Sjera Ólafur Indriðason (16. ágúst 1796-4. marz 1861)

Skrifað um October 18, 2013 · in Almennt

Nokkur brot úr ævi hans

Ágúst H. Bjarnason tók saman

Sjera Ólafur Indriðason

Eftirfaraqndi pistill birtist í tímaritinu Íslendingi þriðja ári frá 19. apríl 1862 til 25. apríl 1863:

„Sá, sem ritar línur þessar, var fyrir rúmum 30 árum barn að aldri, og átti þá heima austur í Múlasýslum. Hann minnist enn á fullorðins-árunum hins fagra Fljótsdalshjeraðs og hinna góðu manna, sem þar voru þá, og sem hann kynntist við. Margir þeirra eru nú fluttir hjeðan á burt til hins ókunna lands, og einn á meðal þeirra er sjera Ólafur Indriðason, en þá var hann ungur og nppvaxandi, fjörmaður hinn mesti, bæði til sálar og líkama, hneigðist þó mjög til bóka, og las allt það, er hann komst höndum yfir; hann var góðglaður í viðmóti og gamansamur í orði, og dró það oss, scm yngri vorum, til hans; hann ljet einatt fjúka í kviðlingum, og þó hann gæti verið vel kýminn og meinyrtur, þá beitti hann mjög sjaldan því vopni, og, án alls efa, því sjaldnar, sem honum jókst aldur og vizka. Forlögin höguðu því svo, að hann staðnæmdist þar eystra, en leiðir mínar lágu hingað suður; við sáumst eigi síðan 1828, nema litla stund dags árið 1834, en brjef hafa margopt gengið milli okkar þangað til í fyrra, að dauðinn leyfði eigi þau viðskipti lengur. það mun því fáum skyldara eða ljúfara en mjer, að rita nokkur orð um sjera Ólaf, úr því ekki er lengur kostur að rita honum, og gjöra vildi jeg mitt til, að halda minningu hans á lopt, þótt hann reyndar sjálfur hafi með ritum sínum reist sjer álitlegan minnisvarða. Það er ekki ofhermt, þótt sagt sje, að sjera Ólafur hafi verið einn af hinum merkustu prestum þessa lands á þeirri tíð, sem hann var uppi, enda hafði hann margt til þess. Hann var góður gáfumaður og gáfurnar einkar-fjölhæfar, fróðleiksástin frábær, og mun eigi auðvelt, að fylgja bókmentastraumi tímans betur, en hann gjörði, á jafnafskekktum stað og þeim, sem hann bjó á alla æfi; hann hefur eflaust verið einna-bezt að sjer af öllum samtíðamönnum hjer á landi, sem eigi höfðu komizt til útlanda og náð þar meiri menntun; kennimaður var hann sagður með hinum beztu; hann var gott skáld og hefur margt kveðið; mun hann einkum, hinn seinni hlut æfinnar, þegar hugur hans hneigðist, hvað helzt að hinu æðsta og fegursta, hafa lagt fyrir sig sálma-kveðskap; er til eptir hann allmikið sálmasafn, og þar að auki mikill fjöldi annara kveðlinga, sem vel eru þess verðir að haldið væri saman og forðað frá glötun; hann hafði allgott vit á lækningum, og varð með því móti einnig mörgum að liði. Hvað dagfar hans og hegðun snerti, var hann einhver hinn skemmtilegasti, við-kunnanlegasti og siðprúðasti maður; þyrfti einhver liðs við, var hann fús til hjálpar í orði og verki; skyldurækinn og reglumaður hinn mesti; ástríkur konu og börnum. Það er víst, að því lengur sem menn þekktu hann, því betur varð hver og einn að sannfærast um, að hann var sannur mannvinur og rjettnefnt valmenni. Eins og hann var mikils metinn og ástsæll af sóknarbörnum sínum og öllum, sem kynntust honum, eins hef jeg heyrt, að yfirboðarar hans hafi haft miklar mætur á honum, og það veit jeg með vissu um þá tvo, Hallgrím prófast Jónsson á Hólmum og Helga biskup Thordersen.

Hin helztu atriði æfi sinnar hafði sjera Ólafur ritað sjálfur, og fannst það eptir hann látinn, en sjera Hallgrímur prófastur sýndi mjer þann góðvilja, að senda mjer það, og er það prentað hjer orðrjett.

»Jeg er fæddur á Borg í Skriðdal (Þingmúlasókn í Suður-Múlasýslu) 15. dag ágústm. 1796. Faðir m[inn] hjet Indriði Ásmundsson, bóndason úr Eyjafirði, hreppst. 1786-1811 (settur lögsagnari í Sms. árin 1799 og 1801). Ásmundur var Helgason, bróðir Jóns Helgasonar, er var sýslumaður í eystri Skaptafellssýslu frá 1758-1798 (langafi sjera Brynjólfs í Vestmannaeyjum), og Björns Helgasonar, föður Benidikts bónda, er lengi bjó að Hvassafelli í Eyjafirði. Móðir m[ín] hjet Kristín Andrjesdóttir, kynjuð úr Vopnafirði, af ætt sjera Ólafs Guðmundssonar (blinda), er lengi var prestur að Sauðanesi. Jeg ólst upp hjá foreldrum mínum, þangað til jeg var 15 ára; þá var mjer haustið 1811 komið til kennslu hjá Sigfúsi presti Finnssyni á Þingmúla, og hinn næsta vetur hjá Guttormi prófasti Pálssyni á Hólmum. Vorið 1814 missti jeg föður minn, og hefði jeg þá neyðzt til að hætta við lærdóm, ef prófastur sjera Guttormur hefði eigi haldið á fram þeirri góðvild, sem hann hafði upp tekið, að halda mig og kenna mjer á vetrum fyrir mjög litla borgun, og þó leyfa mjer að vera heima á sumrum til aðstoðar móður minni, er komin var á sjötugs-aldur, einstæðingur og bláfátæk. Árið 1816 var jeg svo heppinn, að komast snöggsinnis í kynningu við þáverandi sýslumann í Suður-Múlasýslu (síðan amtmann) P. Melsteð, er hann var á þingferðum sínum; sá fundur okkar dró til þess, að hann falaði mig sjer til aðstoðar við skriptir vorið 1817, og tók mig upp frá því algjört að sjer, kenndi mjer á vetrum, efldi svo vel, sem auðið var, framfarir mínar i allri menntun, sótti fyrir mig um ölmusu í Bessastaðaskóla, þó eigi hefði það þann árangur, er mjer gæti að notum komið, þar jeg fjekk eigi nema hálfa ölmusu, en skorti efni. Sendi hann mig því, þegar hann hjelt mig færan til, undir lærdómspróf Geirs biskups Vídalíns, er útskrifaði mig 16. júlí 1819. Að því búnu veik jeg aptur að Ketilsstöðum til velgjörara míns, sem árið 1820 útvegaði mjer aðstoðarprests-þjónustu hjá Jóni presti Stefánssyni í Vallanesi; fór jeg svo að sækja prestsvígslu á útmánuðum veturinn eptir, og var vígður á pálma-sunnudag 1821. Hjer um mánuði eptir, að jeg kom frá vígslu, andaðist Jón prestur, og þjónaði jeg því einn Vallanessókn til þess í fardögum 1822, og hafði þangað til heimili á Ketilsstöðum. Þetta vor gekk jeg að eiga fyrri konu mína, Þórunni Einarsdóttur, fátæka bónda-dóttur úr Skriðdal, sem jeg hafði trúlofazt, þegar jeg var á 18. árinu, tók til mín móður mína, sem jeg hafði komið fyrir hjá hálfbróður mínum, meðan jeg var á Ketilsstöðum, og flutti að Hólmum í Reyðarfirði, sem jeg var fenginn til að þjóna, meðan doktor G. Brynjúlfsson, er hafði fengið þetta brauð, gat ekki tekið við því. Á þessu ári sálaðist móðir mín. Um haustið 1822 fjekk jeg aðstoðarprests-þjónustu í Dvergasteins- og Fjarðarsókn-um, hjá Salamoni presti Björnssyni, og flutti að Dvergasteini vorið 1823. Þar var jeg aðstoðarprestur í 10 ár. Árið 1832 var mjer veitt Kolfreyjustaða-prestakall, og flutti jeg þangað í fardögum 1833 með konu minni, sem áður er nefnd. Með henni átti jeg 7 börn: Önnu, fædda 20. sept. 1823; Ólavíu, 16. nóv. 1825; Pál, 8. marz 1827; Kristínu, fædda í júlí 1828; Sigríði, fædda í apríl 1832; Helga, fæddan 19. okt. 1836 (þessi 3 næstnefndu sáluðust öll á 1. ári); Önnu Þórunni, fædda 11. júní 1839. Árið 1848, 30. janúar, andaðist fyrri kona mín. Árið 1849 giptist jeg aptur Þorbjörgu Jónsdóttur, Guðmundssonar gullsmiðs á Vattarnesi, sem þá var tvítug að aldri; með henni hef jeg eignazt tvö börn: Jón, fæddan 20. marz 1850, og Kristínu, fædda 28. marz 1855.«

 

Á öndverðu ári 1861 gengu megn veikindi og mannskæð í Múlasýslum; var sjera Ólafs þá sem optar vitjað til sjúkra, og hlífði hann sjer þá ekki, heldur en hans var venja; en þar kom, að hann fjell sjálfur í valinn og reis ekki á fætur framar. Hann andaðist á Kolfreyjustað 4. dag marzmánaðar 1861; frjettist lát hans hingað til Reykjavíkur 9. maí, sama dag, sem vinur hans Páll amtmaður Melsteð andaðist í Stikkishólmi.

Það, sem jeg hef fyrst fundið prentað eptir sjera Ólaf, eru vísur þær, sem lesa má í Klaustu[r]pósti 1819, bls. 143; því næst mun vera „brjef frá Austfjörðum,, í 2. ári Fjölnis, sem jeg veit eigi betur en að sje eptir hann. Þá, »sjö föstuprjedikanir«, prentaðar í Viðey 1844; á þær var lagður kaldranalegur dómur í »nýjum fjelagsritum» 5. ári; ritaði sjera Ólafur, »athugasemdir« gegn þeim ritdómi og ljet prenta í Kaupmannahöfn 1847. Enn fremur hefur hann samið »nýtt bæna- og sálma-kver», prentað í Reykjavík 1853, og »andlegt sálmasafn«, prentað á Akureyri 1857. Ekki hef jeg sjeð fleiri ritgjörðir en þessar, sem nú voru nefndar, frá hans hendi, en líklegt þykir mjer, að fleiri ritlingar sjeu til eptir hann, þótt eigi hafi komið á prent, því að honum var mjög ljúft að gjöra aðra hluttakandi í því, sem sjálfum honum bjó innanbrjósts; þó honum væri ekki svo liðugt um mál, var honum mjög Ijett um ritandann. Hinn ágæti öldungur, sjera Jón Þorsteinsson, fyrrum prestur til Reykjahlíðar og Skútustaðar við Mývatn, síðan til Kirkjubæjar í Hróarstungu, og nú á Hólmum í Reyðarfirði, orkti eptir sjera Ólaf Ijóðmæli á latínska tungu; setjum vjer þau hjer til þess, að benda hinum yngri mönnum á fagra íþrótt, er feður vorir og forfeður kunnu mætavel; því er miður, að hinir uppvaxandi menntamenn í landi voru hafa lagt þessa fögru íþrótt fyrir óðal.

In funus domini Olavi Indridi filii, pastoris Kolfreyju- stadensis, denati 4to die martii 1861.

Nos Oiavum Indrididen busto sepelire decebat,
Præstantisque viri nos meminisse decet.
Gratus herus, clarus præsertim mysta, maritus,
Eximius natis perstitit esse pater.
Musarum cultor celeber, celeberque poëta
Multiscii nomen promeruisse potest.
Religionis amans fundebat carmina sacra
Cætibus ut Christi dimanet inde salus.
Invalidis semper morbos relevare sategit
Sollerti studio, dum data vita fuit.
Omnibus inque modis miseris succurrere et ægris
Alterutrinque lubens gestiit ore, manu;
Quam, quæso, famam meliorem linquere posset
Noster in hoc mundo? hanc reliquisse juvat.
Immemores nunquam vestrum spectare sepulchrum
Nos volumus, donec huc via nostra feret.
Optime pastorum! te hic somnus cingit amoenus,
Enthea pars coelo, laudat amatque deum.

* * *

Hos fecit versus defuncti verus amicus
Et viduæ et liberis optima quæque precans.

 

Eins og áður segir birtist pistillinn hér að ofan Íslendingi þriðja ári frá 19. apríl 1862 til 25. apríl 1863. Útgefendur voru Benedikt Sveinsson, sem jafnframt var ábyrgðarmaður, Halldór Friðriksson, Jón Jónsson Hjaltalín, Jón Pjetursson, Páll Pálsson Melsteð og Pjetur Guðjónson. Víst er, að það er Páll Pálsson Melsteð (1812-1910), sem ritar inngang og lokaorð hér að ofan. Hann var sonur Páls (Þórðarsonar) Melsteð (1791-1861) sýslumanns og síðar amtmanns á Ketilsstöðum. Páll þessi hefur því verið á sjötta aldursári, þegar Ólafur kom að Ketilsstöðum.

 

Ýmsu má bæta við þetta stutta æviágrip sjera Ólafs Indriðasonar. Hér á eftir verða dregin fram nokkur atriði, en því fer fjarri að um viðhlítandi skil sé að ræða. Ef til vill hafa einhverjir gaman af að lesa um þennan forföður sinn.

 

 

Jörðin Borg

Skriðdalur, sem til forna nefndist Skriðudalur, liggur í hásuður af Völlunum. Þegar kemur inn að Þingmúla, kirkjustað og fornu höfuðbóli, skiptist dalurinn í Norðurdal og Suðurdal. Eftir Suðurdal rennur Múlaá og á árbakkanum vestan megin í dalnum, þar sem Múlinn, sem Múlasýslur draga nafn sitt af, er lægstur, stendur Borg. Jörðin var allstór en nú hafa í landi hennar verið sett á stofn nýbýli. Hún þótti fjárjörð. Árið 1894 féll snjóflóð á Borg. Flóðið fyllti fjárhúsin af snjó en féð var allt úti.

Samkvæmt Manntalinu 1801 voru eftirtaldir skráðir til heimilis á Borg í Skriðdal: Indriði Ásmundsson 50 ára, Kristín Andrésdóttir 47 ára, Ólafur Indriðason 5 ára, Ásmundur Indriðason 21 árs, Anna Þorsteinsdóttir 76 ára, Anna Ingimundardóttir 18 ára, Marteinn Jónsson 57 ára, Katrín Geirmundsdóttir 37 ára og Arndís Bjarnadóttir 9 ára.

Í Manntalinu 1821 eru þessir taldir til heimilis á Borg, en þá var Indriði hreppstjóri fallinn frá og Ásmundur hálfbróðir Ólafs tekinn við búinu: Ásmundur Indriðason 35 ára, húsbóndi; Ingibjörg Bjarnadóttir 30 ára, fædd á Þorvaldsstöðum í Skriðdal, hans kona; Kristín Andrésdóttir 62 ára, fædd á Vopnafirði, stjúpmóðir bóndans; Ólafur Indriðason 21 árs, fæddur á Borg, hennar son; Bjarni Bjarnason 74 ára, faðir húsfreyju; Ólöf Árnadóttir 78 ára, hans kona, stjúpmóðir húsfreyju; Arndís Bjarnadóttir 23 ára, fædd í Flögu í Skriðdal, alsystir húsfreyju, vinnukona; Björn Ásmundsson 13 ára, fæddur á Borg í Skriðdal, fósturson; og Sigmundur Rustíkusson 21 árs, fæddur á Eyrarteig í Skriðdal, léttadrengur.

 

 

Æska og nám

 

Eins og áður kom fram fæddist Ólafur hinn 16. ágúst 1796. Faðir hans var Indriði Ásmundsson, bóndi og hreppstjóri á Borg. Indriði var fæddur 1751, að öllum líkindum á Öngulstöðum í Eyjafjarðarsýslu; hann lézt 63 ára 3. júní 1814, þegar Ólafur var á 18 ári. Indriði var þríkvæntur og var þriðja kona hans, Kristín Andrésdóttir, móðir Ólafs. Tvær fyrri konur sínar, Guðrúnu Jónsdóttur og Sólrúnu Guðmundsdóttur, missti Indriði eftir skamma sambúð, og eignaðist aðeins einn dreng, Ásmund, með hinni fyrri; frá Ásmundi er Skógagerðis-ættin komin. Indriði hreppstjóri var sagður »guðhræddur og frómlundaður heiðursmaður«.

Móðir Ólafs, Kristín Andrésdóttir, var fædd í Fagradal í Vopnafjarðarhreppi, Norður-Múlasýslu, 1754.

Þá segir Ólafur frá því, að hann lærði fyrst hjá séra Sigfúsi Finnssyni í Þingmúla. Séra Sigfús kemur að Þingmúla 1809 sem aðstoðarprestur séra Jóns Hallgrímssonar. 1811, árið sem Ólafur var hjá honum, fékk hann prestakallið og dóttur Jóns að auki, Ingibjörgu. Sigfús flutti um mitt sumar 1814 að Hofteigi á Jökuldal.

Haustið 1812 fer Ólafur að Hólmum í Reyðarfirði til séra Guttorms Pálssonar, en hann þjónaði þar 1807-1821, þá er hann flyzt að Vallanesi. Guttormur reyndist Ólafi mjög vel. Árið 1816 bar fundum þeirra Páls sýslumanns Melsteð saman. Leiddu þau kynni til þess, að Páll réð Ólaf til sín sem skrifara, en studdi hann einnig til náms. Fyrir tilstilli hans varð Ólafur stúdent úr heimaskóla Geirs biskups Vídalíns 16. júlí 1819 með góðum vitnisburði.

Því má skjóta hér inn, að sennilega hefur Jón Ólafsson eftir föður sínum skýringu á lýsingarorðinu »blekaður« í Orðabók íslenzkrar tungu að fornu og nýju (Rvík 1915), en þar segir við það orð: blekaðr l, drukkinn. [Geir byskup Vídalín bjó í Aðalstr. 10, hafði ritstofu á hægri hönd við dyrnar. Hafði jafnan brennivínsflösku í horni við ritborðsendann; var miði á henni og ritað »Blek«. Spurði hann gesti, hvort mætti bjóða þeim blek (: staup af brennivíni). Þeir sem kendir komu frá byskupi, voru því kallaðir blekaðir].

 

 

Koffortsvísur

 

Í Öræfum voru svo nefndar Koffortsvísur vel þekktar og margir kunnu þær. Að sögn Ragnars Stefánssonar í Skaftafelli, þá er höfundur þessa pistils var með honum á selaveiðum 1978, orkti Þorsteinn »tól« Gissurarson (1768-1844), bóndi að Hofi í Öræfum og víðar, þær til Ólafs Indriðasonar, síðar prests að Kolfreyjustað.

Svo bar til eitt sinn, þegar Ólafur var á leið í skóla, laskaðist annað ferðakoffort hans, svo hann varð að fá Þorstein til þess að smíða nýtt. Þorsteinn var mikill hagleiksmaður og þekktur fyrir það og hlaut viðurnafnið tól. Þegar Ólafur tók við nýja koffortinu var á botninum miði með eftirfarandi vísum:

 

Þetta koffort með súrum sveita
samdi karlinn hann Þorsteinn tól.
Metfé veraldar má það heita
meðan leirnum er fegri sól,
því allir lestir eigandans
í því rúmast og syndir hans.

Ágirndar- kemst á botninn blaðra,
belg við öfundar lögð á mis.
Heiftræknisskjóðan hver við aðra
hórdómspokar svo andspænis.
Guðleysispungar gafla við
girndir metorða svo í mið.

Ef smásynd fyllir holu hverja,
svo hvergi komist mygla inn,
þá er ég viss og þori að sverja
þetta er nóg klyf á vordaginn.
Góðverkaskrínu þyrfti þá
ef þar á ekki að halla á.


Kvæði þetta er á vef Héraðsskjalasafns Skagfirðinga í örlítið breyttri mynd (sjá:
http://skjalasafn.skagafjordur.is/lausavisur/visur.php?VID=20201), svo og í 24. árg. Fjallkonunnar. Hér er það birt eins og Ragnar fór með það.

Ekki verður annað sagt en kvæði þetta er anzi harðort í garð Ólafs, og þá sérstaklega, ef hann hefur verið ungur að árum og á leið í skóla. En Ólafur svaraði fyrir sig með einni vísu (sjá Iðunni, IV. árg., bls. 146. Rvík 1918-19):

 

Þú, sem með stáli kersknis-kvæða
klappar sakleysis tinnubrún
í þeim tilgangi eld að glæða
eða til þess að meiðist[1] hún:
Eld mátt, ef kviknar, ábyrgjast
og augu vara, ef tinna brast.

Þorsteinn á að hafa sagt, þegar hann heyrði vísu þessa: »Mig langar til að smíða góðverkaskrínu á móti.«

 

[1] Sumir hafa »reiðist«.

Á Ketilsstöðum

Í ævi-ágripi sínu lýsir Ólafur kynnum sínum við Pál Melsteð árið 1816. Páll var settur sýslumaður í Suður-Múlasýslu 1815 og fékk Norður-Múlasýslu 1817. Hann bjó á jörð sinni Ketilsstöðum á Völlum til ársins 1835, er hann fékk Árnesþing og flytur að Hjálmholti í Hraungerðishreppi.

 

Ketilsstaðir á Völlum.

Ketilsstaðir á Völlum.

Páll var ekki nema fimm árum eldri en Ólafur og dó rúmum tveimur mánuðum á eftir honum 1861. Samkvæmt manntalinu 1816, sem þó var ekki tekið fyrr en fyrsta sunnudag í aðventu 1817, voru þessir til heimilis á Ketilsstöðum: Páll Melsteð 27 ára, sýslumaður; kona hans Anna Sigríður Melsteð 28 ára; dóttir þeirra Ingibjörg á fyrsta ári, sem síðar giftist Gísla presti Thorarensen í Felli og á Stokkseyri; Helga systir Páls; lærdómspilturinn Ólafur Indriðason 22 ára; Guðmundur Rögnvaldsson 58 ára ráðsmaður, ásamt tveimur börnum sínum: Jóni 17 ára og Rósu 23 ára; Ólafur Ásmundsson 27 ára vinnumaður; síðan tvær vinnukonur, þær Sesselja Einarsdóttir 20 ára og Guðrún Ófeigsdóttir 50 ára; og þá léttadrengurinn Magnús Ásmundsson 15 ára. – Athygli vekur, að Páll og Ragnheiður, börn þeirra hjóna, eru ekki talin með.

Samskipti Ólafs og Vatnsenda-Rósu

Ráðsmaðurinn Guðmundur Rögnvaldsson var Hörgdælingur, og hafði hann áður búið bæði á Ásgerðarstöðum og Fornhaga í Skriðuhreppi. Nú var hann ekkill og kom austur með börn sín tvö. Mun hann hafa verið kunnugur Önnu Sigríði, en hún var dóttir Stefáns amtmanns Þórarinssonar á Möðruvöllum í Hörgárdal, og Rósa, dóttir hans, hafði verið þar vinnukona 1814-15. Var til þess tekið, hve Rósa var gáfuð og sérstaklega falleg um fermingu.

Hinn 4. nóvember 1817 voru Rósa og Ólafur Ásmundsson gefin saman, svaramenn voru Páll sýslumaður og Guðmundur, faðir Rósu. Heimildir gefa þó vísbendingu um, að Rósa hafi óviljug gifst honum. Ólafur þessi, oft kallaður vefari, var sonur Ásmundar Sölvasonar á Hallgilsstöðum í Fnjóskadal.

Vorið eftir fara þau burtu frá Ketilsstöðum og tóku að búa á Haukagili í Vatnsdal. Síðan búa þau á ýmsum bæjum, unz þau flytja að Vatnsenda í Þverárhreppi í Vesturhópi. Rósa þótti viðræðugóð og hnyttin í tilsvörum og átti létt með að kasta fram vísum. Hún var umtöluð fyrir óvenjulega hegðun; hún var ákveðin og það hefur sennilega verið hún, sem réði mestu á heimilinu í Vatnsenda en ekki Ólafur bóndi hennar, enda var hún eftir þetta jafnan nefnd Vatnsenda-Rósa eða Skáld-Rósa.

Saga Vatnsenda-Rósu er flestum kunn og verður hún ekki rakin frekar hér, nema að einu leyti. Bogi Th. Melsteð, sagnfræðingur og sonarsonur Páls sýslumanns, safnaði miklum fróðleik um Rósu, sem er varðveittur í Konungsbókhlöðu í Kaupmannahöfn (Nkr. 2033 fol.), meðal annars til þess að andæfta ýmsu því, sem fram kemur í Sögu Natans Ketilssonar og Skáld-Rósu, sem kom út 1912 eftir Brynjúlf Jónsson á Minna-Núpi. Bogi greinir helzt frá vist Rósu á Ketilsstöðum, enda hnútum kunnugur. Stuttur kafli úr þeirri frásögn er birtur hér, en hann hefur áður komið í Lesbók Morgunblaðsins (sjá Aðalgeir Kristjánsson: Vatnsenda-Rósa. Lesbók Mbl. 11. nóvember 2000):

 

 

»Sama vorið sem feðginin Guðmundur og Rósa komu að Ketilsstöðum kom þangað ungur maður, Ólafur Indriðason, sem gerðist skrifari hjá Páli Melsteð. Páll hafði kynnst þessum unga manni árið áður á þingaferðum sínum í Suður-Múlasýslu og falað hann til aðstoðar við skriftir, tók hann að sér og kenndi honum á vetrum undir stúdentspróf og sendi hann síðan til Geirs biskups Vídalíns, er útskrifaði hann 16. júlí 1819. Nokkru eftir að Ólafur Indriðason kom til Páls Melsteðs var hann að heiman einn dag á ferð en þegar hann kom heim og ætlaði að fara að hátta lá Rósa þar háttuð í rúmi hans. Ólafi brá heldur en ekki við og reiddist mjög og rak hana með hörðum orðum burtu. Rósu leist vel á Ólaf og ætlaði að reyna að vinna hann á þennan ókvenlega og ósæmilega hátt. Frú Anna Melsteð varð vör við þetta og fann að við Rósu og líka fann hún að því hvernig hún hegðaði sér lauslætislega við vinnumennina. …

Það sem menn vita með sanni um Rósu í ástamálum er fyrst frá sumrinu 1817 að hún vill vinna Ólaf Indriðason og hún hegðar sér ekki eins og vera ber við karlmennina á Ketilsstöðum. Ólaf Indriðason gat hún ekki fengið, enda var hann trúlofaður þá fyrir nokkru Þórunni Einarsdóttur, fyrri konu sinni. Rósa reiðist Önnu Melsteð fyrir að hún tók í strenginn og hefnir sín á henni með því að búa það til síðar, að það hafi verið vingott á milli sín og manns hennar.«

 

Enginn dómur skal lagður á sannfræði þess, sem Bogi lýsir hér. Engu að síður er sagan góð um frómleik Ólafs Indriðasonar í kvennamálum.

 

 

Prestsþjónusta

 

Ólafur greinir frá því í ævi-ágripinu, hvar hann gegndi prestsþjónustu á hverjum tíma. Eitt ár þjónaði hann Vallanesi, fyrst sem aðstoðarprestur Jóns Stefánssonar en tók við því að fullu við lát hans. Þá stuttan tíma á Hólmum í Reyðarfirði fyrir Gísla Bryn-júlfsson, sem um þessar mundir tók prestsvígslu í Kaupmannahöfn og lauk doktorsprófi í heimspeki. Í tíu ár var hann aðstoðarprestur hjá Salómoni presti Björnssyni í Dvergasteins- og Fjarðar-sóknum, en hann þótti hirðulítill í embættisverkum. Í fardögum 1833 flytur hann með fjölskyldu sína að Kol-freyjustað við Fáskrúðsfjörð, en veit-ingu fyrir því prestakalli hafði hann fengið árinu áður.

Í Sögu séra Brynjólfs Jónssonar prests að Ofanleiti (öðrum hluta) eftir Þorstein Víglundsson (1963) kemur fram, að Ólafur sótti um prestsembættið í Vestmannaeyjum í júnímánuði 1860, ári áður en hann andaðist. Þá hafði Ólafur verið prestur í 39 ár við þröngvan kost. Nú þóttist hann eiga kröfu á léttara prestakalli en Kolfreyjustað og tekjudrýgra.

 

 

Lengri verður þessi pistill ekki að sinni, en ef til vill verður fjallað um sjera Ólaf Indriðason, fjölskyldu hans, ritstörf, skáldskap, læknisverk og fleira síðar. Á næsta ári verða 150 ár liðin frá andláti hans.

 

ÁHB / 18. okt. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply