Skollafingur – Huperzia selago

Skrifað um June 6, 2013 · in Flóra · 16 Comments

SkollafingurHuperzia Bernh.

Ættkvíslin er nefnd eftir þýskum eðlis- og garðyrkjufræðingi, Johann Peter Huperz (1771-1816). Til ættkvíslar þessarar teljast um 400 tegundir (1-3 hér). Á stundum er henni skipt á tvær kvíslir, Huperzia í þröngri merkingu með um 10-15 tegundir í tempraða beltinu og á heimsskautasvæðinu og síðan allar hinar Phlegmariurus, sem vaxa einkum í hitabeltinu og hinu heittempraða; margar þeirra eru ásætur. Sumir grasafræðingar telja Huperzia til sérstakrar ættar, skollafingursættar (Huperziaceae).

SkollafingurHuperzia selago (L.) Bernh. ex Schrank & Mart.

Stöngull uppréttur eða uppsveigður, oft greinóttur. Fjölær, sígræn þófaplanta. Blöð í óreglulegum röðum á stöngli, lensulaga, stilklaus, 5-8 mm á lengd, heilrend, dökkgræn, oft gulleit. Gróbæru blöðin dreifð um stöngul, einkum ofantil, skera sig ekki úr. Gróhirslur í blaðöxlum, nýrlaga. Á víð og dreif á stöngli myndast oft æxliknappar, gerðir úr 6 litlum blöðum. Þeir stuðla að kynlausri dreifingu plöntunnar.

Flestir skipta tegundinni í tvær undirtegundir samkvæmt eftirfarandi greiningarlykli, en skil á milli þeirra eru þó óviss:

1. Stönglar um 15 mm á breidd. Blöð útstæð. Oft án æxliknappa eða þeir eru í einum kransi efst á plöntunni ………………………………………………………………….…………………….. ssp. selago
1. Stönglar um 5 mm á breidd. Blöð aðlæg. Oftast með æxliknappa í einum eða fleiri krönsum …………….… ssp. arctica

Undirtegundin ssp. arctica (Grossh. ex Tolm. ) Á. Löve et D. Löve er mun algengari en ssp.selago. Á stundum er ssp. arctica skipt í tvær sjálfstæðar tegundir samkvæmt eftirfarandi greiningarlykli:

1. Neðri blöð útstæð, efri blöð aðlæg. Efri blöð mjó-þríhyrnd. Yfirleitt má finna nokkrar gróhirzlur… paufafingur (H. appressa).
1. Öll blöð aðlæg, efri blöð egglaga. Oftast aðeins með æxliknappa, en gróhirzlur eru fáséðar …………… skufsafingur (H. arctica).

PaufafingurHuperzia appressa (Bach. Pyl. ex Desv.) Á. & D. Löve Greinar standa ekki þétt saman, grannar; engin skil á milli árssprota. Efstu blöð aðlæg, hin neðri útstæð, þykk, jafnan gulgræn. Yfirleitt með gróhirzlur. Nær alltaf með einn krans af æxliknöppum á yngsta árssprota og einn eða fleiri á eldri sprotum.

SkufsafingurHuperzia arctica (Grossh. ex Tolm.) Sipliv. Þéttar greinar; engin skil á milli árssprota. Öll blöð aðlæg, stutt, þykk, gul- eða brúngræn. Ætíð með æxliknappa, gróhirzlur fáséðar.

5-15 cm á hæð. Vex í gjótum, urðum og klettaskorum. Algengur um land allt nema í Mh.

Eldri nöfn á skollafingri eru vargslappi, tröllafótur, hrossajafni og villiviðargras. Nöfnin paufafingur og skufsafingur eru nýnefni. – Annars staðar á Norðurlöndum var sterkt seyði af plöntunni notað til þess að eyða lúsum, valda fósturláti, örva hægðir og drepa innyflaorma.

Enska: Fir (Northern, Mountain) Clubmoss
Danska: Otteradet Ulvefod
Sænska: Lopplummer
Norska: Lusegras Finnska: Ketunlieko
Þýzka: Tannen-Bärlapp
Franska: Lycopode Sélagine, Huperzie sélagine


16 Responses to “Skollafingur – Huperzia selago”

Leave a Reply