Lækning á mæðiveiki

Skrifað um January 26, 2014 · in Almennt

Upp úr miðjum fjórða áratug síðustu aldar geisaði mæðiveiki í sauðfé hér á landi. Ýmislegt var reynt til þess að lækna féð og var Sigurjón P. á Álafossi einn af “mæðiveikilæknunum” ásamt Sigfúsi Elíassyni, Karel Hjörtþórssyni og svo nefndum Rockefeller, sem mun hafa heitið Halldór. Rockefeller læknaði með steinolíu og af því fékk hann nafnið, Karel notaðist við Coopers baðlyf á járnplötu á prímus, Fúsi læknaði með andalækningum og 200 kg af salti en Sigurjón með Ála og varð sá lækningamáti frægastur.Mun hann hafa fengið dágóðan ríkisstyrk til að framleiða undrameðalið.

Um Álalækningar Sigurjóns er það að segja, að megin uppistaðan í lyfinu var kreósót, enda fannst það á lyktinni. Annars var lyfið heimullegt eins og aspirínið og prontosilið var á sínum tíma. Álinn átti bæði að lækna mæðiveiki og garnaveiki, enda kvað Sigurjón þetta vera sama sjúkdóminn. Munurinn var aðeins sá, að mæðiveikin smitaðist aðeins í útsynningi og smitið færi inn um granirnar. En færi smitið inn um afturendann, yrði úr því garnaveiki. Þegar svo garnaveiki og mæðiveiki komu samtímis upp í Hreppunum fundu menn út, að það væri ekki nema eðlilegur hlutur, því að Hreppamenn kölluðu norðaustanáttina oftast öfugan útsynning, og þar með var fundin sönnun fyrir kenningu Sigurjóns.

Karel Hjörtþórsson fann sem sagt upp á því að taka Coopers baðlyf setja það á blikkplötu ofan á prímus og kynda svo undir því. Upp af þessu lagði sterkan þef og svo voru sjúku rollurnr parrakaðar inni í stybbunni. Þetta sögðu sumir gefa góða raun, en allt þetta fé lognaðist þó út af.

Sá, sem Rockefeller var kallaður, gaf kindunum steinolíu í stórum dosis og fór hann víst með eina tunnu í þessu skyni. Svo komst það upp á endanum, að hann hafði stolið tunnunni, og því fékk hann nafngiftina.

Sigfús Elíasson fékk hins vegar þá séra Ingimar Jónsson og Guðmund í Múla (áður Látalæti í Landsveit) Árnason á miðilsfund. Á fundinum kom einhver Magnús dýralæknir fram og ráðlagði að gefa sauðunum salt í miklum mæli. Í því skyni lét Guðmundur kaupa 200 kg af salti, en faðir minn, sem var framkvæmdastjóri mæðiveikivarna á þessum árum, neitaði að greiða það af mæðiveikifé. Guðmundur labbaði sig þá ofan í Stjórnarráð og fékk Gunnlaug Briem til að borga reikninginn. Þegar kindurnar fengu saltið drukku þær margfalt af vatni og fjárhús varð eins halt og skautasvell, og þá gáfust menn upp á lækningunni. Stuttu síðar komu Sigfús og Guðmundur á skrifstofuna ásamt mörgum öðrum og fengu afnot af fundarherbergi. Þar héldu þeir einhvers konar miðilsfund með sálmasöng. Ekki féll þetta í góðan jarðveg og voru þeir beðnir um að yfirgefa staðinn, að öðrum kosti yrði kallað á lögreglu og hún beðin um að vísa þessum mönnum út. – Ekki fór frekari sögum af þessari lækningu.

 

ÁHB / 26. janúar 2014

 

Leitarorð:


Leave a Reply