Hvenær á að slá grasflötina?

Skrifað um June 13, 2013 · in Almennt

Falleg og vel hirt grasflöt er prýði við hvert hús.

Falleg og vel hirt grasflöt er prýði við hvert hús.

Það er vandaverk að rækta fallega grasflöt. Huga þarf að ótal atriðum. Þá er ekki síður snúið að viðhalda flötinni. Algengasta umkvörtunarefni manna er mosi í rót. Mosinn tekur út vöxt á undan grösunum, oft í apríl, og svo síðla sumars eða jafnvel um haust. Það er því ekki undarlegt, að hann sé mest áberandi á þeim tíma.

Meginskyssa, sem flestir gera, er að slá grasið of snemma. Hafi menn dug í sér, er gott að reyna að reyta sem mest upp af mosa að vori. Þá á að leyfa grasinu að vaxa, því að þá vinnst tvennt. Í fyrsta lagi skyggir það á mosann, sem lognast út af, og í öðru lagi styrkist rótarkerfi þess. Þá er ágætt að sáldra tilbúnum áburði, sem inniheldur einkum þrjú áburðarefni: nitur (köfnunarefni), fosfór og kalíum. Nitrið eykur blaðvöxt, fosfór styrkir rótarkerfi og kalíum eflir mótstöðu gegn þurrki og sveppum. Helzt eru það samverkandi áhrif þessara efna, sem bæta hag plantnanna. Fosfór og kalíum hafa lítil áhrif ein og sér. Lífrænn áburður er oftast af hinu góða, en sömu steinefni losna úr honum og eru í tilbúnum áburði. Þó nýtast þau ef til vill ekki eins vel. Á hinn bóginn hefur lífrænn áburður góð áhrif á örverur í jarðvegi.

Víða á grasflötum er jarðvegur mjög þéttur í sér. Þá er ágætt ráð að hleypa lofti í jarðveginn öðru hverju. Það er gert á þann hátt, að stinga gaffli í flötina með vissu millibili. Gott er að sáldra sandi yfir flötina öðru hverju til þess að jafna hana og raka sölnuðu laufi saman.

Mergurinn málsins er sá að slá ekki of snemma að vori, lofta jarðveginn, reyta mosa og sáldra í skellur. Um hásumarið má slá oft, en síðan að láta flötina fara frekar loðna undir snjó.

 

ÁHB / 13. júní 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply