Naðurtunguætt – Ophioglossaceae

Skrifað um September 26, 2012 · in Flóra

Tungljurt. Ljósm. ÁHB

Tungljurt. Ljósm. ÁHB

Naðurtunguætt – Ophioglossaceae

Fjölærar plöntur, þurrlendistegundir eða ásætur. Flestar tegundir lifa í hitabeltinu og heittempruðu beltunum. Ættinni er á stundum skipt í tvær ættir eða undirættir, Botrychioideae og Ophioglossoideae. Mjög er misjafnt, hve margar ættkvíslir eru taldar innan ættarinnar, en þó oftast fjórar (Ophioglossum, Botrychium, Helminthostachys, og Mankyua); tvær hinar fyrst nefndu eru hér á landi. Innan ættarinnar eru um 80 tegundir.

Einkenni ættarinnar eru þau, að hvert blað skiptist í tvo hluta, annar er grólaust vaxtarblað og hinn gróbær sproti. Kynliður lifir niðri í moldinni, er laufgrænulaus og vex í sambýli við sveppi, ólíkt kynliðum allra annarra æðagróplantna. Blöðin standa á jarðstöngli; enginn loftstöngull.

Lykill að ættkvíslum:
1. Grólausi blaðhluti með skipta blöðku, kvíslstrengjóttri; gróhirzlur í klasaleitinni skipan ………………………………………………………………………..……………… tungljurtir (Botrychium)
1. Grólausi blaðhluti með óskipta blöðku, netstrengjóttri; gróhirzlur í axleitinni skipan ………………………………………………………………..…………… naðurtungur (Ophioglossum)

Tungljurtir – Botrychium Sw.

Um 50-60 tegundir tilheyra ættkvíslinni, sem á stundum er skipt í fjórar kvíslir, það er Botrychium, Sceptridium, Japanobotrychium og Botrypus.
Talið er, að sumar tegundir komi ekki upp í öllum árum, heldur lifi í moldinni í samlífi við sveppi. Í nokkrum tegundum myndast tvísykran trehalósi, en hún er óþekkt meðal annarra æðaplantna. Aðeins eitt blað, sem er klofið í grólausan blaðhluta og gróbæran blaðhluta, vex upp af jarðstöngli; mjög hægvaxta. Flestar tegundir innan kvíslarinnar eru mjög breytilegar að útliti.

Lykill að tegundum:
1. Grólausi blaðhluti lengri en hann er breiður; blaðið klofnar ofan eða neðan við miðja plöntu ………………… 2
1. Grólausi blaðhluti breiðari en hann er langur; blaðið klofnar rétt neðan við gróhirzluskipanina . lensutungljurt (B. lanceolatum)
2. Bleðlar á grólausa blaðhluta keilu-, blöku-, nýr- eða hálfmánalaga; snubbóttir eða þverstýfðir í endann …….. 3
2. Bleðlar á grólausa blaðhluta egglaga, skakktígullaga eða aflangir … mánajurt (B. boreale)
3. Grólausi blaðhluti klofnar frá um eða rétt neðan við miðja plöntu; bleðilpör að minnsta kosti 4, bleðlar nýr- eða hálfmánalaga, breiðfleyglaga við grunn …………… 4
3. Grólausi blaðhluti klofnar frá mjög neðarlega á plöntu; bleðilpör sjaldan fleiri en 3, bleðlar öfugegglaga eða mjóblökulaga, mjófleyglaga við grunn ………………………………… dvergtungljurt (B. simplex)
4. Bleðlar stilklausir eða nærri svo; neðstu bleðlar jafnan breiðari en bleðlar í miðju; neðsta bleðlaparið rís fram; mjög algeng ……………………………… tungljurt (B. lunaria)
4. Bleðlar með stilk; neðstu bleðlar álíka breiðir og bleðlar í miðju; öll bleðilpör í einum fleti; fremur sjaldgæf …………..….………..………………… keilutungljurt (B. minganense)

 

Tungljurt. Teikn. ÁHB

Tungljurt. Teikn. ÁHB

TungljurtBotrychium lunaria (L.) Sw.

Jarðstöngull mjög stuttur, uppréttur með eitt blað, sem er klofið í tvennt um eða rétt neðan við miðja plöntu. Blaðka á grólausa hluta fjöðruð, 3-7 cm á lengd, 1-3 cm á breidd. Bleðlar hálfmánalaga, jafnan svo þéttstæðir, að þeir ganga á misvíxl; heilrendir (geta þó verið tenntir eða sepóttir); ljósgrænir; bleðlapör jafnan 6 eða fleiri. Gróbæri blaðhlutinn aflangur til þríhyrndur; gróhirzlur í klasaleitinni skipan á 15-75 mm löngum stilk; sveigðar í endann. – Plantan er mjög breytileg.
5-20 cm á hæð. Vex aðallega í þurrum og grasivöxnum holta- og móabörðum. Algeng um land allt.

Lásagras er elzta nafn á tegundinni og til komið af því, að trúa manna var, að lásar opnuðust, væri plantan borin að þeim. Gróhirzluþyrpingarnar minna um margt á skegg á gömlum lyklum og er nafnið sennilega af því dregið. Træðu hestar á tungljurtina, var hætta á að skeifan dytti undan þeim. Viðlíkar sagnir eru til annars staðar í Evrópu. Gömul nöfn eru mánarót og mánaurt (lat. luna: tungl, máni); þau nöfn voru flutt á aðra tegund, (B. boreale).
Enska: Common Moonwort, Moon-Fern
Danska: Almindelig Månerude
Sænska: Låsbräken, låsgräs, månlåsbräken, vanlig låsbräken
Norska: Marinøkkel
Finnska: Ketonoidanlukko
Þýzka: Echte Mondraute
Franska: Botryche Lunaire, Lunaire, Langue de cerf

 

Keilutungljurt. Teikn. ÁHB

Keilutungljurt. Teikn. ÁHB

KeilutungljurtBotrychium minganense Victorin, Proc. et Trans.

Jarðstöngull mjög stuttur, uppréttur með eitt blað, sem er klofið í tvennt um miðja plöntu. Blaðka á grólausa hluta fjöðruð, 3-8 cm á lengd, 1-2 cm á breidd með 2-8 bleðlapör. Bleðlar keilulaga á stuttum stilk, jafnan gisstæðir, og ganga því ekki á misvíxl; heilrendir (geta þó verið sepóttir); ljósgrænir. Gróbæri blaðhlutinn aflangur til þríhyrndur, 1,5 til 2,5 sinnum lengri en hinn grólausi; gróhirzlur í klasaleitinni skipan á 15-50 mm löngum stilk. – Plantan er all breytileg.

5-18 cm á hæð. Vex í harðbalajörð. Fremur sjaldgæf en dreifð um landið. Var fyrst greind hér á landi 2002.

Þessi tegund var áður talin afbrigði af tungljurt. Hún er vesturheimsk og þekkt frá Labrador til Nýja Englands og síðan þvert yfir Kanada og norðurríki Ameríku til Alaska og suður til Arizona í vestri. Eini fundarstaður hennar í Evrópu er hér.

Enska: Mingan Moonwort
Franska: Botryche de Mingan

 

Dvergtungljurt. Teikn. ÁHB

Dvergtungljurt. Teikn. ÁHB

Dvergtungljurt Botrychium simplex E. Hitchc.

Smávaxin tegund. Grólausi blaðhlutinn stilkstuttur, oftast niður við jörð. Bleðlapör 1-3, neðsta parið oft augljóslega stærst; bleðlar mjög breytilegir, öfugegglaga, blökulaga eða sjaldan nýrlaga. Gróbæri hlutinn á mjóum 1,5-6 cm löngum stilk, mjósleginn.

1-5 cm á hæð. Vex í móum og graslendi, oft nokkuð sendnu, en einnig í jarðhita. Nokkuð víða á S, fáséð annars staðar.

Tegundin er nokkuð breytileg. Henni hefur verið skipt í tvær undirtegundir samkvæmt eftirfarandi lykli:
1. Grólausi blaðhlutinn klofnar frá mjög neðarlega. Neðsta bleðlaparið stærst ………. ………………………………………………………………………………………………….. ssp. simplex
1. Grólausi blaðhlutinn klofnar frá ofarlega. Neðsta bleðlaparið ekki stærra en önnur ……………… ……………………………………………………………………………. ssp. tenebrosum

Undirtegundin ssp. tenebrosum (A. A. Eaton) R.T. Clausen hefur einnig verið talin sjálfstæð tegund, Botrychium tenebrosum A.A. Eaton, renglutungljurt; útbreiðsla einkum um suðvestan- og suðaustanvert landið, auk þess á einum staði í Mývatnssveit.

Tegundina fann Steindór Steindórsson fyrsta sinni í Þjórsárdal 1952. Undirtegundinni ssp. tenebrosum safnaði Steindór í Mývatnssveit 1934, en hún var ekki greind sem slík fyrr en 2002.

Enska: Small Grape Fern, Little Grape Fern, Dwarf Grape Fern, Least Moonwort
Danska: Enkelt Månerude
Sænska: Dvärglåsbräken
Norska: Dvergmarinøkkel
Finnska: Pikkunoidanlukko
Þýzka: Einfache Mondraute, Einfacher Rautenfarn
Franska: Botryche simple

 

Mánajurt. Teikn. ÁHB

Mánajurt. Teikn. ÁHB

Mánajurt – Botrychium boreale Milde

Jarðstöngull mjög stuttur, uppréttur með eitt blað (sjaldan tvö), sem er klofið í tvennt ofan við miðja plöntu. Grólausi blaðhlutinn stilklaus eða mjög stilkstuttur, aflangur, egglaga til þríhyrndur, odddreginn. Bleðlapör 2-6; neðsta bleðlaparið sýnu stærra en efri pörin og jafnan mjög djúpskert; flipar snubbóttir. Gróbæri hlutinn á stuttum legg (0,5-4 cm) , og er hann styttri en grólausi blaðhlutinn.

8-18 cm á hæð. Vex í graslendi, þar sem sjóalaga gætir. Fremur sjaldgæf. Nokkuð víða á skögunum við Eyjafjörð, á stöku stað NV; fáséð annars staðar.

Ingimar Óskarsson fann fyrstur tegundina 1941 í Ólafsfirði og nefndi hana mánajurt, samanber tungljurt.

Enska: Boreal Moonwort, Northern Grape Fern. Northern Moonwort
Danska: Nordisk månerude
Sænska: Nordlig låsbräken
Norska: Fjellmarinøkkel
Finnska: Pohjannoidan-lukko
Þýzka: x-Mondraute
Franska: Botryche boréa

 

Lensutungljurt. Teikn. ÁHB

Lensutungljurt. Teikn. ÁHB

Lensutungljurt – Botrychium lanceolatum (S. G. Gmel.) Ångstr.

Jarðstöngull mjög stuttur, uppréttur með eitt blað, sem er klofið í tvennt ofarlega á stöngli, rétt undir gróhirzluskipaninni. Blaðka á grólausa hluta fjöðruð, stilklaus eða því sem nær, 1-3 cm á lengd; grólausi hlutinn breiðari en hann er langur. Bleðlapör 2-4(-5). Bleðlar fjaðursepóttir. Gróbæri blaðhlutinn 1-2,5 sinnum hærri en hinn grólausi; skiptist í fáeinar, svo til jafnlangar greinar.

5-10 cm á hæð. Vex í gras- og valllendi. Fremur sjaldgæf, en vex þó í öllum landshlutum; algengust um norðanvert landið.

Enska: Triangle Grape Fern, Lance Leaf Grape Fern, Triangle Moonwort, Narrow Triangle Moonwort.
Danska: Fliget-Månerude.
Sænska: Topplåsbräken, handlåsbräken, spetsbladig låbräken.
Norska: Handmarinøkkel.
Finnska: Suikeanoidanlukko.
Þýzka: Lanzett-Mondraute.
Franska: Botryche lancéolé, Botrychium à feuilles lancéolées, Botrychium lancéolé, Botrychium élancé.

Lensutungljurt. Ljósm. ÁHB.

Lensutungljurt. Ljósm. ÁHB.

 

Naðurtungur – Ophioglossum L.

Um 25-30 tegundir heyra til ættkvísl; aðeins ein hérlendis. Þær vaxa aðallega í hitabeltinu og heittempruðu beltunum. Engar lífverur hafa jafnmarga litninga í frumum sínum og tegundir innan ættkvíslarinnar, allt að 1260.

 

Naðurtunga. Teikn. ÁHB

Naðurtunga. Teikn. ÁHB

Naðurtunga – Ophioglossum azoricum C. Presl

Fjölær og smávaxin, gulgræn jurt. Tveir eða þrír sprotar (sjaldan einn) vaxa upp af lóðréttum, stuttum jarðstöngli. Hver sproti er jafnan klofinn í tvo hluta: Blaðkenndan og gróbæran, sem eru því í raun réttri eitt og sama blaðið, sem klofnað hefur í tvennt. Blaðkenndi hlutinn er stilklaus, spónlaga, egg- eða sporlaga, heilrendur, fleyglaga við grunn og snubbóttur; 15-23 mm á lengd, 5-12 mm á breidd. Gróhirzlur í tveimur röðum í 10-13 mm langri axlíkri skipan á gróbæra hlutanum. Sprotinn endar oft í blaðkenndum broddi, því að gróhirzlur ná ekki alveg upp.
2-10 cm á hæð. Vex í volgum leirflögum við hveri og laugar. Fremur sjaldgæf; er víða um sunnan-, vestan- og norðanvert land.

Í gömlum lækningabókum er greint frá því, að plantan lækni mörg slæm sár. Blöðin voru mulin smátt og soðin í nýrnamör og fljótandi olíu. Fékkst þá eitt hið bezta sárasmyrsl (Green Oil of Charity). Ósennilegt er þó, að plantan hefi verið nýtt hérlendis, því að hún vex bæði óvíða og strjált. Höggormstunga er annað nafn á tegundinni. Í handriti koma fyrir nöfnin sveinajurt og tungujurt.

Naðurtunga í Mývatnssveit. Ljósm. ÁHB.

Naðurtunga í Mývatnssveit. Ljósm. ÁHB.

Enska: Small Adder’s Tongue.
Danska: Azorisk Slangetunge.
Sænska: Späd ormtunga.
Norska: Småormetunge.
Finnska: Pikkukäärmeenkieli
Þýzka: x-Natternzungen
Franska: Ophioglosse des Açores

Leitarorð:


Leave a Reply