Rhytidiadelphus – skrautmosar

Skrifað um March 12, 2013 · in Mosar

Rhytidiadelphus squarrosus (engjaskraut) er þyrnir í augum þeirra, sem rækta grasflatir. Ljósm. ÁHB.

Rhytidiadelphus squarrosus (engjaskraut) er þyrnir í augum þeirra, sem rækta grasflatir. Ljósm. ÁHB.


ÆTTKVÍSLIN
Rhytidiadelphus (Limpr.) Warnst. (skrautmosar) telst til Hylocomiaceae (Broth.) M. Fleisch. (tildurmosaættar) ásamt þremur öðrum kvíslum: Hylocomiastrum Broth. (stigmosum), Hylocomium Schimp. (tildurmosum) og Pleurozium (Limpr.) Warnst. (hrísmosum). (Sjá síðar.)

Þetta eru yfirleitt stórgerðir, liggjandi (pleurokarpa), jarðlægir eða lítið eitt uppréttir blaðmosar, sem mynda gisnar breiður. Stönglar með miðstreng, geta náð um 20 cm, og eru óreglulega (sjaldan reglulega) fjaðurgreindir. Stöngulblöð útstæð, baksveigð eða sjaldan einhliðasveigð með egglaga eða hjartalaga grunn og ganga fram í langan framhluta. Blaðrönd flöt og tennt. Rif klofið, stutt. Blaðfrumur striklaga 6-12 x breidd. Grunnfrumur gulleitar með þykka og holótta veggi.

Plöntur einkynja. Gróhirzlur sjaldséðar, egglaga og standa lárétt út; gróstilkur 2-4 cm á lengd. Opkrans tvöfaldur; ytri tennur brúnleitar, innri tennur gulleitar; milliþræðir þroskaðir.

Ættkvíslarnafnið Rhytidiadelphus er komið af Rhytidium og αδελφός (adelfós, bróðir), og táknar náinn skyldleiki við ættkvíslina Rhytidium. Fimm tegundir vaxa í Evrópu, Asíu, Norður-Ameríku og Ástralíu en þrjár hér á landi..

Lykill að tegundum:
1 Stöngulblöð tennt næstum að grunni. Bakhlið blöðku tennt í framhluta. Blöð aldrei baksveigð; langbylgjótt við grunn ……………………. R. triquedrus (runnaskraut)
1 Stöngulblöð aðeins tennt fremst; blöð bak- eða einhliðasveigð (sjaldan útstæð). Bakhlið blöðku slétt …………………………………………………………………………………………. 2
2 Blöð langbylgjótt, jafnan einhliðasveigð. Hornfrumur illa afmarkaðar …………….. …………………………………………………………………………………………….. R loreus (urðaskraut)
2 Blöð ekki langbylgjótt, baksveigð eða útstæð. Hornfrumur vel afmarkaðar. …….. ………………………………………………………………………………………R. squarrosus (engjaskraut)

Myndin sýnir dæmigerð blöð tegundanna þriggja. Talið frá vinstri: a: R. triquedrus; b. R. loreus; c: R. squarrosus. Teikn. ÁHB.

Myndin sýnir dæmigerð blöð tegundanna þriggja. Talið frá vinstri: a: R. triquedrus; b. R. loreus; c: R. squarrosus. Teikn. ÁHB.

R. triquedrus (Hedwig) Warnstorf – runnaskraut

Plöntur stórar og grófar, mynda (föl-)grænar eða gulgrænar breiður, rauðbrúnar neðst. Stönglar, brúnir eða rauðgulir, allt að 15 cm á lengd, 3-8 mm á breidd, óreglulega greinóttir, miðstrengur mjór. Blöð langbylgjótt, 3-4,5 x 1,6-2,5 mm, egglaga til hjartalaga og ganga smám saman fram í breiðan odd; neðri hluti aðlægur, framhluti útstæður. Blöð spanna meira en 180° af ummáli stönguls. Blaðrönd flöt; hvasstenntur framhluti, smátenntari neðri hluti. Framendar blöðkufrumna framarlega á baki ganga út og mynda tennur. Rif tvöfalt, mjótt og nær upp að blaðmiðju eða ofar. Axlarhár 5-7 frumur, um 250 μm að lengd, tvær neðstu frumur brúnar og stuttar. Greinablöð heldur minni en stöngulblöð, 1,8-3,1 x 0,7-1,6 mm, egglaga til lensulaga,.

Blaðfrumur 30-70 x 6-8 μm, striklaga með þykka og holótta veggi; grunnfrumur gul- til rauðbrúnar, breiðari og styttri en frumur framar í blaði. Hornfrumur ekki vel afmarkaðar.

Einkynja; karl- og kvenkynsplöntur svipaðar. Hefur ekki fundizt með gróhirzlur hér á landi.

Breiða af R. triquedrus. Ljósm. ÁHB.

Breiða af R. triquedrus. Ljósm. ÁHB.

 

Vex í margs konar þurrlendi og einnig á þúfum í votlendi. All algeng.

 

R. loreus (Hedw.) Warnst. – urðaskraut

Plöntur stórar, mynda grænar eða gulgrænar breiður. Stönglar, brúnir eða rauðbrúnir, allt að 20 cm á lengd, 3-5 mm á breidd, óreglulega fjaðurgreindir, miðstrengur mjór. Neðstu hliðargreinar all að 4 cm. Blöð upprétt, útstæð eða baksveigð, en alltaf einhliðasveigð á greina- og stöngulenda; egglaga til lensulaga, 3,2-4,2 x 0,9-1,4 mm, breið-egglaga og langbylgjóttur (ekki hrukkóttur) neðri hluti blaðs; gengur skjótlega fram í langan, mjóan, rennulaga odd. Blaðrönd flöt, getur verið lítið eitt útundin neðst; hvasstennt framarlega. Rif tvöfalt, mjótt og nær ekki upp í ¼ af blaðlengd, stundum ekkert. Axlarhár 5 frumur, allt að 150 μm, tvær neðstu frumur brúnar og stuttar. Greinablöð lík stöngulblöðum, mjólensulaga, 1,7-3,6 x 0,4-1,0 mm.

Frumur striklaga, 40-80 x 5-7 μm, veggir þykkir og holóttir. Hornfrumur ekki afmarkaðar.

Einkynja; karl- og kvenkynsplöntur svipaðar. Stilkur 1,2-3 cm, rauðbrúnn, sléttur. Gróhirzla rauðbrún, egglaga, bogin, um 2 mm, vísar lárétt út eða lítið eitt upp á við; þurr hirzla með langskorur. Lok keilulaga. Opkrans tvöfaldur; ytri tennur um 800 μm á hæð, brúnar og rauðleitar neðst, lárétt strikóttar á ytra borði; innri tennur fínvörtóttar með egglaga göt eftir miðju, álíka háar og hinar ytri; milliþræðir vel þroskaðir. Gró um 18 μm að þvermáli, fínvörtótt. Sjaldan með gróhirzlur.

 

R. loreus vex oft á jarðvegsþöktum klettum. Ljósm. ÁHB.

R. loreus vex oft á jarðvegsþöktum klettum. Ljósm. ÁHB.

Vex víða í þurrlendi og á þúfum í votlendi. Nokkuð algeng nema frá Stöðvarfirði norður og vestur að Eyjafirði.

R. squarrosus (Hedw.) Warnst. – engjaskraut

Plöntur stórar, mynda grænar eða gulgrænar breiður. Stönglar rauðbrúnir, rauðgulir eða grænir, allt að 12 cm á lengd, 2-4 mm á breidd, óreglulega fjaðurgreindir, miðstrengur mjór. Blöð baksveigð (eða útstæð), hvorki langbylgjótt né hrukkótt; egglaga, 2,4-4,2 x 1,1-1,9 mm; blaðgrunnur aðlægur; gengur skjótlega fram í baksveigðan, langan, mjóan, rennulaga odd. Blöð spanna um 180° af ummáli stönguls. Blaðrönd flöt, tennt. Rif tvöfalt, mjótt og nær ekki upp í 1/3 af blaðlengd. Axlarhár 5-7 frumur, allt að 200 μm, tvær neðstu frumur brúnar og stuttar. Greinablöð egglaga til lensulaga, 1,2-2,4 x 0,4-0,9 mm.

Frumur 45-80 x 5-7 μm; veggir þunnir. Grunnfrumur gular eða brúnleitar með holótta og þykka veggi; breiðari og styttri en aðrar frumur. Hornfrumur mynda afmarkaðan hóp úr tútnum, þunnveggja litlitlum frumum, um 15 μm á breidd.

Einkynja; karl- og kvenkynsplöntur svipaðar. Stilkur 1,5-2 cm, rauðbrúnn, sléttur. Gróhirzla rauðbrún, egglaga, bogin, um 2 mm, vísar lárétt út eða lítið eitt upp á við; þurr hirzla ekki með langskorur. Lok keilulaga. Opkrans tvöfaldur; ytri tennur um 500 μm á hæð, gular, rauðbrúnar eða brúnleitar, lárétt strikóttar á ytra borði, vörtóttar framan til; innri tennur fínvörtóttar, álíka háar og hinar ytri; milliþræðir vel þroskaðir. Gró um 15 μm að þvermáli, slétt eða fínvörtótt. Mjög sjaldan með gróhirzlur.

Breiða af R. squarrosus. Ljósm. ÁHB.

Breiða af R. squarrosus. Ljósm. ÁHB.

 

Vex mjög víða í alls konar þurrlendi og einnig í deiglendi, fremur fátíð í miðhálendinu. Mjög auðþekkt tegund á baksveigðum blöðum. Algengasta tegund í graslendi, þar með taldar grasflatir í byggð.

Viðurnafnið squarrosus táknar baksveigður og er þar átt við blöðin.

Helztu heimildir:
Ágúst H. Bjarnason, 2010: Greiningarlykill að ættkvíslum íslenzkra blaðmosa (Musci) ásamt tegundaskrá. Fjölrit Vistfræðistofu n:r 40. Reykjavík.
Bergþór Jóhannsson, 1996: Íslenskir mosar. Fjölrit Náttúrufræðis. N:r 29.
E. Nyholm, 1965: Illustrated Moss Flora of Fennoscandia. II Musci. Lund 1965
http://ucjeps.berkeley.edu/cgi-bin/get_moss_gk.pl?genus=Rhytidiadelphus
http://www.mobot.org/plantscience/bfna/V2/HyloHylocomiaceae.htm

Aðvörun:

Á þessum stað: http://floraislands.is/mosar.html stendur skírum stöfum orðrétt:
»Eini íslendingurinn sem lagt hefur stund á mosaflóru Íslands af nokkurri alvöru, er Bergþór Jóhannsson.«

Menn eru því beðnir um að trúa því mátulega, sem greint er frá á vefslóð þessari.

Rétt er að geta þess, að nú hefur þessum texta verið breytt (20./3.).

ÁHB / 12.3. 2013

 

Leitarorð:


Leave a Reply