Ulota phyllantha (ögurmosi)

Skrifað um June 18, 2013 · in Mosar

Ulota phyllantha (ögurmosi) myndar litla bólstra, sem eru lausir í sér. Ljósm. ÁHB.

Ulota phyllantha (ögurmosi) myndar litla bólstra, sem eru lausir í sér. Ljósm. ÁHB.

Í klettum og á hrauni við sjó vex Ulota phyllantha Bridel, ögurmosi, og myndar litla gulbrúna, brúna eða gulgræna bólstra. Tegundin getur líka vaxið á trjástofnum og móbergi nokkuð inni í landi, eins og í Múlakoti í Fljótshlíð.
Plöntur geta verið 0,5-5,5 cm á hæð en eru oftast 1,5-3 cm. Blöð eru 2-4 mm á lengd, aflöng til lensulaga, upprétt eða útstæð, þegar þau eru rök en þurr blöð eru uppundin og hrokkin. Blaðrönd oft flöt en getur verið lítið eitt innundin framarlega í blaði og útundin neðst. Rif er breitt og á efstu blöðum gengur það fram úr blöðkunni, þar sem það er þrútið og alsett klösum af litlum, brúnum eða rauðbrúnum æxliþráðum, 5-10 frumur á lengd.

Myndin sýnir blað af U. phyllantha, æxliþráð og blaðodd með klasa af æxliþráðum. Teikn. ÁHB.

Myndin sýnir blað af U. phyllantha, æxliþráð og blaðodd með klasa af æxliþráðum. Teikn. ÁHB.

Frumur í framhluta blaðs með mjög þykka veggi, 8-10 µm á breidd, kringlóttar en geta verið aflangar við jaðarinn; vörtóttar, oftast með tveimur vörtum beggja megin. Grunnfrumur meðfram rifi eru striklaga og við blaðjaðar er ein eða tvær raðir af breiðum glærfrumum, vörtulausum.
Plöntur eru einkynja. Hefur aldrei fundizt hérlendis með grohirzlur.
Við örlitla stækkun (10-20 x) er auðvelt að þekkja tegundina á hrokknum blöðum og rauðbrúnum klösum æxliþráða.
Ulota phyllantha (ögurmósi) tilheyrir Orthotrichiaceae (hettomosaætt) ásamt þremur öðrum ættkvíslum (sjá síðar).

Samnefni: Orthotrichum fasciculare Bridel og Ulota maritima Macoun & Kindberg

Hér má sjá fleiri myndir af U. phyllantha: Myndir

ÁHB / 18. júní 2013

Leitarorð:


Leave a Reply