Náttúruminjasafn – öfugsnúinn samningur

Skrifað um October 23, 2012 · in Almennt

Uppstoppuð rjúpa. Ljósm. ÁHB.

Uppstoppuð rjúpa. Ljósm. ÁHB.

Sú frétt flaug um bæinn í dag, að samkomulag um samstarf Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruminjasafns Íslands hafi verið undirritað 22. október. Í sérkennilegri fréttatilkynningu, sem send var út, kemur lítið sem ekkert fram til viðbótar því, sem í lögum segir um samskipti þessara stofnana, nema það, að starfsmenn safnsins fái um tíma inni hjá Náttúrufræðistofnun.

Hins vegar blasir það við, að Náttúrufræðistofnun ætlar sér að eiga alla muni en leyfa safnamönnum að skoða hjá sér muni og »afhenda safninu til lengri tíma muni sem verði hluti af grunnsýningu þess«.

Af þessu er ljóst, að Náttúruminjasafn verður aldrei barn í brók og fátt annað en »sýningargluggi« Náttúrufræðistofnunar, og fær það hlutverk eitt að stilla upp munum.

Ef rétt hefði verið að staðið, átti Náttúruminjasafnið að fá alla muni og bækur, sem Hið íslenzka náttúrufræðifélag afhenti ríkinu 1947, en ef til vill hefði það getað eftirlátið Náttúrufræðistofnun eitthvað af því. Þessi samstarfssamningur hefði átt að snúast um það. Náttúruminjasafnið er eini arftaki að fyrri eigum Náttúrufræðifélagsins. Að þessari niðurstöðu komst ríkisendurskoðandi.

Það er með ólíkindum, að settum forstöðumanni Náttúruminjasafns, sem er þjóðminjavörður, er gert að undirrita þetta samkomulag. Það verður að teljast harla ósennilegt, að settur forstöðumaður hafi einhverja innsýn í þetta mál eða vit á því.

Það þarfnast skýringa, hvers vegna samkomulag var ekki gert í tíð Helga Torfasonar og hvers vegna mátti þá ekki bíða eftir nýjum forstöðumanni, sem gera má ráð fyrir, að hafi vit á hlutunum. Menntamálaráðherra ber höfuðábyrgð, en nú má eins búast við því, að Katrín Jakobsdóttir setji einhvern aflóa samherja úr pólitíkinni í starfið.

ÁHB / 23.10.2012

 

Leitarorð:


Leave a Reply