Öll prótín í mannslíkama. Einstök uppgötvun

Skrifað um November 11, 2014 · in Almennt

Í dag, 11. nóvember, kynna sænskir vísindamenn kort (atlas) af öllum prótínum í mannslíkama. Þetta er dýrasta og stærsta framtak fræðimanna til þessa og ekki síður markvert en gerð korts af genum fyrir rúmum áratug.
Mathias Uhlén, prófessor í örverufræði í Kungliga tekniska högskolan (KTH) í Stokkhólmi, hefur leitt verkefnið Human protein atlas. Þar eru birtar 13 miljónir mynda af byggingareiningum mannslíkamans, prótínum.

Að baki liggja um þúsund mannsár, og hefur verkið tekið ellefu ár og um 150 manns unnið við það í fullu starfi í Svíþjóð, Kína, Suður-Kóreu og á Indlandi. Stofnun Knúts og Alicu Wallenbergs fjármagnaði verkefnið, sem kostaði um 900 miljónir sænskra króna.

Vefir í öllum líffærum mannslíkamans hafa verið rannsakaðir og prótín þeirra greind. En það er erfðaefnið DNA, sem stjórnar byggingu hvers prótíns. Síðan eru það hin ýmsu prótín sem byggja upp líkamann, en þau gera miklu meira, því að þau stjórna öllum efnahvörfum.

Lokið var við að greina erfðaefnið DNA fyrir ellefu árum. Þá kom í ljós, að aðeins um 20’000 gen eru í einum manni; og fyrir hvert gen er til eitt prótín. Það kom nú mjög á óvart, að um helmingur allra prótína eru svo kölluð grunnprótín og finnast í öllum frumum. Með öðrum orðum þarf hver fruma um 10’000 prótín til þess að geta sinnt grundvallarstarfsemi. Það eru mun fleiri prótín en menn ætluðu.

Það eru því tiltölulega mjög fá prótín, sem eru einstök fyrir vissa vefi. Áður töldu menn nokkurn veginn víst, að til væru sérstök prótín fyrir hverja vefjagerð. Menn héldu, að í nýrum væru sérleg prótín fyrir síun blóðs og önnur fyrir endursog, en sú er ekki raunin. Þess í stað eru prótínin tiltölulega fá, sem notast alls staðar en í misjafnlega miklum mæli. Ef til vill má líkja þeim við legó-kubba.

Víst er, að uppgötvunin mun nýtast á ótal sviðum, einkum innan lyfjagerðar. Flestöll lyf hafa áhrif á prótín. Segjum sem svo, að ráðast þurfi til atlögu við prótín í nýrum, en þá verða sömu prótín í heila og lifur einnig fyrir áhrifum, kannski með alvarlegum aukaverkunum. Í ljósi þessarar nýju vitneskju verður nú unnt að tilbúa hnitmiðaðri lyf.

Gagnagrunnur að þessum einstaka prótínvef mannsins verður öllum opinn.

Sjá: http://www.proteinatlas.org/

 

ÁHB / 11. nóvember 2014

 

Leitarorð:


Leave a Reply