Að maklegleikum

Skrifað um April 25, 2016 · in Almennt

Mér er kunnugt um tvær ríkisstofnanir, sem veita mönnum verðlaun. Það er hvorki ÁTVR né ríkisskattstjóri, heldur Landgræðsla ríkisins og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í þau 25 ár, sem Landgræðsla hefur veitt verðlaun hafa samtals 88 einstaklingar, félög eða stofnanir fengið verðlaun.

Verðlaun eða viðurkenningar Náttúrufræðistofnunar eru tvenns konar. A) Heiðursviðurkenning fyrir ómetanlegt framlag á sviði náttúrufræða og má viðkomandi ekki vera starfsmaður stofnunarinnar; 3 karlar hafa hlotið viðurkenningu. B) Gullmerki N.Í. fyrir langt og farsælt starf á stofnuninni, og hafa 9 verið sæmdir merki.

Ekki er ljóst, hvernig verðlauna- og viðurkenningarhafar eru valdir. Í flestum tilvikum virðist nóg að eiga áburðardreifara til að hljóta landgræðsluverðlaunin með fáum undantekningum þó.
Erfiðara er að geta sér til um, hverjir hljóta viðurkenningar N.Í. Fyrrum starfsmaður, sem átti að baki um 40 ára starf á sviði fuglafræði, hefur ekki hlotið gullmerkið, svo að álykta má, að það hafi ekki verið nægilega „farsælt” starf. Ónefndur náttúrufræðingur, sem hefur skrifað meira í rúma hálfa öld en samanlögð skrif allra heiðursviðurkenningarhafa, hefur tvisvar hlotið viðurkenningu Hagþenkis og einu sinni fengið íslenzku bókmenntaverðlaunin, auk þess að vera sæmdur fálkaorðunni fyrir fræðistörf, hefur enn ekki verið talinn þess verður að hljóta heiðursviðurkenningu Náttúrufræðistofnunar.

Einu sinni var mér sagt, að ríkisstofnanir ættu ávallt að hafa faglegt mat að leiðarljósi.

ÁHB / 25. apríl 2016

Leitarorð:


Leave a Reply