Uppgræðsla með lúpínu

Skrifað um June 11, 2013 · in Gróður

Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn 1959. Ljósm. H.B.

Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn 1959. Ljósm. H.B.

Í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn var lúpínu (Lupinus nootkatensis) plantað í berangurslega mela 1958. Þar dreifðist hún hratt og myndaði samfelldar breiður smám saman. Í fyrstu var þéttleikinn mikill, en eftir því sem árin liðu gisnaði breiðan og eru nú um 1-1,5 metrar á milli stórra lúpínuhnausa. Sennilega er skýringar að leita í vatnsbúskap tegundarinnar. Innan girðingar má sjá víða þau ummerki, að lúpínan hefur hörfað fyrir öðrum plöntum.
Í stuttu máli hefur það gerzt, að á milli lúpínuhnausa hefur hlaupið mikill vöxtur í mosa, einkum Rhytidiadelphus squarrosus (engjaskraut) og aðrar tegundir náð sér verulega á skrið: Vallelfting, hrútaberjaklungur, túnfífill og blágresi, svo að fáein dæmi séu nefnd. Víðast hvar hefur lúpínan látið undan síga.
Að þessu sinni skal eitt dæmi nefnt. Á mel austarlega í girðingunni hefur nú myndazt á milli 10 og 20 cm þykkt moldarlag ofan á melnum. Árið 2008 var hafizt handa við að planta þarna birki. Ótrúlegur vöxtur hefur verið í birkinu og eru elztu plöntur komnar á þriðja metra. Þá var þar lúpína á strjálingi. Hún hefur verið skorin í tvígang. Reynzt hefur bezt að gera það um það bil tveimur vikum fyrir ætlaðan blómgunartíma, því að þá má ætla, að forði í rót frá fyrra ári sé þrotinn (kompensations-punktur).
Fyrir þremur árum kom Helgi Hallgrímsson með mér í Vatnshlíð. Minnisblað hans um heimsóknina er birt hér að neðan.
Væntanlega verður gerð nánari grein fyrir þessari síðframvindu síðar, en hér fylgja fáeinar myndir til fróðleiks.

Þetta dæmi, sem hér er sýnt, ætti að færa mönnum heim sanninn um, að það er raunhæf leið að byggja upp vistkerfið að nýju, en það tekur sinn tíma.

Lúpínan dreifði sér smám saman á melunum; myndin er tekin 1960. Ljósm. H.B.

Lúpínan dreifði sér smám saman á melunum; myndin er tekin 1960. Ljósm. H.B.

 

Á 40 árum hefur myndast 10-20 cm þykkur moldarjarðvegur; myndin er tekin 2002. Ljósm. ÁHB.

Á 40 árum hefur myndast 10-20 cm þykkur moldarjarðvegur; myndin er tekin 2002. Ljósm. ÁHB.

 

Nú er kominn vöxtulegur gróður og lúpínan horfin; birki var plantað 2008. Myndin er tekin 2012. Ljósm. ÁHB.

Nú er kominn vöxtulegur gróður og lúpínan horfin; birki var plantað 2008. Myndin er tekin 2012. Ljósm. ÁHB.

 

 

Ólafssúra, sem áður dró fram lífið á berum mel, er nú hin vöxtulegasta. Ljósm. ÁHB.

Ólafssúra, sem áður dró fram lífið á berum mel, er nú hin vöxtulegasta. Ljósm. ÁHB.

 

Hér birtist minnisblað Helga Hallgrímssonar.

Hér birtist minnisblað Helga Hallgrímssonar.

Sjá ennfremur: Vatnshlíð (uppkast)
ÁHB / 11. júní 2013Leave a Reply