
Calliergonella cuspidata og Philonotis fontana mynda samfelldar breiður víða á áreyrum og við uppsprettur. Ljósm. ÁHB..
Þeir, sem hætta sér út fyrir malbikið, sjá oft fallega hluti. Á eyrum meðfram lækjarsprænum gróa mosabreiður, sem eru mjög áberandi um þessar mundir áður en klófífa, hálmgresi og blaðríkar tegundir skyggja á þær.
Dæmigerðar áreyrar eru vaxnar breiðum af Calliergonella cuspidata (geirsnudda), sem ýmist er grænn, gulgrænn eða gulbrúnn og Philonotis fontana (dýjahnappi), sem snemma að vori er blágrænn í þéttum bólstrum; en hann verður síðan gulgrænn, er líður á sumarið. Inn á milli má oft sjá rósbleika hnubba Bryum weigelii (dýjahnokka), mosa, sem mjög auðvelt er að þekkja á því, að blöðin eru langt niðurhleypt á stöngli.

Calliergonella cuspidata, geirsnuddi, er auðþekktur á því, að endar stöngla og greina minna á blýantsodd. Ljósm. ÁHB.
Philonotis fontana, dýjahnappur, myndar blágræna bólstra að vori á áreyrum og við uppsprettur. Síðla sumars taka plönturnar annan lit, verða gulbrúnar og kynhirzlur verða mjög áberandi. Plöntur eru einkynja og myndast karl- og kvenkynhirzlur efst á sprotum hvort á sínum einstaklingi.
Bryum weigelii, dýjahnokki, myndar litlar þústir og vex á milli annarra mosa. Hann er auðþekktur á því, að blöð eru mjög niðurhleypt. Ljósm. ÁHB.
ÁHB / 26. maí 2017.
Leitarorð: Bryum weigelii • Calliergonella • dýjahnappur • dýjahnokki • Geirsnuddi • Philonotis