað með blýanti:
Vökustafsetning
lítill stafur fremst í ljóð-
línu nema á eftir punkti.

Efst í hægra horn er skrifað með blýanti:
Vaka II, 2 h.
bls. 129
örk
Cicero
Í kvæðinu er strikað yfir hástafi fremst í ljóðlínu með blýanti, þar sem þeir eiga ekki að vera eftir „Vökutafsetningu” og tvær ritvillur leiðréttar. Annars vegar: Mynning > minning og hins vegar eiðarlaus > eirðarlaus.

Í annan stað eru gerðar smávægilegar breytingar við setningu textans, þó að ekki sé gerð við það athugasemd í handriti:

a) einföldum samhljóða er breytt í tvöfalda samhljóða: svofeld > svofelld, druknað > drukknað, vegviltur > vegvilltur.
b) þvílíkt í handriti verður á tveimur stöðum því líkt.
c) sýngi (með brodduðu ypsiloni) verður syngi.
d) samviska > samvizka.
e) lítillega er hróflað við kommu-setningu eins og sjá má í stafréttum texta hér neðst.

 

Hér fer á eftir kvæðið eins og það er nákvæmlega skrifað af hendi höfundar. Það er alls ekki loku fyrir það skotið, að kvæðið sé til í fleiri afritum en þessu eina.

 

Kvæðið um engilbarnið, litla bróður.

(Brot)

 

Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað?
Og ljóðin, er þutu‘ um þitt blóð frá draumi til draums,
Hvar urðu þau veðrinu að bráð, ó barn, er þig hugðir
Borið með undursamleikans
Eigin þrotlausan brunn þér í brjósti!
Hvar …?

Við svofeld annarleg orð,
Sem einhver rödd lætur falla
Á vorn veg – eða‘ að því er virðist,
Vindurinn blæs gegnum strætin,
Dettur oss, svefngöngum vanans, oft drukklanga stund,
Dofinn úr stirðnuðum limum.
Og spunahljóð tómleikans lætur í eyrum vor lægra.
Og leiðindin virðast í úrvinda hug vorum sefast.
Og eitthvað, er svefnrofum líkist, á augnlok vor andar,
Vér áttum oss snöggvast til hálfs, og skilningi lostin,
Hrópar í alsgáðri vitund,
Vor sál:

Hvar!

Ó hvar? Er glatað ei glatað?
Gildir ei einu um hið liðna, hvort grófu það ár eða eilífð?
Unn þú mér heldur um stund, að megi ég muna,
Minning, hrópandi rödd,
Ó dvel!

En æ, hver má þér með höndum halda,
Heilaga blekking!
Sem vængjablik svífandi engla
Í augum vaknandi barna,
Ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum ….
Og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt druknað
Í æði múgsins og glaumsins.

Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
Hver í sínu‘ eigin lífi vegviltur, framandi maður;
Og augu vor eru haldin og hjörtu vor trufluð
Af hefð og löggrónum vana, að ljúga sjálfan sig dauðan.

En þei, þei, þei, – svo djúpt er vor samviska sefur,
Oss sönglar þó allan þann dag
Við eirðarlaus eyrun,
Eitthvað þvílíkt sem komið sé hausthljóð í vindinn,
Eitthvað þvílíkt sem sýngi vor sálaða móðir
Úr sjávarhljóðinu í fjarska …
Og eyðileik þrungið
Hvíslar vort hjarta,
Hljótt út í bláinn:
Hvar? . . . Ó hvar?

 

 

soknuður_c

 

soknuður_e

 

 

ÁHB / 31. júlí 2016

 

P.s.

Nú hefur mér borizt vitneskja þess efnis, að Jóhann Jónsson (1896-1932), skáld, hafi átt sér yngri bróður, Sigurð að nafni.

Sigurður var fæddur 18. júlí 1901 og dó 29. maí 1903. Jóhann var því á áttunda aldurs-ári, þegar bróðir hans lézt. Ugglaust hefur bróður-missirinn verið Jóhanni þung raun. Það er því ekki óvarlegt að álykta, að rekja megi upphaflegt nafn á kvæðinu Söknuði til þessa atburðar, en Jóhann nefndi það Kvæðið um engilbarnið, litla bróður.

Rétt og skylt er að geta þess, að ofangreindar upplýsingar eru fengnar hjá Oddi Helgasyni í Ættfræðiþjónustunni.
/ÁHB – 10.8.2016

 

 

Leitarorð:


Leave a Reply