Skáld lifir í verkum sínum – Söfnun lokið

Skrifað um April 28, 2021 · in Almennt

Svo einkennilegt sem það er, týndist gröf Páls Ólafssonar, skálds (1827-1905), skömmu eftir, að kona hans, Ragnhildur Björnsdóttir (1843-1918), var lögð þar til hinztu hvílu fimmtán árum eftir dauða Páls. Svo er fyrir að þakka, að alla tíð hefur verið vitað, að Páll var lagður í mold í kassalaga kistu, því að hann vildi hvíla í fósturlegu.

Á því svæði í Hólavallakirkjugarði, sem grafir voru teknar á árunum 1903 til 1908, eru allnokkur ómerkt leiði. Síðastliðið sumar var rennt yfir nokkur þeirra með jarðsjá. Þá kom í ljós að á einum stað var kassalaga kista og önnur ofan á, örlítið til hliðar. Engar sögur fara af því, að aðrir en Páll hafi verið grafnir í slíkum kistum, og þá er þetta sá staður í garðinum, sem líklegastur þótti. Það er því óyggjandi talið, að á þessum stað hvíli þau hjón, Páll Ólafsson og Ragnhildur Björnsdóttir.

Nú hefur verið reistur þar bautasteinn um hjónin og verður hann formlega afhjúpaður með stuttri athöfn, þegar leyft verður að koma saman. Til þessa hefur steinninn verið kostaður af skyldmennum Páls og nokkrum velunnurum skáldsins. Nú er takmarkinu náð með myndarlegu framlagi manns, sem lét sér ekki muna um að leggja inn 15 þúsund, sem á vantaði.

Páll Ólafsson á enn marga aðdáendur og eg þykist þess fullviss, að fjölmargt fólk sé fúst til þess að leggja sitt af mörkum, minnugt þess, að margt smátt gerir eitt stórt. Söfnunin fór fram á reikningi mínum í Sparisjóði Suður-Þingeyinga á Húsavík.