Laukkarsi – Alliaria petiolata

Skrifað um June 30, 2020 · in Flóra

Laukkarsi eða laukamustarður (Alliaria petiolata (M.Bieb.) Cavara & Grande) er tvíær jurt af krossblómaætt (Brassicaceae). Á fyrra ári vex upp blaðhvirfing, sem lifir af veturinn, en síðan spretta upp 30-80 cm háir, ógreinóttir (nema efst) og blöðóttir blómstönglar. Blöð eru stór og þunn, gróftennt á löngum legg, hjartalaga, en neðstu blöð oft nýrlaga.

 

Blóm eru hvít í klasa, sem lengist mjög, þegar aldin þroskast, með 4 krónublöð, 4-6 mm á lengd, og 4 bikarblöð, 2-3 mm löng. Skálpar sitja á stuttum legg (um 3 mm), 3-6 cm á lengd, 2 mm á þykkt, ferstrendir og er ein röð af fræjum í hvorri helft.

Laukkarsa er fyrst getið frá Svalbarðseyri 1935 (Ingólfur Davíðsson 1964). Höfundi þessa pistils er ekki frekar kunnugt um tegundina fyrr en í garði Eiríks Hjartarsonar í Laugamýri (Laugardal) í Reykjavík. Fyrir 3 eða 4 árum tók hún að dreifa sér í garða í grenndinni og vex meðal annars í þéttum breiðum meðfram Reykjavegi ofarlega. Hún vex aðeins í myldum moldarjarðvegi (beðum) í hálfskugga af runnum og trjám. Samkvæmt forstöðumanni Grasagarðs Reykjavíkur, Hirti Þorbjörnssyni, vex tegundin víðar í görðum hér í Reykjavík. Tegundin er mjög auðþekkt af vægri lauklykt.

Annars staðar á Norðurlöndum vex laukkarsi í næringarríkum jarðvegi laufskóga, en hefur dreifzt þaðan nokkuð norður á bóginn. Vafi leikur á, hvort tegundin teljist til flóru Norðurlanda. Hún á frekar heima í Mið- og Suður-Evrópu, Norður-Afríku og vestast í Asíu. – Mjög auðvelt er að fjölga tegundinni með fræi og víða hefur hún haslað sér völl, þar sem hennar er ekki óskað.

Fersk blöð og reyndar allur ofanjarðar hluti plöntunnar þykja hið mesta góðgæti, auk þess að hafa heilsubætandi áhrif. Bezt þykir að safna plöntunni fyrir blómgun og fræi í lok júlí eða í ágúst. Öll plantan lyktar sem hvítlaukur og bragð er nokkuð beiskt. Gott þykir að þurrka blöð og hafa í seyði eða te.

Laukkarsi er sögð bólgueyðandi, svitadrífandi, þvag- og hægðaleysandi og sótthreinsandi. Hún er notuð við astma, berkjubólgu og niðurgangi. Gott þykir að leggja safa úr henni eða mulið fræ við sár, húðkvilla (exem) og minni háttar skeinur. Þá er hún rík af C-vítamíni og steinefnum.

Fersk blöð bragðast sem hvítlaukur og sinnep. Rifin blöð eru sett í sallat, á smurt brauð með kjöti eða osti og í ýmsar súpur. Á Englandi er jurtin höfð í sósur með lambakjöti ásamt myntublöðum. Mulið fræ er haft sem krydd og nýtínd blóm höfð í borðskraut.

Bragð laukkarsa stafar af rokgjörnum olíum og glýkósíðinu sinigrin, sem er í flesum tegundum af krossblómaætt. Nái kýr að gæða sér á jurtinni, kemur sterkt laukbragð af mjólkinni. – Engin dæmi eru um, að mönnum hafi orðið meint af urtinni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Samnefni:
Alliaria officinalis Andrz. ex M. Bieb., A. alliaria (L.) Britt.; Sisymbrium alliaria (L.) Scop.; Arabis petiolata M. Bieb.; Erysimum alliaria L.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: garlic mustard, hedge garlic, Jack-by-the-hedge, sauce alone, flixweed
Danska: Løgkarse, Almindelig Løgkarse, Lægekarse
Norska: løkurt (bókmál)
Sænska: löktrav, vitlöksört
Finnska: litulaukka
Þýzka: Gewöhnliche Knoblauchsrauke, Knoblauchsrauke, Lauchkraut, Gemeines Lauchkraut, Lauchrauke, Knoblauchhederich
Franska: alliaire, alliaire officinale, alliaire pétiolée

Heimild:
Ingólfur Davíðsson, 1964: Slæðingar. – Náttúrufræðingurinn 3.-4. tbl. 33. árg: 166-185.

 Leave a Reply