Krossblómaætt — Brassicaceae (að hluta)

Skrifað um August 16, 2019 · in Flóra · 416 Comments

Krossblómaætt (Brassicaceae, áður nefnd Crusiferae) dregur nafn sitt af fjórum krónublöðum, sem mynda jafnarma kross, ef horft er beint ofan á blómið. Til ættar teljast ein- til fjölæringar, aðallega jurtir. Stöngull er uppréttur eða uppsveigður, ógreindur eða lítt greindur, á stundum holur. Blöð eru stakstæð, fjaðurstrengjótt, axlblaðalaus og eru oft í stofnhvirfingu.

Blómskipun er klasi, en þar sem hann er háblaðalaus, lítur hann út sem hálfsveipur. Blóm eru regluleg, undirsætin, tvíkynja með fjögur krónublöð og fjögur bikarblöð (4+4). Krónublöð eru hvít, gul eða rauð; oft standa þau skamma stund og falla burt við aldinþroskun. Fræflar eru sex, fjórir langir í innri kransi og tveir stuttir í ytri kransi. Fræva er ein, gerð úr tveimur fræblöðum. Aldin er tvíblaða og tvírýmt hýðisaldin, sem nefnist skálpur. Gerð og lögun skálpsins er oft eitt bezta greiningareinkenni. Í honum eru tvö veggstæð fræsæti, og opnast með tveimur lokum neðan frá og uppeftir. Fræsætin standa eftir á skálpleggnum, eins og umgerð um skilrúmið, sem er himnukennt og minnir á skjáglugga, þegar lokin eru dottin af. Stíllinn á frævunni stendur lengi og myndar stutta eða langa trjónu á skálpinum.

Til ættarinnar teljast um 3700 tegundir, sem skiptast niður á um 330 ættkvíslir. Stærstu kvíslirnar eru Draba með 365 tegundir, Cardamine með um 200, Erysimum og Lepidium með um 230 tegundir hvor og Alyssum með 195 tegundir. Hér á landi eru 20 tegundir í tíu ættkvíslum, sem telja má til íslenzku flórunnar, en ívið fleiri vaxa eða hafa vaxið hér sem slæðingar. Af þekktum tegundum má nefna hrafnaklukku, skarfakál og hjartarfa og í görðum er næturfjóla mjög algeng. Margar nytjajurtir tilheyra ættinni eins og gulrófa og káltegundirnar grænkál, rauðkál, blómkál, spergilkál, hvítkál og nokkrar fleiri, sem eru afbrigði einnar tegundar, Brassica oleracea. Repja (Brassica napus L. var. oleifera) er talsvert ræktuð hérlendis, einkum sem fóðurkál handa kúm og sauðfé, en gerðar hafa verið tilraunir til þess að framleiða matarolíu og lífdísil. Úr fræi Sinapis alba er framleitt sinnep og svartsinneb úr Brassica nigra.

Kálæxlasveppur Plasmodiophora brassicae sníkir á káltegundum (Brassica) og veldur útvexti á rótum plantnanna, svo nefndri kálæxlaveiki. Meðal annars verða gulrætur sprungnar og vörtóttar. Blöð verða gul og visna, þar sem slímsveppurinn eyðileggur viðarvef. Flestar ræktaðar tegundir eru viðkvæmar fyrir sjúkdómnum og margar villtar tegundir einnig.

Hér á eftir fer greiningarlykill að ættkvíslum. Nöfn á íslenzkum tegundum koma fyrst í lykli og latneskt heiti í sviga; nöfn á slæðingum og ræktuðum plöntum koma fyrst á latínu en íslenzk nöfn eru í sviga.

Síðar verður fjallað sérstaklega um hverja ættkvísl og tegundir innan hennar.

 

Greiningarlykill að ættkvíslum:

1. Öll blöð allaga, aðeins í stofnhvirfingu. Mjög smá (1-6 cm á hæð) vatnaplanta ……. alurt (Subularia aquatica)
1. Blöð flöt. Smáar til stórar plöntur, í þurrlendi …………….. 2

2. Skálpur opnast ekki við þroskun; fellur af í heilu lagi eða er liðskiptur …….. 3
2. Skálpur opnast við þroskun …………… 7

3. Krónublöð gul …………………… 4
3. Krónublöð hvít, fjólublá eða á stundum gulhvít með dökkar æðar ……. 5

4. Skálpur hangir, með eitt fræ. Mjög sjaldgæfur slæðingur ……………….. Isatis tinctoria (litunarklukka)
4. Skálpur uppréttur, með mörg fræ. Krónublöð ljósgul með dökkar æðar. Ræktaðar tegundir ………. Raphanus (hreðkur)

5. Blöð mjög stór, blágræn, um 1,5 m á hæð. Ræktuð ………… Crambe cordifolia (risakál)
5. Blöð öðru vísi ……………… 6

6. Stöngull uppsveigður eða jarðlægur; blöð bugsepótt eða flipótt. Hárlaus fjörujurt ………. fjörukál (Cakile maritima)
6. Stöngull uppréttur; blöð fjaðurskipt eða heil, stinnhærð. Ræktaðar tegundir ………. Raphanus (hreðkur)

7. Skálpur hjartlaga, sporöskju- eða egglaga, í mesta lagi þrisvar sinnum lengri en hann er breiður …… 8
7. Skálpur langur, að minnsta kosti þrisvar eða fjórum sinnum lengri en hann er breiður ………………… 22

8. Skálplok hvelfd í þverskurði ……………….. 9
8. Skálplok flöt …………………………………….. 12

9. Krónublöð hvít ………………… 10
9. Krónublöð gul …………………. 11

10. Hávaxin jurt. Blöð ekki kjötkennd. Sjaldgæfur slæðingur ……………. Armoracia rusticana (piparrót)
10. Lágvaxin til miðlungi stór jurt, nálægt sjó eða á háfjöllum. Blöð kjötkennd ……….. skarfakál (Cochlearia)

11. Skálplok perulaga. Sjaldgæfir slæðingar ……………….. Camelina (doðrur)
11. Skálplok kringlótt til pylsulaga ……………………… kattarjurtir (Rorippa)

12. Skilveggur í skálpi samsíða lengdarási skálps …………. 13
12. Skilveggur í skálpi hornréttur á lengdarás skálps ……… 18

13. Skálplok stórt, um 2 cm á breidd. Krónublöð fjólublá. Ræktuð ……….. Lunaria (mánasjóðir)
13. Skálplok lítið. Krónublöð hvít eða gul …………… 14

14. Krónublöð gul ……………………. fjallavorblóm (Draba oxycarpa)
14. Krónublöð hvít …………………… 15

15. Krónublöð greinilega misstór. Ræktuð …………. Iberis (kragablóm)
15. Krónublöð jafnstór ……….. 16

16. Krónublöð heil eða oddnumin, oft með blaðsprotum, sem hafa hvirfingsstæð blöð ……….. vorblóm (Draba)
16. Krónublöð djúpt klofin …………………………. 17

17. Lítil, einær jurt. Stöngull blaðlaus. Blómgast mjög snemma vors …………. vorperla (Draba verna)
17. Miðlungi stór eða stór, fjölær jurt. Stöngull mjög blöðóttur. Mjög sjaldgæfur slæðingur ……. Berteroa incana (hvítduðra)

18. Eitt fræ í hverju skálphólfi. Slæðingar …………………. Lepidium (perlur)
18. Tvö eða fleiri fræ í hverju skálphólfi ………………….. 19

19. Blöð kjötkennd. Skálplok hvelfd ………………………… skarfakál (Cochlearia)
19. Blöð ekki kjötkennd. Skálplok slétt eða hvelfd …………… 20

20. Skálpur vængjalaus, þríhyrndur eða öfughjartlaga. Hærð planta ………….. hjartarfi (Capsella bursa-pastoris)
20. Skálpur vængjaður, kringlóttur eða sporbaugóttur ……………. 21

21. Einær planta, blöð ekki í stofnhvirfingu. Slæðingur ………… Thlaspia arvense (akursjóður)

21. Tví- til fjölær planta með blöð í stofnhvirfingu. Mjög sjaldgæfur slæðingur …………… Noccaea caerulescens (varpasjóður)
22. Skálptrjóna (stíll) löng, margfalt lengri en þvermál skálps. Krónublöð gul ……….. 23
22. Skálptrjóna (stíll) stutt eða nær engin. Krónublöð hvít, gul, rauð, fjólublá eða gulhvít með dökkar æðar ……. 24

23. Skálplok með 3-5 greinilegar samsíða taugar; skálptrjóna ferstrend eða hliðflöt. Slæðingar ……………. Sinapis (mustarðar)
23. Skálplok með eina greinilega taug; Skálptrjóna sívöl. Ræktaðar tegudir ………………….. Brassica (kál)

24. Krónublöð hvít, rauð eða rauðfjólublá ……. 25
24. Krónublöð gulhvít eða gul, oft með dökkar æðar ……. 30

25. Öll blöð fjöðruð ……………….. hrafnaklukkur (Cardamine)
25. Öll blöð, að minnsta kosti hin efri, heil eða lítið fjaðurskert …….. 26

26. Stöngull blaðlaus. Örsmá hárlaus háfjallajurt ……….. jöklaklukka (Cardamine bellidifolia)
26. Að minnsta kosti eitt blað á stöngli ……………….. 27

27. Stíll með djúpt tvíklofnu fræni ……… 28
27. Stíll með heilt fræni. Blóm hvít (geta verið ofurlítið rauðbláleit) ……… 29

28. Frænisendar lausir hvor frá öðrum. Ræktaður fjölæringur ……………… Hesperis matronalis (næturfjóla)
28. Frænisendar loða saman. Mjög sjaldgæfur slæðingur …………… Malcolmia maritima (martoppur)

29. Stöngulblöð oftast mörg, greipfætt, gróftennt …………………. skriðnablóm (Arabis alpina)
29. Stöngulblöð fá, ekki greipfætt, heilrend ……………………… melablóm (Arabidopsis petraea)

30. Öll blöð heil …………………………… 31
30. Að minnsta kosti neðri blöð fjaðurskert ……. 33

31. Blöð ekki greipfætt ……………………. aronsvendir (Erysimum)
31. Blöð meira eða minna greipfætt ………….. 32

32. Stöngulblöð tennt. Krónublöð fagurgul. Slæðingur ……. Barbarea vulgaris (garðableikja)
32. Stöngulblöð heilrend. Krónublöð gulhvít eða hvít. Sjaldgæfur slæðingur ……… Conringia orientalis (garðablaðka)

33. Blöð tví-þrí-fjaðurskipt með striklaga bleðla ………………….. Descurainia sophia (þefjurt)
33. Blöð ekki tví-þrí-fjaðurskipt og ef bleðlar, eru þeir breiðir …….. 34

34. Skálpar liggja þétt að stöngli. Sjaldgæfur slæðingur …………….. Sisymbrium officinale (götudesurt)
34. Skálpar meira eða minna útstæðir ……………………. 35
.
35. Skálptrjóna um 2 mm á lengd. Mjög sjaldgæfur slæðingur ………… Erucastrum gallicum (hundakál)

35. Skálptrjóna lítil sem engin …………………….. 36

36. Skálplok taugalaus ………………………………………. kattarjurtir (Rorippa)
36. Skálplok með greinilegar taugar (3-5). Slæðingar ……………. Sisymbrium (desurtir)

 

Ættkvíslir og tegundir:

 

Hjartarfi – Capsella

Ættkvíslin Capsella Medicus telst til krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Tegundir kvíslarinnar eru ein- eða tvíærar. Stöngull er uppréttur eða uppsveigður, ógreindur eða greindur, hárlaus eða hærður neðan til. Blöð í stofnhvirfingu, stilkuð eða stilklaus, aflöng, heil eða fjöðruð. Stöngulblöð eru minni, aflöng, heilrend, tennt eða bugðótt og greipfætt.

Blóm eru í klasa, sem lengist mjög við þroskun. Krónublöð eru hvít eða rauðleit, 2 til 3 mm á lengd. Skálpar eru þríhyrndir eða öfughjartlaga, flatir með þverstætt skilrúm.

Til kvíslarinnar teljast 4 eða 5 tegundir, en aðeins ein vex hér á landi. Vissulega hefur fleiri tegundum verið lýst, en þær hafa reynzt vera afbrigði eða undirtegundir C. bursa-pastoris.

Ættkvíslarnafnið Capsella er smækkunarmynd af latneska orðinu ‘capsa’, vasi, pungur.

 

Hjartarfi – Capsella bursa-pastoris (L.) Medik.

Plantan er einær; stöku sinnum tvíær. Oft eru margir samstofna stönglar uppréttir eða uppsveigðir, hærðir eða hárlausir, greindir eða ógreindir, 2 til 30 cm á hæð. Blöð í stofnhvirfingu á 0,5-4 cm löngum stilk. aflöng eða lensulaga (1,5-10 x 2-25 cm), grunnur fleyglaga eða mjókkar jafnt, stutt- eða langydd. Stöngulblöð minni, stakstæð, aflöng eða lensulaga, greipfætt, grunnur örlaga, á stundum með eyru; ýmist hárlaus eða hærð (oft með stjarnhárum).

Blóm 2-3 mm að þvermáli, í klasa, sem lengist við þroskun. Bikarblöð aflöng, himnurend, græn eða rauðmenguð, 1,5-2 x 0,7-1 mm. Krónublöð 2-3 × 1-1,5 mm, hvít. Fræflar eru 6, fjórir langir og tveir stuttir. Ein fræva með stuttan stíl. Aldin skálpur með 10-12 fræ, þríhyrndur og öfughjartlaga; skilrúm þverstætt. Skálpleggir standa lárétt út frá stöngli.

Vex við hús og bæi, er víða í görðum. Er mjög algengur um land allt á láglendi. Vex víða í hálendi, þar sem búpeningur hefur haldið sig. Blómgast fyrst í maí og er í blóma allt sumarið, oft langt fram á haust. 5–40 cm á hæð.

Mörg nöfn eru til komin vegna lögunar skálpsins, svo sem smalapungur, pungurt, hirðistaska, prestapungur og töskugras. Í gömlum lækningabókum er hjartarfa víða getið. Hann er sagður blóðstillandi og stöðva blóðnasir og tíðablæðingar. Einnig var hann notaður til að stöðva blæðingar eftir fæðingar og reyndist vel. Nöfnin blóðarfi, blóðgras og blóðjurt benda til þess að hann hafi verið notaður til þeirra hluta hér á landi. Tína má blöð fyrir blómgun og nota í sallat; þau má líka þurrka og hafa síðar í súpu. Einnig er hægt að nota óþroskaða skálpa á sama hátt og til að krydda smjör. Ferska eða þurrkaða rót má nota líkt og engifer. Í fræi er sinnepsolía.

Ófrískum konum og fólki veikt í nýrum er ráðlagt að drekka ekki seyði af jurtinni. Gott er að þurrka blöð við vægan hita, ekki yfir 45°C, og mylja síðan. Hæfilegt þykir að setja 4 teskeiðar í 3 dl af sjóðandi vatni og láta standa í hálftíma. Seyði af jurtinni skal drekka kalt. Einnig má tyggja blöð og setja beint í sár.

Viðurnafnið bursa-pastoris er komið af latnesku orðunum ‘bursa’, vasi, veski, pungur og ‘pastor’, hirðir.

Hjartarfi er upprunninn í löndunum við Miðjarðarhaf, en hefur dreift sér þaðan um nær allan hnöttinn. Hefur verið talinn annað algengasta „illgresi“ á jörðinni á eftir blóðarfa (Polygonum aviculare).

Nöfn á erlendum málum:

Enska: shepherd’s-purse

Danska: Hyrdetaske

Norska: gjetertaske, hyrdetaske

Sænska: lomme, lommeört, pungört

Finnska: lutukka, rikkalutukka

Þýzka: Gewöhnliches Hirtentäschel, Gemeines Hirtentäschelkraut, Hirtentäschel, Hirtentäschelkraut

Franska: bourse à Judas, boursette, bourse à pasteur, bourse de capucin, capselle à pasteur, capselle bourse à pasteur, molette à berger

Samnefni:

Thlaspi bursa-pastoris L.

 

Aronsvendir – Erysimum

Aronsvendir, Erysimum L., tilheyra krossblómaætt (Brassicaceae, syn. Crusiferae); einærar til fjölærar jurtir; sumar eru þó trénaðar neðst. Hærðar plöntur, oft með tví-, þrí- eða margkvísluðum hárum. Stöngull er uppréttur eða stofnsveigður, stinnur, greindur, ýmist efst eða neðst, eða ógreindur, með fá eða mörg blöð. Blöð eru stakstæð, lensulaga, heilrend, bugtennt eða tennt, neðri blöð á stuttum stilk; engin stofnhvirfing.

Blómskipun er klasi. Krónublöð gul og fjögur að tölu. Fræni grunnt klofið. Skálpleggir uppréttir, uppsveigðir eða útstæðir, álíka langir og bikarblöð eða helmingi lengri. Skálpar aflangir, miklu lengri en þeir eru breiðir, ferstrendir.

Ættkvíslarnafnið Erysimum er dregið af gríska orðinu ‘eryomai’, hjálpa. Það er til komið af því, að sumar tegundir voru notaðar við sjúkdómum, þó að þær séu flestar eitraðar.

Samnefni:

Cheiranthus Linnaeus; Cheirinia Link; Cuspidaria (de Candolle) Besser; Syrenia Andrzejowski ex Besser

Um 150-200 tegundir teljast til kvíslarinnar, ein tegund er talin hér innlend, aronsvöndur, fáeinar eru í ræktun og tvær tegundir hafa fundizt sem slæðingar.

Í eftirfarandi greiningarlykli er aðeins greint á milli þriggja tegunda, hinnar íslenzku og tveggja sjaldgæfra slæðinga. Sameiginlegt þessum þremur tegundum er, að krónublöð eru styttri en 10 mm; á öðrum tegundum kvíslarinnar, sem eru ræktaðar í görðum, eru krónublöð lengri en 20 mm.

 

Greiningarlykill að íslenzkri tegund og tveimur slæðingum:

1. Skálpar uppréttir og liggja upp með stöngli …. aronsvöndur (E. strictum)
1. Skálpar uppsveigðir eða útstæðir …………. 2

2. Skálpar 2-5 cm á lengd. Ein- eða tvíær ……. E. cheiranthoides (akurgyllir)
2. Skálpar 6-8 cm á lengd. Einær …………… E. repandum (hafnagyllir)

Aronsvöndur – Erysimum strictum

Aronsvöndur – Erysimum strictum P. Gaertn., B. Mey. & Scherb. – er tvíær. Stöngull er uppréttur, oftast ógreindur, aðhærður og blöðóttur. Neðstu blöðin eru stilkuð og spaðalaga, blaðgrunnur fleyglaga; hin efri aflöng eða lensulaga. Þau eru stjarnhærð og gisbugtennt eða heilrend.

 

Blómin eru í stuttum klasa, sem lengist mjög við þroskun. Krónublöðin eru fagurgul, um 8 mm á lengd og miklu lengri en bikarblöðin. Skálpar uppréttir eða uppsveigðir, 6-8 sinnum lengri en leggirnir.

Vex í klettum, giljum og blómlendi, einkum á norðanverðu landinu og hér og hvar annars staðar um landið. Mjög algengur við Mývatn eins og nafnið Mývatnsdrottning bendir til. Blómgast í júlí. Getur orðið yfir 1 m á hæð.

Viðurnafnið strictum er komið af latínu ‘strictus’, stinnur, beinn.

Plantan er öll eitruð og þá einkum fræin. Eituráhrifin lýsa sér sem ógleði og magaverkir. Ef verulegt magn hefur verið innbyrt getur hjartsláttur orðið óreglulegur. Þá er gott að drekka vatn í ríkum mæli.

Samnefni:

E. hieraciifolium L. og E. virgatum auct.

Nöfn á erlendum málum:

Enska: wormseed mustard, tall wormseed wallflower

Danska: Rank Hjørneklap

Norska: berggull, hjørneklapp

Sænska: bergkårel, berggyllen

Finnska: rantaukonnauris

Þýzka: Steifer Schöterich

Franska: vélar droit

 

 

Hafnagyllir – Erysimum repandum

Hafnagyllir – Erysimum repandum L. – er einær. Stöngull er uppréttur, ógreindur eða greindur neðst, gráloðinn. Stofnblöð, sem visna oft við fræþroska, líkjast stöngulblöðum. Efstu stöngulblöð stilklaus, neðri blöð á 0,3-2 cm stilk, blaðka striklaga, lensulaga til sporbaugótt, 2-8 x 5-12 cm, mjókka jafnt niður; blaðrönd bugðótt eða gróftennt til smátennt, jafnvel heilrend.

 

Blómklasi, með 15-30 blómum, lengist töluvert við þroskun og getur orðið um 30 cm á lengd. Blómleggir eru álíka langir og bikarblöð. Bikarblöð striklaga til aflöng, 4-6 mm á lengd; krónublöð gul, mjó-öfuglensulaga til spaðalaga, 6-8 x 1,5-2 mm, nögl 3-6 mm. Skálpar útstæðir, 3-9 cm x 1,5-2 mm, margfalt lengri en skálpleggir og litlu gildari.

 

Mjög sjaldgæfur slæðingur, sem fannst einu sinni á Sauðárkróki. Tegundin vex einkum í kringum Svartahaf og hefur sennilega slæðzt með korni norður um Evrópu. Er einnig algengur slæðingur í Ástralíu og Norður- og Suður-Ameríku. Getur orðið um hálfur metri á hæð og vex á þurrum og sólríkum stað.

 

Plantan er öll eitruð, en hefur þó verið notuð til lækninga, einkum á Spáni.

 

Viðurnafnið repandum merkir ‘lítið eitt bylgjóttur jaðar’.

 

Samnefni:

Cheirinia repanda (Linnaeus) Link og Erysimum ramosissimum Crantz

 

Nöfn á erlendum málum:

Enska: spreading wallflower, bushy wallflower, treacle mustard

Danska: Ægte stormhat, Orientalsk pileurt

Norska: kverngull

Sænska: rysskårel

Finnska: idänukonnauris

Þýzka: Sparrige Schöterich, Spreiz-Schöterich

Franska: vélar étalé

 

Akurgyllir – Erysimum cheiranthoides

Akurgyllir – Erysimum cheiranthoides L. – er ein- eða tvíær, hávaxin jurt. Stöngull er stinnur og uppréttur, oftast greinóttur með fá stöngulblöð, stjarnhærður. Stofnblöð, sem visna oft við fræþroska, líkjast stöngulblöðum. Efstu stöngulblöð á stuttum stilk eða stilklaus, lensulaga, striklaga eða sporbaugótt, 2-7 cm x 5-12 mm; blaðrönd heilrend eða smátennt, sjaldan bugðótt til tennt.

Blómklasi lengist talsvert við þroskun. Blómleggir eru 2 eða 3 sinnum lengri en bikarblöð. Bikarblöð aflöng, 1,8-2 mm á lengd; krónublöð gul, mjó-spaðalaga, 3-5,5 x 1,5-2 mm, nögl 1,5-3,5 mm. Skálpar uppréttir eða uppsveigðir, 1,5-2,5 cm x 1-1,3 mm, um tvöfalt lengri en skálpleggir.

Fannst sem slæðingur á nokkrum stöðum um miðbik síðustu aldar. Tegundin er upprunnin í Mið-Evrópu og norðanverðri Asíu. Getur orðið um 60 cm á hæð og blómgast nær allt sumarið. Hefur slæðzt vítt um heim.

Plantan er öll eitruð.

Viðurnafnið cheiranthoides er dregið af Cheiranthus (úr arabísku ‘kairi’, gull, og úr grísku ‘anthos’, blóm) og -oides, líkur; og merkir því sá, sem líkist Cheiranthus.

Samnefni:

Cheirinia cheiranthoides (Linnaeus) Link; Cheiranthus cheiranthoides (L.) A.Heller; C. turritoides Lam.

Nöfn á erlendum málum:

Enska: wormseed mustard, treacle-mustard

Danska: Gyldenlak-Hjørneklap

Norska: åkergull

Sænska: åkerkårel, åkergyllen; vanlig åkerkårel (ssp. cheiranthoides), storkårel (ssp. altum)

Finnska: peltoukonnauris

Þýzka: Acker-Schöterich

Franska: vélar fausse-giroflée

 

Melablóm – Arabidopsis

Ættkvíslin Arabidopsis (DC.) Heynh. í krossblómaætt (Brassicaceae) hefur verið rannsökuð meira og betur en flestar aðrar kvíslir. Erfðafræðingar hafa lokið við að rafgreina allt erfðamengi í plöntu í fyrsta sinn, og var það Arabidopsis thaliana (vorskriðnablóm), sem varð fyrir valinu. Löngum hafa verið deildar meiningar um, hve margar tegundir og hverjar teljast til ættkvíslarinnar. Nú eru 9 tegundir taldar til hennar, auk 8 undirtegunda.

Æði miklar breytingar hafa verið gerðar undanfarin ár á skipan tegunda í kringum þessa ættkvísl. Tvær tegundir í kvíslunum Cardaminopsis og Hylandra og þrjár tegundir i Arabis hafa verið fluttar í Arabidopsis, en 50 tegundir hafa verið fluttar í aðrar nýstofnaðar kvíslir, sem eru: Beringia, Crucihimalaya, Ianhedgea, Olimarabidopsis, og Pseudoarabidopsis (sjá meðal annars O’Kane and Al-Shehbaz (1997, 2003).

Allar tegundir kvíslar eru upprunnar í Evrópu, en tvær þeirra eru einnig útbreiddar í Norður-Ameríku og Asíu.

Til melablóma – Arabidopsis (DC.) Heynh. – teljast ein- eða fjölærar jurtir. Stöngull er uppréttur, jarðlægur til uppsveigður, hárlaus eða hærður, oft með stjarnhárum. Blöð eru í stofnhvirfingu en einnig dreifð á stöngli, stilkuð eða stilklaus; þau eru ósamsett, heilrend eða tennt, fjaðursepótt til fjaðurskipt.

Blómskipun er gisinn klasi. Krónublöð hvít eða rósrauð. Skálpar eru aflangir, hliðflatir.

Aðeins ein íslenzk tegund fellur inn í þennan hóp og það er melablóm, sem var áður kallað melskriðnablóm. Löngum hefur það verið talið til kvíslarinnar Cardaminopsis (C. A. Mey.) Hayek, en nú tilheyrir það kvíslinni Arabidopsis eins og áður hefur komið fram.

Á hinn bóginn eru menn ekki á eitt sáttir um það, hvert viðurnafn tegundar á að vera. Sumir telja, að íslenzka tegundin sé undirtegundin A. lyrata (L.) O’Kane & Al-Shehbaz subsp. petraea (L.) O’Kane & Al-Shehbaz; en aðrir vilja halda sig við, að þetta sé A. petraea (L.) V.I. Dorof. – Hér er hallazt að því, að fyrra nafnið sé rétt.

Arabidopsis lyrata er tegund, sem vex beggja megin Atlatnsála og skiptist í fjórar undirtegundir. Undirtegundin petraea vex hér svo og annars staðar á Norðurlöndum. Í Noregi vex hún í ofur-basískum jarðvegi, sem er flestum tegundum eitraður, því að í honum er styrkur zinks og kadmíums mjög mikill. Það er ráðgáta hvernig tegundin fær þrifizt á þessum stað.

Ættkvíslarnafnið Arabidopsis er dregið af Arabis, sem er hið vísindalega nafn á skriðnablómum, og –opsis, líkur; nafnið þýðir því ‘líkur Arabis’. Arabis: (lat.) arabs, arabískur.

 

Melablóm – Arabidopsis lyrata (L.) O’Kane & Al-Shehbaz subsp. petraea (L.) O’Kane & Al-Shehbaz

Tví- eða fjölær jurt, hærð neðst eða hárlaus. Stöngull einn eða fáeinir af sömu rót, uppréttur eða jarðlægur, oft greinóttur efst. Blöð í stofnhvirfingu á 0,5-5 cm stilk, öfug-lensulaga eða egglaga, 0,5-8,5 cm x 2-18 mm, heilrend, tennt eða lírulaga-fjaðurskert, blaðoddur snubbóttur, hærð eða hárlaus og gljáandi. Stöngulblöð á stuttum stilk eða stilklaus, öfug-lensulaga, 0,4-5 cm × 1-8 mm, minni eftir því sem ofar dregur; heilrend, smábugðótt eða tennt.

Blóm fjór-deild, mörg saman í stuttum klasa. Bikarblöð græn eða bleikleit, oft rauð í enda, himnurend, 2-4,5 mm á lengd, hærð eða hárlaus; krónublöð hvít eða sjaldan rauðbláleit, spaðalaga eða öfugegglaga, 4-9 x 1,5-2 mm (nögl um 2 mm). Skálpar uppsveigðir eða útstæðir, 1,5-4 cm × 0.8-1.8 mm. Fræ eru með lítinn himnusepa á öðrum enda.

Vex á melum, í klettum og skriðum. Mjög algengt um land allt. Blómgast í maí. 5–40 cm á hæð.

Viðurnafnið lyrata er komið úr grísku ‘lyra’, líra, einhvers konar harpa. Blaðlögunin minnir á þetta hljóðfæri. Viðurnafnið petraea er úr latínu, ‘petra’, klettur og ‘petraeus’, vex í klettum.

 

Samnefni:

Cardamine petraea L.; Arabidopsis petraea (L.) V.I.Dorof., A. petraea (L.) Kolnik & Marhold; Arabis petraea (L.) Lam., A. media N. Busch; Cardaminopsis petraea (L.) Hiitonen

Nöfn á erlendum málum:

Enska: Northern Rock-cress

Danska: Klippe-Sandkarse

Norska: aurskrinneblom

Sænska: strandtrav

Finnska: idänpitkäpalko

Þýzka: Felsen-Schaumkresse

Franska:

 

Lórur – Rorippa

Ættkvíslin Rorippa Scop. telst til krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Þetta eru ein-, tví- og fjölærar tegundir, oftast í deigju eða votlendi. Stöngull er uppréttur, uppsveigður eða jarðlægur, greindur eða ógreindur og blöðóttur. Stofnblöð á stilk, einföld, heilrend, tennt, bugðótt, lírulaga, kambskift eða fjaðurskipt. Stöngulblöð stilkuð eða stilklaus, fleyglaga, mjókka jafnt, með blaðeyru eða örlaga neðst, heilrend, tennt, fjaðurskert.

 

Blómskipun klasi með eða án stoðblaða, lengist við þroskun. Bikarblöð aflöng til egglaga, oft himnurend. Krónublöð gul eða hvít, sjaldan rósrauð, geta verið óþroskuð, aflöng, spaðalagaegglaga eða öfuglensulaga; nögl á stundum greinileg, styttri en bikarblöð. Fræflar eru 6, sjaldan 4 og jafnlangir. Skálpar hnöttóttir, bjúglaga eða sjaldan aflangir, án greinilegra strengja.

 

Til þessarar kvíslar teljast um 80 tegundir, sem vaxa vítt um heiminn. Sumar tegundir eru á stundum taldar til kvíslarinnar Nasturtium.

 

Ættkvíslarnafnið Rorippa er gamalt plöntunafn. Ekkert er vitað um merkinguna.

Hér á landi er ein innlend tegund, kattarjurt, en tvær vaxa sem slæðingar. Önnur þeirra er allvíða um landið suðvestanvert og á Mið-Norðurlandi, en hin hefur aðeins fundizt á einum stað.

Íslenzku nöfnin á tegundunum þremur eru ekki vel valin: kattarjurt, skógarflækja eða flækjujurt og brunnperla. Hér er lagt til, að ættkvíslin fái nafnið lórur, en lóra getur verið „gælukenndur viðliður í orðum eins og kisulóra” eða „merkt eitthvað lítið eða ögn af einhverju” eins og segir í Íslenskri orðsifjabók eftir Ásgeir Blöndal Magnússon (1989). Þá kemur orðstofninn einnig fyrir í fornum norskum og sænskum ár- og stöðuvatnaheitum.

Hér er því lagt til, að eftirtaldar breytingar verði á íslenzkum tegundarnöfnum:

Rorippa islandica heiti kattarlóra, R. sylvestris heiti skógarlóra og R. nasturtium-aquaticum heiti vatnalóra.

Síðan verður tíminn að leiða í ljós, hvort aðrir taka upp þessi nöfn. Sannast sagna býzt eg ekkert frekar við því.

 

Greiningarlykill að tegundum innan kvíslarinnar Rorippa:

1. Blóm gul …………… 2
1. Blóm hvít ………….. vatnalóra (R. nasturtium-aquaticum)

2. Krónublöð álíka löng og bikarblöð. Stöngulblöð með blaðeyru. Skálpur styttri en 8 mm …… kattarlóra (R. islandica)
2. Krónublöð lengri en bikarblöð. Stöngulblöð án blaðeyrna. Skálpar lengri en 8 mm ……… skógarlóra (R. sylvestris)

 

Kattarlóra – Rorippa islandica

Kattarlóra – Rorippa islandica (Oeder ex Gunnerus) Borbás — er ein- eða tvíær jurt. Stöngull er uppréttur, uppsveigður eða jarðlægur, marggreinóttur, hárlaus og gáróttur; oft holur og safaríkur. Stofnblöð og stöngulblöð áþekk, lírulaga til fjaðurskipt; stöngulblöð stilkuð eða nærri stilklaus. Oftast með 3 eða 4, tennt eða sepótt smáblaðpör, broddhlutinn stærstur, einkum á stofnblöðum.

Blómskipun klasi. Blómin gul, um 3 mm að þvermáli, krónublöð á lengd við bikarblöð. Skálpar aflangir, lítið eitt uppblásnir, með örstuttan stíl. Skálpar um það bil jafnlangir eða lengri en skálpleggir

Vex í deigum jarðvegi við vötn, læki og laugar. Algeng um sunnan- og norðanvert land. Blómgast í júlí. 5-40 cm á hæð.

Tegundin R. islandica líkist mjög R. palustris (L.) Besser, sem er all algeng annars staðar á Norðurlöndum. Helzt má aðgreina tegundirnar á því, að fræ hinnar síðarnefndu eru greinilega smáörðótt, en ekki eða tæplega hinnar fyrrnefndu.

Nöfn á erlendum málum:

Enska: northern yellowcress, northern marsh yellowcress

Danska: Kær-Guldkarse

Norska: islandskarse

Sænska: islandsfräne

Finnska:

Þýzka:

Franska:

 

Skógarlóra – Rorippa sylvestris

Skógarlóra – R. sylvestris (L.) Bess. – er fjölær jurt með upprétta eða jarðlæga, rótskeyta stöngla. Rótarkerfið er mjög víðskriðult og öflugt. Stofnblöð lík stöngulblöðum, sem eru á stilk eða nærri stilklaus, fjaðurskipt, með 3-6 smáblaðpör, broddhlutinn er ekki breiðari en aðrir blaðhlutar.

Blómskipun klasi. Blómin eru gul, 5 mm að þvermáli, krónublöð um tvisvar sinnum lengri en bikarblöð, þegar þau eru fullvaxin. Skálpar eru stuttir og mjóir, oftast litlu sverari en skálpleggirnir; þroskar sjaldan eða aldrei fræ.

Vex sem slæðingur, einkum í ræktaðri jörð, á Suður- og Norðurlandi. Blómgast í júni og júlí. 10-25 cm á hæð.

Viðurnafnið sylvestris er dregið af latneska orðinu ‘sylva’, skógur og merkir ‘vex í skógi’.

Samnefni:

Radicula sylvestris (L.) Druce; Sisymbrium sylvestre L.; Brachiolobos sylvestris (L.) Allioni; Nasturtium sylvestre (L.) W. T. Aiton;

Nöfn á erlendum málum:

Enska: creeping yellowcress, yellow fieldcress, keek

Danska: Vej-Guldkarse

Norska: vegkarse

Sænska: strandfräne, strandkrasse, strandsenap

Finnska: rikkanenätti

Þýzka: Wilde Sumpfkresse

Franska: cresson des bois

 

Vatnalóra – Rorippa nasturtium-aquaticum

Vatnalóra – R. nasturtium-aquaticum (L.) Hayek – er oft talin til ættkvíslarinnar Nasturtium. Þetta er sígræn, fjölær og safarík jurt, sem lifir aðallega í rennandi vatni en hér í heitum jarðvegi. Stönglar eru jarðlægir, þykkir og geta orðið um hálfur metri á lengd. Blöðin eru fjaðurskipt með 1-3 smáblaðpör, sem eru þykk og nærri kringlótt.

Blómskipun er klasi. Blóm eru um 5 mm að þvermáli, krónublöð eru hvít og um tvisvar sinnum lengri en bikarblöð. Skálpar eru sverir (um 2 mm) og um 1,5 cm á lengd. Skálpleggir eru útstæðir.

Tegundin hefur vaxið sem slæðingur um hríð í heitum jarðvegi á Sólheimum í Grímsnesi. Óvíst er hvernig tegundin hefur borizt til landsins. Frekari upplýsingar um hana liggja ekki fyrir.

Viðurnafnið nasturtium-aquaticum er dregið af latnesku orðunum ‘nasus’, nef og ‘tortus’, þjáður, kvalinn; einnig af ‘aqua’, vatn. Merkingin er því ‘sá sem lifir í vatni og kvelur nefið’. Nafnið er komið til af því, að plantan lyktar líkt og piparrót (Armoracia rusticana) og getur valdið ertingu í nefi.

 

Samnefni:

Nasturtium officinale R. Br., N. nasturtium-aquaticum (L.) H. Karst.; Sisymbrium nasturtium-aquaticum L., S. nasturtium Thunb.; Radicula nasturtium Cav., R. nasturtium-aquaticum (L.) Rendle & Britten; Rorippa nasturtium Beck, R. nasturtium-aquaticum (L.) Hayek

Nöfn á erlendum málum:

Enska: Watercress

Danska: Tykskulpet Brøndkarse

Norska: grøn engelskkarse

Sænska: källfräne, källkrasse, vattenkrasse

Finnska: isovesikrassi

Þýzka: Brunnenkresse

Franska: cresson de fontaine, cresson officinal

 

Klukkur – Cardamine

Ættkvíslin klukkur – Cardamine L. – heyrir til krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Flestar tegundir eru fjölærar, fáar ein- eða tvíærar. Stöngull uppréttur, uppsveigður eða jarðlægur, greindur eða ógreindur. Blöð eru stakstæð á jarðstöngli, í hvirfingu og á stöngli; blaðrönd heil, tennt eða fjaðurskift eða handflipótt, á stundum þrífingruð, fjöðruð, handskipt eða tvífjöðruð. Stöngulblöð stilkuð eða stilklaus.

Blómskipun klasi, sem lengist við þroskun. (Klasinn er hálfsveipur, það er neðstu blómleggir lengstir en styttast eftir því sem ofar dregur.) Klasinn er ekki blómmargur. Blóm eru oftast hvít, á stundum rósrauð eða fjólublá. Fræflar jafnan sex (sjaldan 4), allir jafnlangir. Skálpar uppréttir, útstæðir, jafnvel baksveigðir.

Til kvíslarinnar teljast um 150 tegundir, sem vaxa um allan heim nema á Suðurskautslandinu. Hér á landi vaxa 3 eða 4 tegundir

Ættkvíslarnafnið Cardamine er upphaflega nafn, kardamis, á austurlenzkri akurperlu (Lepidium).

Samnefni:

Dentaria L.

 

Greiningarlykill að íslenzkum tegundum innan Cardamine:

1. Blöð fjöðruð. Bikar styttri en blómleggur ……………….. 2
1. Blöð heil. Bikar jafnlangur eða lengri en blómleggur ……… jöklaklukka (C. bellidifolia)

2. Krónublöð (>5 mm) þreföld að lengd við bikarblöð …………. hrafnaklukka (C. pratensis ssp. angustifolia)
2. Krónublöð (<4 mm) ekki meira en tvisvar sinnum að lengd við bikarblöð ……. 3

3. Stöngulblöð 2 eða 3, færri og minni en stofnblöð ……………….. lambaklukka (C. hirsuta)
3. Stöngulblöð 3 til 7, fleiri en stofnblöð ………………………. kjarraklukka (C. flexuosa)

 

Hrafnaklukka – Cardamine pratensis ssp. angustifolia

Hrafnaklukka hér á landi- Cardamine pratensis L. ssp. angustifolia (Hooker) O.E. Schultz – er fjölær og talin ein undirtegund af mörgum. Stöngull – einn eða fleiri – er uppréttur, jafnan ógreindur, hárlaus. Stofnblöð fjöðruð í hvirfingu; smáblöð á stilk eða stilklaus, egglaga til kringluleit, heilrend eða hornótt, gis-randhærð; endasmáblað líkt hinum hliðstæðu að stærð og gerð. Stöngulblöð 2-4, sjaldan fleiri, fjöðruð, smáblöð öfuglensulaga, aflöng eða striklaga, stilkstutt, strengjalaus og heilrend; blöð styttri og smáblöð færri eftir því sem ofar dregur á stöngli.

Blóm í þéttum, stoðblaðlausum klasa. Blóm eru 1-1,5 cm að þvermáli. Bikarblöð 3-4,5 mm, jafnan himnurend, græn og rauð á endum. Krónublöð nærri hvít til ljósblá eða á stundum rauðblá, 8-16 x 4,5-6,5 mm, snubbótt eða lítið eitt skert. Sex fræflar með gular frjóhirzlur, ein fræva. Skálpar uppstæðir eða út- og uppstæðir, 1-3 cm x 1,5 mm; fræ brún, aflöng og 1,5-2 mm á lengd.

Á neðstu blöðum myndast á stundum örlitlir yrtlingar, sem geta skotið rótum.

Vex í ýmiss konar votlendi eða þar sem einhver deigla er. Algeng um land allt. Blómgast í maí–júní. 10–45 cm á hæð.

Sagt er, að te af fjólubláum plöntum sé gott, eigi menn við svefnleysi að stríða, en af hvítum vilji menn vaka lengi. Auk þess er hún álitin magastyrkjandi, uppleysandi, ormdrepandi og auka þvag og tíðir. Þá var hún og höfð við skyrbjúgi, kreppusótt, miltis- og lifrarbólgu. Þá eru blöð vel æt og má hafa í sallat, þó að þau geti verið eilítið beisk á bragðið; þau eru mjög rík af C-vítamíni. Ekki er ráðlegt, að ófrískar konur noti jurtina.

Viðurnafn tegundar, pratensis, er dregið af latínu ‘pratum’, engi og þýðir sá, sem vex á engi; viðurnafn undirtegundar, ‘angustifolia’, er dregið af latnesku orðunum ‘angustus’, mjór, þröngur og ‘folium’, blað.

 

Samnefni:

Cardamine dentata Schult., C. palustris (Wimm. & Grab.) Peterm., C. pratensis L. ssp. palustris (Wimm. & Grab.) Janch., C. pratensis L. var. palustris Wimm. & Grab., C. nymanii Gand., C. pratensis L. var. angustifolia Hooker

Nöfn á erlendum málum:

Enska: cuckooflower, bittercress

Danska: Engkarse

Norska: engkarse

Sænska: ängsbräsma, ängskrasse, äkta ängsbräsma

Finnska: luhtalitukka

Þýzka: Wiesen-Schaumkraut

Franska: cardamine des prés, cardamine à feuillles étroites

 

Kjarraklukka – Cardamine flexuosa

Til eru þurrkuð eintök frá Dyrhólum úr fórum Helga Jónssonar, sem kunna að vera kjarraklukka – Cardamine flexuosa With. — Þetta hefur þó ekki verið staðfest og frekari lýsing því látin bíða.

Viðurnafnið flexuosa er komið úr latínu flexus, beygja og þýðir ‘með margar beygjur’, og á við stöngul, sem er oft marg-sveigður.

Samnefni:

Cardamine sylvatica Link

Nöfn á erlendum málum:

Enska: wavy bitter-cress

Danska: Skov-Springklap

Norska: skogkarse

Sænska: skogsbräsma

Finnska: metsälitukka

Þýzka: Wald-Schaumkraut

Franska:

 

Jöklaklukka – Cardamine bellidifolia

Jöklaklukka – Cardamine bellidifolia L. – er mjög lítil, fjölær, hárlaus háfjallajurt. Stöngull er uppréttur til uppsveigður, á stundum með einu stöngulblaði á stuttum stilk, en oftast engu. Stofnblöð eru lítil, egglaga eða nærri kringlótt, heilrend með kirtilodd og stilklöng (1-4 cm; oft hærri en blómklasar). (Í raun eru blöðin fjöðruð en aðeins endasmáblaðið er þroskað.)

Blómskipun er blómfár og smár klasi. Blóm eru smá, 4 eða 5 mm að þvermáli, fjór-deild. Bikarblöð (2-3 mm) um helmingi styttri en krónublöð, rauðbláleit; krónublöð um 4-5,5 mm á lengd, hvít og upprétt. Sex fræflar með hvítar frjóhirzlur, ein fræva. Skálpar eru uppréttir, ná langt upp fyrir blóm, dökkleitir, margfalt lengri en skálpleggir (3-6 mm), stíll stuttur og gildur.

Vex jafnan hátt til fjalla á auðri jörð og í mosateygingum. Vex hér og hvar um norðanvert landið frá Vestfjörðum til Austurlands; einnig víða um vestanvert land. Sjaldgæf um landið sunnanvert, hefur þó fundizt í Fögrufjöllum á Skaftártungu-afrétti. Blómgast í júní og júlí. 2-6 cm á hæð.

Jöklaklukka minnir um sumt á vorblóm (Draba), en þau eru hærð og með öðru vísi blöð; að auki eru skálpar á vorblómum stuttir.

Viðurnafnið bellidifolia þýðir með blöð eins og Bellis (bellisar eða fagurfíflar), skylt bellus, fagur; og ‘folium’, blað.

Samnefni:

Cardamine alpina Willd.

Nöfn á erlendum málum:

Enska: alpine bittercress

Danska: Fjeldkarse

Norska: høgfjellskarse

Sænska: fjällbräsma

Finnska: tunturilitukka

Þýzka: Alpen-Schaumkraut

Franska: cardamine à feulles de pâquerette

 

Lambaklukka – Cardamine hirsuta

Lambaklukka – Cardamine hirsuta L. – er einær jurt. Stöngull er uppréttur til uppsveigðir eða jarðlægir, ógreindir eða greindir. Stofnblöð fjaðurskipt í hvirfingu með bugtennt, aflöng til kringlótt og stilkuð smáblöð; endasmáblað stærst, nýrlaga til kringlótt. Stöngulblöð 1-4 með langleit til öfugegglaga smáblöð. Plantan hærð, að minnsta kosti blaðstilkar stofnblaða.

Blómskipun er klasi. Blóm 3-5 mm að þvermáli, 4-deild. Bikarblöð aflöng, 1-2,5 mm á lengd og um 0,5 mm á breidd, oft fjólubláleit og snubbótt. Krónublöð hvít, spaðalaga, 2,5-4,5 mm á lengd og 0,5-1 mm á breidd. Fræflar jafnan 4, þar sem tveir ná sjaldnast þroska; frjóhirzlur hvítar. Ein fræva. Skálpar uppréttir eða útstæðir, 1,5-2,5 cm langir á 3-10 mm löngum leggjum.

Vex í deiglendi, oft við laugar og í görðum. Algeng á sunnanverðu landinu, sjaldgæf á V, NV og N, þar sem hún er einkum í görðum og við jarðhita. Blómgast síðla í júní. 5–20 cm á hæð.

Viðurnafnið hirsuta er komið af latneska orðinu hirsutus, strýhærður.

 

Nöfn á erlendum málum:

Enska: hairy bitter-cress

Danska: Roset-Springklap

Norska: rosettkarse

Sænska: bergbräsma, bergsbräsma

Finnska: mäkilitukka

Þýzka: Garten-Schaumkraut

Franska:

 

Skarfakál – Cochlearia

Ættkvíslin skarfakál – Cochlearia L. – telst til krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Plöntur kvíslarinnar eru ein- eða tvíæringar, fáar eru fjölæringar. Stöngull er uppréttur til jarðlægur, ýmist greindur eða ógreindur. Bæði með stofn- og stöngulblöð, sem oftast eru nokkuð kjötkennd, nýrlaga til aflöng, ýmist stilkuð eða stilklaus, heilrend, smá-bugðótt eða tennt.

Blómskipun er klasi. Bikarblöð eru útstæð, oft hvelfd. Krónublöð eru hvít (á stundum með rauðleitum blæ), öfuglensulaga til spaðalaga. Skálpar hnöttóttir til sporöskjulaga, skilrúmið gengur í gegnum skálp á þann veg, sem hann er breiðari.

Um 20 tegundir teljast til þessarar kvíslar. Hér á landi vex ein tegund örugglega og ef til vill önnur til (sjá síðar).

Ættkvíslarnafnið Cochlearia er dregið af grísku orði, kokhliárion, sem hefur verið fært yfir á latínu ‘cochleare’, skeið, spónn, og tekur mið af spaðalaga lögun blaða á nokkrum tegundum.

 

Samnefni:

Cochleariopsis Á. Löve & D. Löve; Glaucocochlearia (O. E. Schulz) Pobedemova

 

Greiningarlykill að tegundum innan Cochlearia:

1. Krónublöð >4 mm á lengd. Skálpar hnöttóttir eða lítið eitt aflangir ………. skarfakál (C. islandica)
1. Krónublöð 2-4 mm á lengd. Skálpar fremur aflangir en hnöttóttir eða lítið eitt aflangir … fjallaskarfakál (C. groenlandica)

 

Skarfakál – Cochlearia islandica

Skarfakál – Cochlearia islandica Pobed. – tví- til fjölær, hárlaus, safrík jurt. Stöngull er uppsveigður til uppréttur, oft greinóttur, stórgáróttur. Stofnblöð á stilk, nýrlaga, hjartalaga til aflöng, heilrend eða smábugðótt. Stöngulblöð stilklaus, oft greipfætt, heilrend eða jafnvel stórtennt, mjög breytileg að lögun.

Blómskipun er klasi á stöngulenda. Fjórdeild blóm. Bikarblöð 1-2 mm, græn- eða fjólubláleit. Krónublöð um 4 mm, öfugegglaga til spaðalaga, hvít en oft með rauðleitan blæ. Skálpar hnatt- til egglaga, helmingi styttri en skálpleggir.

Tegundin er mjög breytileg og hefur mörgum undirtegundum og afbrigðum verið lýst. Að sinni verður ekki farið út í þá sálma hér. Eitt afbrigði, var. oblongifolia (D.C.) Gelert, var nefnt arfakál. Ekki er ósennilegt, að íslenzka skarfakálið verði gert að sérstakri undirtegund, þá er Flora Nordica verður gefin út næst (Cochlearia officinalis ssp. islandica (Pobed.) Nordal & Bjorå ined.)

Vex í þéttum jarðvegi nálægt sjó en á stundum á háfjöllum og er þá mjög smávaxið. Algengt um land allt. Blómgast í maí–júní. 10–50 cm á hæð.

Viðurnafnið officinalis er komið úr latínu, officina, verkstæði, lyfjabúð, og er komið til af því, að tegundin var áður til sölu þar undir nafninu ‘herba Cochleariæ’.

Skarfakál er gömul lækningaplanta. Var það talið uppleysandi, þvag- og svitadrífandi, blóðhreinsandi og örva tíðir kvenna. Oft var það soðið og lagt í skyr, sem geymt var til vetrar. Blöðin eru bezt fersk og eru þau mulin í mortéli með sykri. Rótin var etin ýmist hrá eða soðin. Plantan er rík af C-vítamíni.

Samnefni:

Cochlearia anglica L., C. officinalis L. var. anglica (L.) Alef.

Nöfn á erlendum málum (nöfn taka mið af ssp. officinalis):

Enska: common scurvy-grass, spoonwort

Danska: Læge-Kokleare

Norska: skjørbuksurt

Sænska: skörbjuggsört, skedört; vanlig skörbjuggsört

Finnska: ruijankuirimo

Þýzka: Echtes Löffelkraut

Franska:

 

Fjallaskarfakál – Cochlearia groenlandica

Fjallaskarfakál – Cochlearia groenlandica L. – er í flestu mjög líkt skarfakáli, nema það er allt miklu smærra í sniðum. Oftast eru stönglar nokkrir saman uppréttir eða jarðlægir, greinóttir ofan til. Stofnblöð í hvirfingu, stilkuð, heilrend eða tennt. Neðstu stöngulblöð oft á stilk en hin efri stilklaus, heilrend eða lítillega tennt.

Blómskipun er klasi, oft blómmargur. Blóm svipuð og á undanfarandi tegund. Skálpar oft ekki jafn hnöttóttir, um það bil jafnlangir og skálpleggir.

Vex á gróðursnauðum melum hátt til fjalla á stöku stað nokkuð inni í landi.

Staða þessa smávaxna skarfakáls er nokkuð óviss. Hvort þetta er sérstök tegund eða afbrigði af C. islandica skal ósagt látið á þessari stundu.

 

Samnefni:

Cochlearia arctica Schlechtendal ex de Candolle, C. arctica ssp. oblongifolia (de Candolle) V. V. Petrovsky, C. fenestrata R. Brown, C. oblongifolia de Candolle, C. officinalis Linnaeus ssp. arctica (Schlechtendal ex de Candolle) Hultén, C. officinalis ssp. oblongifolia (de Candolle) Hultén, C. officinalis var. oblongifolia (de Candolle) Gelert; Cochleariopsis groenlandica (Linnaeus) Á. Löve & D. Löve, C. groenlandica ssp. oblongifolia (de Candolle) Á. Löve & D. Löve

Nöfn á erlendum málum:

Enska: Greenland scurvy-grass, round leaved scurvy grass

Danska:

Norska: polarskjörbuksurt

Sænska: grönländsk skörbjuggsört

Finnska: grönlanninkuirimo

Þýzka:

Franska: herbe à la cuiller, herbe aux cuillers

 

Alurtir – Subularia

Ættkvíslin alurtir – Subularia L. – telst til krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Plöntur kvíslarinnar eru smávaxnir, hárlausir einæringar. Stöngull er uppréttur, sívalur, blaðlaus; oft nokkrir stönglar saman. Blöð eru öll í stofnhvirfingu, allaga, allt að 3 cm á lengd.

Blómskipun er fáblóma klasi, á stundum með aðeins einu blómi. Bikarblöð snubbótt, með mjóan himnufald. Krónublöð hvít. Skálpar venjulega fræmargir og stíllausir.

Alurtir eru að því leyti ólíkar öðrum tegundum innan krossblómaættar, að blöð eru allaga í stofnhvirfingu.

Ættkvíslarnafnið Subularia er dregið af latneska orðinu ‘subula’, alur, sýll.

Aðeins tvær tegundir tilheyra ættkvíslinni og vex önnur þeirra hér, S. aquatica, en hin, S. monticola A. Br. ex Schweinf., í Afríku, einkum hátt yfir sjó.

 

Alurt – Subularia aquatica

Alurt – Subularia aquatica L. — er einær, smávaxin, hárlaus jurt. Stöngull er uppréttur eða uppsveigður, blaðlaus, sívalur. Oft eru margir stönglar í sömu hvirfingu. Blöð í stofnhvirfingu, allaga, allt að 3 cm á lengd.

Blómskipun er gisblóma klasi, oft eitt eða fáein blóm saman. Krónublöð eru lítil og hvít; blómgist tegundin niðri í vatni vaxa engin krónublöð. Skálpar eru egglaga (20-35 mm x 1,2-2 mm), lítið eitt hliðflatir, skilrúm er samsíða hliðflötu hliðunum. Fræ er ljósbrúnt og smátt (0,8-1 x 0,5-0,8 mm).

Fljótt á litið líkist alurt tjarnalauk (Plantago uniflora (syn. Littorella uniflora)), en blöðin á honum eru þykk og safamikil; að auki er tjarnalaukur með langskriðulum regnlum. Oft fljóta uppslitnar alurta-plöntur á vatni og eru rætur snjóhvítar.

Viðurnafnið aquatica er dregið af latneska orðinu ‘aqua’, vatn.

Vex í grunnum tjörnum og á uppþornuðum tjarnastæðum. Algeng á Suður- og Suðvesturlandi og hér og hvar í öðrum landshlutum. Blómgast í júli. 1-6 cm á hæð.

Nöfn á erlendum málum:

Enska: american water-awlwort

Danska: Sylblad

Norska: sylblad

Sænska: sylört

Finnska: äimäruoho

Þýzka: Pfriemenkresse

Franska: subulaire aquatique

 

Þefjurtir – Descurainia

Þefjurtir – Descurainia Webb & Berthel. – er ættkvísl innan krossblómaættar (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Flestar tegundir eru einærar, en þó eru nokkrar ýmist tví- eða fjölærar. Stöngull er uppréttur, greinóttur og oft hárlaus ofan til. Blöð eru bæði í stofnhvirfingu og á stöngli, þau eru fjöðruð, ýmist stilkuð eða stilklaus; blöð í stofnhvirfingu visna oft, þegar plantan blómgast.

Blómskipun er klasi, sem á stundum lengist verulega við þroskun blóma. Bikarblöð eru upprétt eða útstæð, egglaga til striklaga. Krónublöð ýmist styttri eða lengri en bikarblöð, egglaga til lensulaga, gul. Sex fræflar. Skálpar aflangir, skilrúm þunnt eða ekkert.

Ættkvíslarnafnið Descurainia er til heiðurs frönskum apótekara, François Descourain (1658-1740).

Það eru um 45 tegundir innan kvíslar, dreifðar um nær allan heim, einkum þó í tempruðu beltunum. Tvær tegundir hafa verið skráðar sem slæðingar hér á landi; annars vegar þefjurt, sem er orðinn rótfastur slæðingur, og hins vegar gráþefjurt, sem aðeins hefur verið skráð einu sinni á Akureyri. Í greiningarlykli hér að neðan er lýst, hvernig þessar tvær tegundir eru aðgreindar, en er ekki fjallað nánar um hina síðar nefndu, Descurainia incana (Bernh. ex Fisch. & C.A.Mey.) Dorn – gráþefjurt.

 

Greiningarlykill að tveimur tegundum slæðinga í Descurainia:

1 Skálpar liggja þétt upp að stöngli …………. gráþefjurt (D. incana)

1 Skálpar standa út frá stöngli ……………… þefjurt (D. sophia)

 

Þefjurt – Descurainia sophia

Þefjurt – Descurainia sophia (L.) Webb ex Prantl — er einær, grágræn jurt. Stöngull er uppréttur og greinóttur ofantil. Tví- til þrífjöðruð blöð, blöð í stofnhvirfingu á stuttum stilk, smáblöð striklaga eða aflöng (10×2 mm), heilrend. Stöngulblöð stilklaus eða á stuttum stilk; blöð smærri eftir því sem ofar dregur. Neðri blöð oft stjarnhærð.

Blóm eru lítil og sitja í klasa á blómskipunarlegg, sem tekur oft að vaxa um svipað leyti og blóm þroskast. Bikarblöð eru upprétt eða útstæð, gulleit, hárlaus eða lítillega hærð, 1,8-2,8 mm á lengd og álíka löng og ljósgul krónublöð, stærð þeirra 2-3 x 0,4-0,6 mm. Skálpar eru sívalir með mörgum fræjum, þráðmjóir, um 1 mm að þvermáli og 3 cm á lengd, útstæðir. Hver planta getur myndað um 6000 fræ. Fræ er hliðflatt og egglaga með dæld á enda; eftir endilöngu fræi liggur upphækkaður hryggur; litur er gulbrúnn og glansandi, 0,7-1,3 × 0,3-0,6 mm.

Viðurnafnið sophia kemur úr grísku og merkir vísdómur, þekking. Fyrrum var þefjurt talin stöðva blæðingar og hún var því notuð við skurðaðgerðir og fékk af því nafnið Sophia chirurgorum, vísdómur bartskerans, en í þá tíð fóru saman störf bartskera og skurðlækna. Í dönsku þekkist enn nafn á tegundinni, sem á rætur að rekja til þessarar notkunar, Barberforstand. Plantan var því ræktuð um tíma og hún þótti nothæf til ýmissa annarra hluta, meðal annars í sópa, Þá var talið, að hún eyddi njálgi í börnum, en nú er litið á hana sem óæskilega. Annars staðar á Norðurlöndum óx þefjurt oft á torfþökum en í seinni tíð er mesta útbreiðsla hennar meðfram járnbrautarteinum.

Þefjurt er nitursækin jurt og þrífst ekki í skugga. Getur þó tórt lengi í sendinni jörð, en verður varla stórvaxin þar. Fræ spíra bezt eftir að hafa legið lengi í jörð.

Ekki er vitað nákvæmlega, hvenær þefjurt barst hingað til lands sem slæðingur. Hún er allvíða á Suðvesturlandi, Miðnorðurlandi og á nokkrum stöðum á Austurlandi.

Blómgast í júni og allt fram í miðjan ágúst-mánuð. Verður allt að 60 cm á hæð.

 

Samnefni:

Sisymbrium sophia L., S. parviflorum Lamarck; Hesperis sophia (L.) Kuntze; Sophia parviflora (Lamarck) Standley

Nöfn á erlendum málum:

Enska: flixweed, herb-Sophia, tansy mustard

Danska: Finbladet Vejsennep, Barberforstand

Norska: hundesennep

Sænska: stillfrö, dillsenap

Finnska: litutilli

Þýzka: Besenrauke, Sophienkraut

Franska: sisymbre sagesse, descurainie sagesse

 

Skriðnablóm – Arabis

Ættkvíslin skriðnablóm – Arabis L. – heyrir til krossblómaætt (Brassicaceae, syn. Crusiferae). Til hennar teljast jurtir, ein-, tví- eða fjölærar, ýmist hárlausar eða hærðar, og þá oft stjarnhærðar.

 

Meira síðar. Þá verður fjallað um eftirtaldar tegundir:

Arabis alpina L. – Skriðnablóm

Armoracia rusticana P.Gaertner, B.Meyer & Scherb. – piparrót

Barbarea stricta Andrz. – hlíðableikja

Barbarea vulgaris var. arcuata (Opiz ex J.Presl & C.Presl) Fr., – akurbleikja

Barbarea vulgaris W.T.Aiton – garðableikja

Berteroa incana (L.) DC. – hvítduðra

Brassica napus L. – Gulrófa, repja

Brassica napus L. subsp. oleifera (DC.) Metzg. – (repja).

Brassica napus L. subsp. rapifera Metzg. – (gulrófa)

Brassica oleracea L. – garðakál

Brassica rapa L. subsp. campestris (L.) Clapham – arfanæpa

Brassica rapa L. subsp. rapa, – næpa

Cakile maritima Scop. subsp. islandica (Goud.) Hyl. ex Elven – fjörukál

Camelina microcarpa Andrz. ex DC. – hárdoðra

Camelina sativa (L.) Crantz – akurdoðra

Conringia orientalis (L.) Dumort. – káljurt

Draba arctogena (E.Ekman) E.Ekman – heiðavorblóm

Draba glabella Pursh. – túnvorblóm

Draba incana L. – grávorblóm

Draba lactea Adams – snoðvorblóm

Draba nivalis Liljeblad – héluvorblóm

Draba norvegica Gunn. – hagavorblóm

Draba oxycarpa Sommerf. – fjallavorblóm

Draba verna L. – vorperla

Erucastrum gallicum (Willd.) O.E.Schulz – hundakál

Hesperis matronalis L. – næturfjóla

Isatis tinctoria L. – litunarklukka

Lepidium campestre (L.) R.Br. – akurperla

Lepidium densiflorum Schrad. – þyrpiperla

Lepidium heterophyllum Benth. – hnoðperla

Lepidium latifolium L. – strandperla

Lepidium neglectum Thell. – kringluperla

Lepidium perfoliatum L. – slíðurperla

Lepidium ruderale L. – haugperla

Lepidium sativum L. – garðperla

Lepidium virginicum L. – virginíuperla

Malcolmia maritima (L.) R.Br. – martoppur

Noccaea caerulescens (J. & C.Presl) F.K.Mey. – varpasjóður

Raphanus raphanistrum L. – akurhreðka

Raphanus sativus L. – ætihreðka

Sinapis alba L. – hvítur mustarður

Sinapis arvensis L. – arfamustarður

Sisymbrium altissimum L. – risadesurt

Sisymbrium officinale (L.) Scop. – götudesurt

Thlaspi arvense L – akursjóður

 

 

Leitarorð:

416 Responses to “Krossblómaætt — Brassicaceae (að hluta)”
  1. What’s Going down i’m new to this, I stumbled upon this I’ve discovered It positively helpful and it has helped me out loads. I am hoping to contribute & assist other customers like its aided me. Great job.

  2. Hey there just wanted to give you a brief heads up and let you know a few of the images aren’t loading properly. I’m not sure why but I think its a linking issue. I’ve tried it in two different browsers and both show the same results.

  3. XMC.pl says:

    This is tough. Im not calling you out though, personally I think that its those that arent motivated to change.

  4. Weldon Watah says:

    I have been surfing online more than three hours today, yet I never found any interesting article like yours. It is pretty worth enough for me. Personally, if all webmasters and bloggers made good content as you did, the internet will be much more useful than ever before.

  5. Well I truly liked studying it. This subject provided by you is very practical for correct planning.

  6. I would like to convey my passion for your kind-heartedness giving support to folks that should have assistance with in this study. Your special dedication to passing the solution all through had become extremely useful and has regularly allowed workers like me to achieve their ambitions. Your own important tutorial can mean a whole lot to me and somewhat more to my colleagues. Many thanks; from each one of us.

  7. Some genuinely superb posts on this web site, regards for contribution.

  8. Thank you for another informative website. The place else may just I am getting that type of information written in such an ideal means? I’ve a project that I’m just now operating on, and I’ve been on the look out for such info.

  9. Hdabla Türkçe Altyazılı Porno Tr Üvey Anne Hd Porno izle.

    Bu sitedeki tüm görseller 18 U.S.C. § 2257 ile birebir uyumludur ve tüm film
    oyuncuları fotoğraflandığında ya da videoya alındığında
    18 yaş veya üzerindedir. Sitemize giriş yapmış olmanız, sizin de 18
    yaşın üzerinde olduğunuzu ve kullanım şartlarını
    kanul ettiğiniz anlamına gelir.

  10. A Hoş geldin! Tüm dünyadan binlerce çekini Video kızıyla
    Ücretsiz Seks Sohbeti. Yetişkin Sohbet, gençler, olgunlar, orta yaşlılar,
    esmer kızlar, gerçek amatörler, hatunlar ve
    tüm diğerlerini Video Seks Modellerinin en geniş kısımda tadını çıkart tüm bu
    harika Video kızları seninle Türkçe Porno.

  11. excellent submit, very informative. I ponder why the other experts of this sector don’t notice this. You should continue your writing. I’m sure, you’ve a great readers’ base already!

  12. Türk porn yüksek tanımlı bedava, sadece porno videolar izleyen, en seksi kadınlarla çevrimiçi porno
    videoları izleyebilir veya telefonunuza indirebilirsiniz.
    İki seksi kız bir türk seks porn erkek lanet 1855.
    07:11. Rus öğrenciler, liseli porn ifşa evde anal traktörü düzenledi 7294.

  13. I like what you guys are up too. Such smart work and reporting! Keep up the superb works guys I?¦ve incorporated you guys to my blogroll. I think it’ll improve the value of my website 🙂

  14. Greetings! Very helpful advice on this article! It is the little changes that make the biggest changes. Thanks a lot for sharing!

  15. Amateur Blowjob. Amateur In Gangbang. Amateur Interracial Sex.
    Amateur Lesbian. Amateur MILF. Amateur Teen (18/19) Amateur Threesome.
    Amateur Wife. American.

  16. %%

    Feel free to visit my web-site :: Seo pricing packages

  17. Holly says:

    %%

    my blog post … best (Holly)

  18. Casimira says:

    %%

    Check out my web site online, Casimira,

  19. Leola says:

    %%

    My web-site … sports; Leola,

  20. Just want to say your article is as astonishing. The clearness for your submit is simply spectacular and i can assume you are an expert on this subject.
    Fine with your permission let me to seize your feed to keep up to date
    with coming near near post. Thanks a million and please carry on the rewarding work.

    Also visit my blog – A+ CBD Gummies

  21. Meri says:

    %%

    my web site … play poker online – Meri,

  22. Retha says:

    %%

    Feel free to visit my site – sports (Retha)

  23. %%

    Feel free to visit my web blog – play Roulette online (https://justintimeoil.Com/)

  24. Barry says:

    %%

    Have a look at my web site – bet on sports (Barry)

  25. %%

    Check out my web site … play poker Online (https://Arpaintsandcrafts.com/)

  26. %%

    Feel free to surf to my page :: Dealers, Christchurchpdx.org,

  27. %%

    Feel free to surf to my web page … Online Casino (https://Junglelodgecostarica.Com)

  28. %%

    Stop by my web blog :: online gambling [https://Aslamise.com/]

  29. Monika says:

    %%

    Feel free to visit my blog gaming (Monika)

  30. Catalina says:

    %%

    Feel free to surf to my blog :: bets, Catalina,

  31. %%

    Also visit my page; horse betting (hungryburlington.com)

  32. %%

    Feel free to visit my webpage: Sports Betting (https://Livornoinbattello.Info/)

  33. %%

    Also visit my web blog; Online (Letthemspeak.Net)

  34. %%

    Feel free to surf to my blog: Poker (Flourishtutors.Com)

  35. Dutonc.com says:

    %%

    Feel free to surf to my page :: Sports (Dutonc.com)

  36. Monte says:

    %%

    Also visit my website; casino (Monte)

  37. Lara says:

    %%

    Here is my blog post casino – Lara,

  38. Terri says:

    %%

    My web-site … play poker online – Terri

  39. %%

    Have a look at my blog post … cbd Prefilled carts

  40. %%

    Also visit my site Online poker, eyecare-gilbert.com,

  41. When I initially left a comment I seem to have clicked on the -Notify me when new comments are
    added- checkbox and now each time a comment is added I recieve 4 emails with the
    exact same comment. Perhaps there is an easy method you are able to
    remove me from that service? Thank you! bluetooth smart beacon ibeacon ble private label label

  42. Black Ebony Shemale Tranny Travesti. Old Man Turk And Young Russian. Brent Corrigan And Turk Mason. Brazilian Travestis
    Sabrina Kamoei X Demolition Man Big Dick. Turkish Travesti Sakso.
    Turk Universiteli Fahise Part 1. Travesti Orgy. Sorelia
    Travesty Dildo Trans Shemale 3.

  43. I like this weblog very much, Its a rattling nice billet to read and obtain information.

    My site; Pelican CBD Gummies Review

  44. 5 min Amateur Creampies 677.8k Views Best Amateur Creampie
    Compilation (50 Cumshots) 34 min. 34 min Gdeee1 360p. Amateur anal creampie 5 min. 5 min Filledamateurs 360p.
    Amateur couple fucking in the kitchen with creampie 12 min.
    12 min Amateurity 584.9k Views 360p. Amateur young girl bbc
    creampie.

  45. Everything is very open and very clear explanation of issues. was truly information. Your website is very useful. Thanks for sharing.

  46. Only wanna tell that this is handy, Thanks for taking your time to write this.

  47. Cinsiyet değiştirme, kişilerin yaşamış oldukları sorundan kurtulmak için bu ameliyatı gerçekleştirmiş olabilirler.
    Cinsiyet değiştirme fiyatları 2022. Yapılacak olan cinsiyet değiştirme,
    ameliyatı için kişinin psikolojik ve fizyolojik durumu ele alınır.

    Yapılan sağlık taramasından sonra eğer hastanın ameliyatı.

  48. RARE side effects If experienced, these tend to have a Severe expression i ; toxic psychosis
    ; increased pressure in the eye ; orthostatic hypotension, a form of low blood pressure.

  49. It is truly a nice and helpful piece of information. I’m glad that you simply shared this useful info with us. Please stay us informed like this. Thanks for sharing.

  50. Some genuinely nice and utilitarian info on this web site, likewise I think the design has got superb features.

  51. I think that is one of the most significant information for me. And i’m glad reading your article. However should commentary on some basic issues, The site taste is great, the articles is actually great : D. Good task, cheers

  52. You completed several fine points there. I did a search on the issue and found the majority of folks will have the same opinion with your blog.

  53. F*ckin’ awesome things here. I’m very glad to see your article. Thanks a lot and i’m looking forward to contact you. Will you please drop me a e-mail?

  54. I view something really special in this internet site.

  55. Hello! This is my first visit to your blog! We are a collection of volunteers and starting a new project in a community in the same niche. Your blog provided us valuable information to work on. You have done a outstanding job!

  56. I consider something truly special in this web site.

  57. Spot on with this write-up, I actually assume this web site wants rather more consideration. I’ll in all probability be once more to learn rather more, thanks for that info.

  58. Valuable information. Fortunate me I discovered your web site unintentionally, and I’m stunned why this coincidence didn’t came about in advance! I bookmarked it.

  59. Very interesting subject, regards for putting up. “Remember when life’s path is steep to keep your mind even.” by Horace.

  60. Some truly fantastic information, Sword lily I detected this. “Things we not hope for often come to pass than things we wish.” by Titus Maccius Plautus.

  61. What i don’t understood is actually how you’re not actually much more well-liked than you may be right now. You’re very intelligent. You realize therefore significantly relating to this subject, made me personally consider it from a lot of varied angles. Its like men and women aren’t fascinated unless it is one thing to do with Lady gaga! Your own stuffs great. Always maintain it up!

  62. Hi there! I know this is somewhat off topic but I was wondering which blog platform are you using for this website? I’m getting fed up of Wordpress because I’ve had issues with hackers and I’m looking at alternatives for another platform. I would be great if you could point me in the direction of a good platform.

  63. Genel olarak sistemler arası yaklaşım, çiftlerin cinsel işlevselliklerini etkileyebilecek bireysel,
    ilişkisel, kuşaklar arası ve diğer bağlamsal faktörlerin bütünleştirilmesi ve bu faktörler ışığında bir tedavi
    planı oluşturulmasına rehberlik etmektedir. Sistemik Cinsel Terapi
    Süreci 1) Cinsel İşlev Bozukluklarının Sistemler Arası Değerlendirilmesi.

  64. Kaslı adam zayıf araması için 662⭐ porno filmi listeniyor.

    En iyi kaslı adam zayıf sikiş videoları 7DAK ile,
    kaliteli sikiş videoları, türkçe izlenme rekoru kıran seks izle.
    7.

  65. Bu gey Asyalı çocuk 4 ödüyor Van’ın tüm yol
    boyunca sikini emmesine izin veriyor, sonra Jesse zamanın geri kalanını bu sevimli Asyalı gey çocuğun kıçını becererek
    geçiriyor. 05:03 İnce ve seksi Asyalı gay çocuk Thie, mükemmel twink vücuduyla sizi kendinden emin bir
    şekilde baştan çıkarıyor, sizin için yavaş yavaş soyunuyor.

  66. ラブドール 私はいつもこのトピックに興味を持っていましたが、投稿してくれてありがとう。

  67. ラブドール 超 乳 こんにちは私の愛する人!私はこの投稿が素晴らしく、素敵に書かれていて、ほとんどすべての重要な情報が付属していると言いたいです。このような追加の投稿を見たいのですが。

  68. Debrecen says:

    Dead written subject material, thanks for entropy.

  69. Yay google is my king aided me to find this great internet site! .

  70. haber oku says:

    Its like you read my mind! You appear to know a lot about this, like you wrote the book in it or something. I think that you could do with some pics to drive the message home a little bit, but instead of that, this is fantastic blog. An excellent read. I will certainly be back.

  71. İstanbul hurdacı olarak edindiğimiz sektörel tecrübemizle hurda demir alım satımı yapıyoruz

  72. Hey, you used to write great, but the last few posts have been kinda boring… I miss your super writings. Past several posts are just a little bit out of track! come on!

  73. hurdacı says:

    Esenyurt hurdac firmalar iinde lideriz. En yakn istanbul Esenyurt hurdac en yakn telefonu olan numaramzdan ulaabilirsiniz..

  74. cheapest menopause relief options
    women’s health multivitamin supplements
    buy hormone supplements online and save
    menopause supplements price range

  75. slotbesar says:

    so much great info on here, : D.

  76. I am really enjoying the theme/design of your website. Do you ever run into any browser compatibility problems? A handful of my blog visitors have complained about my blog not operating correctly in Explorer but looks great in Chrome. Do you have any solutions to help fix this problem?

  77. netent demo says:

    As a Newbie, I am always exploring online for articles that can benefit me. Thank you

  78. There is noticeably a bundle to know about this. I assume you made certain nice points in features also.

  79. Hi, Neat post. There is a problem with your website in internet explorer, would check this… IE still is the market leader and a large portion of people will miss your fantastic writing because of this problem.

  80. I?¦ve been exploring for a little for any high-quality articles or weblog posts in this sort of area . Exploring in Yahoo I at last stumbled upon this site. Reading this info So i am happy to express that I have a very good uncanny feeling I came upon exactly what I needed. I such a lot certainly will make certain to do not put out of your mind this web site and provides it a look regularly.

  81. It’s really a cool and useful piece of info. I’m happy that you simply shared this useful info with us. Please stay us up to date like this. Thank you for sharing.

  82. zortilo nrel says:

    Very interesting topic, thanks for posting.

  83. Thanks , I’ve just been looking for info about this subject for ages and yours is the best I have discovered so far. But, what about the bottom line? Are you sure about the source?

  84. Perfectly written content, regards for selective information.

  85. Fantastic goods from you, man. I’ve consider your stuff prior to and you’re just too excellent. I actually like what you have obtained right here, really like what you’re stating and the way in which during which you are saying it. You’re making it entertaining and you continue to care for to stay it wise. I can’t wait to learn far more from you. That is actually a great web site.

  86. Glad to be one of many visitors on this amazing site : D.

  87. Keep up the fantastic work, I read few posts on this website and I conceive that your web site is very interesting and has bands of superb information.

  88. Playslot77 says:

    It is in point of fact a great and helpful piece of info. I’m happy that you just shared this useful information with us. Please stay us informed like this. Thanks for sharing.

  89. Playslot77 says:

    It’s really a great and useful piece of info. I’m glad that you shared this helpful information with us. Please keep us up to date like this. Thanks for sharing.

  90. Fastwin77 says:

    This blog is definitely rather handy since I’m at the moment creating an internet floral website – although I am only starting out therefore it’s really fairly small, nothing like this site. Can link to a few of the posts here as they are quite. Thanks much. Zoey Olsen

  91. Fastwin77 says:

    I believe other website proprietors should take this website as an model, very clean and good user genial design and style.

  92. Sensaslot88 says:

    I cling on to listening to the news broadcast speak about getting boundless online grant applications so I have been looking around for the top site to get one. Could you advise me please, where could i acquire some?

  93. syair sydney says:

    You have brought up a very good details, regards for the post.

  94. deposit bsi says:

    Wow, wonderful blog layout! How long have you been blogging for? you made blogging look easy. The overall look of your web site is magnificent, as well as the content!

  95. You have remarked very interesting points! ps decent site. “We make ourselves a ladder out of our vices if we trample the vices themselves underfoot.” by Saint Augustine.

  96. Hello, i think that i saw you visited my web site thus i came
    to go back the favor?.I am trying to find issues to improve my website!I
    assume its adequate to make use of some of your ideas!!

  97. Hello There. I found your blog using msn. This is a really
    well written article. I will be sure to bookmark it and return to read more
    of your useful info. Thanks for the post. I’ll certainly comeback.

  98. Hello there! This is kind of off topic but I need some advice from
    an established blog. Is it difficult to set up your own blog?
    I’m not very techincal but I can figure things out pretty quick.
    I’m thinking about setting up my own but I’m not sure where to begin. Do you have any ideas or suggestions?

    Appreciate it

  99. What’s up mates, how is the whole thing, and what you would
    like to say on the topic of this article, in my view
    its truly amazing in favor of me.

  100. Aw, this was a really nice post. In idea I wish to put in writing like this additionally – taking time and precise effort to make an excellent article… but what can I say… I procrastinate alot and not at all seem to get one thing done.

  101. Pretty section of content. I just stumbled upon your site and in accession capital to assert that I get in fact enjoyed account your blog posts. Anyway I’ll be subscribing to your augment and even I achievement you access consistently quickly.

  102. Terrie says:

    Hey would you mind stating which blog platform you’re working with?

    I’m going to start my own blog in the near future but I’m having a hard time deciding between BlogEngine/Wordpress/B2evolution and Drupal.
    The reason I ask is because your design and style seems different then most blogs and
    I’m looking for something unique.
    P.S My apologies for being off-topic but I had to ask!

  103. 80s top says:

    kamar 777 hello my website is superbet app

  104. kuno mistis says:

    lyric memories hello my website is scatter wins

  105. dmc 25 says:

    silver colour hello my website is surprise the

  106. roma and hello my website is đẹp cho

  107. in Paris says:

    citibet88 hello my website is st88jp rtp

  108. link 238 says:

    sejarah uruguay hello my website is onewe japanese

  109. wanita telajang hello my website is family prop

  110. sloth bombs says:

    asean slot hello my website is summer skin

  111. god-avenged_sevenfold_ lyrics hello my website is on intel

  112. js混淆 says:

    js混淆 hello my website is js混淆

  113. pkv qq says:

    pkv qq hello my website is pkv qq

  114. slotaja says:

    slotaja hello my website is slotaja

  115. 888 usa says:

    888 usa hello my website is 888 usa

  116. Bet168 says:

    Bet168 hello my website is Bet168

  117. bucin777 says:

    bucin777 hello my website is bucin777

  118. Farewell says:

    Farewell hello my website is Farewell

  119. ketama says:

    ketama hello my website is ketama

  120. m dead says:

    m dead hello my website is m dead

  121. js加固 says:

    js加固 hello my website is js加固

  122. padi banyak says:

    padi banyak hello my website is padi banyak

  123. poin web says:

    poin web hello my website is poin web

  124. dr fahrudin says:

    dr fahrudin hello my website is dr fahrudin

  125. pusat grosir says:

    pusat grosir hello my website is pusat grosir

  126. terjemah muse hello my website is terjemah muse

  127. live roulette hello my website is live roulette

  128. orionplay says:

    orionplay hello my website is orionplay

  129. ps3 gembox says:

    ps3 gembox hello my website is ps3 gembox

  130. Everything is very open with a precise explanation of the issues.
    It was definitely informative. Your website is very helpful.
    Many thanks for sharing!

  131. Rectum, This is a good website Rectum

  132. Steamy Adult says:

    Steamy, This is a good website Steamy

  133. Porn, This is a good website Porn

  134. Inappropriate, This is a good website Inappropriate

  135. Fetish, This is a good website Fetish

  136. Anus Labia says:

    Anus, This is a good website Anus

  137. Nude, This is a good website Nude

  138. Nudity, This is a good website Nudity

  139. Tadalafil, This is a good website Tadalafil

  140. tlovertonet says:

    Hi, I think your site might be having browser compatibility issues. When I look at your website in Safari, it looks fine but when opening in Internet Explorer, it has some overlapping. I just wanted to give you a quick heads up! Other then that, fantastic blog!

  141. tlovertonet says:

    Hello. impressive job. I did not anticipate this. This is a excellent story. Thanks!

  142. ラブドール 上半身 こんにちは、私はあなたの投稿をすべて読むのを楽しんでいます。私はあなたをサポートするために少しコメントを書きたいと思いました。ダッチワイフは最高の状態を提供します。あなたはいつでもあなたが望むようにそして技術的に実行可能な限り彼女とセックスをすることができます。また、ラブドールで罰せられるのを避けることもできます-必要に応じて-それ以

  143. I every time used to study post in news papers but now as I am a user of web thus from now I am using net for
    articles or reviews, thanks to web.

  144. MichaelFug says:

    how to get clomid pills where to buy cheap clomid online – can i get generic clomid online

  145. Michaelfoold says:

    where can i buy cheap clomid: cost of generic clomid pills – can i get clomid pills

  146. TimothyVok says:

    generic prednisone online: cost of prednisone in canada – prednisone uk price

  147. StevenRog says:

    lisinopril 40mg prescription cost: lisinopril 40mg prescription cost – lisinopril 25 mg tablet

  148. StevenRog says:

    doxycycline 100mg price: doxycycline 500mg – doxycycline 100mg tablets

  149. StevenRog says:

    doxycycline without prescription: doxylin – doxycycline 100 mg

  150. Matthewwex says:

    https://indiapharm.llc/# Online medicine order indiapharm.llc

  151. Henryteday says:

    canadian pharmacies that deliver to the us [url=https://canadapharm.life/#]Canada pharmacy online[/url] best online canadian pharmacy canadapharm.life

  152. Matthewwex says:

    https://canadapharm.life/# canadianpharmacymeds canadapharm.life

  153. DavidSlono says:

    medicine in mexico pharmacies: Best pharmacy in Mexico – mexican drugstore online mexicopharm.com

  154. AndrewJoync says:

    medicine in mexico pharmacies: Best pharmacy in Mexico – medication from mexico pharmacy mexicopharm.com

  155. Henryteday says:

    reputable indian online pharmacy [url=https://indiapharm.llc/#]Online India pharmacy[/url] buy medicines online in india indiapharm.llc

  156. DavidSlono says:

    india pharmacy mail order: mail order pharmacy india – india online pharmacy indiapharm.llc

  157. AndrewJoync says:

    best rated canadian pharmacy: Canada pharmacy online – canadian pharmacy 24h com canadapharm.life

  158. Matthewwex says:

    http://indiapharm.llc/# buy medicines online in india indiapharm.llc

  159. CharlesEncom says:

    Buy Vardenafil 20mg online [url=http://levitradelivery.pro/#]Buy Levitra 20mg online[/url] Buy Levitra 20mg online

  160. JosephNoigh says:

    http://kamagradelivery.pro/# Kamagra 100mg price
    п»їerectile dysfunction medication [url=https://edpillsdelivery.pro/#]ed pills online[/url] best over the counter ed pills

  161. CharlesEncom says:

    buy kamagra online usa [url=http://kamagradelivery.pro/#]buy kamagra[/url] buy kamagra online usa

  162. JosephNoigh says:

    https://sildenafildelivery.pro/# sildenafil prices canada
    male erection pills [url=https://edpillsdelivery.pro/#]ed pills delivery[/url] ed treatment review

  163. PeterFooks says:

    http://kamagradelivery.pro/# Kamagra tablets

  164. JosephNoigh says:

    https://sildenafildelivery.pro/# sildenafil generic 20mg
    80 mg tadalafil [url=https://tadalafildelivery.pro/#]Buy tadalafil online[/url] pharmacy online tadalafil

  165. CharlesEncom says:

    Cheap Levitra online [url=http://levitradelivery.pro/#]Buy Levitra 20mg online[/url] Cheap Levitra online

  166. JosephNoigh says:

    https://levitradelivery.pro/# Levitra 20 mg for sale
    10mg tadalafil [url=http://tadalafildelivery.pro/#]tadalafil 5mg tablets in india[/url] canada tadalafil generic

  167. DavidWheef says:

    Paxlovid over the counter [url=https://paxlovid.guru/#]paxlovid best price[/url] paxlovid covid

  168. Robertpaype says:

    http://amoxil.guru/# where can i get amoxicillin

  169. Greggwhins says:

    paxlovid for sale: paxlovid best price – paxlovid covid

  170. DavidWheef says:

    Paxlovid over the counter [url=http://paxlovid.guru/#]paxlovid india[/url] paxlovid price

  171. Greggwhins says:

    stromectol ivermectin tablets: buy ivermectin online – ivermectin buy online

  172. Just want to say your article is as astonishing.
    The clarity on your put up is simply cool and i can assume you’re a professional
    on this subject. Well with your permission allow me to take hold of
    your feed to keep up to date with impending post.
    Thanks one million and please continue the enjoyable work.

  173. Greggwhins says:

    where can i get generic clomid without a prescription: cheapest clomid – buy generic clomid no prescription

  174. DavidWheef says:

    paxlovid pill [url=https://paxlovid.guru/#]Buy Paxlovid privately[/url] paxlovid covid

  175. Robertpaype says:

    https://paxlovid.guru/# paxlovid generic

  176. Robertsaigo says:

    п»їcytotec pills online: buy misoprostol – Abortion pills online

  177. RobertRor says:

    lasix 100 mg [url=https://furosemide.pro/#]furosemide 40mg[/url] lasix for sale

  178. Keithdic says:

    http://finasteride.men/# cost of generic propecia for sale

  179. WilliamSnind says:

    https://furosemide.pro/# buy furosemide online

  180. RobertRor says:

    lasix furosemide [url=https://furosemide.pro/#]Buy Lasix No Prescription[/url] lasix generic name

  181. Robertsaigo says:

    buying generic propecia no prescription: buy propecia – buy propecia without rx

  182. Keithdic says:

    https://finasteride.men/# get generic propecia online

  183. WilliamSnind says:

    http://misoprostol.shop/# cytotec abortion pill

  184. RobertRor says:

    zestril medication [url=https://lisinopril.fun/#]buy lisinopril online[/url] zestoretic 20 25 mg

  185. Robertsaigo says:

    lisinopril 12.5: lisinopril 10mg daily – zestril cost price

  186. Keithdic says:

    http://furosemide.pro/# lasix generic name

  187. RobertRor says:

    zithromax online paypal [url=http://azithromycin.store/#]zithromax best price[/url] can you buy zithromax over the counter

  188. WilliamSnind says:

    https://finasteride.men/# propecia for sale

  189. Robertsaigo says:

    cost cheap propecia online: buying generic propecia tablets – order propecia without prescription

  190. RobertRor says:

    best price for lisinopril [url=https://lisinopril.fun/#]over the counter lisinopril[/url] lisinopril 20g

  191. Keithdic says:

    https://azithromycin.store/# zithromax online pharmacy canada

  192. WilliamSnind says:

    http://finasteride.men/# get propecia tablets

  193. RobertRor says:

    cytotec pills buy online [url=https://misoprostol.shop/#]buy misoprostol[/url] buy cytotec online

  194. Williamfousa says:

    farmacia online miglior prezzo: farmacia online – farmacia online senza ricetta

  195. WalterMEn says:

    http://tadalafilitalia.pro/# farmacia online senza ricetta

  196. ForrestMourl says:

    viagra 100 mg prezzo in farmacia [url=https://sildenafilitalia.men/#]viagra prezzo farmacia[/url] miglior sito per comprare viagra online

  197. Williamfousa says:

    comprare farmaci online con ricetta: Avanafil farmaco – farmaci senza ricetta elenco

  198. ForrestMourl says:

    farmacia online piГ№ conveniente [url=https://tadalafilitalia.pro/#]cialis generico[/url] farmacie on line spedizione gratuita

  199. WalterMEn says:

    https://sildenafilitalia.men/# viagra ordine telefonico

  200. Williamfousa says:

    acquistare farmaci senza ricetta: avanafil – farmacia online senza ricetta

  201. ForrestMourl says:

    cialis farmacia senza ricetta [url=http://sildenafilitalia.men/#]alternativa al viagra senza ricetta in farmacia[/url] viagra consegna in 24 ore pagamento alla consegna

  202. RobertJogue says:

    mexican online pharmacies prescription drugs: mexico pharmacies prescription drugs – mexican rx online

  203. Stevenhooge says:

    mail order pharmacy india: indianpharmacy com – top online pharmacy india

  204. Charleshom says:

    canadian pharmacy oxycodone [url=https://canadapharm.shop/#]northwest pharmacy canada[/url] canada pharmacy online

  205. PhilipHus says:

    https://indiapharm.life/# top online pharmacy india

  206. RobertJogue says:

    mexico drug stores pharmacies: mexican online pharmacies prescription drugs – pharmacies in mexico that ship to usa

  207. Stevenhooge says:

    canadian pharmacy ratings: ed meds online canada – canadian pharmacy 365

  208. Charleshom says:

    buying prescription drugs in mexico [url=http://mexicanpharm.store/#]buying prescription drugs in mexico online[/url] purple pharmacy mexico price list

  209. PhilipHus says:

    https://canadapharm.shop/# cheapest pharmacy canada

  210. Stevenhooge says:

    mexico drug stores pharmacies: mexican border pharmacies shipping to usa – medicine in mexico pharmacies

  211. RobertJogue says:

    online shopping pharmacy india: Online medicine home delivery – best india pharmacy

  212. Charleshom says:

    top online pharmacy india [url=https://indiapharm.life/#]india online pharmacy[/url] online pharmacy india

  213. Stevenhooge says:

    canadian pharmacy review: canadian discount pharmacy – certified canadian international pharmacy

  214. RobertJogue says:

    best online canadian pharmacy: buy drugs from canada – best canadian online pharmacy

  215. PhilipHus says:

    https://canadapharm.shop/# canadian pharmacy store

  216. Charleshom says:

    pet meds without vet prescription canada [url=https://canadapharm.shop/#]canadian pharmacy store[/url] canadian pharmacy near me

  217. I discovered your blog site on google and check a few of your early posts. Continue to keep up the very good operate. I just additional up your RSS feed to my MSN News Reader. Seeking forward to reading more from you later on!…

  218. Very interesting topic, thankyou for posting. “The friendship that can cease has never been real.” by Saint Jerome.

  219. Anthonydudge says:

    https://cytotec.directory/# cytotec pills buy online

  220. LarryVap says:

    Everything about medicine https://clomidpharm.shop/# where buy generic clomid online

  221. LarryVap says:

    A pharmacy that truly understands international needs http://prednisonepharm.store/# prednisone medication

  222. BrentUnaxy says:

    buy clomid pills [url=http://clomidpharm.shop/#]can you get clomid no prescription[/url] can you get cheap clomid without a prescription

  223. LarryVap says:

    Their international partnerships enhance patient care http://nolvadex.pro/# tamoxifen cancer

  224. Anthonydudge says:

    http://prednisonepharm.store/# prednisone 50 mg for sale

  225. LarryVap says:

    A place where customer health is the top priority http://cytotec.directory/# cytotec abortion pill

  226. LarryVap says:

    Their medication synchronization service is fantastic http://cytotec.directory/# buy cytotec in usa

  227. BrentUnaxy says:

    п»їcytotec pills online [url=http://cytotec.directory/#]cytotec abortion pill[/url] buy misoprostol over the counter

  228. LarryVap says:

    A pharmacy that truly values its patrons https://nolvadex.pro/# should i take tamoxifen

  229. LarryVap says:

    Their international health campaigns are revolutionary https://zithromaxpharm.online/# zithromax 250 mg

  230. Anthonydudge says:

    https://cytotec.directory/# Abortion pills online

  231. LarryVap says:

    They provide a world of health solutions http://zithromaxpharm.online/# zithromax prescription

  232. BrentUnaxy says:

    prednisone 20mg capsule [url=http://prednisonepharm.store/#]prednisone 20mg price in india[/url] cost of prednisone in canada

  233. LarryVap says:

    Their pharmacists are top-notch; highly trained and personable http://cytotec.directory/# Cytotec 200mcg price

  234. Michaelamild says:

    viagra without doctor prescription [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]cialis without doctor prescription[/url] non prescription ed drugs

  235. Michaelamild says:

    non prescription ed pills [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]prescription drugs without prior prescription[/url] prescription drugs canada buy online

  236. JamesPeF says:

    canadian pharmacy 24hr http://edpills.bid/# new ed pills
    prescription drug discounts

  237. Michaelamild says:

    azithromycin canadian pharmacy [url=https://reputablepharmacies.online/#]canadian drugs[/url] online pharmacy usa

  238. Lesliedrync says:

    ed meds online without prescription or membership: real cialis without a doctor’s prescription – discount prescription drugs

  239. StevenCah says:

    https://edwithoutdoctorprescription.store/# non prescription erection pills

  240. Michaelamild says:

    cheap erectile dysfunction [url=https://edpills.bid/#]online ed pills[/url] buy ed pills online

  241. Michaelamild says:

    male erection pills [url=https://edpills.bid/#]ed pills online[/url] medication for ed dysfunction

  242. JamesPeF says:

    family discount pharmacy http://reputablepharmacies.online/# best canadian pharmacy no prescription
    drugs online

  243. Michaelamild says:

    canadian pharmacy antiobotics without prescription [url=http://reputablepharmacies.online/#]online canadian pharmacy no prescription needed[/url] mexican pharmacies

  244. Lesliedrync says:

    viagra without doctor prescription: buy prescription drugs without doctor – viagra without a doctor prescription

  245. Your style is so unique compared to other folks I’ve read stuff from.
    I appreciate you for posting when you’ve got the opportunity, Guess
    I will just book mark this site.

  246. Michaelamild says:

    non prescription ed drugs [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]non prescription erection pills[/url] best non prescription ed pills

  247. StevenCah says:

    https://edwithoutdoctorprescription.store/# best non prescription ed pills

  248. Robertstisa says:

    legitimate canadian pharmacies: international pharmacies that ship to the usa – legitimate online pharmacy

  249. Michaelamild says:

    ed meds online without doctor prescription [url=https://edwithoutdoctorprescription.store/#]prescription drugs without doctor approval[/url] viagra without a doctor prescription

  250. Michaelamild says:

    discount drugs canada [url=https://reputablepharmacies.online/#]online drugstore reviews[/url] canadian pharma companies

  251. Robertstisa says:

    best ed treatment pills: male erection pills – best ed treatment

  252. Michaelamild says:

    top canadian pharmacies [url=http://reputablepharmacies.online/#]testosterone canadian pharmacy[/url] no prescription pharmacies

  253. Ronaldkeefe says:

    https://indianpharmacy.shop/# best india pharmacy indianpharmacy.shop

  254. Ronaldsenda says:

    http://mexicanpharmacy.win/# best online pharmacies in mexico mexicanpharmacy.win
    my mexican drugstore

  255. Charlessoymn says:

    canadian pharmacy prices: Canada Pharmacy – canadian online drugstore canadianpharmacy.pro

  256. Timothyhah says:

    pharmacy rx world canada [url=http://canadianpharmacy.pro/#]canadianpharmacymeds[/url] rate canadian pharmacies canadianpharmacy.pro

  257. Charlessoymn says:

    canadian pharmacy reviews: Canadian pharmacy online – canada pharmacy 24h canadianpharmacy.pro

  258. Timothyhah says:

    п»їbest mexican online pharmacies [url=http://mexicanpharmacy.win/#]Medicines Mexico[/url] mexico drug stores pharmacies mexicanpharmacy.win

  259. Charlessoymn says:

    best online pharmacies in mexico: Mexico pharmacy – mexican pharmaceuticals online mexicanpharmacy.win

  260. Timothyhah says:

    reputable canadian pharmacy [url=http://canadianpharmacy.pro/#]Pharmacies in Canada that ship to the US[/url] canada pharmacy online canadianpharmacy.pro

  261. Ronaldsenda says:

    http://canadianpharmacy.pro/# canadian family pharmacy canadianpharmacy.pro
    best pharmacy

  262. Ronaldkeefe says:

    http://indianpharmacy.shop/# reputable indian pharmacies indianpharmacy.shop

  263. Timothyhah says:

    Online medicine order [url=http://indianpharmacy.shop/#]Cheapest online pharmacy[/url] world pharmacy india indianpharmacy.shop

  264. ArronSpoip says:

    http://indianpharmacy.shop/# top 10 pharmacies in india
    top online pharmacy india

  265. Timothyhah says:

    mexico drug stores pharmacies [url=http://mexicanpharmacy.win/#]mexican pharmacy online[/url] medicine in mexico pharmacies mexicanpharmacy.win

  266. RobertEdids says:

    https://canadianpharmacy.pro/# buying drugs from canada canadianpharmacy.pro
    top 10 pharmacies in india

  267. Devonviday says:

    buying prescription drugs in mexico online: online mexican pharmacy – best online pharmacies in mexico

  268. MichealAllok says:

    http://mexicanpharmacy.win/# best online pharmacies in mexico mexicanpharmacy.win

  269. Timothyhah says:

    canadian pharmacy meds review [url=https://canadianpharmacy.pro/#]Canada Pharmacy[/url] canadian king pharmacy canadianpharmacy.pro

  270. Ronaldsenda says:

    http://canadianpharmacy.pro/# canadian pharmacy no scripts canadianpharmacy.pro
    canadian neighborhood pharmacy

  271. Ronaldkeefe says:

    http://mexicanpharmacy.win/# п»їbest mexican online pharmacies mexicanpharmacy.win

  272. RobertEdids says:

    http://canadianpharmacy.pro/# canadapharmacyonline legit canadianpharmacy.pro
    Online medicine home delivery

  273. MichealAllok says:

    http://indianpharmacy.shop/# top 10 pharmacies in india indianpharmacy.shop

  274. Timothyhah says:

    canadian drug stores [url=https://canadianpharmacy.pro/#]Cheapest drug prices Canada[/url] pharmacies in canada that ship to the us canadianpharmacy.pro

  275. RobertEdids says:

    http://mexicanpharmacy.win/# medication from mexico pharmacy mexicanpharmacy.win
    reputable indian online pharmacy

  276. RobertEdids says:

    http://mexicanpharmacy.win/# purple pharmacy mexico price list mexicanpharmacy.win
    online pharmacy india

  277. MichealAllok says:

    https://indianpharmacy.shop/# indianpharmacy com indianpharmacy.shop

  278. Timothyhah says:

    medication from mexico pharmacy [url=https://mexicanpharmacy.win/#]online mexican pharmacy[/url] buying prescription drugs in mexico mexicanpharmacy.win

  279. RobertEdids says:

    http://canadianpharmacy.pro/# canadian online pharmacy reviews canadianpharmacy.pro
    online shopping pharmacy india

  280. MichealAllok says:

    http://mexicanpharmacy.win/# purple pharmacy mexico price list mexicanpharmacy.win

  281. Timothyhah says:

    п»їbest mexican online pharmacies [url=http://mexicanpharmacy.win/#]Mexico pharmacy[/url] medication from mexico pharmacy mexicanpharmacy.win

  282. RobertEdids says:

    http://mexicanpharmacy.win/# mexico pharmacies prescription drugs mexicanpharmacy.win
    indian pharmacies safe

  283. Ronaldsenda says:

    http://mexicanpharmacy.win/# mexican border pharmacies shipping to usa mexicanpharmacy.win
    cheap prescription drugs online

  284. MichealAllok says:

    http://mexicanpharmacy.win/# medicine in mexico pharmacies mexicanpharmacy.win

  285. VictorWhila says:

    Pharmacie en ligne livraison rapide: levitra generique sites surs – Pharmacie en ligne livraison gratuite

  286. AndresWesty says:

    http://viagrasansordonnance.pro/# Acheter viagra en ligne livraison 24h
    Acheter mГ©dicaments sans ordonnance sur internet

  287. RobertMuh says:

    pharmacie ouverte [url=http://pharmadoc.pro/#]Pharmacies en ligne certifiees[/url] acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger

  288. Jerryidexy says:

    http://cialissansordonnance.shop/# pharmacie en ligne

  289. JasonSwoni says:

    pharmacie ouverte: Acheter Cialis – Pharmacie en ligne livraison gratuite

  290. VictorWhila says:

    Viagra pas cher livraison rapide france: Viagra sans ordonnance 24h – Viagra pas cher livraison rapide france

  291. RobertMuh says:

    Meilleur Viagra sans ordonnance 24h [url=https://viagrasansordonnance.pro/#]Viagra sans ordonnance 24h[/url] Viagra pas cher livraison rapide france

  292. Jerryidexy says:

    http://cialissansordonnance.shop/# acheter medicament a l etranger sans ordonnance

  293. VictorWhila says:

    acheter medicament a l etranger sans ordonnance: Levitra sans ordonnance 24h – Pharmacie en ligne France

  294. RobertMuh says:

    Pharmacie en ligne pas cher [url=https://levitrasansordonnance.pro/#]Levitra pharmacie en ligne[/url] п»їpharmacie en ligne

  295. Jerryidexy says:

    https://cialissansordonnance.shop/# Acheter médicaments sans ordonnance sur internet

  296. VictorWhila says:

    Pharmacie en ligne pas cher: п»їpharmacie en ligne – Pharmacie en ligne livraison gratuite

  297. JasonSwoni says:

    Pharmacies en ligne certifiГ©es: Acheter Cialis 20 mg pas cher – Acheter mГ©dicaments sans ordonnance sur internet

  298. VictorWhila says:

    Pharmacie en ligne livraison 24h: PharmaDoc – Pharmacie en ligne pas cher

  299. RobertMuh says:

    Pharmacie en ligne livraison gratuite [url=https://acheterkamagra.pro/#]acheterkamagra.pro[/url] acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger

  300. Jerryidexy says:

    http://levitrasansordonnance.pro/# acheter médicaments à l’étranger

  301. VictorWhila says:

    acheter mГ©dicaments Г l’Г©tranger: acheterkamagra.pro – Pharmacie en ligne livraison rapide

  302. RobertMuh says:

    Viagra sans ordonnance 24h [url=https://viagrasansordonnance.pro/#]Sildenafil teva 100 mg sans ordonnance[/url] Viagra homme sans prescription

  303. Jerryidexy says:

    http://cialissansordonnance.shop/# pharmacie en ligne

  304. VictorWhila says:

    Viagra prix pharmacie paris: Viagra generique en pharmacie – Sildenafil teva 100 mg sans ordonnance

  305. AndresWesty says:

    http://acheterkamagra.pro/# Pharmacie en ligne pas cher
    acheter medicament a l etranger sans ordonnance

  306. RobertMuh says:

    п»їpharmacie en ligne [url=http://acheterkamagra.pro/#]kamagra pas cher[/url] pharmacie ouverte

  307. Jerryidexy says:

    http://pharmadoc.pro/# Pharmacie en ligne France

  308. AaronFraxy says:

    amoxil pharmacy: amoxicillin no prescription – buy amoxicillin 500mg usa

  309. Andrewfloaf says:

    https://amoxicillin.bid/# buy amoxicillin online without prescription

  310. Olivernut says:

    amoxicillin in india [url=http://amoxicillin.bid/#]can i buy amoxicillin over the counter[/url] amoxicillin 500 mg online

  311. Jamesappow says:

    http://ivermectin.store/# ivermectin price comparison

  312. AaronFraxy says:

    amoxicillin 500mg price canada: can we buy amoxcillin 500mg on ebay without prescription – can we buy amoxcillin 500mg on ebay without prescription

  313. Chrisgam says:

    prednisone 10mg for sale: prednisone uk over the counter – buy prednisone online no script

  314. Andrewfloaf says:

    https://clomiphene.icu/# buying clomid without rx

  315. Olivernut says:

    amoxicillin 500mg cost [url=https://amoxicillin.bid/#]cost of amoxicillin 875 mg[/url] amoxicillin 500 mg without prescription

  316. AaronFraxy says:

    price for 15 prednisone: order prednisone 10mg – prednisone 50 mg for sale

  317. Andrewfloaf says:

    http://azithromycin.bid/# generic zithromax azithromycin

  318. Olivernut says:

    ivermectin medication [url=https://ivermectin.store/#]ivermectin 1% cream generic[/url] ivermectin brand

  319. Andrewfloaf says:

    http://amoxicillin.bid/# medicine amoxicillin 500

  320. Chrisgam says:

    how much is ivermectin: stromectol ireland – minocycline 100 mg online

  321. AaronFraxy says:

    zithromax over the counter uk: zithromax for sale usa – buy zithromax online fast shipping

  322. Olivernut says:

    how to get amoxicillin [url=https://amoxicillin.bid/#]amoxicillin 500mg over the counter[/url] amoxicillin 1000 mg capsule

  323. Andrewfloaf says:

    https://prednisonetablets.shop/# prednisone 5 tablets

  324. AaronFraxy says:

    ivermectin 250ml: ivermectin drug – stromectol otc

  325. Olivernut says:

    where to buy prednisone in canada [url=http://prednisonetablets.shop/#]prednisone generic brand name[/url] order prednisone

  326. Andrewfloaf says:

    https://ivermectin.store/# stromectol uk buy

  327. AaronFraxy says:

    ivermectin price uk: ivermectin otc – ivermectin buy nz

  328. Chrisgam says:

    buy minocycline 100 mg otc: ivermectin generic cream – buy ivermectin for humans australia

  329. Olivernut says:

    ivermectin 4000 mcg [url=https://ivermectin.store/#]ivermectin generic[/url] stromectol online pharmacy

  330. Andrewfloaf says:

    http://azithromycin.bid/# zithromax online no prescription

  331. Jamesappow says:

    http://prednisonetablets.shop/# prednisone 40 mg rx

  332. AaronFraxy says:

    buy amoxicillin 500mg online: amoxicillin generic – amoxicillin 500 mg purchase without prescription

  333. AaronFraxy says:

    zithromax 250 mg: purchase zithromax online – zithromax 500 mg

  334. Andrewfloaf says:

    https://prednisonetablets.shop/# cortisol prednisone

  335. Olivernut says:

    canine prednisone 5mg no prescription [url=http://prednisonetablets.shop/#]prednisone 2.5 mg cost[/url] ordering prednisone

  336. Chrisgam says:

    amoxicillin 500 mg tablet: amoxicillin 500mg capsules antibiotic – how much is amoxicillin prescription

  337. CharlesPub says:

    reputable indian pharmacies: Indian pharmacy to USA – top 10 pharmacies in india indianpharm.store

  338. Jerrysow says:

    https://mexicanpharm.shop/# mexican mail order pharmacies mexicanpharm.shop

  339. Timothyfepay says:

    mail order pharmacy india [url=https://indianpharm.store/#]order medicine from india to usa[/url] indian pharmacy online indianpharm.store

  340. CharlesPub says:

    canadian pharmacy prices: Canadian International Pharmacy – cross border pharmacy canada canadianpharm.store

  341. Patricksuers says:

    https://indianpharm.store/# online shopping pharmacy india indianpharm.store

  342. Jerrysow says:

    https://indianpharm.store/# Online medicine home delivery indianpharm.store

  343. Timothyfepay says:

    mexico pharmacies prescription drugs [url=https://mexicanpharm.shop/#]Certified Pharmacy from Mexico[/url] buying from online mexican pharmacy mexicanpharm.shop

  344. CharlesPub says:

    mail order pharmacy india: Indian pharmacy to USA – pharmacy website india indianpharm.store

  345. MichaelSowly says:

    mexican mail order pharmacies: Certified Pharmacy from Mexico – buying prescription drugs in mexico mexicanpharm.shop

  346. Jerrysow says:

    http://mexicanpharm.shop/# mexico drug stores pharmacies mexicanpharm.shop

  347. Timothyfepay says:

    buy medicines online in india [url=https://indianpharm.store/#]п»їlegitimate online pharmacies india[/url] п»їlegitimate online pharmacies india indianpharm.store

  348. CharlesPub says:

    mexican rx online: Online Mexican pharmacy – mexican mail order pharmacies mexicanpharm.shop

  349. Patricksuers says:

    https://mexicanpharm.shop/# mexico pharmacy mexicanpharm.shop

  350. Ramonnus says:

    п»їlegitimate online pharmacies india: order medicine from india to usa – Online medicine order indianpharm.store

  351. Patricksuers says:

    https://canadianpharm.store/# best canadian online pharmacy canadianpharm.store

  352. RobertCiz says:

    https://canadadrugs.pro/# fda approved online pharmacies

  353. CurtisNem says:

    canadian pharmacy review: canadian pharmacies online – canadian discount drugs

  354. Rubenemarf says:

    https://canadadrugs.pro/# northwestpharmacy
    canadian pharmacy online no prescription [url=https://canadadrugs.pro/#]doxycycline mexican pharmacy[/url] highest rated canadian pharmacy

  355. MerleRak says:

    online canadian pharcharmy: prescriptions from canada without – canadian pharmacies without prescriptions

  356. Rubenemarf says:

    http://canadadrugs.pro/# canadian drug stores
    pharmacy [url=https://canadadrugs.pro/#]canadian drugs[/url] canadian online pharmacy

  357. Patricksuers says:

    prescription drugs online without: perscription drugs without perscription – mexican pharmacies shipping to usa

  358. Bennymib says:

    world pharmacy india: mail order pharmacy india – top online pharmacy india

  359. Bennymib says:

    mexican pharmacy without prescription: cialis without a doctor prescription – prescription meds without the prescriptions

  360. WilliamBuifs says:

    http://medicinefromindia.store/# india online pharmacy

  361. WilliamBuifs says:

    https://certifiedpharmacymexico.pro/# mexican border pharmacies shipping to usa

  362. Bennymib says:

    п»їlegitimate online pharmacies india: Online medicine order – indian pharmacy

  363. Bennymib says:

    viagra without a prescription: cheap cialis – viagra without a prescription

  364. WilliamGar says:

    https://medicinefromindia.store/# top 10 online pharmacy in india

  365. Bennymib says:

    buying from online mexican pharmacy: mexican online pharmacies prescription drugs – mexican drugstore online

  366. Juliodup says:

    mexican online pharmacies prescription drugs mexico drug stores pharmacies mexican pharmacy

  367. PeterSeern says:

    buying from online mexican pharmacy pharmacies in mexico that ship to usa mexico pharmacy

  368. TravisSmeld says:

    https://mexicanph.shop/# mexican pharmaceuticals online
    buying prescription drugs in mexico

  369. PeterSeern says:

    purple pharmacy mexico price list mexican pharmaceuticals online pharmacies in mexico that ship to usa

  370. PeterSeern says:

    mexican online pharmacies prescription drugs buying prescription drugs in mexico online mexican pharmaceuticals online

  371. ArmandoSpulk says:

    http://mexicanph.shop/# mexican rx online
    mexico drug stores pharmacies [url=https://mexicanph.com/#]mexican rx online[/url] п»їbest mexican online pharmacies

  372. RobertKak says:

    buying prescription drugs in mexico mexican mail order pharmacies mexico pharmacies prescription drugs

  373. Thanks with regard to providing these terrific info.
    [url=http://esmartech.co.kr/bbs/board.php?bo_table=free&wr_id=298009]nexium in Belgien bestellen[/url]

  374. ArmandoSpulk says:

    https://mexicanph.com/# medicine in mexico pharmacies
    mexican mail order pharmacies [url=http://mexicanph.com/#]buying prescription drugs in mexico online[/url] purple pharmacy mexico price list

  375. PeterSeern says:

    mexico drug stores pharmacies pharmacies in mexico that ship to usa pharmacies in mexico that ship to usa

  376. CharlesRof says:

    http://stromectol.fun/# ivermectin 200

  377. Stephenoneno says:

    https://furosemide.guru/# furosemide 100mg

  378. 소닉슬롯 says:

    smcasino-game.com
    Xiao Jing은 감정적으로 한숨을 쉬지 않을 수 없었습니다. “Fang Jifan은 그다지 좋지 않고 좋은 학생입니다 …”

  379. DavidDab says:

    lisinopril 12.5 mg 10 mg [url=https://lisinopril.top/#]lisinopril 40 mg cost[/url] lisinopril online prescription

  380. Stephenoneno says:

    https://stromectol.fun/# ivermectin 0.5% lotion

  381. EdwardwEt says:

    http://indianph.xyz/# buy medicines online in india
    indian pharmacy paypal

  382. BryanLam says:

    online pharmacy india [url=https://indianph.xyz/#]reputable indian pharmacies[/url] top 10 pharmacies in india

  383. BryanLam says:

    online pharmacy india [url=https://indianph.xyz/#]cheapest online pharmacy india[/url] cheapest online pharmacy india

  384. GMB CTR says:

    I got good info from your blog

  385. KeithBouse says:

    where can i buy diflucan over the counter: diflucan generic brand – buy diflucan 1

  386. IrvindrilT says:

    https://nolvadex.guru/# tamoxifen endometriosis

  387. Howardnum says:

    plenty of fish sign in: https://lanarhoades.pro/# lana rhoades videos

  388. I like this website its a master peace ! Glad I observed this on google .

  389. Regards for helping out, superb information.

  390. Frankvof says:

    eva elfie full video: eva elfie photo – eva elfie new video

  391. Craigduage says:

    http://miamalkova.life/# mia malkova new video

  392. JasonGot says:

    lana rhoades: lana rhoades videos – lana rhoades hot

  393. Williammer says:

    play aviator: aviator – aviator game

  394. LeonardBrive says:

    http://aviatormocambique.site/# como jogar aviator em mocambique

  395. ManuelAnign says:

    https://mexicanpharm24.com/# mexican border pharmacies shipping to usa mexicanpharm.shop

  396. Robertsuh says:

    https://canadianpharmlk.com/# canadianpharmacy com canadianpharm.store

  397. IrwinImari says:

    cost of generic clomid tablets: can i purchase clomid tablets – how to get generic clomid

Leave a Reply