Ekki er hægt við selnum að sjá

Skrifað um April 13, 2021 · in Almennt

Vorið 1978 var eg á selaveiðum með Skaftafellsbændum, Ragnari Stefánssyn í Hæðum og Jakobi Guðlaugssyni í Bölta. Með í för voru auk mín Helgi Stefánsson í Hofsnesi, tveir synir Jakobs og Anna María, dóttir Ragnars.

Skaftafellsfjara er um 14 km, bæði austan og vestan Skeiðarár, enda óháð því hvar áin fellur til sjávar. Við bjuggum í slysavarnaskýli á sandinum.

Þetta vor var veiði heldur dræm, en algengt var að veiða á milli 200 og 400 kópa á hverju vori.

Veiðin fór fram með tvennum hætti. Annars vegar var dregið fyrir í ósnum, sem var á þessum árum mjög breiður. Vorselurinn heldur sig þar mikið. Hins vegar var skriðið og læðzt fram í látrin. Sá, sem stjórnaði hópnum, sagði „nú“ og þá hlupum við fram fyrir hópinn, jafnvel fram í sjó. Síðan gengum við á móti selahópnum og rotuðum kópana í gríð og erg á báða bóga, en slepptum fullorðna selnum.

Við rotuðum kópana með löngu priki, sem nefnist selakeppur.

Oft þurfti að vaða yfir Skeiðará, sem tók drjúga stund. Hún var jafnan í hné eða mitt læri, en svo komu djúpir álar á milli stöku sinnum. Vélarnar sukku í sand öðru hverju, en alltaf tókst að ná þeim upp með örlítilli lagni.
Að lokinni veiði voru kópar flegnir.

 

Allnokkrum árum seinna var eg á selaveiðum með Erni Þorleifssyni í Húsey í Hróarstungu.

 

ÁHB
13. apríl 2021