Súruætt ─ Polygonaceae

Skrifað um December 3, 2012 · in Flóra

Blóðarfi eða hlaðarfi vex oft í görðum og hlaðvörpum en líka í fjörum. Ljósm. ÁHB.

Blóðarfi eða hlaðarfi vex oft í görðum og hlaðvörpum en líka í fjörum. Ljósm. ÁHB.

PLÖNTUR SÚRUÆTTAR (Polygonaceae) eru jurtir, runnar og jafnvel tré. Stöngull er jarðlægur eða uppréttur, á stundum vafstöngull. Blöð eru dreifð, oftast stakstæð og heil, mjög sjaldan gagnstæð. Axlarblöð eru ummynduð í himnukennt, uppvítt axlarslíður (ochrea), sem lykur um stöngulinn og axlarbrumið (nema í Eriogonum).

Axlarslíður er eitt megineinkenni súruættar. Teikn. ÁHB.

Axlarslíður er eitt megineinkenni súruættar. Teikn. ÁHB.

Blómskipanir eru samsettar, ax- eða klasaleitar. Blóm eru regluleg, ein- eða tvíkynja, oft smá. Blómhlíf tví-, þrí- eða fimm-blaða; öll blómhlífarblöð oftast eins (tepals). Fræflar 3-9 (oft jafnmargir blómhlífarblöðum), í tveimur krönsum. Stílar 1-3. Aldin er flöt eða þrístrend hneta (hnot), oftast að mestu umlukt blómhlíf.

Til súruættar teljast 54 ættkvíslir og 1150 tegundir. Fæstar tegundir hafa verið nýttar. Bókhveiti (Fagopyrum) er mikið notað í stað korns, einkum í Kína og Japan, enda eru fræ í súruætt einkar sterkjurík. Blaðstilkar á rabarbara eru nýttir, blöð á súrum (Rumex) höfð í sallöt og á einni tegund (Coccoloba uvifera) myndast æt aldin. Margar tegundir ættarinnar teljast til illgresis. Allnokkrar tegundir eru ræktaðar sem skrautblóm og eru þær yfirleitt blaðstórar.

Nafnið Polygonaceae er dregið af Polygonum, sem merkir „með mörg hné“; úr grísku, polys, margur og goni, hné, enda eru margir stönglar liðskiptir.

Níu tegundir teljast til íslenzku flórunnar og skiptast þær á sex ættkvíslir. Um 12 slæðingar vaxa hér að auki.

Lykill að ættkvíslum:

1. Blómhlíf 3-blaða. Neðstu blöð gagnstæð; örlítil jurt ….. naflagrös (Koenigia)
1. Blómhlífarblöð 4 eða fleiri; blöð stakstæð eða stofnstæð ……………. 2
2. Blöð nýrlaga. Blómhlífarblöð 4; hin ytri útstæð, hin innri upprétt og mun stærri. Hnot flöt með breiðan himnufald …………………………………… lambasúrur (Oxyria)
2. Blöð ekki nýrlaga. Blómhlífarblöð 5 eða 6 ……………………………………… 3
3. 6 blómhlífarblöð laus hvert frá öðru; hin ytri eru minni en hin innri; 6 eða 9 fræflar .. 4
3. 5 jafnstór blómhlífarblöð samvaxin neðst; 5-8 fræflar ………………………… 5
4. 9 fræflar; með handstrengjótt, hjartlaga stofnblöð ………….. tröllasúrur (Rheum)
4. 6 fræflar; blöð ör- eða spjótlaga, egg- eða lensulaga …………………..súrur (Rumex)
5. Frjóþráður sívalur; hnot styttra eða lítið eitt lengra en bikar, situr fast ……… 6
5. Frjóþráður flatur; hnot langt og situr laust; blöð breiðörlaga; slæðingar ………….. ……………………………………………………………………………. bókhveiti (Fagopyrum)
6. Blóm í endastæðu axi eða axleitri blómskipan ………………………………………. 7
6. Blóm í blaðöxlum, einstök eða í viftulaga hálfkvísl ………………………………. 8
7. Ein- eða fjölær; oft greinóttar plöntur; enginn hnöllóttur jarðstöngull ………………… ………………………………………………………………………….. blöðkujurtir (Persicaria)
7. Fjölær; stöngull ógreindur, uppréttur, endastætt ax; með hnöllóttan jarðstöngul ……… ………………………………………………………………………… kornsúrur (Bistorta)
8. Blöð stilkstutt eða stilklaus, sporbaugótt eða öfugegglaga, geta verið mjólensu- eða striklaga. Stönglar marggreindir, jarðlægir eða uppréttir ..hnútagrös (Polygonum)
8. Blöð breið, oft þríhyrnd, með bug við grunn, svo að blaðið verður hjart- eða örlaga. Vafstöngull eða stinnur uppréttur stöngull …………………………. vafsúrur (Fallopia)

Ættkvíslir innan súruættar (íslenzkar kvíslir eru feitletraðar):
Acanthoscyphus, Aconogonon, Afrobrunnichia, Antigonon, Aristocapsa, Atraphaxis, Bistorta, Brunnichia, Calligonum, Centrostegia, Chorizanthe, Coccoloba. Dedeckera. Dodecahema, Emex, Eriogonum, Fagopyrum, Fallopia, Gilmania, Goodmania, Gymnopodium, Harfordia, Hollisteria, Homalocladium, Johanneshowellia, Knorringia, Koenigia, Lastarriaea, Leptogonum, Mucronea, Muehlenbeckia, Nemacaulis, Neomillspaughia, Oxygonum, Oxyria, Oxytheca, Parapteropyrum, Persicaria, Podopterus, Polygonella, Polygonum, Pteropyrum, Pterostegia, Pteroxygonum, Reynoutria, Rheum, Rumex, Rubrivena, Ruprechtia, Sidotheca, Stenogonum, Symmeria, Systenotheca, Triplaris.

ÁHB / 3.12.2012

 

Leitarorð:


Leave a Reply