Skollakambur – Blechnum spicant

Skrifað um March 31, 2013 · in Flóra

Þurrkað eintak qf skollakambi. Ljósm. ÁHB.

Þurrkað eintak qf skollakambi. Ljósm. ÁHB.

Skollakambsætt – Blechnaceae
Um 240-260 tegundir tilheyra skollakambsætt innan níu ættkvísla. Tegundirnar eru dreifðar víða um heim. Mjög ung blöð hafa oft yfir sér rauðleitan blæ.

Skollakambar – Blechnum L.
Meðal nokkurra burkna eru tvenns konar blöð, annars vegar gróblöð, með tveimur gróblettum á neðra borði, sem liggja eftir endilöngum bleðli, og hins vegar grólaus blöð, sem ljóstillífa. Tæplega 200 tegundir tilheyra ættkvíslinni og eru flestar í hitabeltinu sunnan miðbaugs. Í Ekvador í Suður-Ameríku eru nokkrar tegundir trékenndar og geta orðið allt að þrír metrar á hæð.

Hér á landi vex aðeins ein tegund, skollakambur, og eitt afbrigði, oft kallað tunguskollakambur, sem hvergi vex annars staðar í heiminum.

Skollakambur – Blechnum spicant (L.) Roth
Jarðstöngull uppréttur, grófur. Blöð af tveimur gerðum. Grólausu blöðin skinnkennd og sígræn; útafliggjandi. Stilkur stuttur (um 2 cm), dökkbrúnn með miðgróf á efra borði, flosugur. Blaðka mjó, lensulaga, kambskipt með þétta, nærri gagnstæða, aflanga bleðla. Bleðlar heilrendir með niðurorpnar rendur. Gróblöðin upprétt í miðri þyrpingu, stilklöng, fá og lengri en hin grólausu; Bleðlar eru striklaga og gisstæðir. Ekki sígræn og þroskast ekki alltaf. Gróblettir í tveimur röðum á neðra borði, renna saman, svo að þeir líta út sem svört strik að lokum. Gróhula striklaga. Á stundum eru engin gróblöð, en tegundin er auðþekkt án þeirra.

10-35 cm á hæð. Vex grasivöxnum lautum og urðum, einkum þar sem snjór safnast fyrir. Víða á NV, N og A; fremur sjaldgæfur á SV og V.

Afbrigðið var. fallax Lange er miklu smávaxnara (2-10 cm á hæð) og líta gróbæru og grólausu blöðin eins út. Það vex við Deildartunguhver og hefur verið nefnt tunguskollakambur. Friðlýst.

B. spicant var. fallax. Ljósm. ÁHB.

B. spicant var. fallax. Ljósm. ÁHB.

B. spicant var. fallax við Deildartunguhver, 27. júlí 2013. Ljósm. ÁHB

B. spicant var. fallax við Deildartunguhver, 27. júlí 2013. Ljósm. ÁHB

Nafnið lúsagras er þýðing úr norsku. Á hinn bóginn er það nafn haft um skollafingur þar í landi, svo að hér er um misskilning að ræða. Í Noregi var búsmali fóðraður á blöðunum og þau voru einnig notuð í blómakransa, þar sem þau eru sígræn.

Samnefni: Osmunda spicant L.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: hard fern
Danska: Kambregne
Sænska: kambräken
Norska: bjønnkam
Finnska: kampasaniainen
Þýzka: Rippenfarn
Franska: blechnum en épi

Skollakambur. Teikn. ÁHB.

Skollakambur. Teikn. ÁHB.

ÁHB / 31.3 2013

Leitarorð:


Leave a Reply