Flora Nordica vol. 1. – Flóra í nýju ljósi

Skrifað um July 18, 2012 · in Almennt · 1 Comment

BÆKUR – Náttúrufræðirit
Flora Nordica vol. 1.
Ritstj. Bengt Jonsell. 344 bls.
Útgef. er Bergius stofnunin og Konunglega sænska vísindaakademían. – Ritdómur, Morgunblaðið 6. sept. 2000:26.

ALDAMÓTAÁRIÐ 1901 kom Flóra Íslands eftir Stefán Stefánsson grasafræðing og skólameistara út fyrsta sinni. Þar eru nákvæmar lýsingar á öllum háplöntum – fræplöntum og byrkningum – sem víst þótti, að yxu hér á landi á þeim tíma. Einnig er sagt frá útbreiðslu, vaxtarstöðum og blómgunartíma auk ýmiss annars fróðleiks um tegundirnar. Til þess að semja slíkt rit þurfti Stefán að ferðast víða og safna plöntum en ekki síður að smíða fræðiorðakerfi til þess að koma fróðleiknum til skila, og það gerði hann af eindæma snilld, svo að bókin er og verður um ókomin ár undirstöðurit í grasafræði. Flóra Íslands naut strax mikilla vinsælda, og urðu margir leikmenn býsna slyngir í tegundagreiningu háplantna og lögðu drjúgan skerf að þekkingu á flóru landsins. Því miður voru fáar aðgengilegar bækur til um aðra hópa plantna (sveppi, þörunga, fléttur og mosa), svo að þeir urðu út undan. Víða erlendis standa áhugafélög um greiningu og söfnun plantna á gömlum merg og fjöldi manna sinnir þessu í tómstundum. Þetta er ekki síðra tómstundagaman en frímerkjasöfnun, steinasöfnun og önnur frístundaiðja.

Flóra Stefáns kom út í þremur útgáfum, síðast 1948; einnig hafa komið út fáeinar flórur aðrar, meðal annars eftir Áskel Löve og J. Gröntved, auk ritverkins Flora Europaea. Vart er þó hægt að halda öðru fram en að ríkt hafi doði yfir háplöntuathugunum hér á landi síðustu áratugi og fáir lagt þeim lið. Að vísu hafa litmyndaflórur með einföldum lyklum
verið gefnar út, sem eru góðar handa þeim, sem eru að stíga sín fyrstu skref, en fyrr en seinna er nauðsynlegt að eiga vandaða vísindaflóru, sem er reist á nákvæmum athugunum.

Nú hafa þau ánægjulegu tíðindi gerzt, að hafin er útgáfa á nýrri vísindaflóru á Norðurlöndum að frumkvæði Svía. Það er reyndar ekki í fyrsta sinni, því að 1953 hóf gagnmerkur, sænskur grasafræðingur, Nils Hylander, að rita flóru Norðurlanda, sem honum entist ekki aldur til að ljúka við. Hér er í vændum gríðarmikið og gagnmerkt verk, sem beðið verður með óþreyju, en það er skrifað á ensku. Fyrsta bindi af um átta kom út í vor, og lofar upphafið mjög góðu. Ritið er nær einvörðungu kostað af ofan nefndum útgefendum og er undir ritstjórn Bengts Jonsells, sænsks grasafræðings, sem hefur stundað athuganir á flóru Norðurlanda frá því snemma á sjöunda áratugnum. Eyþór Einarsson sat í ritnefnd að hálfu Íslands, en hann var grasafræðingur á Náttúrufræðistofnun Íslands. Í fyrsta bindi bókar er fjallað um byrkninga, berfrævinga og fjórtán ættir tvíkímblaða blómplantna eða samtals um 309 tegundir. Af allmörgum tegundum er getið undirtegunda, afbrigða og kynblendinga, svo að heildarfjöldi flokkunareininga er rúmlega 600. Úr þessum hópi eru um 50 íslenzkar tegundir, en við bætast slæðingar og ræktunarplöntur og eru íslenzk nöfn tilgreind. Bókinni er skipt eftir ættum innan hverrar fylkingar plönturíkis og síðan eru greiningalyklar til ættkvísla, tegunda og jafnvel undirtegunda, eftir því sem þörf gerist. Nákvæmar lýsingar fylgja hverri tegund, sagt er frá útbreiðslu, breytileika, búsvæði, kynblöndun við aðrar tegundir, undirtegundum og afbrigðum ásamt ýmsu öðru, sem varðar hverja flokkunareiningu. Í bókinni eru líka góðar pennateikningar af mikilsverðum einkennum tegunda eftir 14 listamenn, auk útbreiðslukorta.

Greiningalyklar og lýsingar á tegundum er hvort tveggja einkar skilmerkilegt og mjög vandað til verksins. Að baki umfjöllun um hverja
ættkvísl liggja athuganir, mismiklar að vísu, og ekki allar jafn rækilegar. Sem dæmi má nefna, að lítið hefur tekizt að ráða fram úr því, hvernig flokka skal birki hér á landi. Enn er því þeirri spurningu ósvarað, hvort kirtilbirki vaxi hérlendis.

Allmargar breytingar hafa verið gerðar á flokkun frá því, sem verið hefur viðtekin venja hin síðari ár og taka nokkrar þeirra til íslenzkra plantna. Fyrst er að geta þess, að skollagras (Cystopteris dickieana) er ekki talin sjálfstæð tegund lengur, en það var klofið frá tófugrasi, og snoðfætla (Woodsia glabella) er sögð hafa verið rangt greind, svo að hún fellur burt. Þá þykir ef til vill mörgum það tíðindum sæta, að grávíðir telst ekki lengur vaxa á Íslandi. Ástæðan er sú, að nú er talið, að hann hafi áður verið ranglega greindur, fyrst til Salix glauca en síðar til S. callicarpaea, en þetta sé í raun S. arctica, þó að nokkuð skorti á, að það sé ótvírætt. Samhliða þessari nýbreytni var valið nafnið fjallavíðir, einkar lítlfjörlegt nafn og vart á bætandi, því að rúmlega 20 háplöntur bera þegar forliðinn fjall(a)- og álíka margir mosar. Sýnist þessi nafnbreyting með öllu óþörf. Eins og áður sagði er mörgum tegundum skipt í tvær eða fleiri undirtegundir. Í sumum tilvikum er verið að kljúfa gamalgróna tegund en í öðrum er verið að sameina tvær eða fleiri tegundir. Dæmi um hið síðar
nefnda er hundasúra (Rumex acetosella), en henni er skipt í fjórar undirtegundir og vaxa þrjár hérlendis. Einni þeirra lýsti Áskell Löve sem sérstakri tegund 1941 og nefndi hana smásúru. Í þessari nýju flóru er nafninu haldið á undirtegundinni (ssp. tenuifolius) og er það afar óheppilegt. Því miður eru fleiri dæmi um, að undirtegundir hafi fengið sérstök íslenzk heiti. Sú hætta vofir þá yfir, að gamalt nafn, sem er aðeins bundið við vissan landshluta, sé valið á undirtegund, sem vex á allt öðrum stað á landinu. Þannig er algenga nafnið blóðarfi tengt einni undirtegund (ssp. neglectum), sem hefur fundizt aðeins á einum stað hérlendis, en aðaltegundin er kölluð hlaðarfi (Polygonum aviculare ssp. boreale).

Það kann að vera álitamál, hvaða tegundir skuli taka upp í bók sem þessa, en meginreglan ætti annaðhvort að vera sú að geta um íslenzk nöfn allra norrænna tegunda, óháð því hvort þær vaxa hér eða ekki, eða geta um stöðu tegundar hérlendis, sé íslenzkt nafn gefið upp. En ekki virðist vera fullt samræmi í því, hvaða tegundir eru nefndar íslenzkum nöfnum og hverjar ekki. Að sjálfsögðu eru allar villiplöntur nafngreindar, flestir slæðingar og sumar yrkitegundir. Undir tegundinni Rumex stenophyllus er þess þó hvorki getið, að hún hefur verið nefnd akurnjóli né hún hafi vaxið á Akureyri 1961, þó að til sé heimild þar um (Ingólfur Davíðsson 1967); ekki er heldur minnzt á, að borgarnjóli (R. obtusifolius) hafi bæði fundizt í Reykjavík og á Patreksfirði samkvæmt sömu heimild. Þá er Alnus glutinosa nefndur rauðölur, en ekkert er sagt um, hvort hann sé ræktaður hér eins og tekið er þó fram um gráöl. Einnig er grænölur til á stöku stað hér, meira að segja sjálfsáinn, en aðeins er greint frá því, að hann hafi fundizt á milli jarðlaga á Svínafelli. Upplýsingar um innflutta barrviði eru af mjög skornum skammti, og fleiri tegundir eru ræktaðar en sagt er frá í bókinni, meðal annars af víðiættkvísl. Þannig er hvorki getið um alaskavíði né brekkuvíði, en gerð er grein fyrir þingvíði, þó að nafnið sé hvergi að finna í efnisyfirliti.

Yfirleitt er gerð dágóð grein fyrir útbreiðslu og kjörlendi tegunda. Kort af Íslandi er þó mjög lítið og útbreiðsla táknuð mest með sex punktum. Verður slíkt að teljast ófullnægjandi og getur í sumum tilvikum gefið alranga mynd. Lýsing á kjörlendi tekur að sjálfsögðu til allra landa og kann því oft og tíðum að vera æði misvísandi hvað Ísland varðar.

Nú er það svo, að það er í sjálfu sér hvorki list né vísindi að greina plöntur – sveppi, fléttur, þörunga, mosa og háplöntur – til tegunda og þaðan af síður nokkur galdur. Á hinn bóginn getur tegundagreining og þekking á skyldleika tegunda verið lykill að ótal ráðgátum, sem er betra að vita um en ekki, bæði frá fræðilegum og hagnýtum sjónarhóli. Staðgóð þekking á flóru lands er frumatriði hverrar menningarþjóðar, svo að vitað sé um þá auðlind, sem fólgin er í gróðrinum. Útgáfa þessarar bókar að forgöngu Svía er því tímamótaverk fyrir okkur Íslendinga. Hins vegar er það íhugunarefni, að nýtt undirstöðurit um flóru landsins skuli nú vera gefið út af annarri þjóð og á enskri tungu. Kann því svo að fara, að framvegis látum við okkur aðeins nægja að gefa út litmyndaflórur með úrvali af helztu tegundum en sleppum því að eiga sjálft grundvallarritið á eigin tungu. Þannig verður það kannski ekki aðeins í grasafræði heldur í ýmsum öðrum greinum, eins og fuglafræði og fiskifræði, ef við höldum ekki vöku okkar. Bók sem þessi á skilyrðislaust að vera til á íslenzku, ef ekki frumsamin, þá þýdd, með ítarlegum útbreiðslukortum, og er það verðugt verkefni að hrinda því í framkvæmd á aldamótaárinu 2001, þegar 100 ár verða liðin frá því, að Flóra Íslands kom út.

Leitarorð:

One Response to “Flora Nordica vol. 1. – Flóra í nýju ljósi”
  1. takipçi yagiyooooooooooooooooooo ?? 3100 tane geldi

Leave a Reply