Mýrafinnungar – Trichophorum
Innan hálfgrasaættar (Cyperaceae) var ættkvíslin Scirpus í eina tíð langstærst með um 400 tegundir. Síðan var kvíslin smám saman skorin niður í um 120 tegundir og hinar tegundirnar dreifðust á ýmsar kvíslir. Af þeim eru aðeins tvær hérlendis, Eleocharis og sú, sem er til umfjöllunar hér, Trichophorum.
Þar sem aðeins ein tegund af Trichophorum vex hér á landi, er sérstök ættkvílarlýsing óþörf. Í gömlum plöntulistum (sjá t.d. König & Müller 1770) og í Islands Flora (1881) eftir Chr. Grönlund er getið um T. alpinum (Eriophorum alpinum, sem nefna mætti fjallafinnung) og á að vaxa á nokkrum stöðum, meðal annars í Strandasýslu, Reykjavík og á Öxnadalsheiði. Fundur þessarar tegundar hefur þó aldrei verið staðfestur.
Ættkvíslarnafnið Trichophorum er dregið af grísku orðunum thrix, hár, og foros, bera; það er sú, sem er með hár, en í blóminu er burstkrans með sex langæjar burstir.
Mýrafinnungur – Trichophorum cespitosum (L.) Hartm.
Jarðstöngull er stuttur og án renglna; upp af honum vaxa mörg, oftast bogin og gárótt strá í þéttum og stórum toppum. Neðstu slíðrin eru gulhvít og frá því efsta gengur stutt, broddlaga blaðka.
Ax er endastætt, með 3-10 blóm, móleitt. Axhlífar eru ljósbrúnar með ljósa miðrák; hinar tvær neðstu ganga fram í sívalan, grænan odd. Í hverju blómi eru sex sléttar blómburstir; þær lengjast ekki að blómgun lokinni nema þá örlítið en eru lengri en hnotin. Fræflar eru 3 með 3 mm langa frjóknappa. Fræva er með 3 fræni. Aldin er hneta, öfugegglaga, grábrún til gulgrá á lit, 1,4-1,7 mm á hæð.
Tegundinni hefur verið skipt í tvær undirtegundir (subspecies):
1 Efsta slíður þverstíft með mjóan, ljósan himnufald ……………………………. ssp. cespitosum
1 Efsta slíður kíllaga með breiðan, rauð- eða ryðbrúnan himnufald ……… ssp. germanicum
Ekki eru glögg skil á milli þessara undirtegunda, en hin síðar nefnda, ssp. germanicum (Palla) Hegi, hefur ekki fundizt hér með vissu. Viðurnafnið cespitosum merkir þýfður.
Vex í votlendi. Algengur um land allt nema á miðhálendinu. Blómgast í maí. 10-35 cm á hæð.
Hefur verið nefndur ýmsum nöfnum, svo sem mýrasef, mosaskúfgras og mýranál. Mýrafinnungur er þó auðþekktur frá öðrum líkum tegundum, eins og skúfum (Eleocharis), á græna broddinum á neðstu axhlífinni. Á stundum vantar ax á sum strá og halda margir, að það séu þá blöð.
Samnefni:
Baeothryon cespitosum (Linnaeus) A. Dietrich; Scirpus cespitosus L.; S. austriacus (Palla) Lindm., S. cespitosus L. ssp. austriacus (Palla) Brodd., S. bracteatus Bigelow; S. cespitosus var. callosus Bigelow; S. cespitosus var. delicatulus Fernald; Trichophorum austriacum Palla, T. cespitosum (L.) Hartm. ssp. austriacum (Palla) Hegi (ssp. cespitosum); Baeothryon cespitosum (L.) A. Dietr. ssp. germanicum (Palla) A. Löve & D. Löve, Scirpus cespitosus L. ssp. germanicus (Palla) Brodd., S. germanicus (Palla) Lindm., Trichophorum germanicum Palla (ssp. germanicum).
Nöfn á erlendum málum:
Enska: tufted clubrush, deergrass, cespitose clubrush
Danska: Tue-Kogleaks
Norska: bjønnskjegg
Sænska: tuvsäv, hedsäv, tysk tuvsäv (ssp. germanicum)
Finnska: tupasluikka
Þýzka: Horstige Rasenbinse
Franska: scirpe cespiteux, scirpe gazonnant, trichophore cespiteux
ÁHB / 4. okt. 2013