Enn um Rorippa

Skrifað um February 5, 2022 · in Flóra

Í nóvember 2015 setti eg hér inn pistil um Rorippa-ættkvísl (sjá hér). Síðan gerðist það, að hinn 28. júní 2019 fann eg Rorippa palustris (L.) Besser í Deildartungu í Reykholtsdal í Borgarfjarðarsýslu. Á lítt gróinni hálfdeigju uxu allnokkrar 6-12 cm háar plöntur og voru þær flestar bæði í blóma og með nærri fullþroska skálpa.

Hinn 15. júní 2020 var hugað að tegundinni. Þá kom í ljós, að þétt breiða óx í einu horni girðingar, þar sem ferðamenn safnast saman til að horfa yfir sléttlendið handan við hverinn. Tegundin stóð í fullum blóma og hefur náð að dreifa sér nokkra tugi metra frá þessum stað. Þar hjá óx annar nýkominn slæðingur, Arabidopsis thaliana (L.) Heynh., sem hefur verið nefndur vormelablóm.

Víst má telja, að báðar tegundirnar hafi borizt til landsins með ferðamönnum. Þetta eru ekki einu tegundirnar, sem hafa komið á þennan hátt og sumar hverjar náð að dreifa sér verulega á vinsælum stöðum. Þá er mér nú kunnugt, að kona ein tók mynd af fyrrnefndu tegundinni fyrir nokkrum árum, en nafngreindi hana ekki. Hún sá, að hér var eitthvað óvenjulegt á ferð.

Öruggt má telja, að báðar tegundirnar muni dreifast um landið hægt og bítandi. Nú verður áhugavert að sjá, hvort þeir, sem ráða náttúruverndarmálum, telji ástæðu til að uppræta þessar tegundir meðan þess gefst kostur eða leyfa þeim að dreifast óhindrað um landið. Eg hef ekki mótað mér neina skoðun á því.

Samkvæmt norskum rannsóknum ber hver farþegi, sem stígur á land á Svalbarða, að meðaltali fjórar tegundir af fræi neðan á skóm sínum og nokkur í klæðnaði. Á síðari árum hafa um hundrað tegundir borizt til eyjarinnar. Ætla má, að svipað eigi sér stað hér á landi og alls ekki síður, þegar menn koma með eigið faratæki og þó nokkra búslóð til að ferðast hér um land.

Hér fylgir því nýr greiningarlykill að tegundum innan kvíslarinnar.

Greiningarlykill að tegundum Rorippa:

1. Blóm gul …………… 2
1. Blóm hvít ………….. Nasturtium officinale (syn. R. nasturtium-aquaticum)
2. Krónublöð álíka löng og bikarblöð. Stöngulblöð með blaðeyru. Skálpur styttri en 8 mm, um 2 mm á breidd. Engar jarðrenglur ……………………………………………… 3
2. Krónublöð að minnsta kosti 1,5 sinnum lengri en bikarblöð. Stöngulblöð án blaðeyrna. Skálpar lengri en 8 mm, um 1 mm á breidd. Með jarðrenglur ……… R. sylvestris
3. Skálpur tvisvar eða þrisvar sinnum lengri en blómleggur. Bikarblöð <1,6 mm ……. R. islandica
3. Skálpur ekki meira en tvisvar sinnum lengri en blómleggur. Bikarblöð >1,6 mm … R. palustris

 

Rorippa palustris (Leyss.) Besser – kisulóra

Ein- eða tvíær jurt. Stöngull er uppréttur, uppsveigður eða jarðlægur, marggreinóttur, hárlaus og gáróttur; oft holur og safaríkur. Blöð, bæði stofn- og stöngulblöð, eru mjög lík og á R. islandica.

Krónublöð eru um 2 mm, örlítið styttri eða jafnlöng og bikarblöð, sem eru 1,5 mm eða lengri. Skálpar eru 4-10 mm, á lengd við skálpleggi eða lítið eitt lengri. – Það getur verið nokkrum vandkvæðum bundið að greina tegundina frá R. islandica. Eitt einkenni er þó ótvírætt, en það er, að yfirhúðarfrumur á fræi eru um tvöfalt stærri á R. palustris en R. islandica.

Vex á lítt gróinni hálfdeigju.

 

Samnefni:

Nasturtium palustre (L.) DC.; Sisymbrium amphibium var. palustre L., Sisymbrium islandicum Oeder, Sisymbrium palustre Leysser

 

Nöfn á erlendum málum:

Enska: marh yellow cress, bog marshcress, bog yellowcress, common yellowcress, marsh yellowcress, marsh yellow-cress, marshcress, marsh cress, yellow cress, yellow watercress
Danska: Kær-Guldkarse
Norska: brunnkarse
Sænska: sumpfräne, sumpkrasse, sumpsenap
Finnska: rantanenätti
Þýzka: Gewöhnliche Sumpfkresse
Franska: rorippe des marais, cresson des marais, rorippe faux-cresson

 

Leitarorð: