Flóruveggmynd Hins íslenska náttúrufræðifélags

Skrifað um February 8, 2013 · in Almennt · 3 Comments

Uppkast, "skissa", sem Eggert Pétursson gerði að veggmyndinni. Ljósm. ÁHB

Uppkast, "skissa", sem Eggert Pétursson gerði að veggmyndinni. Ljósm. ÁHB

Stuttu eftir, að höfundur þessa pistils tók við formennsku í stjórn Hins íslenzka náttúrufræðifélags 1984, kom upp sú hugmynd að gefa út veggspjald með helztu íslenzku plöntutegundum. Einn stjórnarmanna, Axel Kaaber, átti slíkt spjald frá Bretlandi og leizt flestum vel á hugmyndina. Mér sem formanni var falið að ræða við Eggert Pétursson, myndlistarmann, en hann hafði þá getið sér einkar gott orð sem listamaður með myndum í Íslenska flóru með litmyndum (1983).

Fljótlega tókust samningar við Eggert og rætt var við forráðamenn Prentsmiðjunnar Odda um útgáfu. Í ljós kom, að hér var um verulega útdráttarsamt verk að ræða og töldu margir í stjórn ógerlegt að ráðast í verkið. Eg fékk þó leyfi stjórnar til þess að reyna að fá samstarfsaðila um útgáfuna og tók þegar að leita hófanna. Það sýndi sig fljótlega, að fáir skildu tilgang með slíkri mynd og sýndu lítinn áhuga. Eggert var þá fenginn til þess að gera skissu að væntanlegu flóruspjaldi og með hana í höndunum fór eg vítt og breitt og kynnti hugmyndina fyrir forráðamönnum ýmissa stofnana og fyrirtækja.

Af þeim, sem rætt var við, má nefna Náttúrufræðistofnun Íslands, Búnaðarbanka Íslands, menntamálaráðuneyti, Flugleiðir, nokkrar ferðaskrifstofur svo og nokkur stórfyrirtæki í bænum. Skemmst er frá því að segja, að enginn tók vel í þessa hugdettu og sýndist málið vera að renna út í sandinn. Góður maður benti mér þá á að fara til fundar við Birgi Þorgilsson (1927-2011) hjá Ferðamálaráði. Sannast sagna var Birgir hinn eini, sem sýndi strax áhuga, og hann var ekki lengi að taka ákvörðun um að ganga til liðs við Hið íslenzka náttúrufræðifélag um útgáfuna. Gert var munnlegt samkomulag um ákveðna greiðslu fyrir tiltekinn eintakafjölda og stóð allt sem stafur á bók. Hreinskiptari mann en Birgi er vart hægt að hugsa sér og átti félagið honum mikla skuld að gjalda.

Loks gat Eggert hafizt handa við að mála myndina Flóra Íslands, en áður hafði verið hugað að því, hvaða plöntur yrðu á henni og hvernig þær myndu raðast niður. Ákveðið var að skipa tegundum í fjóra hópa: Holt og mela með 14 tegundir, móa og graslendi með 27 tegundir, votlendi með 9 tegundir og blómlendi með 12 tegundir eða samtals 63 tegundir.

Eggert málaði myndina með gvasslitum á stóran pappír, sem var límdur á enn stærri spónaplötu. Hann bleytti pappírinn áður og límdi hann með vatnslímbandi á spónaplötuna, svo að hann krumpaðist ekki þegar hann færi að mála. Það tók Eggert eina þrjá mánuði að mála myndina og kom eg nokkrum sinnum í heimsókn til hans og fylgdist með framvindu vinnunnar.

Þegar verkinu var lokið og komið að því að fara með myndina í prentsmiðju, hringdi Eggert áhyggjufullur og bað mig um að koma sér til hjálpar. Nú hafði strekkzt verulega á pappírnum, þar sem hann var kyrfilega límdur á plötuna, sem var of þunn og bognaði því

Hér má sjá, hvar myndin rifnaði. Ljósm. ÁHB.

Hér má sjá, hvar myndin rifnaði. Ljósm. ÁHB.

við strekkinguna. Vandinn, sem við blasti, var að losa myndina smám saman, svo að hún hrykki ekki sundur. Eggert var logandi hræddur um, að hún myndi ef til vill rifna þvert yfir. Við skárum á límborðann rólega, fyrst hér og síðan þar, og heyrðum hvernig tók í pappírinn. Skyndilega gerðist eitthvað, myndin losnaði með hvelli og hægra hornið niðri rifnaði af. Sem betur fer varð skaðinn ekki mikill, en þetta má þó sjá á flóruspjaldinu, ef vel er að gáð.

Þá var komið að prentun. Á þessum tíma var ekki hægt að skanna eða mynda svona stóra mynd í prentsmiðjunni, og því gekk það ekki eins vel og til stóð. Gerðar voru margar tilraunir, en ekki tókst að losna við bláa umgjörð. Eftir á að hyggja kemur þetta miklu betur út, þar sem bláa umgjörðin lokar myndinni. Misfellur eru því ekki ætíð til lýta.

Flóra Íslands, veggmyndin eftir Eggert Pétursson. Lósm. ÁHB.

Flóra Íslands, veggmyndin eftir Eggert Pétursson. Lósm. ÁHB.


Í fyrstu var flóruspjaldið selt í afgreiðslu hjá Náttúrufræðistofnun, en skyndilega lagði forstjóri hennar blátt bann við því einhverra hluta vegna. Ekki fékkst nein skýring á því. Frá upphafi voru mjög skýrar reglur um, að enginn fengi mynd að gjöf og urðu allir stjórnarmenn sem aðrir að greiða fyrir sitt eintak. Hleypti þetta illu blóði í suma, sem töldu að þeir ættu mynd skilið. Í skyndingu var María Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, ráðin til þess að ferðast um bæinn og bjóða myndina til sölu og gekk það framar öllum vonum. Síðar tók Hildur Albertsdóttir við því starfi um stuttan tíma.
Mig minnir, að fyrsta upplag hafi verið 2000 eintök og seinna var einhverju bætt við. Veggmyndinni var mjög vel tekið og var auðveld í sölu. Ekki er fjarri lagi, að á fyrsta ári hafi tekjur numið vel yfir tvö hundruð þúsund krónum. Reyndar var myndin lítið kynnt í fjölmiðlum og Sjónvarpið neitaði að segja frá henni. Annað var þó upp á teningnum, þegar gefin var út veggmynd af fiskum síðar, en þá var ítarlega sagt frá henni þar.

Þegar eg skilaði af mér uppgjöri vegna myndarinnar í hendur formanni, sem við tók af mér, kom í ljós, að vantaði upp á sjóðinn, sem nam andvirði um 20 mynda. Greiddi eg það úr eigin vasa.

Allmörgum árum síðar var myndin endurútgefin af einhverjum kaupahéðni með leyfi stjórnar, en það mál mun allt hafa klúðrazt og kann eg ekki að segja frá því.

Félagið keypti frummyndina af Eggerti við afar sanngjörnu verði, en nú hef eg sannfrétt, að hún sé horfin úr búi félagsins og virðist enginn vita, hvað um hana varð. Tel eg það mikinn skaða, svo að ekki sé fastara að orði kveðið.

ÁHB / 8.2. 2013

Leitarorð:

3 Responses to “Flóruveggmynd Hins íslenska náttúrufræðifélags”
  1. Árni Hjartarson says:

    Þetta er fróðleg og skemmtileg frásögn þótt sagan endi ekki vel. Það eru vafalítið margir sem eiga veggspjaldið enn og ég er einn þeirra. Eftir lesturinn finnst mér að gildi þess hafi aukist.

  2. Águst says:

    Þau ánægjulegu tíðindi hafa borizt, að frummynd Eggerts Péturssonar hafi aldrei týnzt heldur aðeins verið vel geymd.
    Beðizt er velvirðingar á þessari missögn.
    ÁHB

Leave a Reply