Döggblöðkur ─ Alchemilla

Skrifað um October 24, 2012 · in Flóra

Breiða af ljónslappa á Teistareykjum, ágúst 2012. Ljósm. ÁHB.

Breiða af ljónslappa á Teistareykjum, ágúst 2012. Ljósm. ÁHB.

Ættkvíslin Alchemilla L., döggblöðkur, tilheyrir rósaætt (Rosaceae) og teljast á milli 200 og 300 tegundir til hennar. Þetta eru fjölærar jurtir, sem vaxa víða á norðurhveli jarðar, en einnig í Asíu, í fjöllum Afríku og Andes-fjöllum í Suður-Ameríku.
Blöð og stönglar vaxa upp af kröftugum, trékenndum jarðstöngli. Flestar tegundir hafa heil, nýrlaga, sepótt eða flipótt, handstrengjótt stofnblöð; ljónslappi þó með fingruð blöð. Blaðflipar eru tenntir. Stöngulblöð eru minni en líkjast stofnblöðum. Blaðleggir og stönglar hárlausir eða hærðir; hár ýmist aðlæg eða útstæð og er það mikilvægt greiningareinkenni.
Blóm eru tvíkynja, lítil og ósjáleg í þéttum eða gisnum skúfum. Þau eru græn til grængul, krónublaðalaus, en með tvöfaldan bikar, 4 bikarblöð og 4 utanbikarblöð (sjaldan 5). Fræflar eru fjórir, ein fræva. Aldin er hneta.

Nafnið alchemilla er komið úr arabísku, alkemelych, gullgerðarlist. Skýring á því er sú, að á fyrri tíð héldu menn, að unnt væri að vinna gull úr dropum, sem safnast oft fyrir á blöðum plantnanna. Dropar þessir eru til komnir vegna þess, að á kyrrum og rökum nóttum safnast vatn, sem plantan tekur upp gegnum rætur, í stóra dropa á blöðunum. Þetta kallast táramyndun (guttation). Vatnið streymir út um æðar á röndum blaða og og rennur saman í skál blaðsins og myndar þessa glitrandi dropa á vaxþöktu yfirborði blaðsins. Síðdegis á sólríkum dögum gufar vatnið síðan upp. Vatnsdropar þessir eru því alls ekki venjuleg dögg, sem myndast við náttfall og í þoku, eins og á stundum er haldið ranglega fram.

Döggblöðkurnar fjölga sér margar hverjar með fræi án undangenginnar frjóvgunar. Það nefnist geldæxlun (kynlaus fræmyndun, agamospermy). Þetta veldur því, að innan ættkvíslarinnar eru ótal smátegundir, sem breytast lítið sem ekkert í útliti plöntu fram af plöntu. Mikilvægt er að greina rétt þroskuð eintök og má því hvorki safna þeim of snemma né of seint að hausti. Þá er vert að hafa í huga, að stofnblöð eru misgömul; yztu blöð á jarðstöngli eru elzt en innstu yngst. Elztu blöðin eru oft lítið hærð, og bezt er að skoða hæringu á miðjum legg, nema annað sé tekið fram. ─ Þessum svo kölluðu smátegundum er oft og tíðum slegið saman í eina tegund, A. vulgaris L. og nefnd maríustakkur.

Tegundir innan ættkvíslar heita ýmsum nöfnum, sem eru sameiginleg öllum smátegundum, því að almennt var ekki gerður greinamunur á þeim. Nafnið ljónslappi, ljónslöpp, ljónsfætla, ljónsfótur, ljónslumma og jafnvel vargslappi eru sennilega gömul og komin úr miðaldalatínu, Leontopodium, enda þykja blöðin minna á fót ljóns eða annars dýrs. Í frönsku er það nefnt pied-de-lion og í ensku eru nokkur nöfn af þessum toga: Lion‘s foot, bear‘s foot og duck‘s foot; í þýzku Löwenfuss og Lövefod á dönsku.
Mörg nöfn eru dregin af dropamynduninni. Sinnau (Sonnentau) á þýzku, á sænsku daggkåpa, daggört, daggskål og hefur Stefán Stefánsson, höfundur Flóru Íslands, sennilega stuðzt við það, þegar hann bjó til döggblaðka.
Þá eru fjölmörg nöfn kennd við kápu eða kyrtil Maríu guðsmóður. Þegar blöðin eru ekki að fullu útbreidd þykja þau minna á slíka yfirhöfn. Maríustakkur, Mariekåbe (danska), Frauenmantel og Marienmantel (þýzka), Lady‘s Mantle (enska) og Jungfru Marie kåpört (sænska), svo að fáein dæmi séu nefnd.
Döggblöðkur voru mikils metnar sem lækningajurtir og bæði notaðar inn- og útvortis. Blöðin þóttu græðandi og seyði af þeim var notað við magakvillum og slæmum tíðaverkjum. Sofi maður á maríustakki óttar hann hvorki í svefni né dreymir illa. Þá var maríustakkur notaður til litunar á ullarbandi og sterkt vatn af honum haft til að súta skinn.
Mikil trúa var á krafti dropanna á blöðunum. Gullgerðarmenn fyrri alda reyndu að vinna gull úr dropunum, og gott þykir að þvo augun úr þeim. Ítalskar jómfrúr varðveittu meydóm sinn með því að neyta jurtarinnar, því að hún hefur samandragandi kraft og slöpp brjóst urðu þrýstin (sbr. jomfruurt), séu brjóst kvenna þar í þvegin.

Lykill að tegundum

1 Blöð 5 til 7 fingruð, skipt eða flipótt, svo að skerðing á blöðum nær hálfa leið inn að blaðmiðju eða meira; silkihærð og silfurgljáandi á neðra borði ………………… 2
1 Blöð sepótt, svo að skerðing á blöðum nær ekki nema mest hálfa leið inn að blaðmiðju; græn beggja megin …………………………………………………………………………. 3

2 Blöð skipt, 5-7 fingruð ………………………………………….. ljónslöpp (A. alpina)
2 Blöð 5-7 flipótt ……………………………………………………. maríuvöttur (A. faeroënsis)

3 Stönglar og blaðleggir með útstæð hár ……………………………………… 4
3 Stönglar og blaðleggir með aðlæg hár …………………………………………….. 7

4 Öll plantan hærð …………………………………………….. hlíðamaríustakkur (A. vestita)
4 Efri hluti stönguls og blómleggir hárlausir …………………………………………………… 5

5 Flest hárin vísa beint út eða lítið eitt upp á við. Blöð gishærð á efra borði ………….. 6
5 Flest hárin vita lítið eitt niður. Blöð hárlaus á efra borði nema æðastrengir …………………………………………………………. engjamaríustakkur (A. subcrenata)

6 Blöð 7-sepótt; axlablöð rauð ……………………………….. maríustakkur (A. filicaulis)
6 Blöð mjög stór, 9-11 sepótt, slæðingur ………………… garðamaríustakkur (A. mollis)

7 Stöngull hærður langt upp eftir. Blöð oftast hærð á efra borði …………………………………………………………………….. hnoðamaríustakkur (A. glomerulans)
7 Stöngull aðeins hærður neðst og nær hæringin ekki verulega langt upp. Blöð hárlaus á efra borði eða blaðstrengir aðhærðir …………………………………………… 8

8 Blöð kringlótt; greinilegt V-laga bil án tanna á milli blaðsepa. Blaðleggur hærður …………………………………………………………….. silfurmaríustakkur (A. wichurae)
8 Blöð nýrlaga; ekki V-laga bil á milli blaðsepa. Blaðleggur hærður nema þar sem hann mætir blöðku …………………………………………………… brekkumaríustakkur (A. glabra)

LjónslappiAlchemilla alpina L.
Upp af löngum og greinóttum jarðstöngli vaxa bæði stofnblöð og blómstönglar. Stofnblöðin eru legglöng, 5-7 fingruð; smáblöðin (1,2-2,0 x 0,5-1 cm) eru heilrend nema rétt í oddinn, og silkihærð á neðra borði; efra borð hárlaust eða því sem næst.
Blóm í smáskúfum. Krónublöð eru engin, en 4 bikar- og 4 utanbikarblöð. Bikarblöð eru gulgræn, um 1,5 mm á breidd, með hárskúf á enda; utanbikarblöð örmjó og mun styttri. Fræflar eru 4 og ein fræva. Aldin er hneta.

Vex í margs konar þurrlendi. Algengur um land allt nema í miðhálendinu; þar er hann strjáll. Blómgast í júní. 5-30 cm á hæð.

Var brúkaður til þess að græða sár og skurði og stöðva niðurgang, blóðsótt og blóðlát. Gott þótti að skola hálsinn með volgu seyði af blöðum plöntunnar; nafnið kverkagras er af því dregið. Þegar blöð ljónslappans eru farin að breiða úr sér að vori, þótti óhætt að seppa fé. Einnig nefndur ljónslöpp, ljónsfætla og brennigras.

Erlend heiti:
Enska: Alpine Lady’s-mantle, Mountain Lady’s Mantle
Danska: Bjerg-Løvefod
Norska: fjellmarikåpa
Sænska: fjällkåpa
Finnska: tunturipoimulehti
Þýzka: Alpen-Frauenmantel
Franska: L’Alchémille des Alpes

MaríuvötturAlchemilla faeroënsis (Lange) Buser

Maríuvöttur. Ljósm. ÁHB.

Maríuvöttur. Ljósm. ÁHB.

Að mörgu leyti líkur undanfarandi tegund. Stofnblöð legglöng, blaðka 5-7 flipótt, klofin niður að miðju eða lengra, , og silkihærð á neðra borði; efra borð hárlaust eða því sem næst. Blöðin eru mitt á milli þess að vera skipt, eins og á ljónslappa, og sepótt eins og á maríustökkum. Flipar tenntir ofan við miðju, tennur hærðar. Utanbikarblöðin mjó og um helmingi styttri en bikarblöðin.

Þurrkað eintak af maríuvetti. Ljósm ÁHB.

Þurrkað eintak af maríuvetti. Ljósm ÁHB.

Vex í skriðum og graslendi og víðar. Algengur frá Langanesströnd til Hornafjarar, á fáeinum stöðum í Þingeyjarsýslum; sjaldgæfur annars staðar. Blómgast í júní. 5-20 cm á hæð.

Þessi tegund vex aðeins hér á Íslandi og í Færeyjum (viðurnafnið faeroënsis er af því dregið).

Heiti á færeysku: Føroya⸗Skøra

MaríustakkurAlchemilla filicaulis Buser ssp. filicaulis
Blómstönglar og blaðleggir eru tiltölulega fíngerðir, uppréttir eða jarðlægir, með útstæð hár á neðri hluta en hárlausir á efri hluta. Stöngulblöð eru lítil. Stofnblöð eru hærð á efra borði, oft nokkuð blágræn, blöð nýrlaga með 7-9 sepa og er hver með 13-19 tennur; bugurinn við blaðstilk er opinn. Axlablöð stofnblaða eru vínrauð.
Blóm eru gulleit eða ljósgræn, lítil og sitja í skúfum á fíngerðum greinaendum. Viðurnafnið filicaulis merkir einmitt »grannur stöngull«, og er komið úr latínu, filum, þráður og caulis, stöngull.

Vex í blómlendi og graslendi. Nokkuð algengur um land allt. Blómgast í maí og júní. 10-30 cm á hæð.

Tegundin er all breytileg hvað varðar hæringu. Eintök með hærða bikara og blómleggi eru á stundum flokkuð sem undirtegund, A. filicaulis Buser ssp. vestita (Buser) M.E. Bradshaw, en eru hér talin sem sérstök tegund, hlíðamaríustakkur, A. vestita.

Enska: Thinstem Lady’s Mantle
Danska: Trådstænglet Løvefod
Norska: grannmarikåpe
Sænska: späddaggkåpa
Finnska: punatyvipoimulehti
Þýzka: Echter Fadenstängel-Frauenmantel
Franska:

HlíðamaríustakkurAlchemilla vestita (Buser) Raunk.
Mjög líkur undanfarnadi tegund að öðru leyti en því, að öll plantan er hærð. Að auki eru blöð oft hærðari á neðra borði.

Vex við svipaðar aðstæður og undanfarandi tegund. Blómgast í maí og júní. 10-30 cm á hæð.

Tegundin er oft talin undirtegund maríustakks og nefnist þá A. filicaulis Buser ssp. vestita (Buser) M.E. Bradshaw

Erlend heiti oft hin sömu og á undanfarandi tegund, nema:
Danska: Håret Løvefod
Norska: vinmarikåpe
Sænska: vindaggkåpa

HnoðamaríustakkurAlchemilla glomerulans Buser
Jarðstöngull grófur. Stönglar og blaðleggir aðhærðir upp að blómskipunarlegg. Þá er efra borð blaða jafnhært. Blöð fremur stór, gulgræn, kringlótt, 9-11 separ lágir, snubbóttir, með 13-19 tennur hver, bugurinn við blaðlegg þröngur. Síðla sumars kemur rauð rák fram með blaðrönd.
Blóm gulgræn á stuttum greinum, svo að blómin eru þéttstæð. Bikar hárlaus eða lítt hærður.

Vex í gras- og blómlendi og lautum til fjalla. Víða um land. Blómgast í maí og júní. 10-40 cm á hæð.

Erlend heiti:
Enska: Clustered lady’s mantle
Danska: Kilde-Løvefod
Norska: kjeldemarikåpe
Sænska: källdaggkåpa
Finnska: keräpääpoimulehti
Þýzka: Knäuel-Frauenmantel
Franska: Alchémille à fleurs en glomérules

GarðamaríustakkurAlchemilla mollis (Buser) Rothm.
Stór og mikil planta. Stöngull og blaðleggir með útstæð hár; mjúkir viðkomu; viðurnafnið mollis þýðir mjúkur. Blöð mjög stór, með 9-11 sepa og mörgum breiðum tönnum, 15-19 að tölu. Bugur við blaðlegg opinn.
Blóm í stórum skúfum, ljósgul.
Víða ræktaður í görðum og hefur slæðzt út fyrir þá sums staðar. Harðger jurt, sem þolir talsverðan skugga. Blómgast í júlí. 30-50 cm á hæð.

Enska: Lady’s Mantle
Danska: Lådden løvefod
Norska: praktmariekåpe
Sænska: jättedaggkåpa
Finnska: Jättipoimulehti
Þýzka: Weicher Frauenmantel
Franska: Alchemille commune, Manteau de Notre-Dame

BrekkumaríustakkurAlchemilla glabra Neygenf.
Oft er þessi tegund stórvaxin. Með aðlæg hár á að minnsta kosti neðri hluta stöngla og blaðleggjum, nema þar sem leggur og blaðka mætast, hárlaus þar; á latínu merkir glaber, hárlaus. Blöð eru stór, kringlótt eða nýrlaga, heldur lengri á breidd en lengd, að mestu hárlaus nema á jöðrum og æðastrengjum á neðra borði; bugur við blaðlegg víður. Blaðsepar þríhyrndir, 7-9 að tölu, hver með 13-19 breiðar tennur; miðtönn hvers sepa lítil og buguð neðst.
Blómskúfar stórir og gisnir, blóm gulleit og lítil.

Vex oft í þéttum breiðum í nánd við þéttbýli, útbreiðsla óviss. Blómgast í maí og júní. 10-40 cm á hæð.

Það einkennilega við þessa tegund er, að það ískrar í blöðum, ef þeim er núið saman.

Enska: Smooth Lady’s-mantle
Danska: Glat Løvefod
Norska: Glattmarikåpe
Sænska: Glatt daggkåpa
Finnska: Lähteikköpoimulehti
Þýzka: Kahler Frauenmantel
Franska: Alchémille alpestre, Alchémille glabre

SilfurmaríustakkurAlchemilla wichurae (Buser) Stefánsson
Meðalstór tegund eða fremur smávaxin. Blaðstilkar og blaðleggir grannir og aðhærðir; oft með silfurgljáa. Blöð kringlótt (um 5 cm á breidd), grágræn, skállaga og þunn; bugur við blaðlegg oftast nær lokaður. Bil á milli æðastrengja á neðra borði myndar 45° horn og er það gott greiningareinkenni. Blaðsepar hálfkringóttir, 7-9 að tölu; á milli sepa er greinileg V-laga skora. Tennur litlar með hárskúf; miðtönn hvers sepa minni en aðrar.
Blómskúfar eru gisnir og blóm lítil, gulgræn. Blómleggir og bikar hárlausir.

Kringlótt blað af silfurmaríustakki. Takið eftir hvernig æðastrengir mynda 45° horn. Ljósm. ÁHB.

Kringlótt blað af silfurmaríustakki. Takið eftir hvernig æðastrengir mynda 45° horn. Ljósm. ÁHB.

Vex víða á láglendi í svipuðu umhverfi og aðrir maríustakkar. Blómgast í maí og júní. 5-20 cm á hæð.

Viðurnafnið wichurae er til heiðurs þýzkum dómara, Max Wichura (1817-1866), og merkir »maríustakkur Wichurasar«. Stefán Stefánsson, skólameistari og grasafræðingur er höfundur að latnesku heiti tegundar.
Maríukirtill er nafn, sem Áskell Löve notaði í Íslenzkum jurtum (1945).

Enska: grassland lady’s mantle
Danska: Kløftet Løvefod
Norska: Skarmarikåpe
Sænska: Skårdaggkåpa
Finnska: Terävälovipoimulehti
Þýzka: Wichuras Frauenmantel
Franska: Alchémille à dents aiguës

EngjamaríustakkurAlchemilla subcrenata Buser
Jarðstöngull nokkuð grófgerður. Blaðstönglar og blómleggir með útstæð hár upp að blómskipun; hárin geta verið gisin og vita oftast lítið eitt niður. Blöð eru stór, þunn og ljósgræn; oft nokkuð bylgjótt, kringlótt með 7-9 sepa, hver sepi með um 15 snubbóttar, þríhyrndar, misstórar tennur; stærstar eru þær á ytri hluta sepa. Bugur við blaðlegg þröngur eða lokaður.
Blómskúfur er greinóttur og oftast hárlaus.
Sjaldgæfur slæðingur, sem fundizt hefur stöku sinnum í byggð.

Hagamaríustakk nefnir Áskell Löve þessa tegund.

Enska: broadtooth lady’s mantle
Danska: Butlappet Løvefod
Norska: Engmarikåpe
Sænska: Ängsdaggkåpa
Finnska: Hakamaapoimulehti
Þýzka: Stumpfzähniger Frauenmantel
Franska: Alchémille
Í gömlum plöntuskrám er getið um Alchemilla arvensis (L.) Scop., sem nú heitir Aphanes arvensis L., og er kallaður dvergastakkur. Engar frekari spurnir eru af honum. Þá eru sennilega allnokkrar aðrar tegundir ræktaðar hér í görðum, og kunna þær að dreifa sér.

Ath. Fleiri myndir og teikningar verða settar inn síðar.

Leitarorð:


Leave a Reply