Lophozia — lápmosar[1]

Skrifað um April 4, 2017 · in Mosar

Ættkvíslin Lophozia (Dumort.) Dumort. (lápmosar) er innan Lophoziaceae (lápmosaættar) ásamt sex kvíslum öðrum.

Plöntur eru með stöngul og blöð. Þær eru miðlungi stórar til litlar, jarðlægar, uppsveigðar eða uppréttar. Undirblöð engin eða sjaldan, og þá oftast á sprotaendum. Blöð eru fest á ská eða nærri þvert á stöngul. Blöð klofin í 2 sepa, ydda, bogadregna og snubbótta, sjaldan í 3 eða 4. Margar tegundir með æxlikorn, annaðhvort hyrnd eða kúlulaga úr 1 eða 2 frumum, sem myndast í jaðri sepa.

Plöntur ýmist ein- eða tvíkynja.

Helzt er hætta á að rugla tegundum kvíslar við tegundir innan Leiocolea (glysjumosa).

Lykill að tegundum innan Lophozia:

1 Frumur framarlega í blaði og fósturhylkjum með þykka veggi. Horn-þykknun sjaldan áberandi. Plöntur tvíkynja og oftast með fósturhylki. Æxlikorn rauðgul eða rauðbrún ………. L. bicrenata
1 Frumur í blöðum með þunna veggi. Hornþykknun oftast áberandi …… 2

2 Separ bogadregnir. Blaðrönd oftast útsveigð í vikgrunni …….. L. obtusa
2 Separ yddir eða snubbóttir. Blaðrönd aldrei útsveigð í vikgrunni …….. 3

4 Með æxlikorn ……………………………………………….. 5
4 Án æxlikorna ……………………………………………….. 12

5 Æxlikorn gul til græn ……………………………………. 6
5 Æxlikorn rauð til brún …………………………………… 9

6 Breidd blaða meiri en lengd. Stöngull breiður en flatur, breidd hans er mun meiri en hæð. Olíudropar >20. Hliðarblöð með 2-3(-4) sepa. Nær alltaf með græn æxlikorn ………. 7
6 Breidd blaða meiri eða minni en lengd. Stöngull mjór. Olíudropar <20. Hliðarblöð með 2(-3) sepa. Nær alltaf með (gul-)græn æxlikorn (veggur þó rauður, ef blöð eru rauð) ………. 8

7 Neðra borð stönguls rautt. Blaðgrunnur 1 frumulag á þykkt. Flest blöð með 2 sepa …………. …………… L. grandiretis
7 Neðra borð stönguls aldrei rautt. Blaðgrunnur 2-4 frumulög á þykkt. Flest blöð með 3 sepa ……. …………………………. L. incisa ssp. opacifolia

8 Blöð jafnan slétt, e.t.v. eilítið kúpt. Blöð mjög skástæð á stöngli. Separ ekki innsveigðir. Vik fjórðungur af blaðlengd eða meira, vikgrunnur nærri rétthyrndur ……………… L. ventricosa
8 Blöð spónlaga, mjög kúpt. Blöð næstum þvert á stöngli. Separ innsveigðir. Vik fimmtungur af blaðlengd eða minna, vikgrunnur hálfmánalaga ……………… L. wenzelii

9 Plöntur uppréttar. Blöð fest þvert á stöngul. Breidd blaða innan við þrír fjórðu af lengd. Separ hornlaga. Blaðrendur ekki mjög bogadregnar Alltaf með æxlikorn …………… L. longidens
9 Plöntur jarðlægar, sprotar með æxlikorn uppsveigðir. Blöð skástæð á stöngli. Breidd blaða oftast meira en þrír fjórðu af lengd. Blaðrendur bogadregnar ……………………………. 10

10 Flest æxlikorn 24-30 x 30-36 µm að stærð. Æxlikorn rauð. Frumur í blaðmiðju 28-30 x 30-35 µm …………………………………. L. excisa
10 Flest æxlikorn 15-20 x 15-30 µm að stærð. Æxlikorn rauðbrún. Frumur í blaðmiðju 18-22 x 18-25 µm …………………………….. 11

11 Undirblöð stór fremst á stöngli. Vikgrunnur hvass og separ yddir …………….. L. debiliformis
11 Undirblöð engin eða örsmá. Vikgrunnur hálfmánalaga eða bogadreginn og separ snubbóttir …. ………………………… L. sudetica

12 Bil á milli blaða neðan á stöngli 1-4 frumur á breidd. Í hverri frumu eru 2-25 olíudropar, 4-8 µm að þvermáli. Frumur í jaðri blaða minni en 30 µm …………………………. 13
12 Bil á milli blaða neðan á stöngli 4-6 frumur á breidd. Í hverri frumu eru 16-60 olíudropar, 2-4 µm að þvermáli. Frumur í jaðri blaða stærri en 25 µm (nema á (L. obtusa) …………. 16

13 Plöntur uppréttar. Blöð fest þvert á stöngul. Breidd blaða innan við þrír fjórðu af lengd. Separ hornlaga. Blaðrendur ekki mjög bogadregnar Alltaf með æxlikorn …………… L. longidens
13 Plöntur jarðlægar, sprotar með æxlikorn uppsveigðir. Blöð skástæð á stöngli. Breidd blaða oftast meira en þrír fjórðu af lengd. Blaðrendur bogadregnar ……………………………. 14

14 Blöð spónlaga, mjög kúpt. Blöð næstum þvert á stöngli. Separ innsveigðir. Vik fimmtungur af blaðlengd eða minna, vikgrunnur hálfmánalaga ……………… L. wenzelii
14 Vik dýpra ………………………………………. 15

15 Frumur framarlega í blaði og fósturhylkjum með þykka veggi ………………. …………… L. bicrenata
15 Frumur í blöðum með þunna veggi …………………….. L. excisa

16 Separ bogadregnir. Blaðrönd oftast útsveigð í vikgrunni …… L. obtusa
16 Separ þríhyrndir, yddir eða snubbóttir. Blaðrönd aldrei útsveigð í vikgrunni ….. L. grandiretis

 

Lýsing á tegundum innan Lophozia:

Lophozia bicrenata (Schmidel ex Hoffm.) Dumort. — Hraunlápur

Blöð með 2 (-3) sepa, eru frekar þverstæð á stöngli, grænar eða brúngrænar plöntur. Sprotar 0,4-1 mm á breidd og allt að 1 cm á lengd. Separ þríhyrndir, yddir eða snubbóttir. Vik allt að þriðungur af blaðlengd. Undirblöð jafnan engin.

Yfirborð stönguls strikvörtótt, olíudropar (3-) 6-12 (-15) í hverri frumu, nema jaðarfrumum, æxlikorn úr 1 eða 2 frumum, marghyrnd til stjörnulaga, 15-25 µm, gulrauð til rauðbrún. Nær alltaf með fósturhylki.

Tegundin þekkist helzt á því, hvað hún er smávaxin, blöð þéttstæð, rauðlitum æxlikornum, og þykkveggja frumum.

Sjaldgæf, vex á fáum stöðum til fjalla. Lifir helzt í gróðursnauðum melum og urðum.

 

Lophozia debiliformis R.M.Schust. & Damsh. — fjallalápur

Blöð með 2 eða 3 (-4) sepa, ýmist ská- eða þverstæð á stöngli, ljósgulgrænar plöntur. Sprotar 0,7-9 mm á breidd og 1-2,5 cm á lengd. Separ þríhyrndir, yddir eða snubbóttir. Vik allt að fjórðungur af blaðlengd. (þá sjaldan blöð eru með 3 eða 4 sepa, er vik grunnt og hálfmánalaga). Undirblöð frá því að vera örsmá til stór fremst á stöngli, oft skipt í 2 sepa með tennur og slímvörtu.

Yfirborð slétt, olíudropar 3-6 í hverri frumu, æxlikorn oftast fá.

Tegundin getur líkzt ýmsum öðrum, en þekkist helzt á því, að hún vex í birtu, er án sveppþráðalags í stöngli, blöð með 2 eða 3 (-4) sepa og mynda stöku sinnum undirblöð.

Sjaldgæf, vex á fáum stöðum til fjalla. Lifir helzt í snjódældum og urðum.

 

Lophozia excisa (Dicks.) Dumort. — dreyralápur

Blöð með 2 sepa, skástæð á stöngli, oft bylgjótt, ljósgrænar, síðar brún- eða rauðlitar, plöntur. Sprotar 1-2 mm á breidd og 0,5-2,5 cm á lengd. Separ þríhyrndir, enda í einni eða tveimur frumum í röð. Vik um fjórðungur af blaðlengd. Undirblöð engin nema á frjóum sprotum.

Yfirborð slétt, olíudropar 11-24 í hverri frumu, oft með æxlikorn, græn í fyrstu en verða fljótt vínrauð eða brúnleit.

Tegundin þekkist helzt á því, að hún er tvíkynja (eins og L. bicrenata), með stórar þunnveggja frumur, hún er fagurgræn með rauðan lit efst á blöðum, vikgrunnur oftast hálfmánalaga og rauðleit æxlikorn.

Vex á víð og dreif um landið. Lifir einkum á gróðurvana holtum og melum, en einnig í flögum og mýrarþúfum.

 

Lophozia grandiretis (Lindb. ex Kaal.) Schiffn. — flekkulápur

Blöð með (0-) 2 (-3) sepa, mjög skástæð á stöngli, breidd blaða mun meiri en lengd, dökkgrænar plöntur í endann, en eldri hluti rauður. Stöngull breiður, breidd hans meiri en hæð, rauður á neðra borði og yfirborðsfrumur hans mjög langar. Sprotar 1,2-2,4 mm á breidd og allt að 3 cm á lengd. Separ yddir eða snubbóttir. Vik um þriðjungur af blaðlengd, ýmist grynnra eða örlítið dýpra. Vikgrunnur hálfmánalaga eða rétthyrndur. Undirblöð engin. Ávallt með ljósgræn æxlikorn.

Yfirborð slétt, olíudropar 35-40 í hverri frumu.

Tegundin er oftast auðþekkt á grænum, oft rauðmenguðum, blöðum, flötum stöngli, stórum blaðfrumum, 40-65 x 50-78 µm og stórum æxlikornum, allt að 50 µm á lengd, sem myndast í miklum mæli.

Sjaldséð einkum um landið norðanvert. Vex þar sem þó nokkur raki er.

 

Lophozia incisa (Schrad.) Dumort. ssp. opacifolia (Culm. ex Meyl.) R.M.Schust. & Damsh. — heiðalápur

Blöð með 2 (-4) sepa, mjög skástæð á stöngli, geta verið baksveigð, breidd blaða mun meiri en lengd, blágrænar plöntur. Stöngull breiður, breidd hans meiri en hæð, oft brúnn á neðra borði og yfirborðsfrumur með þunna veggi. Sprotar 1,5-2 mm á breidd og allt að 2 cm á lengd. Separ snubbóttir eða yddir, enda þá í tönn með 2 (-4) frumum, geta verið tenntir. Vik um fjórðungur af blaðlengd, ýmist grynnra eða örlítið dýpra. Vikgrunnur hálfmánalaga, bogadreginn eða rétthyrndur. Undirblöð engin nema á sprotaendum á kvenplöntum.

Yfirborð slétt eða vörtótt, olíudropar 25-45 í hverri frumu, næstum alltaf með ljósgræn æxlikorn.

Tegundin er oftast auðþekkt á blágrænum lit.

Fremur sjaldséð. Vex í snjódældum.

 

Lophozia longidens (Lindb.) Macoun — kjarrlápur

Blöð með 2 (-3) sepa, mjög skástæð á stöngli, geta verið baksveigð, hringlaga ferhyrnd, grænar eða gulgrænar til gulbrúnar plöntur. Stöngull oft ljósbrúnn á neðra borði. Sprotar 1-2 mm á breidd og allt að 3 cm á lengd. Separ hornlaga, snubbóttir eða bogadregnir. Vik um fjórðungur eða meira af blaðlengd. Vikgrunnur mjór og blaðrönd útsveigð neðst. Undirblöð jafnan engin, sjaldan með klofnum eða allaga undirblöðum með tönnum, sem enda í slímvörtu.

Yfirborð slétt til strikvörtótt, olíudropar 4-10 í hverri frumu, alltaf með græn æxlikorn, sem verða fljótlega rauðgul eða rauðbrún.

Tegundin er oftast auðþekkt á lit æxlikorna, baksveigðum blöðum og hornlaga sepum.

Mjög sjaldgæf. Vex á trjám, föllnu laufi og í gróskumiklum hvömmum.

 

Lophozia obtusa (Lindb.) A.Evans — engjalápur

Blöð með 2 (-3) sepa, mjög skástæð á stöngli, næstum kringlótt, breiðust neðan miðju, grænar, brún- eða gulgrænar, rauðar eða rauðbrúnar, plöntur. Stöngull rauður á neðra borði og yfirborðsfrumur hans ferhyrndar. Sprotar 1,5-2,5 mm á breidd og allt að 3 cm á lengd. Separ bogadregnir eða snubbóttir, sjaldan yddir. Vik um fjórðungur af blaðlengd, ýmist grynnra eða örlítið dýpra. Vikgrunnur mjór og blaðrönd útsveigð neðst. Undirblöð af og til, en mjög lítil og enda í slímvörtu, að mestu hulin í rætlingum.

Yfirborð slétt eða vörtótt, olíudropar 15-50 í hverri frumu, sjaldan með græn æxlikorn.

Tegundin er oftast auðþekkt á mjög skástæðum blöðum, bogadregnum eða snuppbóttum sepum, mjóum vikgrunni með útsveigða blaðrönd.

Fremur sjaldséð. Vex á skuggsælum stöðum í hraungjótum, urðum og giljum, en einnig á rökum stöðum við læki og í snjódældum.

 

Lophozia sudetica (Nees ex Huebener) Grolle — lautalápur

Blöð með 2 (-3) sepa, skástæð á stöngli, næstum kringlótt, breiðust neðan miðju, grænar, brún- eða gulgrænar, rauðar eða rauðbrúnar plöntur. Sprotar 1,5-2 mm á breidd og allt að 3 cm á lengd. Separ bogadregnir eða snubbóttir, sjaldan yddir, hliðar blaða bogadregnar. Vik um fjórðungur af blaðlengd, ýmist grynnra eða örlítið dýpra. Vikgrunnur hálfmánalaga eða rétthyrndur. Undirblöð engin eða örsmá efst á sprota með æxlikornum.

Yfirborð slétt eða vörtótt, olíudropar 6-9 í hverri frumu, nær ætíð með rauðbrún æxlikorn.

Tegundin er oftast auðþekkt á rauðbrúnum æxlikornum, nær kringlóttum, kúptum blöðum, hálfmánalaga vikgrunni og stöngli, sem er 200-300 µm að þvermáli.

Mjög algeng um mestan hluta landsins. Lifir í margs konar gróðurlendi, en einkum í gróðurvana hraunum, melum, klettum, giljum og snjódældum.

 

Lophozia ventricosa (Dicks.) Dumort. — urðalápur

Blöð með 2 (-3) sepa, skástæð á stöngli (þverstæð, ef plöntur eru uppréttar), grænar, brún- eða gulgrænar plöntur. Sprotar 0,8-2,2 mm á breidd og 1-2,5 cm á lengd. Separ þríhyrndir, snubbóttir eða yddir og enda þá í tveimur eða þremur frumum í röð. Vik um þriðjungur til fjórðungur af blaðlengd. Vikgrunnur hálfmánalaga eða rétthyrndur. Undirblöð engin.

Yfirborð slétt, olíudropar 9 eða 10 í hverri frumu, oft með æxlikorn í grænum eða gulum hnöppum á sepaendum.

Tegundin er mjög breytileg en þekkist helzt á lit æxlikorna og blöð eru ekki kúpt eins og á L. wenzelii.

Vex um mestan hluta landsins. Lifir í margs konar gróðurlendi, en einkum þar, sem er nokkur rekja.

 

Lophozia wenzelii (Nees) Steph. — spónlápur

Blöð með 2 (-3) sepa, frekar þverstæð á stöngli, ljós- eða gulgrænar, síðar rauðlitar, plöntur. Sprotar 1,2-1,6 mm á breidd og allt að 4 cm á lengd. Separ breiðþríhyrndir, jafnstórir, snubbóttir. Vik oft lítið sem ekkert eða um fimmtungur af blaðlengd. Vikgrunnur hálfmánalaga. Blöð mjög kúpt, oft hálfkúlulaga. Undirblöð engin.

Yfirborð slétt, olíudropar 4-9 í hverri frumu, með æxlikorn, græn en geta verið rauð.

Tegundin þekkist helzt á því, að blöð eru mjög kúpt, vik er grunnt og æxlikorn fölgræn.

Vex á víð og dreif um landið, einkum til fjalla. Lifir í raklendi, snjódældum og votlendi.

lophozia_all

 

ÁHB / 4. apríl 2017

 

Helztu heimildir:

Ágúst H. Bjarnason, 2009: Tegunda- og samheitaskrá um íslenzka lifurmosa og hornmosa (Marchantiophyta et Anthocerotophyta). Fjölrit Vistfræðistofu n:r 37.

Bergþór Jóhannsson, 2000: Íslenskir mosar. Lápmosaætt, kólfmosaætt og væskilmosaætt. – Fjölrit Náttúrufræðistofnuna 41.

Tomas Hallinbäck och Ingmar Holmåsen, 2008: Mossor. En fälthandbok. – Interpublishing. Stockholm 2008. 288 s.

Damsholt, K., 2002: Illustrated Flora of Nordic Liverworts and Hornworts. – Nord. Bryol. Soc. Lund. 840 s.

 

 

 

[1] Ýmsir, þar á meðal K. Damsholt (2002), nota Lophozia í mun víðtækari merkingu en hér og skipta henni í undirættkvíslir, meðal annars Barbilophozia og Leiocolea.

Leitarorð:


Leave a Reply