Allt fólk er mjer undur gott

Skrifað um November 21, 2020 · in Almennt

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Jón Ólafsson (1852-1916), ritstjóri, flúði tvisvar úr landi vegna skrifa sinna. Í fyrra sinnið hélt hann til Noregs og dvaldi í Bergen um tíma eftir að hann birti Íslendingabrag í Baldri hinn 19. marz 1870. Seinna sinnið hélt hann til Ameríku eftir deilur við Hilmar Finsen landshöfðingja.

Í Bergen komst hann í kynni við helztu broddborgara þar í bæ. Það er eflaust því að þakka, að þá höfðu nokkrir landar hans áhuga á að efla samskipti við Norðmenn um gagnkvæm viðskipti. Þar fóru fremstir í flokki Þorsteinn Egilson og Sigfús Eymundsson, sem vann þar við bókband og lærði ljósmyndun.

Hér á eftir fer bréf, sem hann skrifaði móður sinni Þorbjörgu Jónsdóttur (1830-1910). (Sjá skýringar í lokin.)

Bergen (í Noregi) 8./1. 1871

Elskulega mamma mín!

Hjeðan er það þá, sem jeg þetta á óska þjer og ykkur öllum gleðilegs nýárs, og óska að guð gefi ykkur allar stundir gleðilegar.

Jeg sigldi úr Rvík 10. október í haust og kom hingað 15. sm. , var vel 5 daga á leiðinni. Jeg sigldi á gufuskipinu „Þór“, sem „det islandske Handelssamlag“ hjer í bænum á. Jeg sigldi í tvennum tilgangi, nf. fyrst til að vera hjer óhultur meðan hæstarjettardómur fjallar í máli mínu, svo að ef hann fjelli móti mjer, þá gæti jeg fengið mjer fasta stöðu hjer (og það gjöri jeg ef svo fer, og þá vona jeg að geta tekið ykkur Strúnu til mín) en ef jeg vinn málið við hæstarjett, þá hef jeg í huga að koma inn aptur og er þá að hugsa upp á að setja á stofn prentsmiðju í Reykjavík, því ef á þarf að halda, tekst mér líkl. að fá fjelán hjer til þess að kaupa nýja prentsmiðju héðan og flytja til Íslands. Og yrði jeg þá að veðsetja prentsmiðjuna fyrir láninu.

Jeg lifi hjer á að kenna, þýzku (sem jeg nú tala og skrifa, en það kann enginn annar Íslendingur) og svo Mathematic og italiensk Bogholderi (það er eitt af því sem jeg hef lært af sjálfum mjer af bókum í hjáverkum meðan jeg var í skóla, og kemur það nú í þarfir) og svo kenni jeg íslenzku. Þess utan er jeg medarbejder i „Bergens Tidende“ og hefi laun fyrir það. Alls eru tekjur mínar hjerumbil 24rdl [ríkisdalir] um mánuðinn, en það er rjett að eins til að lifa við og ekki meira, því hver maður, sem lifir af kennslu hjer og blaðaritun verður að halda sig vel! Þannig geld jeg 100rdl um árið í húsaleigu fyrir stofu og svefnkamers og klæðaskáp. En svo eru mublurnar líka elegant. Fjaðradívan, rörstólar, mahoníborð, loptið með gylltum römmum; í svefnkamersinu pólerað mahónírúm, græn rúmtjöld og marmaraservant. – En jeg á í von að fá meiri atvinnu við blaðið, og ef jeg vil staðnæmast hjer, þá get jeg fengið góða stöðu.

Allt fólk er mjer undir gott og jeg er borinn á höndunum og einlægt í heimboðum. Jeg hef líka frítt pláss í theatrinu hvert kvöld, það fylgir blaðinu. Janson og hans fólk heldur ósköp upp á mig og mágur hans Agent Lund stórríkur maður er svo góður við mig að jeg gæti ekki betra átt þótt jeg væri barnið hans. Þegar jeg kom var jeg fjelítill og nokkur stund leið unz jeg fjekk atvinnu, en Lund bauð mjer peninga og allt, sem jeg þurfti og þó jeg vildi ekki þyggja það, þá komst jeg ekki undan því. Jeg hefi nú getað borgað honum það til baka, en get aldrei launað honum alla góðsemd hans við mig sem vert er. Það gjörir guð. Janson og móðir hans og systkin eru elskulegt fólk. Henrik Krohn (skáldið) er eins, og sömuleiðis Habel ritstjóri „Bergens Tidende“. Jeg hef ritað mikið í blöðin hjer og hjer þyki jeg góður blaðamaður. Jeg skal með næstu ferð senda þjer allt sem jeg hef skrifað. Jeg hefi í hyggju að skrifa bók um Ísland, sem Giertsen bóksali hjer vill forleggja og borga mjer honora fyrir. Í „Vestmannalaget“ (fjelagi málstrævaranna hjer) hefi jeg haldið fyrirlestur tvisvar og gjörði mikla lukku. Danska „Dagbladet“, sem kom hingað í gær, hafði skammargrein um mig. Samdægurs (í gærkvöldi) kom hjer út í Bergenstíðindum forsvar fyrir mig eptir Habel ritstjóra. Jeg bið sjera Jón ?son að senda þjer 2 Expl af því sem út er komið af kvæðum Kristjáns, og mynd hans. Endirinn kemur út í vor.

Jeg hef nú ekki meira að skrifa að sinni, en skal skrifa þjer betur næsta sinn með skipi, sem fer hjeðan í enda þessa mánaðar.

Heilsaðu Páli bróður kærlega og biddu hann að skrifa mjer. Hann má lesa brjefið. Kysstu Strúnu frá mjer. Heldurðu þið gætuð ekki unað ykkur í Noregi, ef til þess kemur? Fólkið er undur gott hjer og heldur makalaust upp á Ísland. Þið verðið kyrrar þetta ár? Æ, gjörið þið það; jeg er viss um að Páll lofar ykkur það; hann hefir gjört meira fyrir okkur. Það eina, sem að gæti kvalið mig, það er að ykkur líði ekki vel. Segðu mér hverninn ykkur líður. Lofaðu Strúnu að lesa brjefið, hún verður að skrifa mjer. Guð sje með ykkur öllum saman. Þess biður þinn elskandi
sonur

Jón Ólafsson

 

Skýringar:

Bréf þetta skrifaði Jón Ólafsson (1850-1916) móður sinni Þorbjörgu Jónsdóttur (1830-1910).

„Det islandske Handelssamlag“ var félag, sem Þorsteinn Egilson og Sigfús Eymundsson stofnuðu í Bergen 24. maí 1870. Tilgangur þess var að stofna til viðskipta á milli Noregs og Íslands til að sporna við ofurvaldi danskra kaupmanna. Norskir stórkaupmenn fjármögnuðu fyrirtækið. – Lesa má nánar um félagið hér: https://timarit.is/page/3310312#page/n5/mode/2up

Strúna er Kristrún Ólafsdóttir (1855-1929), systir Jóns.

Janson er að öllum líkindum Jacob Neuman Janson (1839-1894). Hann var af efnuðu fólki og átti meðal annars verksmiðju, sem gerði reipi (Repslageri Fabrikk).

Agent Lund hét John Theodor Lund (1842 – 1913). Hann var aðsópsmikill í Bergen á þesssum árum, fékkst bæði við kaupmennsku og stjórnmál og sat í stjórnum margra félaga. Hann var meðeigandi í Bergens Tidende og fyrsti ritstjóri þess. Kona hans, Georgine Johanne, var systir Jansons, en faðir þeirra, Helmich Janson (1804-1868), var amerískur konsúll og einn ríkasti kaupmaður í Noregi.

Henrik Krohn (1826 –1879) var skáld, ritstjóri og mikill hugsjónamaður. Meðal verka hans er ljóðabókin Smaakvæde frá 1867. Hann var harður baráttumaður fyrir nýnorsku. – Hann var mikill vinur Sigfúsar Eymundssonar og Þorsteins Egilsonar, þegar þeir stofnuðu „Det islandske Handelssamlag“.

David Chrystie Habel (1844 – 1890) var ritstjóri „Bergens Tidende“, en lét af störfum við lok ársins 1871.

Edvard Barfred Giertsen (1827 – 1898) lærði bókband í Þýzkalandi, stofnaði bókbandsstofu við heimkomu og hóf síðar útgáfustarfsemi.

Sjera Jón er óþekktur, því að föðurnafn er óglöggt og því ekki vitað um hann nánar.

Jón sá um útgáfu á ljóðmælum Kristjáns fjallaskálds, sem komu út 1872. Það má vera, að þau hafi verið prentuð í tvennu lagi.

Páll Ólafsson (1827-1905), bóndi og skáld, var hálfbróðir Jóns.

Leitarorð:


Leave a Reply