Þrílaufungar – Gymnocarpium Newman
Liðfætluætt (Woodsiaceae). Ættkvíslin er fremur lítil með aðeins níu tegundir. Þrílaufungar eru taldir fremur frumstæðir og standa nærri tófugrösum (Cystopteris) og hafa á stundum myndað sérstaka ætt, tófugrasaætt (Cystopteridaceae), ásamt þeim og þriðju ættkvíslinni, Acystopteris, með samtals um 30 tegundir.
Ættkvíslarnafnið er dregið af gríska orðinu gymnos, nakinn og karpos, ávöxtur; það er komið til af því, að gróhula er engin.
Þrílaufungur – Gymnocarpium dryopteris (L.) Newman
Jarðstöngull láréttur, svartur og glansandi. Öll blöð eins. Stilkur tvisvar til þrisvar sinnum lengri en blaðka; jafnan hárlaus eða með fá hár; gagnsær, stökkur, svartur neðst og með ljósbrúnt hreistur. Blaðka er skakktíglótt, hárlaus og samsett af þremur stilklöngum, tví- til þrífjöðruðum blöðkuhlutum, gulgræn á lit. Neðstu blaðflipapör á hverjum hluta langlengst. Bleðlar fjaðurskiptir eða fjaðraðir. Gróblettir við jaðra, kringlóttir, renna saman við þroskun. Gróhula engin.
Vex í blómlendi, kjarri og gjám. Algengur eða víða um land allt, nema á S og í miðhálendinu. 15-40 cm á hæð.
Nöfn á erlendum málum:
Enska: Common Oak Fern, Western Oak Fern
Danska: Tredelt Egebregne
Sænska: Ekbräken
Norska: Fugletelg
Finnska: Metsäimarre
Þýzka: Eichenfarn
Franska: Gymnocarpe Fougère-du-chêne, Polypode du-chêne
ÁHB / 13. apríl 2013
Leitarorð: Gymnocarpium • þrílaufungur