Hypogymnea tubulosa – pípuþemba

Skrifað um March 15, 2013 · in Gróður

Þalbleðlar eru útblásnir. Ljósm. ÁHB.

Þalbleðlar eru útblásnir. Ljósm. ÁHB.

Hinn 9. marz s.l. var eg sem oft áður á gangi í Vatnshlíð á Bleiksteinshálsi ofan við Hvaleyrarvatn í gróðurreit fjölskyldunnar (reitur: 355-395). Þá rak eg augun í nokkuð sérkennilega fléttu, sem óx á birkikjarri. Eg hef oft gengið þarna um áður, en nú er allt ólaufgað, svo að maður sér betur en ella ásætur, en svo nefnast lífverur, sem lifa fastar á öðrum án þess að draga til sín næringu úr þeim.

Þegar heim var komið, var seilzt í handbækur um fléttur. Þar hafa mér einkum tvær verið notadrýgstar: Lavflora – Norske busk- og bladlav – eftir Hildur Krog, Haavard Østhagen og Thor Tønsberg, Oslo 1994, og Lavar – En fälthandbok – eftir fyrrum kennara minn og góðan vin Roland Moberg og Ingmar Holmåsen, Stockholm 1982.

Hypogymnea tubulosa vex sem ásæta á birkigreinum. Ljósm. ÁHB.

Hypogymnea tubulosa vex sem ásæta á birkigreinum. Ljósm. ÁHB.


Greining á fléttunni var tiltölulega auðveld, að vísu með hjálp mynda. Hér reyndist vera Hypogymnea tubulosa (Schaerer) Havaas, sem er nefnd pípuþemba á íslenzku.

Eftir því sem segir á floraislands.is er pípuþemba fremur sjaldséð, nema í sumum skógum á Austurlandi. Annars staðar hefur hún eingöngu fundizt sem slæðingur á innfluttum viði, meðal annars einu sinni á fisktrönum hér á Selási (munnl. heimild: Hörður Kristinsson).

Hypogymnea tubulosa er ein fjögurra tegunda þessarar ættkvíslar, sem vaxa hér á landi. Annars staðar á Norðurlöndum eru tegundirnar sex. Allar eru hinar íslenzku fremur eða mjög sjaldgæfar og vaxa einkum á Austurlandi og Norðurlandi.

Þal tegundarinnar er blaðkennt og hið stærsta er rétt rúmir 3 cm að þvermáli, og situr fast á mjóum birkigreinum. Efra borð þals er grátt eða hvítleitt en hið neðra svart; þalbleðlar, 1-3 mm á breidd, eru holir að innan og útbelgdir; nafnið pípuþemba er af því komið. Á endum þalbleðla er barklagið rofið og þar má sjá hraufukorn (soredium). En hraufukorn eru þörungar (eða blágerlar) umvafðir sveppþráðum, sem stuðla að dreifingu fléttunnar (kynlaus æxlun). Hraufukornin hér eru kúlulaga. Askhirzlur á þessari fléttu munu vera mjög sjaldséðar og á þalinu eru hvorki þalbleðlar (lobule) né snepar (isidium).

Hypogymnea tubulosa er tiltölulega auðþekkt. Ljósm. ÁHB.

Hypogymnea tubulosa er tiltölulega auðþekkt. Ljósm. ÁHB.


Þeir, sem eru á gangi í birkikjarri hér í nágrenni bæjarins, ættu að hafa augun hjá sér og líta eftir þessari fléttu. Sennilegt er, að hún leynist víðar, meðal annars á Heiðmörk.

ÁHB / 15.3. 2013

P.s. Eg leyfi mér að birta pistla um sveppi og fléttur undir gróður-dálkinum, enda munu þeir verða tiltölulega fáir, þar sem eg er enginn sérfræðingur í þeim lífverum. S.s.

 

Leitarorð:


Leave a Reply