Blóm: Bikar og króna

Skrifað um January 6, 2013 · in Almennt

Myndin sýnir helztu hluta í blómi. Teikn. ÁHB.

Myndin sýnir helztu hluta í blómi. Teikn. ÁHB.

Blóm: Bikar og króna
Blóm er sproti eða sprotaendi, sem gegnir því hlutverki að sjá um kynæxlun í blómplötum. Blóm eru til af ótal stærðum og gerðum. Hér verður aðeins fjallað um grundvallargerð fullkomins blóms; annars vegar bikar og krónu og hins vegar fræfla og frævur (sjá síðar).

Stöngullinn, sem blómið stendur á, nefnist blómleggur, og efsti hluti hans er blómbotn. Á blómlegg, undir blómbotni, eru oft lítil blöð, svonefnd háblöð; yfirleitt eru þau tvö á tvíkímblöðungum og jafnan eitt (stöku sinnum fleiri) á einkímblöðungum.

Á blómbotni í fullkomnu blómi sitja fjórar hvirfingar eða kransar af blómblöðum: Yzti kransinn er bikar eða bikarblöð; þá kemur króna eða krónublöð; síðan frjóblöð, sem verða að fræflum; og innst sitja eitt eða fleiri fræblöð, sem mynda frævuna. – Frjóblöð og fræblöð kallast einu nafni æxlunarblöð, en bikar og króna nefnast einu nafni blómhlíf eða blómhlífarblöð. Fyrir kemur, að ógerlegt er að greina á milli bikar- og krónublaða og kallast þá blómhlíf (á erlendum málum tepal).

Bikar (calyx, ft. calices) er gerður úr bikarblöðum (sepala), sem eru oftast græn en á stundum með öðrum lit. Þau eru oftast nokkuð þykk, breiðust við grunninn og á stundum hærð. Á sumum plöntum, t.d. melasól, falla þau af við þroskun blóms; á körfublómum eru þau lítt þroskuð, stöku sinnum með himnukraga, en oftast ummynduð í hárkennda flipa, sem verða að svifkransi á aldininu. Skipan bikarblaða á blómbotn getur verið mismunandi (sjá síðar). Á mörgum tegundum eru bikarblöð samvaxin neðst og er bikarinn þá sagður samblaða; ef þau eru laus hvert frá öðru, er bikar lausblaða. Á blákollu og blóðbergi er samblaða bikar með mistenntar efri og neðri vör (varabikar). Undir bikarblöðum, eða á milli þeirra, eru á stundum litlir blaðflipar, sem nefnast utanbikar. Meginhlutverk bikars er að vernda blómknappinn og styðja við krónublöðin. Á einstaka tegund vernda þau líka aldin og fræ, og þess eru dæmi að þau taka að vaxa eftir að blómgun er lokið.

Krónan (corolla) er úr krónublöðum (petala), sem jafnan eru þunn og slétt og skarta oft skærum lit; þau mjókka oft niður við grunn, sem nefnist nögl. Í lausblaða krónu eru krónublöð laus hvert frá öðru (og blómið lauskrýnt), en séu þau samvaxin er krónan sögð samblaða (og blómið heilkrýnt). Á samblaða krónu heitir neðsti hluti pípa en efri hlutinn kragi; þar sem pípa og kragi mætast heitir gin. Í gininu eru oft vörtur eða flögur (ginvörtur eða ginleppar (öðru nafni hjákróna)). Krónublöðin eru sjaldnast alveg samvaxin uppúr. Séu skerðingarnar grunnar er krónan tennt, nái þær 1/3-1/2 niður er hún sepótt, þá flipótt og nái skerðingar nær alveg niður er krónan skipt.

Samblaða krónur eru með ýmsu móti og lögun mismunandi. Þær eru ýmist reglulegar eða óreglulegar.

Regluleg blóm geta verið kúlulaga, trektlaga, pípulaga (pípukróna) og bjöllulaga.

Regluleg, samblaða blóm. Teikn. ÁHB

Regluleg, samblaða blóm. Teikn. ÁHB

Óregluleg blóm eru annaðhvort varakróna eða tungukróna (tungulaga). Varakróna er klofin ofan í tvennt þannig, að tvö blöð verða í öðrum hlutanum en þrjú í hinum; efri vörin veit upp en neðri vörin niður. Á tungukrónu er kraginn samvaxinn í eina blöðku, sem beinist út til hliðar.

Óregluleg, samblaða blóm. Teikn. ÁHB

Óregluleg, samblaða blóm. Teikn. ÁHB

Blómasafi (nektar, oft ranglega nefndur hunang) myndast í sérstökum kirtlum í krónublöðum; þá myndast í þeim oft ilmstekar olíur. Þessi vökvi safnast oft í lítinn poka, sem gengur niður úr krónublöðum og nefnist spori. Blómsafi og olíur geta einnig myndast í bikarblöðum og spori neðan úr þeim.

Blóm: Fræflar og frævur (sjá síðar)

ÁHB / 6.1. 2013

Leitarorð:


Leave a Reply