Anomobryum – bjartmosar

Skrifað um April 24, 2017 · in Mosar

Anomobryum julaceum- bjartmosi

Anomobryum julaceum- bjartmosi

Ættkvíslin Anomobryum Schimp. – bjartmosar – telst til Bryaceae Schwägr. (hnokkmosaættar) ásamt kvíslunum Plagiobryum Schimp. (dármosum), Bryum Hedw. (hnokkmosum) og Rhodobryum (Schimp.) Limpr. (hvirfilmosum). Samtals hefur 47 tegundum verið lýst í heiminum og eru 39 vel skilgreindar. Á Norðurlöndum vex aðeins 1 tegund og er hún hér á landi.

Bæði sprotar og gróhirzla líkjast mjög Bryum tegundum. Smávaxnar uppréttar, þráðlaga, lítið greinóttar plöntur. Blöð eru kúpt, frekar snubbótt og ójöðruð. Flestar frumur aflangar og mjóar. Gróhirzla mjög lík og hjá Bryum tegundum en stendur lárétt út frá stilk eða er álút.

Anomobryum julaceum (Schrad. ex G. Gaertn., B. Meyer & Scherb.) Schimp. – bjartmosi
Plöntur vaxa oft stakar eða í gisnum breiðum eða toddum, allt að 4 cm á hæð, glansandi ljós- eða gulgrænar, lítið greinóttar og einkennandi þráðlaga (0,25-5 mm á breidd). Rætlingar grófvörtóttir, gul- til rauðbrúnir. Blöð eru ójöðruð, aðlæg, snubbótt, kúpt og þéttstæð, 0,6-1,2 mm á lengd. Rif greinilegt, nær fram í mitt blað eða 2/3 af blaðlengd, jafnvel næstum fram í blaðenda; á yddum blöðum getur það náð fram í blaðodd og jafnvel fram úr blöðku.

Frumur í framhluta blaðs eru mjóar og sveigðar með þykka veggi. Neðar í blaði eru frumur tigullaga eða ferhyrndar.

Blað. - Teikn. ÁHB.

Í blaðöxlum eru á stundum rauð- eða gulleitir æxliknappar með græn smáblöð, sem stuðla að kynlausri fjölgun. Slíkar plöntur eru oft taldar sérstakt afbrigði, var. concinnatum, sem hefur jafnvel verið talið sérstök tegund.

 

Æxliknappur. - Teikn. ÁHB.

Æxli-knappur. – Teikn. ÁHB.

Plantan er einkynja og gróhirzlur mjög sjaldséðar. Þær standa lárétt út frá 7-10 mm háum stilk, og eru langegglaga. Gró 8-13 µm að þvermáli.

Vex í ýmiss konar raklendi. Er allalgeng, einkum um landið sunnan- og vestanvert.

Líkist um margt Bryum tegundum en blöð eru ekki jöðruð mjóum og löngum frumum. Á Bryum argentum eru blöð ydd og frumur mun breiðari og plantan ekki greinótt. Líkist einnig Plagiobryum zieri (fagurdára), en sú tegund er breiðari og oft hvítleit að ofan og rauðleit að neðan. Blöð á Aongstroemia longipes eru jafnan styttri og taka að mjókka fram í snubbótan blaðenda við miðju, þá eru rætlingar sléttir. Blöð á Myurella julacea eru aðeins um 0,5 mm á lengd.

Ættkvíslarnafnið julaceus er oft haft í mosafræði um sprota, sem eru þéttsettnir blöðum; ‘iulus’ er gríska og merkir ló eða víðikettlingur; viðskeytið ‘-aceus’ (latína), merkir líkur.

 

ÁHB / 24. apríl 2017

Leitarorð:


Leave a Reply