Sláttuvísur – kveðnar vor og sumar 1939

Skrifað um October 5, 2013 · in Almennt

Inngangur

Mig minnir, það hafi verið vorið 1978, sem eg var aðstoðarmaður Egils Jónassonar Stardals við grenjavinnslu í Kjalarneshreppi. Á löngum vornóttum var um ýmislegt rætt á meðan beðið var eftir, að dýrin skiluðu sér heim í grenið. Meðal annars rifjuðum við upp svo nefndar Sláttuvísur, sem eg kunni aðeins hrafl í. Þá kom í ljós, að Egill kunni þær allar og sögurnar á bak við hverja vísu. Eg sagði við Egil, að þetta þyrfti eg að fá skrifað. „Ef þú .getur ekki lært þær, hefur þú ekkert með þær að. gera,“ svaraði Egill eins og hans var von og vísa.
Leið svo langur tími, en um haust árið 2000 bárust þessar vísur aftur í tal. Þá sagði eg við Egil, að nú ætlaði eg að skrifa þetta upp eftir honum. Þá þótti honum það afbragðsráð, því að hann nennti ekki að slá þetta inn sjálfur á veikburða tölvu sína. Sátum við síðan saman nokkur kvöld og færðum þetta í letur.
Egill hafði í huga að fá vísurnar birtar einhvers staðar en af því varð aldrei. Nú tek eg mér það bessaleyfi að birta þær hér.

Ágúst H. Bjarnason

Sláttuvísur – Egill Jónasson Stardal tók saman

Flestir, sem muna vorið og sumarið, telja að það hafi, a.m.k. sunnanlands, verið hið hlýjasta og veðursælasta á 20. öldinni. Einn þáttur hins milda vors var með þeim hætti, að Ólafi Bjarnasyni bónda í Brautarholti og hreppstjóra í hreppi þeim, sem þá hét ennþá Kjalarneshreppur (en er nú hluti af Reykjavík eftir að þessi hreppur varð í „heildsölu“ sveitarlimur á framfærslu Reykjavíkurborgar eftir margra ára óstjórn eins og það var þá kallað á bæinn”), varð gengið í maílok út á tún sitt og fann þar snemmsprottinn blett, sem hann ákvað að slá. Hann gerði sér næsta dag ferð til Reykjavíkur og upp á ritstjórn Mbl. og inntur frétta, gat hann sagt, að slík væri árgæskan, að nú væri sláttur hafinn í Brautarholti, mánuði fyrr en vant var og á undan öllum bújörðum landsins. Þetta þóttu hin mestu tíðindi.

Þessa dagana var hreppsnefndarfundur í Mosfellssveit og ræddu menn eðlilega um hið snemmsprottna tún Brautarholtsbóndans og Morgunblaðsfréttina. Nágrannakrytur og smá illkvitni eru sjaldan langt undan í íslenskum sveitum og töldu menn, að Ólafur hefði ekki dregið úr hömlu að státa af sprettu Brautarholtstúns. Það var líka á orði, að Ólafur væri eins og nafni hans, Ólafur pái forðum, virðingargjarn og héldi sér fram til metorða meðal bænda þar um sveit. Varð þetta meðal annars til þess, að vinur hans og sveitungi, Kolbeinn skáld í Kollafirði, samdi í hálfkæringi dulbúna skopsögu um Loft á Vindheimum, hreppstjóra, sem vildi láta kjósa sig í allar virðingarstöður, sem hreppsbúar kusu menn til (þó ekki til hundahreinsunarmanns).

Bjarni Ásgeirsson, bóndi og alþingismaður á Syðri-Reykjum í Mosfellssveit, var í hreppsnefnd sveitarinnar og lét þar oft fjúka í kviðlingum enda hagorður með ágætum. Á fundinum kvað hann þessa vísu:

 

Brautarholtstúnið grænkar og grær,
grösin þar falla á svig.
Ólafur slær og Ólafur slær
Ólafur slær um sig.

 

Þessi góðláta skopvísa flaug auðvitað á vængjum vindanna um allt hérað og hentu menn gaman að, ekki síst fyrir það, að í snoturleik sínum fólst í henni broddur. Heimskreppunni, sem hafði vegna verðfalls landbúnaðarafurða leikið íslenska bændur grátt, var enn ekki lokið. Til þess að koma bændum til bjargar hafði landsstjórn Framsóknar og Krata komið á fót svokölluðum Kreppulánasjóði til styrktar bágstöddum bændum. Það lá einhvern veginn í loftinu, að ekki myndi verða hart gengið að þeim bændum, er þar skulduðu, enda varð sú raunin, að lánin voru að mestu afskrifuð. Bændur voru misdjarfir að slá lán og margir hinna gætnari forðuðust að mestu þessar lántökur en gátu ef til vill nagað sig í handarbökin, er þeir sáu hve vel hinir skuldsettu sluppu. Gáfu þeir hinum djarftækari lántakendum nafnið kreppukóngar eða verri ónefni, enda enn sá mórall meðal Íslendinga, að það væri ekki meðalskömm að greiða ekki skuldir sínar, og gjaldþrot var smánarblettur, sem loddi við menn ævilangt, enda höfðu lengi verið í gildi lög, sem sviptu menn mannréttindum, ef þeir þurftu að þiggja af sveit.

Í ljósi þessara kreppumála þarf að skoða sumar af þessum sláttuvísum vilji menn nema tón þeirra rétt. Ólafur hafði verið fengsæll á kreppulán en á þeim vettvangi bjó bóndinn á Syðri-Reykjum kannski í glerhúsi sjálfur og lá vel við höggi. En Ólafi var ekki slyngt um ljóðagerð og gat lítt af sér borið spjótalögin á þeim vettvangi. Kjalarneshreppur gat samt í þann tíð státað af hagorðum mönnum sem komu til liðveislu hjálparvana hreppstjóra sínum, hentu spjót fimlega á lofti og sendu aftur til árásarmannanna. Kolbeinn Högnason, skáld í Kollafirði, neytti nú íþróttar sinnar til liðs sveitunga sínum og kvað:

Ólafi má það ekki lá,
aðra eg sá og þekki.
Þeir eru’ að slá og þeir eru’ að slá,
þótt þeir slái ekki.

Þessu næst flaug um sveitina biturt skeyti norður yfir Leirvogsá. Kunnugir vissu að Magnús Sveinsson, bóndi í Leirvogstungu, var ljóðaunnandi, hagmæltur vel og gat verið níðskár. Hann hvorki játaði né þrætti fyrir faðerni þessa króga, sem honum var kenndur, og kunnugir þóttust þekkja svipmótið:

Ólafi háir hefðarþrá
sem hann í bláinn setur.
Litlu stráin leggst því á
svo lýðurinn sjá’ ann betur.

Hjálmar Þorsteinsson, bóndi og skáld á Hofi á Kjalarnesi, virðist hafa lítt efast um höfundinn og sendi því Magnúsi þessa kveðju guðs og sína:

Allvel beit og Ólafsreit
yfir leit eg sleginn.
Málinu sleit sem margur veit
er Magnús skeit í teiginn.

Hvort eftirfarandi hnúta, sem var launsend, er svar frá Magnúsi, er nú ekki vitað. En vitað var, að Hjálmar var ölkær.

Býr við kvígur bóndi snar,
býr og lýgur hér og þar.
Flösku sýgur sífellt stút
sínu mígur kaupi út.

Kolbeinn í Kollafirði var vart einhamur í þessari orrahríð en vó til beggja handa til varnar Ólafi sveitunga sínum:

Fleirum háir hefðarþrá,
heimska’ í bláinn rekur þá.
Þeir eru smáir, það má sjá,
þótt þeir slái lengri strá.

Nú kom nafnlaust skeyti sem sumir töldu, að Lárus Halldórsson, skólastjóri á Brúarlandi, hefði sent. Síðar voru raktar líkur til þess að Jósep Húnfjörð hefði þetta kveðið:

Þegar örbirgð hæla hjó
að hækka þurfti gengið,
kænn til ráða Kolbeinn sló
kreppulánaengið.

En Kolbeinn lét hvorki ímyndaðan né raunverulegan andstæðing eiga hjá sér og sendi nú Lárusi, sem allir vissu að var yst til vinstri í stjórnmálum, þetta svar:

Ill var raun að engi því,
annan kaustu veginn.
Rauðsmáranum öslar í
allan Héðinsteiginn.

Hér er sveigt að því, að Lárus mun hafa tekið eindregna afstöðu með róttækum sósíalistum og Héðni Valdimarssyni, sem stofnuðu Sameingarflokk alþýðu og klufu Alþýðuflokkinn 1938. En hér galt saklaus fyrir sekan. Lárus hafði engan þátt tekið í þessum sláttuvísnalaunvígum og lýsti sakleysi sínu á snjallan hátt:

Verður þrátt í vísnarann
vandhitt áttarslóðin.
Engan þátt eg óf né spann
inn í sláttarljóðin.

Síðar var reyndar álitið að vísa sú, sem Lárusi var eignuð væri eftir mann, sem nýlega hafði gengið í fjórða sinn í hjónaband og honum sendi Kolbeinn þessa kveðju:

Borið var að berserkinn
brysti karlmennskuna,
er fór hann að slá í fyrsta sinn
fjórðu dagsláttuna.

Og enn kvað Kolbeinn, er blöð birtu yfirlýsingu frá tveimur nafnkenndum mönnum, að þeir hefðu ekki kveðið neitt af þessum vísum:

Vart hefur slegið vel það lið,
vont mun heyið reynast,
er kemur sér ei að kannast við
krabbaðan teiginn seinast.

Nú flaug sú saga víða, að Kolbeinn væri í raun höfundur allra þessara vísna nema þeirrar fyrstu sem Bjarni hafði kveðið í áheyrn hreppsnefndar Mosfellssveitar. Af tilefni þessa þvættings, að Kolbeinn hefði verið að kveðast á við sjálfan sig, orti hann:

Stóð eg sláttaryrkju í,
ei varð mikil raunin.
Enda líka eftir því
urðu sláttulaunin.

Enn flaug fast skot yfir Leirvogsá og veit enginn hvaðan kom:

Af Ólafs gróðri öfund heit
óx um kaldan vetur.
Bjarni meig en Magnús skeit,
svo mætti spretta betur.

Eftirfarandi hnúta gæti verið svar en um hana gildir einnig að enginn veit, hver kastaði:

Illan fnyk af Ólafs drit
ofan leggur veginn.
Kreppulána- keytu’ og skít
karlinn bar á teiginn.

Þegar leið á sumarið góða höfðu blöð landsins fengið veður af þessum kveðskap og birtu sumar af vísunum, sem urðu strax landskunnar og tilefni þeirra ekki síður. Blönduðu þá hagyrðingar víða að sér í leikinn. Sigurður Baldursson orti þessar vísur og komst þá í höggorustu við Kolbein:

Þrátt í flýti þurfti’ að slá
þykir ýtum skrýtið.
Ólafur hlýtur aumleg strá,
Ólafur nýtir lítið.

Krónu- gáir kompás á.
Kolbein má því virða.
Karlinn sá í kreppulág
kann að slá og hirða.

Krytinn há um kreppustrá
og kveðast á við grannann.
Þeir eru að slá og þeir eru að slá
Þeir eru að slá hver annan.

Kolbeinn var sem fyrr eigi svara seinn:

Sumir dengja launaljá,
landsjóðsengi’ í múga slá.
Kreppa engin þjáir þá.
Þar er lengi hægt að slá.

Aftur fékk Kolbeinn sendingu frá Sigurði:

Varla þarf að vænta góðs
til viðreisnar hjá slíkum,
þessum krummum kreppusjóðs
sem kroppa’ augu’ úr sínum líkum.

Og ekki stóð á svari Kolbeins:

Fór á gægjum móts við menn,
murkaði hræin sveinninn dýri.
Honum nægir ekki enn
einkaslægja’ í Landsjóðsmýri.

 

Sumir hafa fyrir satt að sr. Sveinn Víkingur hafi slegið botninn í sláttuvísnasyrpuna með þessum vísum:

Ólafur rær og Ólafur hlær,
Ólafur værðar nýtur.
En Kolbeinn slær, já Kolbeinn slær,
Kolbeinn slær og bítur.

Þótt veröld hendist endum á
og öllum lendi saman.
Við skulum slá, við skulum slá,
við skulum slá á gaman.

 

Sennilega hefur Ólaf bónda í Brautarholti lítt rennt grun í, þegar hann gerði ferð sína til Reykjavíkur maímorgun einn 1939 til þess að segja frá sláttubyrjun á búi sínu, að hann væri með því að öðlast einhvers konar sess í ljóðmenntasögu Íslands. Líklegt er að honum hafi þótt nóg um, þá er hagmæltir menn hentu honum á milli sín í landsfleygum kviðlingum, sumum ekki alveg meinlausum og hann sjálfur ófær að bera hönd fyrir höfuð sér. Það sögðu bændur síðar á Kjalarnesi, að eftir þetta hefði hann gætt þess vel að hefja aldrei slátt á undan nágrönnum sínum. Var hann þó ætíð góður bóndi og fylginn sér við heyskap.

Miklu veldur sá, sem upphafinu veldur, og víst mátti hinn skemmtilegi hagyrðingur, Bjarni Ásgeirsson alþingismaður, vera þakklátur fyrir að lifa á 20. öldinni en ekki á þeim tíma, þegar vígsök var að kveða flím um menn; jafnvel sök og útlegð lá við að yrkja hálfa manvísu til konu.

Líklegt má telja að hefði þessi kveðskapur, sem hér er lýst, komið upp á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, myndu vopn og vígaferli hafa bundið enda á ljóðagerð sem þessa.

Nú munu allir, sem hér áttu hlut að máli, gengnir til feðra sinna, en líklegt er að ljóðasmámunir þessir, sem þeir hentu á milli sín í græskulítilli gamansemi, hlýsumarið 1939, eigi enn all langa stund eftir að eiga lautarskjól í túniBraga.

 

Að haustnóttum 2000.

 

Ágúst H. Bjarnason skrifaði upp eftir Agli Jónassyni Stardal

 

Leitarorð:


Leave a Reply