Nú er lag, Ljótur.

Skrifað um January 24, 2015 · in Almennt

 

Arnljótur Ólafsson (1823-1904) og Eiríkur Briem (1846-1929) voru um svipað leyti í Prestaskólanum, þó að nokkur aldursmunur væri með þeim. Þeir leigðu saman í loftsherbergi í Lækjargötu meðan þeir voru í skóla.

Var það vandi þeirra að fara með koppinn ofan á hverjum morgni til þess að skvetta úr honum í Lækinn. Skiptu þeir með sér verkum annan hvern dag. Svo að enginn sæi til þeirra var annar á gægjum í glugga til að sjá mannaferðir í Lækjargötunni.

Morgun einn, þegar Arnljótur fór með koppinn niður og beið við dyrnar, sá Eiríkur hvar biskup og bæjarfógeti komu samstígandi suður götuna, og þegar þeir voru að koma að húshorninu galaði Eiríkur niður sigann: „Nú er lag, Ljótur.“ – Og varð það til þess, að Arnljótur gekk beint í flasið á hefðarmönnunum með fullan kopp á milli handa.

Í þá tíð þótti þetta bráðfyndið.

ÁHB / 24. janúar 2015

 

Leitarorð:


Leave a Reply