Tillaga um að friða mýrar

Skrifað um February 3, 2015 · in Almennt

Snemma í september 1969 þurfti eg að sníkja mér far frá Hreðavatni norður í Víðidal. Fór eg snemma morguns út á þjóðveg og eftir nokkra stund stansaði Rússajeppi hvar í framsæti sátu tveir myndardrengir, sem eg kannaðist strax við. Þetta voru Pétur Kjartansson, síðar lögfræðingur, og Skarphéðinn Þórisson, síðar ríkislögmaður. Þeir höfðu verið einu eða tveimur árum á eftir mér í menntaskóla.

Þeir buðu mér sæti aftur í, ef eg gæti vakið mann, sem svaf þar í sæti endilangur. Eg ýtti duglega við honum og þá reis þar upp Haraldur Blöndal, sem eg hafði lítillega kynnzt nokkru áður. Þessir þrír voru á leið norður á Blönduós til þess að sitja þar þing Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Hófust nú fjörlegar umræður um ýmis málefni og var Haraldur hinn mesti fjörkálfur alla leiðina. Svo kom, að hann spurði mig, hvað væri mikilvægast að gera á sviði grasafræði. Hann væri tilbúinn til þess að bera það fram á væntanlegu þingi. Sagði eg þeim þá frá því, að eg hafði þá um vorið verið á tveimur ráðstefnum í Svíþjóð, þar sem rætt var um nauðsyn þess að friða mýrlendi. Sett hafði verið á stofn hópverk í rannsóknum á friðun votlendis, sem fékk nafnið »Projekt Telma« annars staðar á Norðurlöndum. Man eg, að þeir hlógu dátt að þessum áformum frænda okkar að friða mýrar, en Haraldur sagðist þá ætla að flytja tillögu um þetta á þinginu, að friða íslenzkar mýrar.

Þegar komið var norður í Víðidal, kvaddi eg þá félaga, sem héldu för sinni áfram. Svo var það ári síðar, að eg mætti Pétri á förnum vegi. – „Haraldur fór þrisvar í pontu á þinginu til að flytja tillögu um að nauðsynlegt væri að friða mýrar á Íslandi, en fundarstjóri tók alltaf af honum orðið og skipaði honum að setjast,“ sagði Pétur við mig.

Eftir á að hyggja hef eg oft hugleitt, hvað sjálfstæðismenn eru alltaf seinheppnir og hlýða ekki kalli tímans. (Gaman væri að vita, hvort þetta er ekki skráð í fundagerðarbók.)

ÁHB / 3. febrúar 2015

Leitarorð:


Leave a Reply