Geldingahnappur ─ Armeria maritima

Skrifað um November 30, 2012 · in Flóra

Blómkollur á geldingahnappi. Ljósm. ÁHB.

Blómkollur á geldingahnappi. Ljósm. ÁHB.

Geldingahnappar ─ Armeria

Geldingahnappar tilheyra gullintoppuætt (Plumbaginaceae). Ættkvíslarnafnið Armeria er sennilegast keltneska, ar mor, og þýðir við hafið. Einnig hefur verið bent á, að ef til vill megi draga þetta af franska orðinu armoire, sem þýðir skjöldur. Til ættkvíslarinnar teljast um 80 tegundir. Nokkrar tegundir kvíslarinnar eru skrautjurtir í görðum.

Hér á landi vex aðeins ein tegund.

GeldingahnappurArmeria maritima (Miller) Willd.

 

"Geldingahnappurinn glóði þar einn / og grá var hin tröllslega skriða," segir í Við Tungná eftir Jón Helgason. Ljósm. ÁHB

"Geldingahnappurinn glóði þar einn / og grá var hin tröllslega skriða," segir í Við Tungná eftir Jón Helgason. Ljósm. ÁHB

Neðan úr greindum jarðstöngli gengur löng stólparót, oft kölluð holtarót eða harðasægjur, en upp af greinóttum jarðstöngli vaxa margar þéttstæðar greinar. Hver grein ber mörg, þéttstæð, striklaga blöð, sem minna á grasblöð. Blöðin eru þó miklu þéttari í sér, randhærð, heilrend, snubbótt og strend; þau mynda hvelfda þúfukolla; þau eru 5-15 cm á lengd.
Blómskipunarleggur er hærður, blaðlaus og sívalur; efst á honum sitja blóm í kolli, sem líkist körfu við fyrstu sýn, og er um 2 cm að þvermáli. Himnukennd hlífarblöð, snubbótt og broddlaus, lykja um kollinn neðanverðan; niður af þeim gengur himnukennd slíðurpípa, sem umlykur blómlegginn.

Slíðurpípan er greinileg á þessu þurrkaða eintaki. Ljósm. ÁHB.

Slíðurpípan er greinileg á þessu þurrkaða eintaki. Ljósm. ÁHB.

Bikar er trektlaga, langær, hærður, með fimm rauðleit rif, broddtenntur. Krónublöð eru 5, snubbótt, rósrauð eða rauðblá. Fræflar 5; stílar 5, hærðir að neðanverðu. Aldin er einrýmt hýði.
Vex á melum, í skriðum, mosaþembum og mólendi, bæði við sjó og upp til fjalla. Mjög algengur um land allt. Blómgast í júní. 5-30 cm á hæð.

Annars staðar á Norðurlöndum vaxa nokkrar undirtegundir, en engin þeirra hefur fundizt hér. Allmörg yrki (cultivar.) eru til af geldingahnappi, til dæmis ʻAlbaʼ, ʻLeucheana Splendensʼ og ʻDüsseldorfer Stolzʼ.
Eitt merkilegt fyrirbrigði er hjá geldingahnappi. Fræni og frjókorn eru af tveimur ólíkum gerðum og kallast það tvíbrigði (dimorphism). Þetta veldur því, að frjókorn geta aldrei fest sig við fræni í blómum á sama eintaki, heldur verða að lenda á eintaki með aðra gerð.
Gömul nöfn á geldingahnappi eru gullintoppa, gulltoppur og gullintoppur.
Ekki er óalgengt, að fólk skreyti sig með rósrauðum blómkrónum eða flétti úr þeim kransa. Sumir sjúga sykur úr blómkollinum. Rætur voru etnar í hallærum. Þær eru harðar undir tönn og nefnast harðasægjur.

Samnefni: Statice armeria L.; Armeria vulgaris Willd. (ssp. maritima); A. elongata (Hoffm.) W. D. J. Koch; A. maritima var. elongata (Hoffm.) Mansf.; A. vulgaris auct.: A. vulgaris var. elongata Hoffm. (ssp. elongata): A. maritima ssp. labradorica (Wallr.) Hultén; A. scabra auct.; A. scabra ssp. sibirica (Turcz. ex Boiss.) Hyl.; A. sibirica Turcz. ex Boiss. (ssp. sibirica).

Nöfn á erlendum málum:
Enska: thrift, sea pink, cushion pink, midsummer fairmaid, sea daisy, cliff rose, lady’s cushion, lady’s pincushion, marsh daisy, sea gilliflower, sea grass
Danska: Engelskgræs
Norska: fjørekoll (fjærekoll), strandnellik
Sænska: trift, gräsnejlika, strandtrift (ssp. maritima), backtrift (ssp. elongata), fjälltrift, sibirisk trift (ssp. sibirica)
Finnska: laukkaneilikka
Þýzka: Gewöhnliche Grasnelke, gewoon Engels gras
Franska: œillet marin, gazon d’Olympe og gazon d’Espagne

Þurrkað eintak af geldingahnappi. Ljósm. ÁHB.

Þurrkað eintak af geldingahnappi. Ljósm. ÁHB.

 

ÁHB / 30.11.2012

Leitarorð:


Leave a Reply