Viðarkolabíll Skógræktar ríkisins

Skrifað um January 3, 2014 · in Almennt · 1 Comment

 

Inngangur

 

Á öldum áður var víða gert til kola hér á landi, enda skógur nægur í flestum sveitum. Um þetta vitna fornar heimildir, örnefni og ekki sízt kolagrafir, sem eru um land allt, jafnvel í hálendisbrúninni, þó að engan skóg sé nú að finna þar.

Það verður að teljast fremur ósennilegt, að kolagerðin ein og sér hafi gengið að skógunum dauðum. Hafi rétt verið staðið að brennslunni, kemur hún alls ekki í veg fyrir, að nýgræðingur vaxi upp, því að það eru einungis bolir af vissum sverleika, sem voru notaðir. Beitaráhrif eru miklu mun afdrifaríkari á viðgang skóglendis.

Kolin voru notuð til margra hluta, einkum við rauðablástur og í smiðju, þar sem hita þurfti ljái og dengja, svo og til margvíslegra járnsmíða. Rauðablástur lagðist af snemma og ekki sízt, þegar Torfaljáirnir leystu hina íslenzku af hólmi eftir 1867, dró strax úr viðarkolagerð hér á landi. Að vísu voru steinkol flutt inn hér um langan aldur og komu að miklum hluta í stað innlendra viðarkola. Þó var gert til kola fram á 20. öld á stöku stað, en eyðing skóganna af völdum beitar sagði þó fljótt til sín.

Kolabrennsluofn á Vöglum í Hálshreppi

 

Kolabrennslu ofn á Vöglum í Fnjóskadal. Ljósm. H.B. 1935.

Kolabrennslu ofn á Vöglum í Fnjóskadal. Ljósm. H.B. 1935.

Á Vöglum var gert til kola samkvæmt starfsskýrslum skógarvarðar, Sigurðar Kristjánssonar, í þrjú ár á árunum 1918 til 1925. Árið 1918 fengust 1700 kg, 275 kg 1921 og árið 1925 fengust 300 kg af viðarkolum. Mest af þessum kolum var sent suður til Reykjavíkur en eitthvað var selt fyrir norðan. Ekki er vitað, hver var hvatinn að þessari kolagerð og fer af henni litlum sögum. Ekki var þá til neinn sér-búnaður til þess að brenna kol á Vöglum og er því sennilegt, að það hafi verið gert í kolagröfum á gamlan máta.

Á fyrri hluta síðustu aldar var hafin umtalsverð framleiðsla á gasi til ljósa og hitunar með því að brenna timbri og kolum við lágan hita, bæði austan hafs og vestan. Þá vaknaði að nýju áhugi hérlendis á að framleiða viðarkol upp úr 1930. Árið 1931 flutti skógræktarstjóri, Agner Kofoed-Hansen, erindi í útvarp um verðmæti trjágróðurs og vék þar sérstaklega að rekstri bifreiða með skógarviði, sem þá var nýlunda.

Í því augnamiði að gera til kola í stórum stíl fékk Skógrækt ríkisins allstóran ofn til þess að brenna viðarkol í, og var hann settur upp á Vöglum í Fnjóskadal 1935. Um þetta segir Hákon Bjarnason (Frá ferðum mínum sumarið 1935. Ársrit Sk.f. Íslands 1936):

 

„Ofninn er allstór og rúmar hann 5 teningsmetra af viði í einu. Eru þeir um sólarhring að brenna til kola og fást rúm 500 kg úr hverri brennslu, ef viðurinn er í meðallagi vænn. Kolin eru síðan notuð til ýmissa hluta, eins og t.d. í svína- og hænsnafóður, við málmsmíði og ennfremur má nota þau til þess að knýja áfram bifreiðar og aflvélar. Verður gerð tilraun með bifreiðaakstur með viðarkolum á næsta sumri, og eru allar líkur til þess, að hún geti borið tilætlaðan árangur.“

Samkvæmt starfsskýrslum skógarvarða á Vöglum var gert til kola í ofninum frá 1935 til 1952. Ofninn var einkum á Vöglum, en var á stundum fluttur suður í Þórðarstaði og í Sigríðarstaðaskóg í Ljósavatnsskarði. Úr skýrslum má lesa þetta um magn á framleiddum viðarkolum, hve oft var lagt í ofninn og afrakstur hverju sinni:

 

Ár Kílógrömm viðarkola Hve oft var lagt í ofn Afrakstur (kg) / ofn
1935 ?
1936 ?
1937 5207 30 sinnum 174
1938 4600 24 sinnum 192
1939 5040 26 sinnum 194
1940 5580 31 sinni 180
1941 3595 19 sinnum 189
1942 3981 20 sinnum 199
1943 2300 12 sinnum 192
1944 1155 7 sinnum 165
1945 1850 11 sinnum 168
1946 1430 8 sinnum 179
1947 1627 8 sinnum 203
1948 ?
1949 3796 14 sinnum 271
1950 200 1 sinni 200
1951 503 2 sinnum 251,5
1952 230 1 sinni 230
Samtals: 41‘094 Meðaltal: 199,2

 

Áætla má, að framleidd hafi verið á þessu árabili um 50 tonn af viðarkolum. Eins og sést í síðasta dálki fengust aðeins 199,2 kg af viðarkolum úr hverri brennslu að meðaltali (165-230 kg). Er það miklu mun minna en Hákon Bjarnason gerir ráð fyrir hér að ofan (500 kg). Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður. Líklegt er, að um of-áætlun sé að ræða en líka hitt, að menn hafi ekki kunnað nægilega vel að gera til kola. Mest er um vert, að viður sé af ákveðnum sverleika og ekki of rakur. Það er eftirtektarvert, hve nýting eykst frá 1949, þó að ofninn sé farinn að gefa sig, og hafa menn sýnilega kunnað þá betur til verka en áður.

Skógarverðir á þessum tíma voru: Þorsteinn Davíðsson frá Hróarsstöðum 1935 og 1936, Einar G. E. Sæmundsen 1937, Páll Guttormsson 1938 og 1939, síðan Einar G. E. Sæmundsen að nýju 1940 til 1948 og þá tók Ísleifur Sumarliðason við 1949 og var til ársins 1987. Einar dvaldi lítið á Vöglum síðustu tvö árin og gegndi Þórarinn Pálsson starfi hans að einhverjum hluta.

Ekki er vitað um magn viðarkola fyrstu tvö árin í tíð Þorsteins Davíðssonar, en frá þeim tíma eru til góðar heimildir, að árinu 1948 undanskildu.

Árið 1944 er afrakstur að eins 165 kg á hvern ofn og segir í skýrslu skógarvarðar, Einars G. E. Sæmundsen: „ Er þetta hin lægsta meðaltala sem fengist hefir síðan byrjað var með ofninn, enda hvorutveggju að kenna að ofninn er nú mjög farinn að láta sig, svo erfiðleikum er bundið að byrgja hann að hverri brennslu lokinni, svo og nokkur mistök.“

 

Árið 1949 var ofninn orðinn svo lélegur, að ekki var unnt að fara með hann fram í Þórðarstaði. Árið eftir var aðeins einu sinni lagt í ofninn, en vegna mikillar eftirspurnar árið 1951 var tvisvar gert til kola. Það var þó hvergi nóg til þess að sinna öllum pöntunum. Síðast var lagt í ofninn 1952; eftir það var hann lengi notaður sem reykingarkofi á Vöglum, en nú er hann löngu horfinn, því miður, að sögn Sumarliða Ísleifssonar.

 

Nýting á viðarkolum

Viðarkolin voru seld og notuð til smíða, en aðallega í svína- og hænsnafóður í Reykjavík og nágrenni eftir því sem segir í Ársriti Skógræktarfélags Íslands 1940 (sjá Hákon Bjarnason: Starf Skógræktar ríkisins árið 1939).

Það kann að koma sumum á óvart, að viðarkol voru notuð í fóður handa svínum og hænsnum. En allnokkurt magn af kolum var selt til þeirra nota á næstu árum. Þetta var gert til þess að bæta meltinguna í þessum skepnum. Í Plógi árið 1907 (9. árg., 11. tbl. bls. 85) er einmitt sagt: „Viðarkol, möluð, er gott að gefa hænsnum með mat, því að þau flýta fyrir meltingunni.“

Á sama stað er sagt frá því, að flutningabifreið Skógræktar ríkisins gangi fyrir viðarkolum. Skal nú greint frá því nánar.

 

Bifreiðar knúnar viðarkolagasi

Áður var minnzt á útvarpserindi A. Kofoed-Hansen um rekstur bifreiða með viðarafurðum. Á millistríðsárunum, en einkum á styrjaldarárunum, óttuðust menn mjög hörgul á benzíni. Þá var fundinn upp búnaður til þess knýja ökutæki með gasi. Búnaðurinn var all fyrirferðarmikill og hluti hans var hafður uppi á pallinum. Myndin hér að neðan lýsir búnaðinum í grófum dráttum (heimild: http://www.ferguson-felagid.com/index.php?option=com_content&view=article&id=775:viearkol-knyja-drattarvel&catid=1:frttir&Itemid=7).

Teikningin lýsir búnaði, sem tengdur var við vél bifreiðar.

Teikningin lýsir búnaði, sem tengdur var við vél bifreiðar.

 

Í Ársriti Sk.f. Íslands 1937 er greinastúfur um sama efni eftir Hákon Bjarnason, sem hljóðar svo:

„Notkun viðar og viðarkola til þess að knýja bifreiðar fer sífellt í vöxt. Þann 1. janúar síðastliðinn áttu allar vöruflutningabifreiðar í Ítalíu að geta gengið fyrir viðarkola- eða viðargasi. Í Hamborg og Osló ganga nú margir strætisvagnar eingöngu fyrir viðarkolagasi, og á Frakklandi breiðist notkun þessara farartækja ört út. Í vetur kom fram tillaga um það í Svíþjóð, að keyptir væru nú á næstunni 60 slíkir bílar handa hernum, svo að hann gæti flutt sig fram og aftur þótt bensínskortur yrði. Fyrir skömmu hefur verið gerð mikil endurbót á viðarkolabílunum, og geta þeir ekið jafnhratt og eru jafn aflmiklir og bensínknúnir bílar. En fram að þeim tíma misstu vjelarnar 15-20% af afli sínu, þegar kol voru notuð. Talið er, bæði í Noregi og Svíþjóð, að akstur með viðarkolum sje 2/3 ódýrari heldur en með bensíni. Sá aukaútbúnaður, sem á bílnum er, til þess að þeir geti notað viðarkol, kostar um 2000,00 kr., og þarf því ekki að aka mikið áður en hann hefur borgað sig.

Hjer á landi er nú einn slíkur bíll, en af því, að hann kom fyrst til landsins í haust er leið, er lítil reynsla fengin enn. Hann hefur þó farið tvær ferðir austur yfir fjall og í annari ferðinni bar hann næstum 2 tonn upp Kamba jafn ljettilega og hann gengi fyrir bensíni. Mesti hraði, sem hann hefur náð er 75 km á klukkustund, og er það meira en nægur hraði fyrir vörubifreið. Þegar fengin er betri vitneskja um, hve mikið kostar að knýja bílinn, verður skýrt frá því.“

 

Um bíl þennan er heldur lítið vitað. Að vísu voru manni sagðar ýmsar sögur af afrekum þessa bíls og ferðum, sem farnar voru á honum. Hann þótti nokkuð bilanagjarn. Eftir því sem mér var sagt, var hann fyrst keyrður heitur á benzíni, en síðan var svissað yfir á viðarkolin. Þá gekk hann alveg prýðilega.

 

Diamond T, viðarkolabifreið Skógræktar ríkisins. Ljósm. H.B. 1938.

Diamond T, viðarkolabifreið Skógræktar ríkisins. Búnaðurinn til að nýta viðarkolin er aftan við sýrishúsið. Ljósm. H.B. 1938.

Örnólfur Thorlacius sagði mér það einhverju sinni, að hann myndi vel eftir því, þegar karl faðir minn kom akandi á þessari skröltandi vörubifreið austur að Fremstafelli í Kinn með plöntur á pallinum. Sennilega hefur það verið 1938 eða 39 og Örnólfur þá á 8. eða 9. ári og var þar í sveit hjá afa sínum.

Þá segir Haukur Ragnarsson frá því, að „það mun hafa verið snemma sumarið 1938 að ég sá Hákon Bjarnason fyrst. Það var austur á Laugarvatni og ég á níunda ári. Hann var þar á bíl Skógræktar ríkisins, sem knúinn var með viðarkolagasi.“ Heimild: http://www.mbl.is/greinasafn/grein/181248/

Vörubifreiðin, sem um ræðir, var Diamond T, að líkindum árgerð 1935 (eða 4) og bar skrásetningarnúmerið R-924. Lengst af var hún notuð á Vöglum, bæði við vegagerð og til flutninga en einnig til þess að knýja hjólsög. Sést það greinilega á mynd, hvernig sögin var drifin með breiðri reim frá afturhjóli bílsins.

 

Hjólsög til þess að saga við. Sögin var drifin með breiðri reim af afturhjóli viðarkolabílsins. Ljósm. H.B. 1938.

Hjólsög til þess að saga við. Sögin var drifin með breiðri reim af afturhjóli viðarkolabílsins. Kolaofninn í baksýn. Ljósm. H.B. 1938.

Í starfsskýrslu skógarvarðar, Páls Guttormssonar, 1938, er sagt um skógarbílinn (viðarkolabílinn), að hann hefði verið geymdur á Vöglum um veturinn. Þá var hann notaður til að flytja við til Akureyrar og Reykjavíkur og um nágrennið. Einnig var sótt á honum tjald vestur í Skagafjörð. Í starfsskýrlu Páls 1939 er sagt, að kosta þurfti upp á all mikla viðgerð á bílnum.

 

Ljósm. H.B. 1938.

Hér má sjá, hvernig sögin var tengd við vörubílinn. Ljósm. H.B. 1938.

Að öðru leyti er ekki vikið að viðarkolabílnum, en 1949 er tekið fram, að hjólsög sé nú drifin af dráttarvél, og virðist bíllinn þar með úr sögunni.

 

 

ÁHB / 3. janúar 2014

 

 

Leitarorð:

One Response to “Viðarkolabíll Skógræktar ríkisins”
  1. CharlesHiecy says:

    “I haven’t seen you in these parts,” the barkeep said, sidling over and above to where I sat. “Name’s Bao.” He stated it exuberantly, as if solemn word of honour of his exploits were shared by way of settlers around multifarious a ‚lan in Aeternum.

    He waved to a wooden hogshead apart from us, and I returned his gesticulate with a nod. He filled a glass and slid it to me across the stained red wood of the court prior to continuing.

    “As a betting man, I’d be assenting to wager a adequate piece of invent you’re in Ebonscale Reach for the purpose more than the carouse and sights,” he said, eyes glancing from the sword sheathed on my hip to the bend slung across my back.

    https://images.google.hu/url?q=https://renewworld.ru/new-world-kak-popast-na-alfa-i-beta-testy/

Leave a Reply