Hrútaberjaklungur – Rubus saxatilis

Skrifað um May 5, 2013 · in Flóra

 

Ég vil fá mér kærustu sem allra allra fyrst / en ekki verður gott að finna hana. / Hún skala hafa kinnar eins og hrútaber á kvist / og hvarmaljósin björt sem demantana. - Svo segir í sænsku kæði, sem Jónas á Hrafnagili þýddi.

Ég vil fá mér kærustu sem allra allra fyrst / en ekki verður gott að finna hana. / Hún skal hafa kinnar eins og hrútaber á kvist / og hvarmaljósin björt sem demantana. – Svo segir í kæði eftir Jónas á Hrafnagili. Ljósm . ÁHB.


Hrútaberjaklungur eða hrútaber
(Rubus saxatilis L.) teljast til ættkvíslarinnar klungur (Rubus).

Ættkvíslin Rubus L. (klungur) er innan rósaættar (Rosaceae L.) og telst jafnan til undirættarinnar Rosoideae ásamt þeim ættkvíslum, sem álitið er, að séu henni skyldastar, eins og rósir (Rosa L.), mjaðjurtir (Filipendula Mill.), murur (Potentilla L.), blóðkollar (Sanguisorba L.), döggblöðkur (Alchemilla L.) og jarðarber (Fragaria L.), svo að nokkrar séu nefndar.
Óvíst er hve margar tegundir heyra til undirættarinnar. Nokkrum tegundum fjölgar með venjulegri kynskiptingu og skiptast þær á fjórar undirættkvíslir:
1. Undirættkvísl (subgenus) Chamaemorus (Hill) Focke: R. chamaemorus;
2. Undirættkvísl (subgenus) Cyclactis (Raf.) Focke: R. arcticus og R. saxatilis;
3. Undirættkvísl (subgenus) Anoplobatus Focke: R. odoratus og R. paviflorus;
4. Undirættkvísl (subgenus) Idaeobatus Focke: R. idaeus, R. phoenicolasius og R. spectabilis.

Auk þessara tegunda er aragrúi svo kallaðra smátegunda, sem enginn veit í raun, hve eru margar. Þeim fjölgar flestum, þó ekki öllum, kynlaust við geldæxlun. Þær tilheyra undirættkvíslinni Rubus. Þessar tegundir skipta fleiri hundruðum. Smátegundunum var oft safnað saman undir nafninu Rubus fruticosus, en nú er farið að aðgreina þær.

 

Klungur-tegundir eru fjölærar jurtir eða runnar, sem vaxa upp af kröftugum jarðstöngli. Flestar tegundir eru með fína eða grófa þyrna. Blóm eru ein- eða tvíkynja, einstök eða í klösum eða sveipleitri skipan, fimm-deild. Krónublöð eru jafnan hvít, sjaldan rósrauð, bikar án utanbikarblaða. Fræflar eru margir. Frævur eru margar og renna þær saman við aldinþroskun. Aldinið er samaldin margra einfræja smá-steinaldina; það lítur út sem ber, þó að það sé það ekki samkvæmt grasafræðilegri skilgreiningu. Aldin eru gul, rauð, svört, brúnrauð eða bládöggvuð; glansa oft. Aldinin eru til ýmissa hluta nytsamleg, en eru ekki ræktuð í stórum stíl.
Nafnið Rubus er komið af latínu, ruber, rauður.

Hér á landi telst aðeins ein tegund innlend, hrútaberjaklungur eða hrútaber, R. saxatilis. Á hinn bóginn eru ræktaðar allnokkrar tegundir aðrar. Sumar þeirra hafa dreift sér og vaxa villtar.

Lykill að tegundum:

1 Jurtir með einæra ofanjarðarstöngla ………………………………………………. 2
1 Runnar með tví- eða fjölæra ofanjarðarstöngla ………………………………… 3

2 Með langar ofanjarðarrenglur; með stutta, mjúka, nállaga þyrna. Blóm lítil, mörg saman á stuttum legg; krónublöð hvít; aldin rautt ………………… hrútaber (R. saxatilis)
2 Engar ofanjarðarrenglur; hárlaus eða mjúkhærð. Blóm stór, einstök eða fá saman á löngum legg; krónublöð rauð; aldin brúnrautt …….. heimsskautaklungur (R. arcticus)

3 Blöð ósammsett. Blóm stór (>3 cm að þvermáli) ………………………………………… 4
3 Blöð samsett, fjöðruð eða fingruð. Blóm lítil (<3 cm að þvermáli) …………………. 5

4 Blöð mjúkhærð beggja megin með 3-5 óreglulega, hvasstennta, þríhyrnda, ydda sepa …… ilmklungur (R. odoratus)
4 Blöð því sem næst hárlaus með 5-7 óreglulega, hvass-tvísag-tennta, þríhyrnda, ydda sepa … mánaklungur (R. parviflorus)

5 Blöð fjaðurskipt á árssprotum, oftast þrí-fingruð á blómleggjum, mjúkhærð á neðra borði; krónublöð hvít ….. ………………………….. hindber (R. idaeus)
5 Öll blöð þrí-fingruð, hárlaus á neðra borði; krónublöð purpurarauð ….. laxaber (R. spectabilis)

 

Hrútaberjaklungur ─ Rubus saxatilis L

Hrútaber blómgast í júlí. Ljósm. ÁHB.

Hrútaber blómgast í júlí. Ljósm. ÁHB.

Upp af jarðstöngli vaxa smáhærðir blómstönglar, sem bera þrí-fingruð blöð; Smáblöðin eru skakk-egglaga, oddbaugótt eða skáferhyrnd, tvítennt með grófar tennur; miðsmáblað oft á löngum stilk. Upp af jarðstöngli vaxa líka jarðrenglur, sem geta orðið um 300 cm á lengd; endi renglunnar skýtur oft rótum og þar vex upp ný planta; blöðin á renglum eru oft rauðleit. Plantan er öll meira eða minna sett fínum, gisstæðum þyrnum.

Blöðin eru tví-sagtennt. Teikn. ÁHB.

Blöðin eru tví-sagtennt. Teikn. ÁHB.

 

Blóm eru á stöngulenda, kringsætin, regluleg, fá saman (3-15) í sveipleitri skipan, leggstutt og lítil (8-10 mm að þvermáli). Bikarblöð eru lensulaga og niðurbeygð um blómgunartímann; krónublöð eru fimm, hvít til gulhvít, lítið eitt lengri (3-5 mm) en bikarblöðin.
Aldinið, hrútaberið, er fagurrautt samaldin nokkurra smástein-aldina; það er safamikið og súrt á bragðið.

Í góðu ári er spretta hrútaberja mikil, ekki sízt á suð-vesturhorni landsins. Ljósm. ÁHB.

Í góðu ári er spretta hrútaberja mikil, ekki sízt á suð-vesturhorni landsins. Ljósm. ÁHB.

Vex í grasbrekkum, innan um lyng og í skógum. Algengt um land allt nema í miðhálendinu. Blómgast í júlí. 10-35 cm á hæð.

Dropar af berjum styrkja bæði maga og hjarta en lækna skyrbjúg. Þeir eru búnir til þannig, að 100 g af steyttum berjum eru sett í tæpan hálfan lítra af sterku brennivíni og geymt á flösku í heitum sandi í þrjú dægur. Hið þunna er síðan síað frá og geymt. Af dropunum skal taka eina matskeið þrisvar á dag.
Auðvelt er að laga hlaup af berjum og saft. Hvort tveggja mjög C-vítamín ríkt.

Mörg nöfn eru til á tegundinni. Frúarberjakrækla er þýðing úr dönsku; renglur bera nokkur nöfn eins og tröllareipi, skollareipi og pétursbelti. Talið er, að lækna megi gikt, ef pétursbelti fengist svo langt, að vefja mætti með því búkinn. Hrútaberjalyng er algengt nafn, þó að plantan sé ekki lyng í venjulegum skilningi. Þá eru veðraber og péturslauf sjaldgæf nöfn. Orðið klungur í hrútaberjaklungur merkir meðal annars þyrnirunni. Orðið kemur einnig fyrir í staðarnafninu Klungurbrekka, bær í Skógarstrandarhreppi, Snæfellsnessýslu, en það er einn af fáum stöðum á landinu, þar sem vex þyrnirós (Rosa pimpinellifolia L.).

Því hefur verið haldið fram, að péturs-nöfn séu kennd til sankti Péturs og séu sennilega tengd lækningamætti. Allt eins er líklegt, að péturs-nöfn séu til komin annaðhvort vegna þess, að plönturnar vaxi í grýttu landi eða eftir steinunum í aldinunum (petra, steinn, klettur) og má benda á, að viðurnafnið saxatilis er komið af orðinu saxum, steinn, klettur.

Nöfn á erlendum málum:
Enska: stone bramble
Danska: Fruebær
Norska: tågebær, teiebær
Sænska: stenbär, jungfrubär, stenhallon, tågbär, glasbär
Finnska: lillukka
Þýzka: Steinbeere
Franska: ronce des rochers

Um eftirtaldar tegundir verður fjallað síðar:

Rubus arcticus L., heimsskautaber
Rubus idaeus L., hindber
Rubus odoratus L., ilmklungur
Rubus parviflorus Nutt., mánaklungur
Rubus spectabilis Pursh, laxaber

 

ÁHB / 5. maí 2013

Leitarorð:


Leave a Reply