Rósaætt – Rosaceae

Skrifað um November 12, 2012 · in Flóra

Blóm á ræktaðri jarðarberjaplöntu eru um margt dæmigert fyrir rósaætt. Ljósm. ÁHB.

Blóm á ræktaðri jarðarberjaplöntu er um margt dæmigert fyrir rósaætt. Ljósm. ÁHB.

Til rósaættar (Rosaceae) teljast fjölærar jurtir, runnar og tré (aðeins örfáar tegundir eru einærar og fáeinar sígrænar). Tegundir ættarinnar vaxa um allan heim en megnið af þeim lifir á norðurhveli. Blöð eru oftast stakstæð (sjaldan gagnstæð), fjaður- eða handstrengjótt, oftast samsett eða skipt og með axlablöð. Blóm eru jafnan regluleg og tvíkynja. Bikarblöð fjögur eða fimm, oft með utanbikar. Krónublöð eru fjögur eða fimm, fáar tegundir krónublaðalausar. Fræflar eru fimm til margir. Fræni eitt til mörg. Fræva er ein til margar einblaða eða samblaða. Aldin eru af ýmsum gerðum.

Engar ábyggilega tölur eru til um fjölda ættkvísla og tegunda innan ættarinnar. Fjöldi ættkvísla er oft talinn 107 með samtals 3100 tegundum. Innan kvíslar Prunus (heggja) eru um 430 tegundir, innan Alchemilla (döggblaðkna) eru um 270, innan Rubus (klungra) 250 og innan Sorbus (reyniviða) eru um 260, svo að fáein dæmi séu nefnd. Hér á landi eru 13 ættkvíslir með 21 tegund auk um 18 til 20 slæðinga.

Ástæða þess, að mikil óvissa ríkir um fjölda tegunda, er meðal annars sú, að innan nokkurra kvísla á sér stað geldæxlun (kynlaus fræmyndun, agamospermy). Sem dæmi má nefna mispla (Cotoneaster), en menn eru ekki á eitt sáttir, hvort tegundir þar séu 70 eða nær 300. Af döggblöðkum (Alchemilla) eru til um 300 svo nefndar smátegundir og af þyrnum (Crataegus) á milli 200 og 1000.

Margar tegundir innan rósaættar eru nýttar bæði vegna fegurðar og ávaxta. Rósir eru sérlega eftirlæti vegna ilms og fegurðar. Af ávöxtum má nefna epli, perur, möndlur, ferskjur, apríkósur, kirsiber, plómur, jarðarber og hindber auk fjölmargra annarra gómsætra aldina.

Lykill að íslenzkum ættkvíslum rósaættar og nokkrum slæðingum (innan sviga)
1 Jurtir sem visna að hausti ………………………………………………. 2
1 Trékenndar plöntur (tré, runnar, smárunnar) …………………………………… 13
2 Blóm án krónublaða, 4-deild ………………………………………………………………. 3
2 Blóm með krónublöð, 4- eða 5-deild, á stundum með fleiri ………………………….. 4
3 Blöð stakfjöðruð; enginn utanbikar …………………………….. blóðkollar (Sanguisorba)
3 Blöð handstrengjótt; með utanbikar ………………………. döggblöðkur (Alchemilla)
4 Blöð heil, egglaga eða aflöng, gróftennt, 8 krónublöð …………. holtasóley (Dryas)
4 Blöð samsett ………………………………………………………………………………………….. 5
5 Blöð þrí- eða 5-fingruð ……………………………………………………………………………….. 6
5 Blöð fjöðruð ……………………………………………………………………………………………. 9
6 Enginn utanbikar; stór, þrí-fingruð blöð, renglur ………………….. klungur (Rubus)
6 Með utanbikar; þrí- til fimm-fingruð blöð, með eða án rengla ………………………….. 7
7 Krónublöð hvít; aldinstæði safamikið; langar renglur ……….. jarðarber (Fragaria)
7 Krónublöð gul; aldinstæði þurrt; engar renglur …………………………………………… 8
8 Hvert smáblað 3-tennt að framan ………………………. heiðasmárar (Sibbaldia)
8 Hvert smáblað með fleiri en 3 tennur og ekki bara fremst ….. murur (Potentilla)
9 Stíll langær, vex með aldri og verður að langri, boginni trjónu …………………………… biskupshattar (fjalldalafíflar) (Geum)
9 Stíll vex ekki með aldri, visnar og fellur burt …………………………………………… 10
10 Enginn utanbikar; króna gulhvít, fremur smá blóm í skúfum með mislangar, loðnar greinar ……. mjaðjurtir (Filipendula)
10 Með utanbikar; krónublöð gul eða rauð ……………………………………………….. 11
11 Krónublöð gul ……………………………………………………………………………………… 12
11 Krónublöð og bikar dumbrauð ……………………………… engjarósir (Comarum)
12 Langar ofanjarðar-renglur ……………………………………… tágamurur (Argentina)
(12 Engar ofanjarðarrenglur ……………………………………………… murur (Potentilla))
13 Blöð samsett (fjöðruð eða fingruð) ……………………………………….. 14
13 Blöð heil, sígræn, skinnkennd; 8 krónublöð ……………………….. holtasóleyjar (Dryas)
14 Tré eða hávaxinn runni; blóm í hálfsveip, aldin rauð ……………… reyniviðir (Sorbus)
14 Runni; blóm ekki í hálfsveip ………………………………………………….. 15
15 Greinar þyrnóttar …………………………………………………………… rósir (Rosa)
(15 Greinar ekki þyrnóttar; blóm í skúfum …………………………… reyniblöðkur (Sorbaria))

Ath. Seinni liður 13, blöð heil, getur átt við allmargar ræktaðar tegundir Af þeim má nefna kvisti (Spiraea), heggi (Prunus), mispla (Cotoneaster), þyrna (Crataegus) og reyniviði (Sorbus). Lykill að þessum ættkvíslum mun birtast síðar.

Enn sem komið er hefur ekki verið fjallað um nema eina ættkvísl innan rósaættar. Það eru döggblöðkur (Alchemilla). Alls er óvíst, hvenær aðrar kvíslir verða teknar fyrir.

ÁHB / 12.11.2012

 

Leitarorð:


Leave a Reply