Hvað eru tegundirnar margar?

Skrifað um April 4, 2013 · in Almennt

Carl von Linné (1707-1778) var sænskur grasafræðingur. Hann skilgreindi hugtakið tegund fyrstur og kom á tvínafnakerfinu.

Carl von Linné (1707-1778) var sænskur grasafræðingur. Hann skilgreindi hugtakið tegund fyrstur og kom á tvínafnakerfinu.

Carl von Linné (1707-1778) skilgreindi tegundarhugtakið út frá útliti lífvera: Species tot numeramus, quot diversæ formæ in pricipio sunt creatæ, eins og það hljóðar á latínu.

Við upphaf 20. aldar var hugtakið tegund skilgreint út frá lífsstarfseminni (sjá: Ernst Mayr 1904-2005) og hljóðar þannig:

Allir einstaklingar, sem í öllum meginatriðum eru eins að gerð og útliti, geta æxlazt saman og eignazt frjó og heilbrigð afkvæmi, teljast til sömu tegundar.

Um 1960 varð mönnum ljóst, að þessi skilgreining var alls ekki einhlít, meðal annars vegna þess, að margar lífverur fjölga sér kynlaust. Þá var horft til þróunarskyldleika lífvera og hugtakið tegund látið ná til hóps lífvera, sem á sér einn sameiginlegan forföður og er skyldari innbyrðis en öðrum hópum. Þegar farið var að greina erfðaefnið DNA , blöstu við ný álitamál. Mjög ólíkar lífverur í útliti geta verið líkar að erfðaefni; þá getur erfðaefnið verið háð því umhverfi, sem lífvera býr við.

Ýmsir eru þeirrar skoðunar, að tegundarhugtakið hafi ekkert gildi og vandkvæði við að skilgreina hugtakið færi mönnum heim sanninn um það, að ekki sé rétt að flokka náttúruna á grundvelli tegunda. Á hinn bóginn kunna menn engin önnur ráð enn til þess að skilgreina lífverur í hættu og fjölbreytni náttúrunnar nema með því að styðjast við þetta hugtak.

Vegna þessarar óvissu veit enginn, hvað til eru margar tegundir í veröldinni og hafa verið nefndar tölur á milli þrjár miljónir og 100 miljónir.

ÁHB / 4. apríl 2013

Leitarorð:


Leave a Reply