Nýverið kom þessi þula – Þrösturinn syngur – í leitirnar úr fórum fjölskyldu konu minnar, Sólveigar Aðalbjargar Sveinsdóttur, sem var frá Víkingavatni í Kelduhverfi. Þulan er handskrifuð á tvö A3 blöð, beggja megin á hinu fyrra og öðru megin á hinu síðara. Blöðin eru án ártals. Í sviga undir titlinum stendur »þula gefin Birni Þórarinssyni í sumargjöf«. Björn þessi var föðurfaðir Sólveigar. Undirritunin er »Hulda«. Það fer ekkert á milli mála, að hér er um Unni Benediktsdóttur Bjarklind (1881-1946) að ræða, en hún orti undir þessu skáldanafni. Þrösturinn syngur ber öll megineinkenni vel kveðinnar þulu.
Þrösturinn syngur
(þula gefin Birni Þórarinssyni í sumargjöf)
Þrösturinn syngur
á grásteini glatt
í sumargrænu hlíðinni
sólu fegri tíðinni;
-fagurt er kvöldið, það segir hann satt.
Kvakar hann um ástir,
kvakar hann um ástir
og unaðarstund
feginsfund og laufgan lund,
eftir vetrarskugga og skammdegisblund;
sumarkvöld, er seiða
sjerhverja þrá
með sjer út í loftin
bjarmarjóð og blá,
æsku, sem að stígur
eftir vetrardá
eins og blóm úr moldu
ljósið að sjá.
Hlustaðu á!
Nú er hann að segja
sorginni frá
hvað sefar, bætir,
sælutárum grætir
augun, sem að lífskvölin yfir skugga brá.
Hlustaðu, hlustaðu, hlustaðu á!
Engan mun svíkja söngurinn þinn,
blessaður lífsglaði laufbúinn minn.
-Man jeg það, að sæluna sælli gerðir þú,
bygðir mjer til himins úr hljóminum þínum brú.
Fögur var sorgin og saknaðarins byr
er þú ljekst mjer lögin þín í laufbrekku, fyr.
Beiskjan varð að tárum og angurblíðan ein
eftir bjó í hjartanu, vormild og hrein,
-sólin að nýju inn í sál mína skein.
Treginn var liðinn
lengst inn í minningafriðinn.
Heyrðu, ljúfi þröstur
nú þrái jeg ró
þinna fögru tóna
í angandi mó.
enn á jeg vorblóm undir hvítum snjó,
syng þau undan snæ
út í sólskin og blæ,
leyfðu þeim að mæna í loftsins bláa sæ.
Láttu þínar söngperlur
silfurskærar hrynja,
jeg skal þær grípa
og geyma vel til minja.
Orð jeg máske á,
gefðu þína söngvængi sumarungri þrá.
Fljettar þú í vísur þínar
vorsins geisla og blóm,
varma sumarkvöldsins
og morgunsins hljóm.
Töfra klæðið áttu;
um allan heim að fljúga,
alfrjáls og síungur
heim máttu snúa.
Gaman væri að stíga
á gullinn klæðafald,
geta átt á stefnu,
sem loftbúinn, vald,
skoðað Drottins dásemdir
þá dregst til hliðar
fjarskans bláa tjald.
Þey þey – nú sígur sól,
svefn fer um dal og hól.
Sit jeg hjer ein
við söngþrastar stein,
falla tekur döggin, draumþung og hrein,
dvalastundin byrgir fögnuð og mein.
„Jeg er að telja tölur mínar,
og taldi ekki rjett;
jeg er að binda skóbönd mín,
en – batt þau of þjett.“
Kom þú, blessuð von, er gefur vængi,
sem um eilífð fljúga ljett.
Hulda
Að sinni skal engum getum að því leitt, hvers vegna Hulda tók sig til að senda Birni Víkingi þessa þulu. Enn sem komið er hafa engin önnur gögn komið upp úr kafinu, sem varpa ljósi á samskipti þeirra tveggja. Þrátt fyrir nokkra leit hefur þula þessi hvergi fundizt meðal útgefinna verka Huldu. Ætla má, að þulan sé ort skömmu eftir 1900.
Björn Víkingur Þórarinsson var fæddur 11. apríl 1858 á Víkingavatni í Kelduhverfi, Norður-Þingeyjarsýslu. Foreldrar hans voru hjónin Þórarinn Björnsson (1819-1903) og Guðrún Árnadóttir (1830-1880).
Björn Víkingur Þórarinsson ól allan sinn aldur á Víkingavatni og tók við búi föður síns um 1896, tæplega fertugur að aldri. Á jörðinni voru meiri hlunnindi en á öðrum bæjum í sveitinni, reki góður, eggjataka mikil, silungsveiði og víðlend votengi og gaf hún því mikið af sér. Engu að síður var búskapur mæðusamur. Fé var hætt fyrir hraungjám, sandfok spillti túnum og engi voru svo votsótt, að standa þurfti vatn í hné og allt upp undir hendur. Hey var síðan flutt á pramma og komið á þurrkvöll. Það var því ekki verk neinna hálfdrættinga að erja jörðina. Um miðjan sjötugsaldur fór heilsu Björns að hnigna. Kona hans tók þá við búrekstri með hjálp kaupamanna unz sonur þeirra hjóna, Sveinn, slóst í lið með móður sinni um 1930, þá á fimmtánda ári. Þar bjó Sveinn næstu 50 árin góðu búi og 20 árin þar á eftir dvaldi hann þar á sumrin eftir að hefðbundnum búskap lauk.
Eiginkona Björns Víkings Þórarinssonar var Guðrún Hallgrímsdóttir (1881-1959) og gengu þau í hjónaband árið 1903. Þeim varð fjögurra barna auðið. Heimilið á Víkingavatni var mannmargt og að auki voru gestakomur tíðar. Þó að Björn Víkingur lægi rúmfastur í tæpa tvo tugi ára, tók hann fagnandi á móti gestum. Hann þótti fróður mjög og stóð í bréfaskriftum við ýmsa fræðimenn. – Björn Víkingur lézt 6. janúar 1942.
Um Huldu má lesa hér:
https://www.skald.is/product-page/hulda-unnur-benediktsd%C3%B3ttir-bjarklind
Leitarorð: Björn Þórarinsson • Hulda • Unnur Benediktsdóttir Bjarklind • þrösturinn syngur • þula