Slegið á hungurtilfinningu

Skrifað um December 11, 2014 · in Almennt

Hér á þessum síður hefur af og til verið fjallað um fæðu og meltingu. Sjá meðal annars:

http://ahb.is/laktosi-og-laktosaothol/

http://ahb.is/gerlar-sem-grenna/

http://ahb.is/enn-og-aftur-um-tharma-floru/

http://ahb.is/meira-um-tharma-floru/

http://ahb.is/tharmaskolun-detox-og-saurgjafir/

 

Þá var sagt frá því fyrir fáeinum dögum (http://ahb.is/ljos-fita-verdur-ad-brunni/), að nú hefði tekizt í fyrsta sinn að láta ljósa fitu líkamans breytast í brúna fitu, sem brennur sjálfkrafa. Sumir telja þetta fyrsta skrefið í þá átt að framleiða töflur, sem eyða spiki (megrunarpillur).

Sífellt er verið að leita að úrræðum fyrir feitt fólk. Sannast sagna er það nú ekki af einskærri gæzku, heldur mun það gefa ómælda peninga í aðra hönd, því að allt of margt fólk er svellspikað.

Nú hefur komið fram athyglisverð tilraun til þess að létta mönnum erfiðið. Í Bretlandi hafa menn bætt efni í fæðu, sem hefur þau áhrif á líkamann, að hann skynjar mettun. Það leiðir til þess, að fólk verður satt fyrr en ella og borðar þar af leiðandi minna.

Efni þetta inniheldur própíónsýru (C2H5COOH), sem leysir úr læðingi hormón í maga, sem dregur úr hungurtilfinningu. Sýra þessi myndast reyndar við eðlilega gerjun örvera í maga, en hér er hún gefin, í sambland við forðasykruna ínúlín, í miklu stærri skammti en næst við eðlilegt át. Efni þetta gengur undir nafninu IPE (inulin-propionate-ester).

Í samanburðartilraun kom í ljós, að fólk, sem fékk að borða hreint ínúlín, át 14% meira en hinir, sem neyttu própíonatsýru í formi IPE.

Í annarri tilraun fengu ofurfeitir einstaklingar annars vegar IPE eða ínúlín. Að sex mánuðum liðnum höfðu sex af 24, sem fengu ínúlín, aukið líkamsþyngd sína um 3%, en aðeins hjá einum af 25, sem fengu IPE, jókst líkamsþyngd um sömu prósentutölu.

Einn galli er þó á gjöf Njarðar. Efnið IPE er afar bragðvont. Menn hallast helzt að því að blanda því saman við ávaxtadrykki eða setja það út í brauð.

 

ÁHB / 11. des. 2014

 

Leitarorð:


Leave a Reply